Færsluflokkur: Vefurinn

Svein Jakobsson, jarðfræðingur, viðtal úr Áföngum

SveinnSveinn Jakobsson, jarðfræðingur, lést 12. júlí 2016, 77 ára að aldri. Ég kynntist Sveini lítillega árið 1980. Átti við hann viðtal sem síðar birtist í tímaritinu Áfangar er ég gaf út.

Sveinn var afskaplega viðkunnanlegur maður og kurteis við ungan mann sem hafði mikinn áhuga á jarðfræði. Hann taldi ekki eftir sér að segja til og fræða þann stutta tíma er við áttum saman þarna í Surtsey. Síðar hittumst við á vinnustað Sveins og okkur varð bara ágætlega til vina, ræddum um jarðfræði. Eins og gengur urðu samskiptin ekki meiri en síðan hefur hann verið mér afar minnisstæður.

Viðtalið við Svein bar fyrirsögnina „Móbergið bjargar Surtsey frá tortímingu - að sinni“. Til minningar um Svein Jakobsson er hér viðtalið:

„Þetta er eins og ein risastór tilraunastofa. Hér er alveg einstakt tækiværi til þess að fylgjast með því, hvernig land myndast og hvernig líf nemur land.“ Þetta segir Sveinn Jakobsson, jarðfræðingur, og á hann við Surtsey, þessa yngstu eyju við yngsta land í heimi.

Surtsey er sautján ára. Sautján ár þykir ekkert stórafmæli í mannsárum, en það er stórafmæli í sögu eyjar fyrir þá sem fylgjast með henni og þeim breytingum sem hún hefur orðið fyrir. jarðsögulega eru sautján ár svo lítill tími að hann er vart mælanlegur, en þó hafa gerst í Surtsey á þessum tíma, þeir hlutir, sem vísindamönnum þykja stórmerkir og hafa í ýmsu breytt kenningum manna í jarðfræði.

Frá upphafi hefur verið náið fylgst með Surtsey, jafnt af innlendum sem erlendum vísindamönnum. jarðfræðilega hefur landið verið ítarlega rannsakað, fylgst hefur verið með lífríki eyjunnar, hvernig landnám gróðurs er háttað,m hvernig fuglalíf hefur þróast og svo framvegis.

Blaðamaður Áfanga mælti sér mót við Svein Jakobsson úti í Surtsey um miðjan september og þar gafst ágætt tækifæri til að fræðast af honum og samstarfsmönnum um rannsóknir þeirra í eyjunni. Þær rannsóknir beindust aðallega að vatnsborðsmælingum í borholu sem þarna er í eyjunni, hitastigsmælingum á yfirborði eyjunnar og síðast,m en ekki síst kortlagningu á móbergsmunduninni í eyjunni og sýnatöku úr þeirri myndun. Hin hraða móbergsmyndun er eitt af eim atriðum sem komið hafa vísindamönnum hvað mest á óvart.

Surtsey LofmyndirMóbergsmyndunin

Við snögga kælingu hraunkviku verður gífurleg sprenging og aska og lítil berbrot myndast. Við endurteknar sprengingar eins og gerðust þegar sjór rann hindrunarlaus inn í gígana í Surtsey meðan á gosi stóð, urðu til háar öskjuhlíðar umhverfis þá. Síðan, þegar gosið hætti, stóðu þessar hæðir eftir og skýldu gígunum. Með tímanum harðnaði þessi aska og varð að móbergi. Það sem einkum stuðlar að móbergsmynduninni er hiti og raki og auðvitað tíminn.

Að sögn Sveins hefur það komið vísindamönnum mest á óvart, hve hratt móbergsmyndunin hefur gengi fyrir sig, en strax tveimur árum eftir að gosi lauk, varð vart við hana. Því meiri sem hitinn er, því hraðar gengur móbergsmyndunin fyrir sig, að því þó tilskyldu að rakinn sé nægilegur, en án hans umbreyttist askan ekki. Sveinn sagði að hafi hitinn verið um eða yfir 100 gráður á Celsíus,þá hafi móbergsmyndunin tekið eitt til tvö ár, en hafi hitinn verið lægri, þá hefur umbreytingin tekið lengri tíma.

„Hér er alveg einstakt tækifæri til þess að fylgjast með móbergsmynduninni. Við boruðum í fyrra 181 metra djúpa holu og höfum síðan verið að rannsaka þennan borkjarna, sem þá fékkst. Það er nú ljóst, m.a. af þeim rannsóknum, að allur sökkull eyjarinnar er móberg og það hefur myndast tiltölulega hratt.

Það hefur einnig komið í ljós að um sjö tíund hlutar þeirrar ösku sem enn er ofansjávar hefur ummyndast í móberg. Eyjan er smám saman að kólna, þannig að nú eru litlar líkur á því, að sú aska sem eftir er, verði að móbergi.“

Mjög mikið vindrof er í Surtsey og hefur feykilegt magn af öskunni fokið út í hafsauga og standa berar móbergsklappir nú, þar sem hæst ber. eyjan er nú sem óðast að taka á sig þá mynd sem aðrar eyjar í Vestmannaeyjaklasanum bera, enda eru þær greinilega myndaðar á sama hátt og Surtsey. En með það í huga, hve veðrun eyjarinnar er mikil, þá spyrjum við Svein að því, hvort að hugsanlegt sé að Surtsey hverfi af yfirborði sjávar:

„Nei, það held ég ekki, alla vega ekki næstu árhundruðin, held ég að megi fullyrða. Móbergskjarni eyjarinnar mun bjarga henni frá tortímingu í nánustu framtíð. Það stendur miklu betur af sér ágangs hafs og vinda heldur en hraunið. Í hrauninu er svo mikil kleyfni, t.d. stuðlabergsmyndanir. Slíkt á sjórinn mjög auðvelt með að brjóta niður, enda minnkar eyjan stöðugt. Sjálfur sé é mun á henni frá ári til árs.

SurtseyÓþéttar undirstöður

Eins og fram kom hjá Sveini hér á undan er Surtsey stöðugt að kólna. Mestur hiti sem mælst hefur í Surtsey eru 126 gráður, en í borholunni hafa mælst 14 2gráður. Víða leggur upp gufumekki og niðri í sprungum og gjótum í hrauninu, og einnig í móberginu er talsverður hiti. Í gestabók Pálsbæjar [hús í Surtsey sem er til afnota fyrir þá sem þar dvelja] má lesa, að vísindamenn höfðu nýtt sér gufuna í einni sprungunni og notað sem gufubað meðan sólin skein þangað inn. Stað þennan nefndu þeir „grillið“ og nýtur það mikilla vinsælda. 

Einna merkustu uppgötvanir í ferð vísindamannanna fimm í Surtsey að þessu sinni voru niðurstöðu vatnsborðsmælinganna í borholunni títtnefndu.

Vatnsborðsmælingarhöfðu áður verið gerðar í þeirri borholu og í ljós komið, að sjávarfalla hefur gætt í henni, en menn tóku þeim niðurstöðum með mikilli varfærni, svo ekki sé meira sagt. Þeir Snorri P. Snorrason og Sigurður G. Tómasson, jarðfræðingar, stóðu að vatnsborðsmælingunum. Hæð vatnsborðsins var mæld sjálfvirkt með sírita meðan þeir voru í eyjunni. Þá kom í ljós að vatnshæðin hefur fylgt sjávarföllum og staðfestu Snorri og Sigurður þessa sjálfvirku mælingu með því að kanna vatnsborið sjálfir með sérstökum skynjara nokkrum sinnum á samfelldu tímabili.

Þessar mælingar benda til þess að undir móbergssökkli eyjarinnar séu grófari jarðlög. Hverskona jarðlög það eru er ekki vitað. Borholan stendur í 59 metra hæð yfir sjávarmáli og nær aðeins 122 metra niður fyrir sjávarmál og vantar því nokkra metra niður á hinn gamla hafsbotn, en hætta þurfti boruninni þegar þarna var komið sögu.

Vestmannaeyjar orðnar til á nútíma

Eins og áður sagði svipar Surtsey æ meir til annarra eyja í Vestmannaeyjaklasanum. Þær rannsóknir sem hafa farið fram á eyjunni bregða nýju ljósi á sköpunarsögu Vestmannaeyja, en til þeirra heyra nú 15 eyjar og 30 drangar og sker. Þær hafa hlaðist upp á gossprungum með suðvestur og norðaustur stefnu á síðustu 10.000 til 15.000 árum. Ytri eyjarnar eru orðnar til í þeytigosum, þ.e. að í gosunum hefur komið aðallega gosmöl, og eru gerðar úr lagskiptri hjarnaðri gosmöl, móbergi. Innri eyjarnar eru hins vegar úr gosmöl og hraunlögum og orðnar til við svipuð gos og Surtsey, það er við þeyti- og hraungos.

Fjöldi gosa í sjó mun hafa orðið hér við land á sögulegum tíma og telst mönnum svo til að þau séu á annan tug talsins. Áður en Surtseyjargosið varð höfðu að minnsta kosti þrisvar hlaðist upp eyjar, en þær allar orðið brimöldunni að bráð. Nefna má Nýey, sem hlóðst upp í gosi vorið 1783 um 55 km suðvestur af Reykjanesi. Hún hefur sennilega orðið svipuð Syrtlingi að stærð. Sumarið 1784 var eyjan horfin en Eldeyjarboði mun vera leifar hennar.

 Efsta myndin er af Sveini Jakobssyni, tekin í Surtsey við störf hans. Næsta mynd er tekin traustataki af vef Lofmynda ehf og sýnir Surtsey eins og hún var árið 2014. Neðsta myndin er af Surtsey eins og hún var 1980. Myndin er einnig tekin traustataki af vef Landmælinga Íslands. Á þessum tveimur myndum má sjá að miklar breytingar hafa orðið á eyjunni síðustu áratugi og þær eiga eftir að verða meiri. Athugið að norður er ekki endilega upp á báðum myndunum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband