Fjórir hafa fallið af Grímsfjalli og í Grímsvötn
27.1.2017 | 17:00
Nú bætist við í þann hóp sem fallið hafa fram af Svíahnúk hinum eystri og ofan í Grímsvötn. Þeir eru nú orðnir fjórir.
Fyrstur gekk þar fram af Leifur Jónsson, læknir og kunningi minn úr Útivist. Þeir voru fjórir á ferð á gönguskíðum norður Vatnajökul og áðu í skálanum á Grímsfjalli.
Daginn sem þeir lögðu af stað var blindbylur á fjallinu en engu að síður héldu þeir áfram, vitandi að bylurinn væri bara á fjallinu, neðar væri bjart. Einhvern veginn atvikaðist það svo að Leifur og Magnús Hallgrímsson, félagi hans beygja lítilsháttar til vinstri í upphafi, þrátt fyrir að hafa áttavitastefnu austur af fjallinu.
Skyndilega missti Leifur jarðtengingu og féll, heillengi, að því að hann sagði síðar. Lenti einu sinni á bakinu og þá bjargaði bakpokinn honum og síðan í snjó undir hömrunum. Magnús var nærri því farinn á eftir honum og stóð heillengi á brúninni án þess að sjá hvað orðið hefði af Leifi. Eftir nokkurn tíma áttaði hann sig á því hvar hann var og þá tók við mikill barningur að finna Leif og koma honum upp. Leifur var nær óskaddaður og hefur stundum sagt frá þessu ævintýri í góðra vina hópi. Fallið var um sjötíu metrar ef ekki meira.
Þetta var þó ekkert miðað við raunir jarðfræðingsins Bryndísar Brandsdóttur sem ók í svipuðu veðri sömu leið fram af fjallinu, féll 200 metra, og hafði það af án þess að slasast mikið. Kraftaverk bjargaði henni og ferðafélaga hennar.
Í þriðja sinn hefur maður fallið fram af Grímsfjalli og vonandi er hann óslasaður.
Grímsvötn eru heillandi staður þegar gott er veður. Í fyrsta sinn er ég kom þangað var bjart og fallegt. Náði að ganga með félögum mínum vestur eftir endilöngu fjallinu og niður á vötnin, undir því og aftur upp austast. Þetta var gríðarlega löng leið en virtist í upphafi vera svo ósköp lítil og stutt.
Allt í Grímsvötnum vekur ógn. Stærðin, auðnin, víðáttan og saga eldgosa. Samt er óskaplega gaman að koma þangað en eins og oft er sagt, mjög gott að komast í burtu. Ekki er á það bætandi að ég er gríðarlega hræddur við jökulsprungur, sem er ekki gott fyrir fjallamann sem fer víða um á gönguskíðum.
Efri myndin er tekin vestarlega á Grímsfjalli, Grímsvötn hægra megin.
Neðri myndin er tekin á Grímsvötnum, ísilögðum eða öllu heldur snævi þöktum. Horft er upp í hamrastálið nokkuð vestan við þann stað sem líklegt er að ferðamaðurinn hafi fallið.
![]() |
Gekk fram af og féll 150 metra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |