Færsluflokkur: Heimspeki

Maðurinn sem hét ekki neitt á frönsku ...

Mér finnst Mogginn minn góður í dag. Í honum eru mörg gullkorn. Gaman var til dæmis að lesa látlausa grein Guðrúnar Egilssonar á bls. 48 í sunnudagsblaðinu. Hún ræðir um íslenskt tungutak og kemst svona laglega að orði:

Hljóðfræði íslensks máls verður á stundum talsvert þrætuepli. Það þarf mikinn sannfæringarkraft til að fá fólk til að viðurkenna að orðið guð er alls ekki borið fram eins og það er skrifað heldur hefur eitthvert v-hljóð stungið sér þangað inn. Á sama hátt gengur sumum illa að skilja að d- er miklu algengara í framburði en í rithætti, samanber orðin Árni, perla og skalli og mörg fleiri dæmi mætti nefna um framburð sem fer illilega á skjön við hefðbundinn rithátt. 

Fyndnast þykir mér þó dæmið um danska manninn Höst sem fékk stöðu hjá alþjóðlegri stofnun í París:

Hann varð því miður að binda skjótan enda á dvöl sína því að hann hét ekki neitt á frönsku. Í þeirri tignu tungu er h ekki borið fram í upphafi orða, ö er ekki til og –st ekki borið fram í enda orðs.

Í sama blaði er viðtal við Þór Stefánsson sem er ljóðskáld og ljóðaþýðandi af áráttu og kallar hana sjúkdóm. Í blaðinu eru birt tvö frumsamin ljóð og tvö þýdd.

Ljóðið „Kostir stjórnmálamannsins, 1. maí“ er einstaklega drjúgt ef svo má segja. Það byrjar háleitt en endar í hrikalegu háði.

Ég leyfi mér að birta það hérna og bið lesendur endilega að finna út á hvaða stjórnmálamann megi heimfæra lýsinguna:

Kostir stjórnmálamannsins
1. maí

Að missa ekki sjónar 
á markmiðum sínum. 

Að vera fastur fyrir 
í skoðunum. 

Að verða ekki 
orðs vant. 

Að láta engan eiga 
neitt inni hjá sér. 

Að svara aldrei 
óþægilegum spurningum. 

Að þrástagast 
á flottum frösum. 

Að styðja tilhæfulausar fullyrðingar 
haldgóðum rökum .


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband