Árni Páll krefst rannsóknar eftir pólitískum hentugleikum

Í aðalatriðum held ég að það fyrirkomulag sem sett var upp hafi gengið vel. Það verður ekki bæði sleppt og haldið, eins og mér finnst hv. þingmaður og reyndar margir fleiri stundum óska sér. Það varð niðurstaða Alþingis að skilja með mjög skýrum og afdráttarlausum hætti á milli stjórnmálanna og þess hvernig farið væri með eignarhaldið í fjármálastofnunum sem ríkið ætti aðild að. Það er einfaldlega þannig að Bankasýslan er algerlega sjálfstæð í störfum sínum og ráðherra er samkvæmt lögum bannað að hafa afskipti af þeim nema með tilteknum hætti sem er þá í formi skriflegra tilmæla sem Bankasýslan bregst við og þau samskipti eru síðan gerð opinber.

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi 21. október 2010, en þá var á þinginu rætt um kaup Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna á eignarhaldsfélaginu Vestía. Landsbankinn seldi félagið í án nokkurs útboðs eða í söluferli af neinu tagi.

Í gær virðist dálítill annar skilningur uppi á möguleikum fjármála- og efnahagsráðherra ríkisstjórnar Íslands en var þegar Steingrímur Sigfússon gegndi stöðunni.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar sagði þetta á Alþingi í gær:

Við vissum það eftir umfjöllun á opinberum vettvangi á síðasta ári, um sölu Landsbankans á Borgun, að það fyrirtæki hafði verið selt til útvalinna kaupenda sem voru sérvaldir af Landsbankanum og fengu einir að bjóða í Borgunarhlutinn. Salan fór fram í leyni og án nokkurrar samkeppni um verð og verðið var hlálegt miðað við virði fyrirtækisins og arðgreiðslur úr því.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við og endurreisa traust á Landsbankanum eftir þessa hörmungarsögu alla saman [sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun]? Styður hann hugmyndir okkar um rannsókn á sölunni, fyrirkomulagi hennar og tildrögum? Mun hann standa með okkur að því að knýja fram slíka rannsókn til að allt fáist upp á borð varðandi þessi viðskipti og þá sé hægt að draga af því lærdóm þegar við höldum áfram með fyrirsjáanlega sölu ríkiseigna á næstu missirum?

Formaður Samfylkingarinnar óskaði ekki eftir rannsókn á sölu Landsbankann á eignarhaldsfélaginu Vestíu á árinu 2010, var hann þó með fullri meðvitund og glaðvakandi. Nú vill hann upphefja gríðarlegar rannsóknir á sölunni á Borgun og heldur að fjármála- og efnahagsmálaráðherra hafi einhver tök á því að seilast til innan Landsbankans og tukta þar menn. 

Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, og Bjarni Benediktsson, sem gegnir stöðunni nú, eru sammála um þessi mál. Bankasýslan fer með málefni Landsbankans en ekki stjórnmálamenn. Punktur.

Skýringin á upphlaupi Árna Páls er einfaldlega þessi: Pólitísk markmið Samfylkingarinnar eru að berja á núverandi ríkisstjórn, skiptir engu að síðasta ríkisstjórn gerði nákvæmlega það sama. Þá var það ekki „glæpsamlegt“ en er það nú.

Er nokkur furða þótt margir dragi í efa að Samfylkingin eigi framtíð fyrir sér.


Bloggfærslur 22. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband