Færsluflokkur: Náttúran
Hljóðin sem berast upp úr jarðskorpunni eru furðuleg
2.10.2016 | 16:27
Þar sem jarðskjálftahrinunni er nú lokið í Mýrdalsjökli langar mig til að ræða suttlega um það sem mér finnst athyglisverðast við þessa þrjá daga. Hér á ég fyrst og fremst við óróann sem mældist undir jöklinum.
Fyrir þá sem ekki þekkja þá eru víða um land tæki sem Veðurstofa Íslands hefur sett upp til að mæla hljóð sem koma úr jarðskorpunni en þau eru á tíðni sem mannlegt eyra getur ekki greint.
Hljóðin eru nefnd órói og er mæld í mælieiningunni Hz (Hertz). Óróinn verður til þegar til dæmis kvika þrengir sér upp í gegnum jarðskorpuna eða þegar jarðskjálftar verða og jafnvel kunna að vera fleiri ástæður.
Á Mýrdalsjökli eru tæki sem mæla óróann í Kötlu, t.d. á Goðabungu, Austmannsbungu og víðar.
Hins vegar geta jarðhræringar og jafnvel eldgos orðið víðar í Mýrdalsjökli en í Kötluöskunni og þar af leiðandi eru tæki sett á jökulinn og í kringum hann.
Á efstu myndinn sést að óróinn hefst um miðjan síðasta fimmtudag og honum lýkur fyrir miðnætti í gær. Þetta er bláa tíðnin sem mæld er frá 2 til 4 Hz. Örvarnar benda á dagsetningar á lárétta ásnum, upphaf og endi jarðskjálftahrinunnar, svona á að giska.
Heiðarbær er vestan Þingvallavatns, 120 km frá Kötluöskjunni. Óróamælirinn þar nemur umbrotin í Mýrdalsjökli þokkalega. Sjá næst efstu myndina.
Nærri 120 km er frá Kötlu og að Fagurhólsmýri. Þar er mælir og á honum má greina jarðskjálftahrinuna í Mýrdalsjökli og þriðja myndin er þaðan.
Um 110 km norðan við Kötlu er Skrokkalda, lengst uppi Sprengisandi. Óróinn mælist líka á mælum þar, en tíðnin þar er nokkuð lægri, en þó mun skýrari mæling en á hinum tveimur stöðunum. Gæti ástæðan verið sú að Skrokkalda er á gosbeltinu en Heiðarbær og Fagurhólsmýri utan þess, það er þess hluta sem er í stefnunni norðaustur og suðvestur, þvert yfir landið?
Auðvitað sést óróinn betur á mælum Veðurstofunnar eftir því sem þeir eru nær Mýrdalsjökli.
Þar að auki getur óróinn birst á mælum í mismunandi myndum og sumum ansi skemmtilegum eins og hér skal rakið.
Neðsta myndin er af óróa sem mældist í tækjum við Dyngjujökul þann 26. ágúst. Hugsanlega eru hann ættaður frá bergganginum sem flutti kviku frá Bárðarbungu og að eldstöðinni við Holuhraun árið 2014. Hann er enn í fullu fjöri þó þrýstingur í honum dugi ekki til að valda eldgosi ... ekki enn.
Þarna virðist blá tíðnin birtast eins í hviðum, rétt eins og taktföst tónlist eða kveðandi hjá mannfólkinu.
Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur, sagði að því er mig minnir að hann hafi spilað hljóð frá eldgosum á um sextíu sinnum meiri hraða en upptakan er áog náð að hlusta á ansi skemmtilega takta.
Hvað skyldi nú heyrast ef við gætum spilað þennan takt frá mælitækinu við Dyngjujökul. Ég er viss um að það væri ansi fróðleg upplifun.
Tek enn og aftur fram að ég er ekki jarðfræðingur, aðeins áhugamaður. Þar sem skilningur minn er takmarkaður svo ég tali nú ekki um gáfur, er vert að fara að dæmi fornra sagnamanna og afsaka fyrirfram sé eitthvurt missagt hér að ofan.
Náttúran | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gýs vestan við Kötluöskjuna, ofan Þórsmerkur?
23.11.2011 | 12:04
Líklegasta skýringin á þessu er að Katla sé í raun og veru alltaf alveg á nipppinu að gjósa. þetta kom fram 1999, þá virðist hafa orðið smá gos af svipuðu tagi og þetta. Því fylgdi órói, líka breyting á skjálftavirkni og aukning á jarðhita næstu árin á eftir, segir Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Orð Páls vöktu athygli enda sjaldgæft að jarðfræðingar taki svo sterkt til orða að Katla sé eiginlega alltaf við það að gjósa ...
En það hefur gleymst að spyrja Pál um hvar gjósi í Mýrdalsjökli. Líklega er það mikið álitamál. Kötluaskjan er líkleg en þeir vita sem vilja að víða hefur gosið í jöklinum. Verði gos á næstunni er engin vissa fyrir því að það eigi upptök sín þar.
Myndin hér fyrir ofan er af skjálftakorti Veðrustofunnar fyrir Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökli og það sýnir upptök alla jarðskjálfta á þessu ári. Á miðjum Mýrdalsjökli eru dregnar útlínur Kötluöskjunnar. Innan hennar hafa orðið gríðarlega margir skjálftar. Athygli vekur þó að skjálftar utan hennar eru mjög margir og þá sérstaklega vestan hennar, á því svæði sem jarðfræðingar telja til Goðabungu. Það er mjó ræma á milli jöklanna og tekur yfir Mýrdalsjökul þar sem hann tekur að halla til vesturs.
Þarna sperrir maður augun. Jarðskjálftarsvermurinn nær að mestu leyti yfir Goðalandsjökul, þar með talinn Tungnakvíslajökul, Krossárjökul og Merkurjökul.
Verði eldgos á þessu svæði er allt önnur hlið uppi á tengingnum en gjósi í Kötluöskjunni. Þarna verður flóð niður Krossárdal og því munu fylgja gríðarlega skemmdir á Þórsmörk og Goðalandi og án efa gera það ónothæft til sem útivistarparadís næsta áratuginn.
Hvaða líkindi eru á að það gjósi á þessu svæði? Ég hef ekki grænan grun. Með því að skoða skjálftakort undanfarinna tuttugu ára, setja sér forsendur má hugsanlega draga líklegar ályktanir.
Gerum til dæmis ráð fyrir því að jarðskjálftar bendi til kvikuhreyfingar, því fleiri jarðskjálftar þeim mun meiri kvika sé á leið upp að yfirborði og fjöldi jarðskjálfta bendi til eldgoss ...
Séu þessar forsendur færðar yfir á Kötluöskjunnar eru allir sammála um að þar muni fara að gjósa.
Hitt fær minni athygli að eldgos gæti allt eins orðið vestan við öskjuna með jökulflóði niður Krossárdal og síðan í farveg flóðsins úr Eyjafjallajökli í fyrra, það er Markarfljótið.
Já, hvaða líkindi eru á gosi vestan við Kötluöskjuna? Hérna eru nokkur skjálftakort síðustu ára. Greinilegt aðSkjálftakort síðustu ára eiga aðeins eitt sameiginlegt og það er þéttur jarðskjálftasvermur vestan við Kötluöskjuna.
Skjálftakortin eru til frá árinu 1992 og ég skoðaði þau öll. Vissulega er það rétt sem fram kemur í viðtalinu við Pál Einarsson, jarðeðlisfræðing í Ríkissjónvarpinu, að skjálftavirknin í Mýrdalsjökli komi í hviðum. Hins vegar virðast hviðurnar vera svo til eingöngu í Kötluöskjunni. Vestan við hana er varla neitt lát á jarðskjálftum þó Katla sé róleg.
Síðasta kortið sem ég birti hér er frá árinu 1992. Þá voru ferleg læti undir Goðalandsjökli, fleiri jarðskjálftar þar en innan Kötluöskjunnar.
Aðdragandi eldgossins í Eyjafjallajökli var langur og merkilegur. Lengi vel virtust jarðskjálftar eiga uppruna sinn ofan við Steinsholtsjökul en skyndilega gaus á Fimmvörðuhálsi. Jarðfræðingar urðu jafn forviða og hagfræðingar yfir bankahruninu 2008. Ekki dró úr undrun jarðfræðinga er gosið á Hálsinu snérist í gos í toppgíg jökulsins.
Ljóst má því vera að enginn getur sagt fyrir um hvar gjósi í Mýrdalsjökli. Jökullinn er líklega ólíkindatól og sé við það að gjósa en ekkert gerist, rétt eins og Páll Einarsson segir.
Skjálftakortin er að finna á þessari slóð: http://hraun.vedur.is/ja/myr/myr_map.html#img.
Hér er mynd sem tekin er Morinsheiði og sýnir vesturhluta Mýrdalsjökuls.
Náttúran | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Pólitík göngumannsins - enn og aftur
23.11.2011 | 10:24
Náttúran | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)