Konunöfn karla og skopteikning er misskilin

Skopmynd

Teiknari Moggans nær nýjum hæðum í viðbjóði í dag.

Svo tístir einhver á Twitter í dag. Trumpistar hafa ekki fyrir því að skýra mál sitt, ekki frekar en sjálfur forsetinn í amríkunni. Tilefnið var skopmynd í Morgunblaðinu, reglulega góð.

Nýlega var nafnalögum breytt og geta nú karlar tekið sér kvenmannsnafn. Í ljósi þessa má brosa að teiknuðu myndinni. Má vera að þarna hafi einhver Jón komist inn í búningsklefa kvenna vegna þess að hann breytti nafni sínu í Jóna í þjóðskrá. Hafði þó ekkert annað gerst.

Twitteristinn var of fljótur á sér og bætir við:

Það er ekki gaman að dreifa hatrinu hans þannig að ég læt andlitið hans fylgja með.

Og hann birtir mynd af laglegum manni sem hingað til hefur ekki gert neinum mein, alið börnin sín upp í góðum siðum og á það til að hlægja í góðra vina hóp. Húmorslausa Trumpistanum á Twitter er þetta ekki nóg og hann birtir spurningu sem teiknarinn lagði einhvern tímann fram opinberlega:

Heldurðu að Íslendingar sem þjóð eigi eftir að lúta í lægra haldi fyrir straumi innflytjenda sem leggjast á velferðarkerfið eins og er að gerast á Norðurlöndum og víða í Evrópu?

Með þetta í farteskinu er teiknarinn dæmdur og tekinn af lífi. Fyrir hvað veit enginn en sönnunargögnin teljast skotheld. Svoleiðis gerir sjálfur Trump sem fullyrðir að allir sem koma ólöglega inn til Bandaríkjanna séu glæpamenn, hyski, óþjóðalýður. Trumparar veita engan afslátt af fullyrðingum sínum: Þú ert víst viðbjóður af því að ég segi það. Kannast lesandinn við orðbragðið?

Venjulegt fólk brosir út í annað en lætur ekki segja sér hvað því á að finnast. Sumum finnst myndin fyndin, öðrum ekki. Það þarf hins vegar sérstaka innrætingu til að misskilja teikninguna. Og enn lakari er sá sem finnur hjá sér þörf til ausa náunga sinn auri fyrir það eitt að vera listamaður og gera ekki það sem góða fólkinu finnst að hann eigi að gera? 

Heiftin er alltof mikil í þjóðfélaginu, hún er sjúkdómur sem við öll verðum að varast því fyrr en varir tekur fasisminn yfir, enginn þorir að andmæla hávaðasömu tísti á Twitter og smám saman er óþverralegt orðbragð orðið sannleikurinn. Í amríkunni er jafnvel til fólk sem trúir Trump og túlkar orð hans svo að allir aðrir en hvítt fólk séu óalandi og óferjandi.

Rökin víkja fyrir dólgshætti og hatri og þeir sem enn standa eru einfaldlega sagðir meðvirkir. Verra getur það varla verið.

Hversu aumlegt er ekki að skilja ekki brandara? Jú, aumlegra er að misskilja hann. Aumast af öllu er þó að leggja út af honum á versta hugsanlegan veg.


Innanhússlögmaður og tré í annarlegu ástandi,

Orðlof

Að og af

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá ummælum kerlingar um guðspjöllin: Ekki er gaman guðspjöllunum, enginn er í þeim bardaginn. 

Síðari hluti ummælanna vísar til þess að kerlingu þótti guðspjöllin daufleg hjá tröllasögum og lygasögum sem hún var vanari að heyra og henni þótti meiri mergur í. 

Heimildir sýna að sagan er miklu eldri en þjóðsagnasafn Jóns en ávallt er myndin óbreytt: gaman er einhverju, einnig: henda gaman einhverju. 

Eftirfarandi dæmi samræmist því ekki málvenju: Menn geta rétt ímyndað sér hvernig verjandi getur hent gaman af hundi sem fann nálykt (10.9.07).

Hins vegar geta menn haft gaman af einhverju. ´Reglan´ er einföld: Ef vísað er til kyrrstöðu (hvar) er notuð forsetningin (einkum með sögninni vera) en ef vísað er til hreyfingar (hvaðan) er notuð forsetningin af (einkum með sögninni hafa). 

Þannig getum við sagt: Mér er ánægja (heiður, gleði …) því að fá tækifæri til þess. 

Hins vegar segjum við: Ég hef ánægju (heiður, gleði) af því að sjá/heyra eitthvað. Auðvelt er að prófa þessa ´reglu´, hver og einn leiti í huga sér.

Íslenskt mál í Morgunblaðinu, Jón G. Friðjónsson 114. þáttur

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Arna McClure, innanhússlögmaður Samherja, staðfestir við Vísi …“

Frétt á visi.is.     

Athugasemd: Lögfræðingar sérhæfa sig í öllu mögulegu. Sumir eru rukkarar, aðrir eru héraðsdómslögmenn, enn aðrir eru dómarar og svo eru til „innanhússlögmenn“. Þeir starfa víst ekki utanhúss, eru bara til heimabrúks.

Hins vegar hef ég aldrei áður heyrt að til væru „innanhússlögmenn“.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Reyndi að saga niður tré í annarlegu ástandi.“

Frétt á visi.is.     

Athugasemd: Útilokað er að sleppa svona fyrirsögn. Ég sá hana ekki fyrr en ég las innlegg frá Magnúsi Guðlaugssyni, lögmanni, sem skrifaði á Facebook og vísaði þar til fréttarinnar og spurði:

Hafið þið séð tré í annarlegu ástandi?

Nei, en lögguna hefur ábyggilega grunað ýmislegt en ekki vitað hvernig ætti að taka blóðprufu.

Fleira furðulegt er í fréttinni. Til dæmis örsagan um konuna sem var grunuð um þjófnað. Hún neitaði að gefa upp nafn og kennitölu og var því handtekin og flutt á lögreglustöðina:

Þegar þangað var komið fengust upplýsingar um konuna og átti þá að láta hana lausa. Hún er þó sögð hafa verið treg til að yfirgefa lögreglustöðina og var því færð þaðan.

Þarna hló ég upphátt. Óskaplega virðist nú vera erfitt að gera löggunni til hæfis?

Lýsingarorðið annarlegur merkir samkvæmt orðabókinni undarlegur, sérkennilegur. Annarlegt ástand er vera í vímu, undir áhrifum fíkniefna.

Blaðamenn nota orðasambandið til að fullyrða það sem þeir vita ekki, það er hvor einhver sé fullur eða dópaður. Fyrir vikið verður til hjáorðatal í stað þess að segja fullum fetum hvað gerðist, að einhver sér grunaður um að vera fullur eða dópaður.

Svona er hjáorðin í hjarðmennsku fréttaskrifa um löggumál:

    • Enginn er settur í fangelsi, frekar vistaður í fangageymslu
    • Fangelsi eru orðin að fangageymslum
    • Enginn er fullur, frekar sagður í annarlegu ástandi
    • Enginn er dópaður, frekar sagður í annarlegu ástandi
    • Slys verða aldrei, slys eiga sér stað
    • Slysstaður er aldrei nefndur, í dag heitir hann vettvangur
    • Löggan dregur sig aldrei í hlé, hún afhendir slökkviliðinu vettvanginn

Fleira mætti nefna.

Tillaga: Kona í annarlegu ástandi reyndi að saga niður tré.

3.

65 mál komu inn á borð lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu í gær­kvöldi og nótt og fengu þrír að gista í fanga­geymslu.“

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Tvær fréttir á vefsíðu Moggans byrja með tölustöfum. Fyrir utan ofangreinda tilvitnun er það þessi:

45 eru særðir, þar af einn lífs­hættu­lega eft­ir að hóp­ur manna vopnaður bar­efl­um réðst á mót­mæl­end­ur á lest­ar­stöð í Hong Kong í gær­kvöldi. 

Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Einhver verður að segja nýliðum í blaðamennsku til. Undarlegt er þó að blaðamaðurinn eða blaðamennirnir skrifa ekki allar tölur með tölustöfum, bara sumar. Hvað veldur?

Afar auðvelt er að komast hjá því að byrja setningu á tölustöfum. Annað hvort ætti að skrifa tölurnar með bókstöfum eða umorða. Hér er tilaga um síðarnefndu málsgreinina:

Einn er í lífshættu og fjörutíu og fimm aðrir særðir eftir að …

Hvers vegna er ólíklegt að blaðamaðurinn myndi skrifa svona en ætti þó að hafa gert það samhengisins vegna:

1 er í lífshættu og 45 aðrir særðir eftir að …

Skiptir talan máli?

Einnig má umorða setninguna:

Hóp­ur manna vopnaður bar­efl­um réðst á mót­mæl­end­ur á lest­ar­stöð í Hong Kong í gær­kvöldi og er einn í lífhættu og fjörutíu og fimm aðrir særðir.

Á vísir.is er fréttin á annan hátt. Þar byrjar hún svona:

Að minnsta kosti 45 eru særðir, þar af einn lífshættulega, eftir að …

Blaðamaður Vísis kann vel til verka.

Hvers vegna byrjar enginn í öllum heiminum setningu á tölustöfum, hvorki blaðamenn né aðrir sem stunda skriftir? Ástæðan er afar einföld og hefur oft verið nefnd hér. Mælt er með því að „gúggla“, til dæmis á ensku: „Numbers in beginning of sentence“ eða „Can a sentence start with numbers?“

Svo má velta fyrir sér hvort eða hvenær er rétt að skrifa tölur með tölustöfum eða bókstöfum. Veraldarvefurinn veitir góða fræðslu um álitamálið.

Tillaga: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti sextíu og fimm málum í gær­kvöldi og nótt og fengu þrír að gista í fanga­geymslu.

3.

„Mæðgur, sem fund­ust látn­ar í íbúð í Anchorage í Alaska-ríki í Banda­ríkj­un­um, höfðu verið látn­ar í nokkr­ar vik­ur áður en þær fund­ust. Elva Salaz­ar og tveggja ára göm­ul dótt­ir henn­ar, Thalia Sever­ance, fund­ust látn­ar í íbúð sinni á föstu­dag.“

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Nástaða er eitt það leiðinlegasta og raunar ljótasta sem sést og heyrist í fjölmiðlum. Þá er klifað á sama orðinu rétt eins og höfundurinn haldi að lesandi eða hlustandi hafi tapað samhenginu í frásögninni. Líklegra er þó að skrifarinn sé stíllaus.

Í ofangreindri tilvitnun eru tvær málsgreinar og þrisvar sinnum eru tönglast á sama orðinu. Raunar er fréttin mjög stutt en til viðbótar þurfi blaðamaðurinn endilega að bæta því við í fjórða skiptið að mæðgurnar hafi fundist látnar. 

Tillaga: Móðir og tveggja ára dóttir hennar fund­ust látn­ar í íbúð sinni í Anchorage í Alaska í Banda­ríkj­un­um, tveim vikum eftir að þær létust.


Bloggfærslur 22. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband