Lestur frétta í útvarpi og sjónvarpi
23.7.2017 | 12:53
Því er haldið fram að fréttatímar á Bylgjunni séu hundleiðinlegir. Ástæðan er einfaldlega sú að mörgum finnst raddir lesara (fréttamanna) einstaklega óáheyrilegir og þeir lesi auk þess illa.
Undir þetta má vissulega taka og um leið spyrja, hvort þeim sé lesa sé ekki leiðbeint og jafnvel hvort ekki sé til nein samræmd stefna um lestur frétta. Svo virðist því miður ekki vera.
Sami vandi virðist ekki til hjá Ríkisútvarpinu. Lesarar i fréttatímum á ábyrgð ríkisins eru flestir (ekki allir) vanda sínum vaxnir. Þeir lesa röggsamlega og tiltölulega rétt. Gríðarlegur munur er á fréttatímum þessara útvarpsstöðva, ríkisútvarpinu í hag svo miklu munar.
Ekki er nóg að skýrmæltur heldur er afar mikilvægt að lesarinn tali við hlustandann. Hann má ekki bara þylja upp staðreyndir af blaði heldur reyna að miðla þeim til hlustenda eins og hann sé ljóslifandi við hlið þeirra.
Afi minn heitinn var frekar heyrnardaufur og sagði alltaf þegar vinsæll, dimmraddaður fréttaþulur Ríkisútvarpsins kynnti sig og hóf lestur: Kemur þú, helvískur .... Ástæðan var sú að röddin mannsins rann saman í einhæfa belg og biðu, varð dimm suða, og afi náði ekki alltaf að greina á milli orða. Þess vegna bölvaði hann og taldi sig svikinn um fréttir þegar sá dimmraddaði flutti þær.
Staðreyndin er sá að lestur í heyrenda hljóði krefst æfingar. Mér er minnisstætt ráð sem tæknimaður hjá Ríkisútvarinu gaf mér fyrir ævalöngu er ég var með vikulega útvarpsþætti í nokkur misseri. Þeir voru sjaldnast í beinni útsendingu heldur teknir upp fyrirfram. Ég átti það til að reka í vörðurnar, stundum var ég að flýta mér og gaf mér ekki nægan tíma til lestursins.
Ráð þessa ágæta tæknimanns var stutt og stutt: Lestu upphátt í um fimm mínútur á hverjum degi.
Ég var ungur og tók ekki alltaf ráðum en í þetta sinn gerði ég það. Viti menn innan mánaðar var lesturinn orðinn svo léttur og leikandi hjá mér að þessi sami tæknimaður hafði það á orði að framfarirnar væru miklar. Ég sagði eins og var og þakkaði honum en hann sagði að ég væri ekki sá fyrsti til að nota þetta ráð og nefndi marga þekkta úrvarpsmenn og ræðumenn sem gerðu þetta.
Staðreyndin er einföld. Æfingin skapar meistarann. Enginn getur orðið góður lesari nema því aðeins að hann æfi sig reglulega.
Þetta er hins vegar ekki allt. Lesarinn þarf að læra á rödd sína, nota mismunandi tónhæð og sveiflur. Hann þarf að hlusta á rödd sína í upplestrinum, taka hana upp og hlusta á hana á eftir, gleyma því að hann eigi röddina og gagnrýna lesturinn og laga.
Í lokin er ekki úr vegi að nefna einn alvarlegan galla sem margir fréttalesarar eiga við að etja en gera sér ekki allir grein fyrir honum. Hann er sá að gera örstutt hlé eftir hvert orð eða setningu í stað þess að lesa í óslitnu samhengi. Dæmi:
Nú ... er runninn upp ... lokadagur ... Íslandsmótsins ... í golfi. Eins og fram kom í gær ... er mikil spenna ... í báðum flokkum, ... en þrír kylfingar ... eru jafnir í kvennaflokki. Axel Bóasson ... hefur þriggja ... högga ... forystu á næstu menn, ... en einnig er ... mjótt á munum ... hjá körlunum.
Margir góðir og áheyrilegir fréttamenn og jafnvel dagskrárgerðarmenn hafa tileinkað sér þennan leiðinlega lestrarstíl.
Og síðast en ekki síst er bráðfyndið að minnst þeirra sem í gegnum tíðina hafa lesið veðurfréttir í Ríkisútvarpinu. Margir þeirra voru stórkostlegir upplesarar sem maður minnist með brosi vegna þess að þeir lásu með sínu nefi eins og sagt er, en ekki í samkvæmt samræmdri ríkisupplestrarstefnu. '
Sumir byrjuðu afar hátt og runnu síðan í gegnum málgreinina og enduðu nær loftlausir ...skyggne fjégur steg, hiteee sjööö gráðöööööör..
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)