Kötlugos komist í gegnum 600 m þykkan jökul á einni klst.
29.9.2016 | 22:26
Í gær byrjaði skjálftahrina í Kötlu, það er aðeins suðaustanmegin við miðju öskjunnar í Mýrdalsjökli. Skjálftar í Mýrdalsjökli koma í hrinum, rétt eins og annars staðar á landinu. Nú er hins vegar dálítið skammt á milli hrina.
Þegar þetta er ritað hafa orðið 162 skjálftar og upptök þeirra eru að langmestu leyti mjög grunnt undir jökulbotninum. Margir á undir 400 m dýpi.
Athygli vekur að skjálftar sem eru yfir tvö stig eru 11 talsins og allir hafa þeir orðið á jökulbotninum eða um 100 metrum dýpra, ekki meir. Meira að segja sá eini sem varð um hálf fimm í dag og var þrjú stig var á þessu sama dýpi.
Mér skilst að mestar líkur eru á því að skjálftarnir hafi orðið vegna mikils jarðhita þarna undir og staðfesta þá kenningu efnainnihald í Múlakvísl sem fellur undan skriðjöklinum Kötlujökli.
Kötlugosið 1918 var mjög sunnarlega í öskjunni og þar er jökullinn mjög þykkur, getur verið upp undir 700 metrar. Nú er komið fram á haust og jökulþykktin kannski um 100 m þynnri. Þegar fargið léttist á jöklinum getur hugsanlega losnað um jarðhitasvæðiðog vatn eigi auðveldar með að komast undan honum. Lóðréttar hreyfingar á jöklinum gætu valdið jarðskjálftum rétt eins og kvikuhreyfingar undir honum.
Forboðar goss eru mjög tíðir jarðskjálftar, margir frekar stórir og um leið munu mælast óróar á óróamælingum á og við Mýrdalsjökul. Þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi í þetta sinn.
Ágætt að hafa það í huga að stórt eldgos getur auðveldlega brætt sig í gegnum á að giska 500 m þykkan jökul á um einni klukkustund. Gjálpargosið í Grímsvötnum þótti frekar lítið og um 30 klst liðu þar til það bræddi sig upp úr 600 m djúpum jökli.
Jökulhlaup vegna Kötlugoss gæti hafist um það bil klukkustund eftir að gos hefst.
Ágætt er að hafa það í huga eftir lestur ofangreindra lína að undirritaður er ekki jarðfræðingur og hefur ekkert vit á jarðfræði.
Hið gáfulegasta sem hér kemur fram er úr gagnmerkri skýrslu eftir Magnús Tuma Guðmundsson og Þórdísar Högnadóttur og nefnist hún Ísbráðnun og upptakarennsli jökulhlaupa vegna eldgosa í Kötluöskju og austanverðum Mýrdalsjökli útgefin 2006.