Á að gefa jólagjafir sem eru dýrari en 1.000 krónur?
29.11.2008 | 13:57
Sem betur fer eru ekki miklar líkur til þess að jólin verði minna hátíðleg í Bretlandi þó jólaverslun dragist saman.
Því miður tengjasta jólin verslun nær órjúfanlegum böndum. Hún hvetur til hátíðarhalda og trúin skiptir engu máli. Í raun á ekki að vera hægt að halda jól nema með verulegu óhófi í mat, drykk og gjafakaupum. Þannig hefur þetta þróast um langan aldur. Allt annað hverfur í skuggann. Jólasveinninn er fulltrúi verslunar, greiðslukorta, banka, skuldsetningar og fjármálaþrenga. Þegar hann hrópar hó, hó og gleðileg jól þá á hann við; kaupið, kaupið, í því er fólgin hin sanna gleði.
Má ekki rjúfa þessi bönd þó ekki væri fyrir annað en að tengja hátíðarnar við eitthvað annað en krónur og aura, kaup og stress?
Satt að segja er maður orðinn hundleiður á frekju og yfirgangi verslunarinnar sem hefur yfirtekið jólin. Hvað myndi nú gerast ef ...
- við versluðum ekki lengur en til klukkan sex á virkum dögum í desember?
- við myndum ekki versla á laugardögum og sunnudögum?
- Við gæfum ekki jólagjafir sem eru dýrari en 1.000 krónur?
- aðeins börn og unglingar fengju jólagjafir sem kosta allt að 5.000 krónur?
Flestir foreldrar hafa tekið eftir þeirri fallegu heiðríkju sem breiðist yfir andlit lítils barns þegar það fær litla gjöf. Verð gjafarinnar skiptir barnið auðvitað engu máli. Hin ódýrasta og ómerkilegasta gjöf grípur huga þess, jafnvel umbúðirnar eru stórkostlegar.
Höfum við gleymt þessari barnslegu einlægni? Látum við auglýsingar verslunarinnar og framleiðenda villa okkur sýn? Teljum við okkur skuldbundin til að gefa jólagjöf? Getur ekkert annað komið í stað jólagjafar sem kostar þúsundir króna, jafnvel tugþúsunda?
Sé svarið eitthvað á þá leið að það sem svo gaman að gefa, gjafir eru fallegur siður, þá hefur sá sem þannig svarað raunverulega gleymt tilganginum með þessu öllu saman.
Jæja, ég má ekki vera að þessum pælingum þarf að fara út að kaupa jólagjafir ...
![]() |
Minnsta jólaverslunin í 25 ár? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)