Leigubílstjóri myrtur á Laugalæk
19.12.2008 | 21:23
Í janúar 1968 bar ég tæplega tólf ára drengur út Vísi í Skaftahlíð og Miklubraut. Gerði þetta í rúm tvö ár. hafði bara gott af. Verst þótti mér að bera út í skammdeginu, þurfa að fara alla leiðina niður í Alaska sem var í jaðri Vatnsmýrarinnar, nálægt flugvellinum. Þar var lítil götulýsing, myrkur mest alla leið og drengstaulinn því hálf skelfdur.
Í hinum endanum var bjartara. Þar, efst í Skaftahlíðinni, var risastór óður hundur sem ég hræddist ógurlega, sérstaklega þegar ég var að rukka. Síðar uppgötvaði ég að hann var svosem ekkert óður, gelti bara mikið.
Jæja, einn daginn minnir mig að fyrisögnin á Vísi hafi verið eitthvað á þessa leið: Leigubílstjóri myrtur.
Það gerðist árla morguns þann 18. janúar 1968 að Gunnar Tryggvason leigubílstjóri fannst myrtur í bíl sínum við Laugalæk.
Í gærkvöldi kláraði ég að lesa bókina Morðið á Laugalæk eftir Þorstein B. Einarsson, en hún var gefin út 2007. Þetta er fín bók, doldið þurr en engu að síður mjög fróðleg. Fátt mundi ég um morðið en margt rifjaðist upp og enn fleira kom mér á óvart.
Gunnar þessi Tryggvason virtist hafa verið afar geðþekkur maður, engum til ama og tóm lygi að hann hafi verið okurlánari eins og kjaftasögurnar hermdu. Hins vegar var hann nokkuð vel stæður, hafði til dæmis unnið hálfa milljón í Happdrætti háskólans tíu árum áður. Kannski vildi einhver komast yfir peninga hans.
Maður nokkur var handtekinn ári eftir morðið og beindust öll sönnunargögn að honum og lá eiginlega ljóst fyrir að hann væri morðinginn. Hins vegar játaði hann aldrei og var að lokum sýknaður, bæði í héraðsdómi og hæstarétti.
Það sem mér kom mest á óvart var hversu lögreglan á þessum tíma var illa undir morðrannsókn búin. Höfundur bókarinnar rekur fjölmörg dæmi um yfirsjón lögreglumanna og handvöm. Sem dæmi má nefna að bíll leigubílstjórans var aðeins rannsakaður í einn sólarhring og síðan afhentur ættingjum hins myrta. Mörgum vísbendingum í rannsókninni var ekki fylgt eftir, t.d. fjarvistarsönnun meints morðingja. Hinn meinti morðingi var mjög reikull í frásögnum sínum og lögreglan virtist ekki hafa mannskap til að kanna allt sem hann sagði. Einnig virtist lögreglan ekki kortleggja það sem gerðist sérstaklega ekki ferðir lykilvitna.
Morðvopnið fannst en það var 35 calibera skammbyssa sem stolið hafði verið frá Jóhannesi Jósefssyni sem þekktastur var sem eigandi og hótelstjóri Hótel Borgar. Sá sem stal byssunni reyndist vera hinn meinti morðingi en hann hafði verið starfsmaður og vinur Jóhannesar.
Höfundur bókarinnar rekur það hvernig morðvopnið hafði komist í eigu Jóhannesar og að byssan var afar fágæt, tók 35 cal. skot sem voru og eru mjög sjaldgæf.
Færðar voru sannanir fyrir því að byssan var morðvopnið. Sá sem stal henni frá Jóhannesi, meintur morðinginn, hélt því fram að byssunni hefði verið stolið frá sér, engu að síður fannst hún í hanskahólf leigubíls sem hann átti. Illa gat hann skýrt út hvers vegna. Maðurinn breytti framburði sínum ítrekað en aldrei gaf hann færi á sér, hann brotnaði aldrei í yfirheyrslum.
Árið 1970 var ákærði sýknaður í héraðsdómi og rúmu ári síðar í Hæstarétti. Greinilegt var þó að miklar líkur voru taldar á því að hann hefði framið morðið en sannanirnar vantaði. Raunar var ekkert sem beinlínis benti til sektar hans. Ekki var hægt að fullyrða að hann hefði verið á vettvangi morðsins. Byssan fannst í hanskahólfi bílsins og þeir sem hana fundu handléku hana að vild án þess að gruna að hér gæti verið um morðvopn að ræða og eyðilögðu hugsanlega mikilvæg fingraför.
Loks má þess geta að sá sem stjórnaði yfirheyrslunum var á þeirri skoðun að hinn grunaði væri að því kominn að játa þegar yfirmenn í lögreglunni misstu þolinmæðina og settu hann af og sakadómari tók við. Segir í bókinni að sá hafi verið mjög slæmur í sínu starfi og hreinlega fengið sakborninginn upp á móti sér svo allir möguleikar á því að hann játaði breyttust í þrákelni.
Þetta er nú svosem enginn ritdómur um bókina og þaðan af síður kórrétt lýsing á henni. Hins vegar fannst mér hún afar fróðleg og mæli eindregið með því að fólk lesi hana.
Bækur | Breytt 20.12.2008 kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á jólunum syngja allir - nema ég
19.12.2008 | 17:47
Í útvarpinu mátti heyra gullfallegan raddir barnakóra. Svo söng Ómar Ragnarsson jólalög og annar kór með honum. Þetta minnti mig á gamla daga, þegar ég var enn yngri en ég þegar er orðinn. Þá var ég í Hlíðaskóla, bjó sjálfur með foreldrum mínum í Barmahlíð.
Mig langaði stundum til að syngja á þessum árum. Það rjátlaðist smám saman af mér, kannski vegna þess sem ég ætla nú að segja frá.
Hún hét Guðrún, söngkennarinn í Hlíðaskóla, man ekki hvers dóttir, kannski Þorsteinsdóttir. Hvað um það. Hún var skapmikil kona, kannski vargur. Að minnsta kosti hélt hún bekknum í heljargreipum þó svo að nokkrir kaldir strákar hafi reynt að standa upp í hárinu á henni.
Hún lét okkur syngja og þótti það flestum eðlilegt þar sem hún var söngkennari. Ég man að hún sagði að allir gætu sungið. Tók sem dæmi einhvern ræfilsstrák sem hún hafði kennt og sá var aldeilis falskur. Eftir nokkurn tíma gat hann sungið afar vel, þó ekkert frábærlega en samt vel þolandi, sagði Guðrún. Þessi saga átti líklega að vera okkur hvatning og það var hún svo sannarlega fyrir mig.
Svo var það einu sinni í söngtíma að ég sat við hliðina á honum Helga. Hann var glæsilegur piltur til orðs og æðis og það var gott að sitja hjá honum. Maður var næstum því eins fallegur og klár af því einu saman.
Svo sagði Guðrún: Og muniði svo að koma í kórtíma og hún leit til okkar Helga og mér fannst hún líka horfa á mig og varð mjög uppnumin. Fékk það jafnvel á tilfinninguna að ég væri orðinn eins og ræfilsstrákurinn í dæmisögunni. Loksins boðinn í kórinn.
Svo sátum við saman í fyrsta kórtímanum og sungum, ég, Helgi og ég man eftir henni Dögg Pálsdóttur, bekkjarsystur okkar, sem nú er lögmaður. Hún söng eins og engill Og ég söng og söng líka eins og engill.
Guðrún sögnkennari tók allt í einu með báðum höndum í tónsprotann og horfði á okkur Helga. Engin svipbrigði sáust á henni þegar hún sagði: Sigurður, ég held það sé best að þú syngir ekki. Þú truflar bara aðra. Svei mér, ég man þetta eins og það hefði gerst í gær.
Ég hlýddi og hlustaði út kóræfinguna.
Þegar við gengum út, það kallaði söngkennarinn hárri sópranröddu: Sigurður, þú þarft ekki að koma í næsta tíma.
Og síðan hef ég ekki mætt í kórtíma. Og aldrei sungið í kirkjukór, aldrei í karlakór, aldrei staðið upp á sviði og rokkað. Þó man ég einu sinni eftir því að mig dreymdi að ég stóð utan við stórt leiksvið og þar sungu hetjutenórar og glæsidívur veröldinni allri til yndisauka. Kom þar ekki að kona nokkur, ekki þó Guðrún söngkennari, og sagði: Nú átt þú að syngja Sigurður. Ég maldaði í móinn enn var ýtt út á sviðið og þar stóð ég í sviðsljósinu.Svo vaknaði ég, raunar án þess að hafa komið upp einum tóni.
Nei, ég hef bara sungið pínulítið kenndur, stundum fyrir börnin mín þegar þau voru lítil og áttu að fara að sofa. Man eftir því að eldri sonur minn sagði einhvern tímann er hann var eins árs: Pabbi, ekki syngja meira fyrir mig.
Smám saman hefur runnið upp fyrir mér að líklega hafi ég slaka söngrödd, kannski vonda. Engan kala ber ég þó til Guðrúnar söngkennara. Líklega bjargaði hún þjóðinni frá söng mínum. Nóg má þjóðin þola um þessar mundir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alveeg obbbboðslega mikið að gera
19.12.2008 | 13:34
Sagt er að þingmenn nenni ekki að vinna og því til sönnunar er oft bent á mynd af einhverjum þingmanni sem messar yfir örfáum hræðum. Sér til varnar segjast þingmenn vinna í nefndum af miklu kappi, þar séu ekki teknar myndir, og þeir þurfi að ráðfæra sig við kjósendur í kjördæmum sínum. Alveeg obbbboðslega mikið að gera.
Birtingin á iðni þingmanna byggist á mætingu þeirra í þingsali. Það er eiginlega hið eina sem við almenningur getum byggt á. Einu sinni var eldhúsdagsumræðum og öðrum meiriháttar umræðum útvarpað og síðar sjónvarpað. Af skepnuskap sínum birtu dagblöð oft myndir af ræðumanni sem stóð og talaði sig bláan yfir tómum þingsal. Svo var farið að sjónvarpa og eftir það hafa þingmenn smátínst inn og nú er svo komið að salurinn er fullur þegar myndin fer um öldur ljósvakans. Ekki er laust við að maður fái það á tilfinninguna að þingmönnum leiðist að sitja unir kjaftagangi annarra og fái ekki að tala. Það er vel skiljanlegt.
Svo er það nú allt annað mál hvort að þingmenn nenni að sitja undir málflutningi Birkis, kannski er hann bara svona leiðinlegur ræðumaður ;-)
Í alvöru talað þá ættu þingmenn að huga betur að ímynd þingsins meðal almennins. Hún getur varla verið lakari en núna eftir allar hremmingarnar á síðustu vikum.
Legg til að á vef alþingis verði hægt að skoða mætingar þingmanna á þingfundi og nefndarfundi. Það gæti komið í veg fyrir kjaftasögur um leti þingmanna.
![]() |
Hvar eru stjórnarliðar? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þegar Vilhjálmur fer af stað er illt í efni ...
19.12.2008 | 11:33
Vilhjálmur Bjarnason hefur verið hrópandinn í eyðimörkinni. Hann er skynsamur og hófsamur maður. Þegar slíkir fara af stað þá er illt í efni fyrir þá sem hreykja sér hátt.
Hann hefur staðið upp á aðalfundum ýmissa hlutafélaga og komið forystumönnum þeirra í slæman bobba. Þeir hafa í staðinn kallað hann kverúlant og öðrum niðurlægjandi nöfnum. Pirringurinn út í Vilhjálm hefur alltaf verið góðs viti. Og nú hefur hann höfðað mál vegna sölu á rúmlega hálfum milljarði hluta á gengi sem var undir markaðsgengi. Vilhjálmur spyr hvort stjórnun fyrirtækja sé heimilt að selja hlutabréf í þeim á geðþóttaverði ...
Greinilega prinsípmál sem Fjármálaeftirlitið hefur ekki megnað að leysa. Stórukallarnir halda upplýsingunum útaf fyrir sig og láta Vilhjálm pirra sig í staðinn fyrir að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ekki furða þótt maður haldi að þeir hafi eitthvað að fela.
![]() |
Hlutabréf seld á geðþóttaverði? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |