Prestsstarf, hann útvegaði vopn og skortur varð á lyfjum

Orðlof og annað

Hurð og dyr

Sumir menn virðast ekki vissir um merkingu orðanna hurð og dyr. 

Hurð er úr efni og orðið þýðir fleki eða einhver slíkur hlutur til þess að loka dyrum eða opi. 

Orðið dyr þýðir inngangur í hús eða herbergi. 

Orðið hurð getur verið bæði í et. og flt., þ.e. ein hurð, tvær hurðir, en orðið dyr er fleirtöluorð, þ.e. menn tala um einar dyr, tvennar dyr o.s.frv.

Gott mál eftir Ólaf Oddsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þegar sam­ein­ing prestakall­anna í Foss­vogi, Bú­staðaprestakalls og Grens­ásprestakalls, geng­ur í gegn verða þrjár presta­stöður þar.“

Frétt á mbl.is.              

Athugasemd: Uppbygging málsgreinarinnar er slæm, nástaðan er æpandi og má vera að þekking blaðamannsins sé lítil, sem er afleitt. Bera má saman ofangreint og tillöguna hér fyrir neðan.

Yfirleitt er talað um prestsembætti, ekki „prestastöður“. Prestakall er starfsvæði eins eða fleiri presta. Prestur er ekki karl sem kallaður er kall eins og margir kunna að halda. Kall er skylt köllun sem er trúarlegt ætlunarverk prests og með prestakalli er átt við svæðið sem hann sinnir, það er fólkið sem þar býr.

Í fyrirsögn fréttarinnar segir:

Stöður í sam­einuðu Foss­vog­sprestakalli verða aug­lýst­ar í júní.

Rangt er að tala um stöður presta, þetta eru embætti. Til eru embætti ráðuneytisstjóra, sýslumanna, lögreglustjóra og jafnvel er talað um embætti forseta Íslands eða biskups. Við hin gegnum störfum sem oft eru nefndar stöður; kennarar, lögreglumenn, skrifstofumenn, blaðamenn og verkamenn svo dæmi séu nefnd.

Tillaga: Eftir sameiningu Fossvogs-, Bústaða- og Grensásprestakalla verða til þrjú prestsembætti.

2.

Hann út­vegaði vopnið sama morg­un.

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Eitthvað gengur ekki upp í þessari setningu, er ekki alveg viss um hvað það er. Í sjálfri fréttinni segir svo:

 … að grunaði kom hönd­um yfir skot­vopnið sama morg­un og ódæðið var framið.

Ekkert er að þessu.

Veit ekki alveg hvað er að, held að sögnin að útvega þurfi að fylgja persónufornafni til að merkingin gangi upp. Ekki er hægt að nota afturbeygða fornafnið: 

„Hann útvegaði sér vopnið sama morgun“ 

Væri sá er um ræðir að vinna fyrir aðra mætti segja svona:  

Hann útvegaði honum/henni/því/þeim vopnið sama morgun“.

Þannig er setningin eðlileg þegar notað er persónufornafn. 

Á norsku kann fyrirsögnin að vera svona:

Han fikk våpenet samme morgen.

Þetta skýrir samt ekki íslenska orðalagið því maðurinn fann, varð sér út um, aflað sér eða tók vopnið þennan sama morgun. Má vera að blaðamaðurinn hafi verið undir áhrifum af enska orðinu „to provide“ er hann skrifaði fyrirsögnina. Hún yrði þá svona á ensku:

He provided the weapon that same morning.

En þetta er alls ekki það sama.

Ég treysti á að lesendur sendi mér línu og leiðrétti mig. Dýrt er að festast í svona „smáatriðum“.

Tillaga: Hann varð sér út um vopnið sama morgunn.

3.

Skortur varð á 45 lyfjum fyrstu fjóra mánuði ársins.

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 15. maí 2019.             

Athugasemd: Hérna er nafnorðið sem ræður en ekki sögnin. Mjög auðvelt er að laga þetta, sjá tillöguna. Munum að íslenska er tungumál sagnorða, enskan er elsk að nafnorðum.

Tillaga: Fjörtíu og fimm lyf skorti fyrstu fjóra mánuði ársins.

4.

Haukum svall móður á síðustu tíu mínútunum.

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 15. maí 2019.             

Athugasemd: Reglulega gaman er að sjá svona tekið til orða á íþróttasíðu fjölmiðils. Aðeins reyndir og vel lesnir blaðamenn geta skrifað á þennan veg.

Sögnin að svella merkir samkvæmt orðabókinni að bólgna, þrútna eða ólga.

Nafnorðið móður merkir hér baráttuhugur en getur líka þýtt  reiði, ákafi og æsingur. Í orðabókinni segir:

Orðstofn þessi er algengur liður í mannanöfnum, sbr. Móðólf(u)r, Móðrek(u)r, Hermóður, Þormóður, Mó(h)eiður. Sjá móðugur, móðga, Móði, móð(u)r (4), -mæði og móð (3). 

Merkilegt er að sögnin af móðga er dregið lýsingarorðið móðugur. Þetta vissi ég ekki fyrr en ég sá þetta í orðabókinni. Leikmennirnir hafa því verið móðugir í merkingunni æstir.

Hér hafa íþróttablaðamenn Morgunblaðsins oft verið gagnrýndir (ekki ítrekað gagnrýndir), rétt eins og kollegar þeirra á öðrum fjölmiðum. Því er ástæða til að gleðjast yfir kjarngóðu málfari. Dæmi um góða málnotkun í fréttinni:

  • Sölvi gekk berserksgang.
  • Leikmönnum féll allur ketill í eld.
  • Sölvi dró úr þeim tennurnar, eina af annarri.
  • Rimman um Íslandsmeistaratitilinn.

Þetta kætir, en á malid.is segir um orðið klisja:

Orðalag sem hefur í upphafi verið frumlegt og snjallt en verið notað svo mikið að það hefur glatað áhrifamætti sínum. […] Í staðinn fyrir tökuorðið klisja færi oft betur á að nota orðin orðaleppur, tugga.

Gaman er að lesa vel skrifaðar og skýrar fréttir og ekki spillir alltaf fyrir þegar blaðamenn nota skrautlegt orðalag. Vandamálið er þegar orðalag er notað of mikið, þá verður það að orðalepp, tuggu, það er klisju, og engum til skemmtunar.

Tillaga: Engin tillaga


Bloggfærslur 15. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband