Frábær bók Guðmundar Andra Thorssonar

Sá leiðinlegi pistlasmiður sem farið hefur hálfsmánaðarlega hamförum á forystugreinarsíðu Fréttablaðsins hefur nú skrifað sögu og fengið gefna út. Þá bregður svo við að sagan er að mínu mati verulega skemmtileg, afar vel skrifuð og sýnir aðra og betri hlið á rithöfundinum en ég hélt að hann ætti til.

Pólitískt er ég hreint ekki sammála Guðmundi Andra Thorssyni. Hann er miður hreinlyndur pólitískur skrifari, skautar oft fram hjá staðreyndum og lætur það vaða sem betur hljómar. Kannski er það vegna þess hversu góður skrifari hann er að mér líkar illa við pólitísku skrifin en held varla vatni yfir þeim fagurfræðilegu. Verð þó að viðurkenna að ég hef aldrei lesið neitt eftir Guðmund, en ákvað um daginn að gefa bókinni séns enda hefur henni verið mikið hampað.

Bókin „Segðu mömmu að mér líði vel“ er yndisleg saga, nokkurskonar ævisaga. Hún hefur víðtæka skírskotun í nöfn fræga fólksins. Fær það raunar á tilfinninguna að nöfn þeirra séu dulnefni fyrir raunverulegt fólk sem var uppi á síðustu öld, maður kannast einhvern vegin við karakterana. Kannski er verið að tala þar um rithöfundana eins og Jón Trausta, Guðrúnu frá Lundi, tónlistarmanninn Hauk Mortens og svo framvegis.

Hvað um það. Eftir lestur bókarinnar líður manni vel. Sagan flýtur óskaplega vel áfram. Það truflaði mig þó lítið eitt að í upphafi bókarinnar fær maður það á tilfinninguna að ástkona söguhetjunnar sé horfin, jafnvel dáin. Það olli því að maður las hratt, of hratt, til að komast að örlögum konunnar. Þannig heldur sagan manni í helgreipum og samúðin með söguhetjunni er óskoruð.

Kannski ég fari nú að lesa pistla Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu með öðru hugarfari. Í það minnst hef ég breytt um skoðun, hann er ekki eins leiðinlegur og ég hélt, bara alls ekki svo slæmur ... En pólitískt er ég langt frá því sammála manninum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband