Katrín Jakobsdóttir skrökvar upp á forseta Íslands
8.5.2016 | 17:44
[...] af því að Panamaskjölin og þær upplýsingar sem þar koma fram, nú síðast um forseta lýðveldisins en áður um ráðherra hæstvirta í ríkisstjórninni og fleiri aðila, hafa auðvitað haft gríðarleg áhrif á orðspor Íslands úti í hinum stóra heimi en hafa líka grafið mjög undan trausti hér í samfélaginu [...]
Katrín Jakobsdóttir virðist vera nýgræðingur í stjórnmálum. Hún er fer ekki aðeins með hálfsannleik heldur skrökvar því upp á forseta Íslands að getið séð um hann í Panamaskjölunum.
Orð Katrínar eru engin gagnrýni, eins og hún sjálf segir enda hafa þeir starfhættir lengi tíðkast í Vinstri grænum að segja ekki rétt og skilmerkilega frá. Hálfsannleikurinn er flokksins ær og kýr. Trú þessari stefnu fer hún með staðlausa stafi.
Flestum er það hulin ráðgáta hvernig það á að snerta Ólaf Ragnar Grímsson að nafn tengdafjölskyldu hans séu í Panamaskjölunum. Sumum finnst nóg að ýja að því að ákveðnir einstaklingar séu í þessum skjölum til að þeir séu réttdræpir eða verðskuldi útlegð úr mannlegu samfélagi. Nú eiga tengdir og skyldleiki að hafa sömu áhrif.
Má bráðum búast við því að þeir sem hafi átt orðaskipti við þann sem er í Panamaskjölunum séu sekir um stórglæpi?
Tilgangur Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, er eingöngu sá að sverta nafn forsetans, hefnd fyrir afstöðu hans til Icesave og ESB. Orð hennar eru engin gagnrýni, hefnd er réttnefnið.
![]() |
Forseti rangtúlkar orð Katrínar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Merkilegt fyrirbrigði þessi hái snjór
8.5.2016 | 15:47
Nokkuð undarlega er tekið til orða í frétt mbl.is um fjallaskíðamót. Sagt er í fyrirsögn: Fjallaskíðamót í meters háum snjó.
Nokkuð hef ég stundað skíði um ævina, gengið þvers og kruss um landið á gönguskíðum, rennt mér á svigskíðum og jafnvel stundum dregið fram fjallaskíðin þegar mikið hefur legið við.
Hins vegar hef ég aldrei lent í háum snjó en vissulega hefur hann oft verið djúpur. Held að vanir skíðamenn tali aldrei um háan snjó, jafnvel þó þeir standi neðarlega í hlíðum og horfi upp.
Snjórinn getur verið mikill eða lítill og mælikvarði á slíkt er dýptin. Skrifa þessi mismæli á reikning blaðamannsins. Viðmælendur hans hefðu aldrei talað um háan snjó.
Myndin er af Vífilsfelli, tekin í gær. Í fjallinu er nokkur snjór. Með skáldaleyfi má fullyrða að í fjöllum sé snjórinn hár ... en slíkt flokkast frekar sem leirburður.
![]() |
Fjallaskíðamót í meters háum snjó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |