Áfram mótmælendur ...
22.12.2008 | 17:45
Þetta er bráðfyndið. Liggur við að maður sé bara sammála þessum frábæru krökkum í Vinstri grænum. Alveg afbragðs hugmynd að loka Fjármálaeftirlitinu með keðju. Gallinn við hana er hins vegar sá að þeir sem standa á bak við framkvæmdina sýna ekkert afl, engan fjölda sem stendur við bakið á þeim.
Grunduvöllur mótmæla er ekki síst að sýna samtakamátt fjöldans. Aftur á móti má ekki gleyma einstaklingnum sem þarf að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn til mótmæla. Helgi Hóseason hefur ekki endilega rangt fyrir sér þó hann standi einn árið út og árið inn á horni Langholtsvegar og Holtavegar með lítið spjald.
Birtingarmyndir mótmæla þurfa þannig ekki að fara eftir neinu normi og þaðan af síður þarf að gera kröfu til þess að einhver fjöldi standi á bak við þau. Mótmæli eru tjáning og skiptir þannig engu hversu margir standi á bak við þau.
Hörður Torfason getur þess vegna staðið einn á Austurvelli, hent skó eða eggi í Alþingishúsið, staðið hljóður eða úthúðað ríkisstjórninni. Mótmælin eru jafnsönn eins og mótmæli sex þúsund manna sem koma á sama tíma og belja í einum kór.
Svo er það hitt, hvaða áhrif hafa mótmæli og hvenær á að taka mark á þeim. Ég er einfaldlega þeirra skoðunar að þeir sem mótmælin beinast gegn þurfa að taka tillit til þeirra á einn eða annan hátt. Stjórnvöld hljóta að miða aðgerðir sínar við það að sem víðtækust sátt náist um þær.
Áfram mótmælendur, sýnið frumlegheit, friðsemd og áræði. Þá er hugsanlega von til þess að fleiri bjóði upp á kaffi og kökur.
![]() |
Hengilásar og forsetakaffi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ráðumst gegn atvinnuleysisdraugnum án tafar
22.12.2008 | 11:46
Er verðbólgan ekki samkvæmt því sem spáð var? Fyrst ætti hún að aukast og síðan drægi úr henni eftir því sem liði á árið.
Hef í raun minni áhyggjur af verðbólgu en meiri af atvinnuleysi. Kannski geta einhverjir spekingar leiðrétt mig, en segir ekki svo í fræðunum að verðbólga og atvinnuleysi séu andstæðir pólar, mjög erfitt sé að ná hvort tveggja niður með sömu meðölum.
Sé svo ætti ríkisstjórnin að leggja mestu áhersluna á að draga úr atvinnuleysi eins og kostur er. Með því vinnst að minnsta kosti tvennt. Annar vegar dregur úr óöryggi fólks og hins vegar er ljóst að eftir því sem atvinnuleysi er minna er neyslan meiri sem auðvitað þýðir meira streymi fjármagns um æðar samfélagsins. Er það ekki markmiðið?
Hins vegar er ekkert óyggjandi í þessum efnum. Það er bara ekki svo að við getum valið að ráðast gegn einu af því sem plagar þjóðfélagið og geymt hitt á ís á meðan. Líklegast þarf að berjast á öllum vígstöðvum í einu. En fyrir alla muni, leggjum samt til atlögu við atvinnuleysisdrauginn án tafar.
![]() |
Verðbólgan mælist 18,1% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |