Öld frá strandi Goðafoss við Straumnes í Aðalvík

StraumnesÍ dag er ein öld er liðin síðan Goðafoss strandaði við Straumnes undir samnefndu fjalli yst í Aðalvík. Þar sem flakið liggur núna munar aðeins um sexhundruð metrum að skipið hefði náð fyrir Straumnes. Miðað við það var það ótrúleg óheppni að skipið skuli hafa siglt upp í fjöru.

Skipstjórinn mun hafa gefið fyrsta stýrimanni stefnu til að sigla eftir út úr Aðalvík og hvarf hann svo úr brúnni. Úti var slæmt veður, snjókoma og ekkert skyggni og vissi stýrimaður ekki fyrr til en að skipið steytti á grunni.

Talstöðvar skipsins biluðu í strandinu og útilokað var að senda út hjálparbeiðni. Um borð voru fimmtíu og átta manns, farþegar og áhöfn.

Þegar skipið strandaði drapst á ljósavél og þurfti fólk að bíða í tvo sólarhringa í myrkri. Það var ekki fyrr en stýrimaður og nokkrir hásetar gátu róið á björgunarbát inn að Látrum í Aðalvík að hjálpin barst. Vandamálið var þá að allir bátar stóðu uppi enda hávetur og útræði ekkert. Mikil vinna var að sjósetja báta, senda skilaboð á milli bæja og skipuleggja hjálparstarf.

Aðalvíkingar björguðu áhöfn og farþegum. Má gera sér í hugarlund hversu aðstæður voru erfiðar. Þetta var frækileg björgun, enda veður slæmt og snjór og ís á fjörum og báta heimamanna byggðir til fiskveiða en ekki björgunarstarfa.

Straumnes4Goðafoss var nýtt skip, byggt í Kaupmannahöfn 1915 fyrir Eimskipafélag Ísland sem nefnt var „óskabarn þjóðarinnar, stofnað 17. janúar 1914. Strandið var gríðarlegt áfall fyrir félagið.

Árið 1980 fór ég í fyrsta skipti um Hornstrandir, ferðirnar áttu eftir að verða ótalmargar síðan. Þá gengum við þrír félagar á Straumnesfjall og að herstöðinni gömlu þar uppi. Eftir að hafa skoðað okkur um þar, skildu leiðir, þeir héldu sömu leið til baka en mér lék hugur á að fara niður að hinu sögufræga Straumnesi og ekki síður að Goðafossi.

Þetta var tilkomumikil ganga, niður Straumnesdal og út að vitanum á Straumnesi. Þar fyrir utan mætast hafstraumar og gat verið viðsjálvert fyrir litla báta að fara í röstina sem þar varð oft afar mikil.

Straumnes3Örskammt fyrir innan Straumnes, aðeins um hálfum kílómetra, eins og nefnt var hér í upphafi, liggur flakið af Goðafossi. Þegar ég átti leið þarna um höfðu áratugirnir farið illa með flakið. Aðeins stjórnborðsstefnið var nokkuð heillegt og mastur stóð skáhalt út í Aðalvík rétt eins og bending inn hana, minnisvarði um frækilegt björgunarafrek heimamanna. Skammt frá var stór gufuketill en skipið var knúið gufu.

Ég var einn, veðrið var ákaflega fallegt og stillt og áhrifin voru eins og að koma í kirkjugarð, mér fannst þetta nærri því helgur reitur.

Auðvitað var ekkert heillegt í skipinu. Brim, frost og óveður höfðu fyrir löngu tortímt því sem heimamenn gátu ekki bjargað.

Í Morgunblaði dagsins ritar Matthildur Guðmundsdóttir, Aðalvíkingur, grein þar sem hún fjallar um strand Goðafoss. Í henni segir hún:

Enginn spurði Látramenn hversu miklu eldsneyti þeir hefðu eytt við að flytja fólkið í land og bæta við ferð til Ísafjarðar. Það spurði heldur enginn um hve mikil matföng hefðu farið til að fæða 58 manns, en vetrarforði Látramanna minnkaði að sjálfsögðu við þessa björgun. Björgunarlaun voru engin.

400 olíutunnur voru um borð í Goðafossi og voru Látramenn fengnir til að bjarga þessum tunnum eftir því sem veður leyfði og sem laun fyrir þá vinnu fengu heimamenn ½ tunnu á hvert heimili.

Eitthvað máttu heimamenn nýta úr brotnandi skipsflakinu og til gamans má geta þess að eitt fjósið á staðnum varð frægt fyrir fína hurð sem þar var og á stóð með gylltum stöfum: „Fyrsta farrými.“

Straumnes2Forðum var það þannig að ekki var spurt um laun fyrir að bjarga náunganum í nauð hans. Þannig er það ekki heldur í dag.

Myndir, hægt er að stækka allar myndir:

  1. Loftmynd af Straumnesfjalli. Inn á það hefur strandstaðurinn verið merktur. Látrar eru neðst í hægra horninu. Þangað eru tæplega tíu kílómetra leið, róður á móti hvassviðri.
  2. Mynd af flaki Goðafoss, tekin 1980
  3. Mynd af stefni Goðafoss, tekin 1980
  4. Mynd tekin ofan af Straumnesfjalli 1995
  5. Goðafoss, skip Eimskipafélagsins.

Goðafoss

 


Ríkisstjórn um það sem er mikilvægast

Óli Björn KárasonSvo eru þeir sem eiga sér aðra drauma: Að mynduð verði ríkisstjórn sem tekst á við verkefnin sem mestu skipta: Heilbrigðiskerfið, almannatryggingar, menntakerfið og fjárfestingu í innviðum, ekki síst samgöngum. Að mynduð verði ríkisstjórn flokka sem eru tilbúnir til að nýta uppsveiflu í efnahagslífinu til að byggja upp til framtíðar, án þess að leggja auknar byrðar á heimili og fyrirtæki, sem fyrr fremur en síðar mun draga úr hagsæld.

Svona orðar Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skoðun sína sem raunar er stefna flokksins, og er einfaldlega ástæðan fyrir því að ég og tugþúsundir annarra kjósum hann. Þetta er að finna í grein Óla Björns í Morgunblaði dagsins, hófsöm, fallega orðuð og einlæg.

Þó er skammt er í varnaðarorðin:

Niðurstaða kosninganna í lok október kemur í veg fyrir að hægt sé að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka. Þessa vegna verða að minnsta kosti þrír flokkar að koma að næstu ríkisstjórn. Forystumenn stjórnmálaflokkanna geta leitað að málum sem sundra þjóðinni eða náð saman um þau sem skipta almenning mestu.

Þetta er eiginlega það sem maður fær stundum á tilfinninguna, að hinn pólitíski tilgangur sé ekki sá að vinna landi og þjóð sem best heldur að sundra og jafnvel að bylta því sem áunnist hefur. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef verkefni nýrrar ríkisstjórnar hverju sinni sé að umbylta öllu, draga til baka það sem fyrri ríkisstjórn hefur gert og svo framvegis, leggja ofurskatta á einstaklinga og fyrirtæki svo dæmi sé tekið. 

Óli Björn er ekki sammála þessu. Hann hvetur til þess að stjórnmálaflokkarnir leiti að málum sem sameina, skipta þjóðina mestu.

Hann leggst gegn skattahækkunum, telur að það skerði samkeppnisaðstöðu þjóðarinnar ef skattar séu hærri hér en í nágrannalöndunum, það muni einfaldlega valda því að okkur muni ganga erfiðlega að fá vel menntað fólk heim aftur ef það fær miklu hærri laun í öðrum löndum.

Í niðurlagi greinarinnar bendir hann á mikilvægt atriði:

Í stað þess að takast á um skattahækkanir er skynsamlegra að leggja drög að því að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs. Ef fjármagnskostnaður í hlutfalli af gjöldum hefði verið svipaður á síðasta ári og 2003-2006 hefði ríkið haft 46 milljörðum meira úr að spila. Þetta er næstum jafnmikið og allur rekstrarkostnaður Landspítalans. Þetta eitt lítið atriði sem gott er að hafa á minnisblaði og hafa upp á borði við myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Í meginatriðum hljóta allir að vera sammála því sem Óli Björn Kárason segir í greininni.

 


Ekki logar á perunni hjá Degi borgarstjóra

Fékk í kvöld orðsendingu frá manni nokkrum sem telst vera mjög ábyggilegur. Hann heldur því fram að aðeins 134 perur séu í ár á jólatrénu á Austurvelli. Í fyrra voru þær 148 og árið þar áður voru þær 166. Ástæðan fyrir fækkun pera á tréinu sem og að slökkt sé á því á kvöldin sé sparnaður borgarstjórans.

Þetta þýðir einfaldlega að slökkt er á jólatrénu þegar skyggja tekur ... Margir velta því fyrir sér hvers vegna ljós sé látið loga á því meðan dagsbirtu nýtur. 

Velti því fyrir mér hvort þetta sé satt.

 


mbl.is Óslóartréð tendrað í 64. skipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið forna -at- er ágætt í netfang

Þegar Sigfinnur afi minn Sigtryggson dó fékk ég til eignar Íslendingasögurnar hans. Þetta voru fallega innbundnar bækur sem sómdu sér vel í bókahillunni. Í dag eru þær orðnar verulega slitnar og ekki eins álitlegar og forðum er ég var ellefu ára snáði með þessar fínu bækur í höndunum. Bendir kannski til að þær hafi verið illilega lesnar, sumar þó meira en aðrar. Eyrbyggja er frekar snjáð, einnig Laxdæla, Grettissaga og Njálssaga.

Jæja, ég vandist á að lesa fornsögurnar með gamalli stafsetningu og man ekki til þess að mér þætti það neitt tiltökumál. Merkilegt var samt þegar komið var í Menntaskólann að fá nokkrar sögur á samræmdu nútímamáli. 

Nú gerist það að í dag var ég með annað eyrað við gufuna og datt þá inn á þátt með Braga Valdimarssyni sem spjallaði um íslenskt mál í þættinum „Tungubrjótur“. Fínn þáttur.

Líklega var það tilviljun að þegar „Tungubrjóti“ var lokið var leikið tónverkið „Hnetubrjóturinn“ eftir rússneska tónskáldið Pyotr Ilyich Tchaikovsky. Tónlistin er um tækið sem notað er til að brjóta hnetu. Held að ekkert sé til sem nefnist „Hnotubrjótur“. Samt er iðulega sagt frá „hnotubrjótinum eftir Tchaikovsky“. Hnota er viðartegund og um hana hefur enginn ort listaverk í tónum eftir því sem ég best veit. Hnota er þó iðulega söguð og til eru þeir sem leika tóna á sög.

Nóg um það. Bragi vakti í þætti sínum athygli á tákninu „@“, það er „att“ merkinu sem notað er í tölvupóstum. Það segir til um eiganda tölvupósts, þess sem sent er til eða póstur fæst frá, dæmi: gunnar@hlidarenda.is.

Viðkvæmt fólk eins og ég og fleiri höfum oft varast að kalla táknið „att“ af því að það er meint útlenska. Þess í stað segja margir „hjá“ og skrifa stundum gunnar(hjá)hlidarenda.is til þess að villa um fyrir tölvuþrjótum og netfangasöfnurum.

Bragi bendir á að í fornsögum með fornri stafsetningu er forsetningin „at“ skrifað í stað „að“:

Þeira sonr var Hámundr, faðir Gunnars at Hlíðarenda.

Og hér kviknar ábyggilega ljós hjá lesandanum rétt eins er peran í hausnum á mér glóði þegar Bragi nefndi þessa einföldu staðreynd.

Sumsé. Við þurfum ekkert annað en að brúka forna íslensku og segja upphátt að netfangið sé „gunnar at hlíðarenda.is“. Svo er það bara smekkatriði hversu fast við kveðum að hinni fornu sögn, segjum „at“ eða „att“.

Málið leyst. Íslenskan leynir á sér.

 


Katrín, fyrir og eftir kosningar

Sko, við lofum að hækka bætur fyrir öryrkja, lífeyri aldraða, margfalda framlög til heilbrigðismála, hækka laun kennara, leggja stóraukið fé til samgöngumála, hjálpa öllum þeim sem eiga bágt, setja peninga í skóna úti í glugga og bara alls kyns gott fyrir alla nema suma.

Sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ekki eitthvað á þessa leið fyrir nokkrum vikum?

Ha, hvað segirðu? Eru ekki peningar í ríkissjóði til að gera þetta allt. Og við sem lofuðum öllu fögru fyrir kosningarnar. Æ, æ ... þá verðum við bara að gera eitthvað minna (sko ... nema við hækkum leggjum aukna skatta á laun yfir 400.000 krónur).

Sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ekki eitthvað á þessa núna eftir kosningar? 

 


mbl.is „Hefðum átt að geta náð saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handhafi umboðs til myndunar ríkisstjórnar hefur einstaka stöðu

DSC_7152_HDREkki er allt sem virðist. Stundum eru aðstæður þannig að hinir skýrustu menn hafa rangt fyrir sér jafnvel þó þeir velji að fara leið sem vörðuð er málefnum, rökum og augljósum staðreyndum. 

Sá sem þetta ritar hefur varið nokkuð langri æfi í að skrölta einn eða með öðrum um fjöll og firnindi landsins og telur sig upplýstari og betri mann fyrir vikið enda hafa ekki næstum því allar ferðirnar verið til fjár um sumar hreinlega hrakfallaferðir.

Í gönguferðum æxlast mál þannig að oftar en ekki er gengið í einfaldri röð. Einn gengur fyrstur, einhver er síðastur og á milli eru hinir einn eða fleiri. Nú kann einhver að halda að sá sem fyrstur gengur sé forystusauðurinn, leiðtoginn, fararstjórinn, sá sem þekkir leiðina best. Oft er það þannig en þó ekki alltaf.

Þegar skyggni er slæmt skynjar sá fremsti stefnuna ekki eins vel og sá þriðji í röðinni eða jafnvel sá aftasti. Ástæðan er einföld. Fremsti maður hefur oft ekkert viðmið heldur er hann er nærri því „blindur“. Þeir sem eru aftar í röðinni taka þá eftir því, hafi þeir augun hjá sér, þegar röðin beygir lítið eitt til hægri (má vera að svigkraftur jarðar valdi því). Sá fremsti getur einfaldlega ekki gengið nokkur hundruð metra án þess að beygja af leið. Verkefni leiðsögumannsins er að taka eftir þessu og leiðrétta stefnuna.

Yfirleitt ruglast vanir fararstjórar og leiðsögumenn ekki í ríminu. Hinir eiga það til að ruglast. Þeir velja frekar rollugötu eða akveg sem fyrir verður frekar en að halda uppgefinni stefnu. Reynsluleysið er oft vandamál, það er ekkert sniðugt.

910511-17Einu sinni gengum við þrír félagar yfir endilangan Eyjafjallajökul, frá vestri til austurs og var stefnan sett á toppinn og síðan niður á Fimmvörðuháls og þaðan ofan í Goðaland og í Bása. Þegar við höfðum komist upp fyrir hamrabeltin og að jökulrótum var komin þoka og þar fyrir ofan snjóaði nokkuð. Við vorum með áttirnar á hreinu og létum skyggnisleysið ekki stöðva okkur (þetta var fyrir daga GPS staðsetningatækja).

Á leiðinni upp jökulinn gekk ég aftastur en sá sem var fremstur var alvanur skíðagöngumaður fæddur á Siglufirði. Hann lét ekki forystuhlutverkið af hendi með góðu og því ákváðum við hinir að hrekkja hann dálítið.

910511-21Hér kemur dálítið snúin lýsing: Með því að sá sem var í miðju gekk út úr stefnunni til hægri en ég til vinstri virðist sá fremsti hafa farið út úr stefnunni. Nokkrir metrar voru á milli manna og við hrópuðum og bentum Siglfirðingnum á villu sína. Hann tók athugasemdinni vel, veifaði og skíðaði á „réttan“ stað fyrir framan okkur og svo gengum við áfram.

Þá endurtókum við leikinn en núna í hina áttina. Og enn þurfti norðanmaðurinn að færa sig um set til að geta haldið „réttri“ stefnu. Og í þriðja skiptið villtum við um fyrir honum og þá staðnæmdist hann, tók af sér snjóuga húfuna og klóraði sér í kollinum. Skildi greinilega ekkert í þessu rugli í sér. Við buðum honum að skipta um stöðu og þáði hann það með þökkum. Gekk ég áfram aftastur og bar nú ekkert til tíðinda þar til við komum upp að Goðasteini. Þar snjóaði ákaft og áðum við þar stundarkorn og fengum okkur brauðbita og að drekka..

910511-40Ég skil bara ekkert í því hvernig ég gat villst svona,“ sagði Siglfirðingurinn, alveg miður sín. „Kannski er ég bara ekkert vel fyrirkallaður,“ bætti hann við. Þá gátum við ekki stillt okkur og sögðum honum hvað hafði gerst. Hann hló með okkur og fannst þetta hinn skemmtilegasti hrekkur en erfði hann ekki við okkur. Síðan hefur þessi saga oft verið sögð þegar verið er að benda á hversu vitlaust hið augljósa virðist oft vera.

Allt þetta og jafnvel meira til flaug í gegnum huga minn í dag þegar ég las Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins. Oft er að finna þar mikinn fróðleik um stjórnmál enda kemur fyrir að sá skrifi sem hefur að baki mikla reynslu úr pólitíkinni. Augnva reynslu hef ég úr þeirri tík þó ég lengi hafi staðið á hliðarlínunni og lagt eitthvurt smáræði til málanna við litlar undirtektir. Fróðleikurinn heillar og ég les mikið. 

Nú í haust hef ég haldið því fram á þessum vettvangi að svokallað umboð forseta Íslands til myndunar ríkisstjórnar sé frekar lítilsháttar vegna þess að sá getur myndað stjórn sem fær til þess meirihluta þingmanna. Þetta er einfalt, rétt og augljóst. En ... rétt eins og í hlíðum Eyjafjallajökuls, er hið einfalda og augljósa ekki alltaf hið rétta. Stundum getur staðan verið þannig að nauðsynlegt sé að hafa umboð forsetans í vasanum.

Um þetta segir höfundur Reykjavíkurbréfsins (feitletranir eru mínar):

Umboðsveitingin er fjarri því að vera óljós gervigerningur. Hún gefur handhafa umboðsins einstæða stöðu. Henni fylgir til að mynda mjög rík óskráð hefð, sem byggt hefur verið á. Handhafi umboðs til að mynda stjórn getur þannig með vísan til þess leitað hvers konar aðstoðar og upplýsinga frá ráðuneytum og stofnunum um stöðu mála og þeim er skylt að bregðast skjótt við. Handhafi umboðsins getur einnig eftir atvikum og í samráði við ráðuneyti leitað útreikninga og greinargerða fagaðila utan stjórnsýslunnar, sem forsætisráðuneytið sæi um að kosta, innan allra eðlilegra marka.

Embættismenn ráðuneyta og stofnana eru í þessu tilviki undanþegnir því að láta yfirmenn sína í starfandi ríkisstjórn vita eftir hverju handhafi stjórnarmyndunarumboðs er að slægjast. Nyti forystumaður, sem reyndi stjórnarmyndun, ekki slíkrar þjónustu, hefði hann mun lakari stöðu en aðrir. Stofnanir á borð við Seðlabanka, Hagstofu og fleiri stofnanir gefa handhafa stjórnarmyndunarumboðs upplýsingar, óski hann eftir þeim, og hugsanlega án slíkrar beiðni, sem geta gagnast honum í viðræðum og hann fer auðvitað vel með.

Þetta fyrirkomulag hefur iðulega haft verulega þýðingu. Þegar enginn hefur umboðið, en allir mega reyna, má augljóst vera að ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru í mun sterkari stöðu en allir aðrir.

Þess vegna er þessi „opnapottsaðferð“ ekki notuð fyrr en fokið er í flest skjól.

Þegar formaður Samfylkingar sagði aðspurður í sjónvarpi að þetta „væri sniðugt“ byggist það á skiljanlegu reynsluleysi.

Niðurlagið í tilvitnuninni er óborganlegt, um það þarf ekki að hafa fleiri orð.

Merkilegt er hversu víðtæk stjórnsýsluleg „völd“ umboðshafinn hefur. Hann sækir einfaldlega þær upplýsingar sem hann þarf á að halda og starfsmenn ráðherra láta ekki ráðherra vita hvað hann hefur óskað eftir, jafnvel kann að vera þeir séu bundnir trúnaði um málið sem sé ofar skyldum við ráðherrann.

Þessu hafði ég ekki gert mér grein fyrir þegar ég gerði lítið úr umboði forseta Íslands. Ekki nokkur álitsgjafi fjölmiðlanna hefur nefnt þetta. Stjórnmálafræðingar sem eru látnir tröllríða fréttatímum ríkisútvarpsins og síðum prent- og vefmiðla hafa greinilega ekki haft hugmynd um þetta. Líklega fara þeir nú að nefna þessi einföldu sannindi og láta þá sem svo að þetta sé á allra vitorði. 

Greinilegt er að ákveðnar hefðir hafa myndast um umboð til stjórnarmyndunar, bæði hjá forsetaembættinu og þeim sem það með höndum hverju sinni. Það er gott og mikilvægt að halda þeim eins og kostur er.

Eftir að hafa lesið Reykjavíkurbréfið held ég að forseti hafi átt að veita formanni Sjálfstæðisflokksins umboðið aftur því aðstæður hafa gjörbreyst síðan hann reyndi fyrir sér síðast, rétt eins og höfundurinn segir.

 

 


Er Katrín Jakobsdóttir farsæll stjórnmálamaður?

Er Katrín Jakobsdóttir farsæll stjórnmálamaður? Össur Skarphéðinsson, margfyrrverandi (ráðherra, þingmaður ...) heldur því fram. 

Þó mér sé það hulin ráðgáta í hverju farsæld Katrínar felist þá veit ég það eitt að hún felst ekki í eftirfarandi:

  1. Setu hennar í ríkisstjórn vinstri flokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna
  2. Úrslitum kosninganna 2013 þar sem Vinstri grænir fengu 10,9% atkvæða og sjö þingmenn, fengu árið 2009 21,7% atkvæða og 19 þingmenn.
  3. Hrossakaup hennar, hún og félagar hennar samþykktu að sækja um aðild að ESB og fá greitt fyrir með ráðherrasætum
  4. Meðferð hennar og samþingmanna á Icesave samningunum
  5. Landsdómsákæran gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra

Fleira má telja upp en fátt bendir til þess að Katrín Jakobsdóttir sé farsæll stjórnmálamaður. Flest hefur snúist gegn henni og þeim flokki sem hún leiðir nú. Jafnvel þjóðin hefur ekki verið par hrifin af afstöðu hennar, ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar, heldur fjórum sinnum í það minnsta.

 


mbl.is Katrín verði ráðherra innan skamms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki í ríkisstjórn með VG

Nú tæpa nokkrir sérsinna Sjálfstæðismenn á því að flokkurinn og Vinstri grænir þurfi að mynda stjórn saman. Að mínu viti, sem að vísu er ekki til skiptanna, tel ég að það sé hið mesta óráð. 

Alltof mikið ber á milli þessara tveggja flokka í grundvallaratriðum til að þeir geti unnið saman þar að auki er fæstum þeirra treystandi fyrir stjórn landsins. Vinstri grænir munu leggjast í áróður fyrir auknum ríkisútgjöldum og þá verður erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að gæta aðhalds.

Þar fyrir utan er staðan í þjóðarbúinu góð. Ugglaust hefði verið meiri þörf á að þessir tveir flokkar hefðu myndað ríkisstjórn eftir hrunið eða tekið saman þátt í þjóðstjórn. Það var ekki gert af ástæðum sem allir vita.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir á vefsíðu sinni:

Staðreyndin er sú að við sem þjóð stöndum núna frammi fyrir sögulegum tækifærum til að leiða í jörð deilur og illindi sem klofið hafa þjóðina og valdið miklum skaða. Við getum skapað ríkisstjórn sem hefur nægilega breiða skírskotun til að leiða til lykta deilu um Evrópusambandið, uppbyggingu velferðarkerfisins, virkjanir, gjaldtöku á ferðamálastöðum og fl. Sterk stjórn getur skapað sátt um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, byggðamál og svo margt annað. Auðvitað þurfa þá báðir aðilar að gefa eftir, en þannig gerast góðir hlutir.

Ég óska þess að jólasveinninn gefi mér tölvu og prentara í jólagjöf. Ekki verða allar óskir uppfylltar og sumar eru beinlínis skaðlegar.

KatrínRíkisstjórnarsamstarf við Vinstri græna mun aldrei bæta þann skaða sem sá flokkur og forverar hans hafa valdið landi og þjóð og það verður seint fyrirgefið. Eigum við að telja upp nokkur atriði:

  1. Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra kostaði ríkissjóð 187 milljónir króna.
  2. Lygaflaumur og rógur VG um Davíð Oddson, fyrrum forsætisráðherra
  3. Icesave I
  4. Icesave II
  5. Icesave III
  6. Móti þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB árið 2009
  7. Samþykkti aðildarumsókn að ESB árið 2009
  8. Kostnaður vegna ESB umsóknarinnar er talin hafa verið 3 milljarðar króna
  9. Árnapálslögin (nr. 151/2010) til varnar fjármagnseigendum og gegn skuldurum
  10. Lagðist ekki gegn loftárásum NATO á Líbýu
  11. Samþykkti leyfi til olíuvinnslu á Drekasvæðinu
  12. Veitti stóriðju á Bakka við Húsavík undanþágu frá skattalögum
  13. Veitti ríkisábyrgð á Vaðlaheiðagöngum
  14. Hefndardómsmál í Landsdómi gegn Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra
  15. Hleypti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum inn á gafl í stjórnarráði Íslands
  16. Skattahækkanir á almenning í kjölfar hrunsins
  17. Gerði ekkert vegna skuldastöðu heimilanna í kjölfar hrunsins
  18. Ófrægingarherferðin gegn Ríkisendurskoðun vegna kaupa á bókhaldskerfi fyrir ríkið
  19. Íslandsbanki gefinn kröfuhöfum
  20. Arionbanki gefinn kröfuhöfum
  21. Norðmaður ráðinn í embætti Seðlabankastjóra
  22. Sparisjóður Keflavíkur, fall hans og endurreisn kostaði almenning 25 milljarða krónur.

SteingrímurÁn efa má finna fleiri ávirðingar á Vinstri græna, hef birt þennan lista áður og þessi atriði eru víti til varnaðar.

Við Sjálfstæðismenn þurfum að muna að Vinstri grænir eru aungvir vinir þrátt fyrir brosmilda ásjónu núverandi formanns. Að baki stendur liðið með hamra og sigðar, tilbúnir til að láta til skarar skríða þegar réttar aðstæður skapast.

 


mbl.is Enginn einn flokkur fær umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn á að halda sér til hlés við stjórnarmyndun

Forseti Íslands á algjörlega að halda sig til hlés á meðan á stjórnarmyndunarviðræðum stendur eða þreifingum í þá átt. Aðeins er tæpur mánuður frá kosningum og ekkert undrunarefni að ríkisstjórn skuli enn ekki hafa verið mynduð.

Á visir.is eru vangaveltur um að forsetinn þurfi að fara að reka á eftir með stjórnarmyndun. Þetta er algjörleg út í hött. Eini vandinn með starfstjórn er sú að hún hefur ekki afl til að fá fjárlagafrumvarp lögfest. Í sjálfu sér skiptir það ekki stórmáli vegna þess að aðrar leiðir eru til að halda ríkinu fjárhagslega gangandi.

Ljóst má hins vegar vera að úrslit þingkosninganna voru ávísun á stjórnarkreppu. Sitjandi ríkisstjórn féll og nær útilokað er að stjórnarandstaðan geti myndað meirihluta. Hversu mikið sem Vinstri grænir gylla svokallaða „fjölbreytni“ í fimm flokka stjórn þá yrði hún alltaf nær óvirk og líf hennar að öllum líkindum ærið skammvinnt.

Tveggja eða þriggja flokka ríkisstjórnir ganga best, nemi meirihlutinn í það minnsta kosti tveimur til þremur mönnum. Annað býður heim hættunni á spillingu.

Ekki verður leyst úr stjórnarkreppu með því að forsetinn gerist verkstjóri yfir þinginu, berji formenn flokkanna áfram með harðri hendi. Eðli þingræðisins er viljinn til að mynda meirihlutastjórn. Ríkisstjórn verður ekki mynduð með þvingunum forseta heldur trausti sem er á milli manna. Málefnastaðan skiptir litlu, persónulegt traust skiptir öllu.

Nýjar kosningar eru eina leiðin til að leysa úr stjórnarkreppu. Pattstaðan breytist ekki þó allir formenn fái stjórnarumboðið í viku eða tíu daga í senn. Raunar er það með öllu óeðlilegt að forsetinn íhugi að leyfa öllum að reyna sig við stjórnarmyndun. Til hvers í ósköpunum ætti til dæmis formaður Samfylkingarinnar að fá að mynda stjórn? Geti hann það ekki í óformlegu spjalli mun hann ekki geta það þegar til alvörunnar kemur.

Stjórnarmyndunarumboð er í raun og veru ekki til. Meirihluti getur myndast án íhlutunar forseta og þannig á það að vera. Enginn setur út á að forsetinn standi í dyragættinni og fylgist með, það skaða ekkert. 

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur talar eins og spámiðill rétt eins og flestir aðrir álitsgjafar með þessa menntun. Í viðtalinu á visir.is talar hann eins og hann viti nákvæmlega hvað forsetinn sé að hugsa eða hvað hann ætti að hugsa. Hann kemur með nýja frasa um stjórnarmyndunarviðræðurnar, kallar þær „lausbeislaðar“. Hvernig í ósköpunum verða stjórnarmyndunarviðræðu „beislaðar“?

Í sannleika sagt er orðið afar þreytandi að fylgjast með þessu stjórnmálafræðingum mala og mala um það sem allir vita og skilja. Mikli nær væri fyrir fjölmiðla að snúa sér að almenning og spyrja hann álits um stöðu mála. Baldur Þórhallsson hefur ekkert nýtt fram að færa í fréttinni á visir.is, nema ef til vill það að lesandinn greinir pínulítið ergelsi yfir því að fimmflokkaríkisstjórnin komst ekki á koppinn.


Tekjur borgarinnar aukast en skuldir hækka

En Magnús Már er hreykinn af því að áætlun meirihluta borgarstjórnar sýnir 1,8 milljarða afgang á næsta ári. Borgarfulltrúinn lætur í engu getið að bætt afkoma byggist á tekjum af söluhagnaði og sölu byggingarréttar. Vonandi verður rekstrarniðurstaðan jákvæð og grunur um að forsendur fjárhagsáætlunar séu þegar brostnar reynist ekki á rökum reistur. Því miður er hins vegar töluvert í land að rekstur A-hluta sé sjálfbær.

Þetta segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaði dagsins. Í henni segir hann borgarfulltrúa Samfylkingarinnar til um rekstur borgarinnar.

Borgarfulltrúann Magnús Már Guðmundsson þekkja fáir. Hann er hluti af vinstra liðinu sem stjórnar Reykjavíkurborg en hefur látið lítið fara fyrir sér. Var raunar í sjöunda sæti á lista Samfylkingarinnar við kosningarnar 2014. Þó vildi svo til að hann vaknaði einn rigningardaginn fyrir skömmu og skrifaði grein því honum sárnaði við Óla Björn vegna enn annarrar greinar.

Skemmst er nú frá því að segja að Óli Björn birtir í grein dagsins syndaregistur vinstra liðsins í borgarstjórn. Það lítur svona út og það er hreint hörmuleg upptalning:

  • Langtímaskuldir A-hluta jukust um 137% að raunvirði frá árslokum 2009 (árið fyrir valdatöku Samfylkingar og ári eftir hrun fjármálakerfisins) til loka árs 2015.
  • Heildarskuldir nær tvöfölduðust og voru tæplega 40 milljörðum meiri á föstu verðlagi.
  • Eigið fé minnkaði um 2,9 milljarða.
  • Heildartekjur voru 16,5 milljörðum krónum hærri að raunvirði 2015 en 2009.
  • A-hluti hafði 113 þúsund krónum hærri tekjur af hverjum borgarbúa 2015 en 2009 á föstu verðlagi. Rekstrargjöld voru hins vegar 199 þúsund krónum hærri.
  • Skuldir A-hluta jukust að raunvirði um 315 þúsund krónur á hvern íbúa. Eigið fé minnkaði á sama tíma um 45 þúsund.
  • Að raunvirði var veltufé frá rekstri 38% minna á síðasta ári en 2009. Veltufé er mælikvarði á stöðu grunnrekstrar A-hluta.
  • Í árslok 2009 var veltufjárhlutfallið 2,12 en var komið niður í 1,18 við lok síðasta árs.

Afrekaskráin er ekki sérlega glæsileg. Magnús Már vill því fremur benda á fögur fyrirheit um framtíðina en standa skil á kosningaloforðum og afrekum liðinna ára:

„Með aga og skipulögðum vinnubrögðum kraftmikils starfsfólks, stjórnenda og meirihlutans í borgarstjórn hefur tekist að leggja fram fjárhagsáætlun með afgangi sem sýnir góðan rekstur Reykjavíkurborgar.“

 

Gamli frasinn um grjót og glerhús á hér ágætlega við. Til skýringar er A-hluti borgarsjóðs sá hluti rekstrarins sem alfarið er rekinn af skattfé, B-hlutinn eru fyrirtæki og stofnanir borgarinnar sem reknar eru sem sjálfstæðar einingar.

Hvernig verður það svo EF vinstri flokkarnir ná saman um ríkisstjórn. Þá verður það eflaust orðað af stolti og barnslegri gleði að þeim hafi tekist að koma sér saman um eitthvað ... bara eitthvað.

Við skulum vona að ekki komi til þess að sama klúðrið verði við landstjórnina og í Reykjavík.

 

 


Katrín og Steingrímur eru ólík en sammála um skatthækkanir

Það hefur verið mjög góður andi í þessari vinnu, málefnaleg og góð skoðanaskipti. Í okkar hópi er ekkert uppnám af einu né neinu tagi. Og fjarri því að þar sé unnið með einhverjum hótunum. Þetta er það sem heitir á góðri íslensku rakalaus Moggalygi.

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum allsherjarmálaráðherra í vinstristjórninni 2009 til 2013, í viðtali við visir.is. Hann heldur þessu fram vegna fréttar Morgunblaðs dagsins um að Vinstri grænir áformi skattahækkanir verði af myndun fimmflokkaríkisstjórnarinnar (langt orð). 

Steingrímur gapir vel að vanda enda orðhákur mikill. Formaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, sagði hins vegar á Facebook: 

Þessar áherslur Vinstri grænna ættu ekki að koma neinum á óvart. Við lofum nefnilega ekki auknum útgjöldum í heilbrigðisþjónustu og skólamálum (sem allir segjast vilja) nema við teljum að við getum aflað tekna á móti og að þeirra tekna sé aflað með réttlátum hætti.

Eins og vant er þarfnast orð Katrínar túlkunar við. Lausnarorðin hjá Katrínu eru feitletruð. Sem sagt, Vinstri græn ætla ekki að afla tekna með óréttlátum hætti ...

Þá er það spurningin hversu langt nær réttlæti hennar yfir sjálfsaflafé almennings. Við fengum að kynnast því meðan Katrín var menntamálaráðherra í vinstri stjórninni sem kennd er við Steingrím og Jóhönnu.

Hún samþykkti skattlagningu á almenning á ráðherratíma sínum og líklega heldur hún því fram að allar skatthækkanirnar sem hún og Steingrímur stóðu að hafi verið réttlátar ...

Af þessum tveimur tilvitnuðu orðum Steingríms og Katrínar eru þau sammála um að hækka þurfi skatta. Þá stendur það út af borðinu hvað sé Moggalygi og hvað ekki eða þá ekkert.

Eflaust ríkir hinn mesti friður við borð formannanna sem eru að reyna að mynda ríkisstjórn. Kattasmölunin er ekki enn í umræðunni.

Katrín Jakobsdóttir talar flátt. Þegar hún segist ætla að afla tekna með réttlátum hætti á hún við skattahækkanir og þá er vissara að gæta að sér. 


mbl.is Ætti ekki að koma á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talsmáti framkvæmdastjóra Icelandair hótela

Já, Canopy by Hilton og við erum fyrsta hótelið worldwide og Reykjavík er up and coming áfangastaður sem að komandi kynslóðir elska með náttúruna okkar og kúlturnum okkar og þar af leiðandi var þetta bara svona match made in heaven að við myndum verða fyrsta destinationið til að opna hótelið.

Egill Helgason, dagskrárgerðarmaður, vekur í pistli athygli á ofangreindum orðum framkvæmdastjóra Icelandair hótela í viðtali við Stöð2, sjá hér. Sagt er frá opnum hótels sem ekki er einu einnig hægt að durslast til skíra íslensku nafni.

Er það annars ekki rétt munað hjá mér að flugvélar Icelandair eru skírðar rammíslenskum sérnöfnum? Hvað hefur breyst hjá fyrirtækinu?

Sannast sagna er alveg grátbroslegt að fylgjast talsmáta fjölda fólks sem vart getur tjáð sig á íslensku öðru vísi en með enskuslettum. Yfirleitt veldur einhver minnimáttarkennd þessu. Ég man til dæmis ekki eftir því að forstjóri Icelandair Group, Björgólfur Jóhannsson, hafi slett ensku í þeim útvarps- eða sjónvarpsviðtölum sem ég hef heyrt. Er eitthvað að breytast hjá Icelandair?

Enskan sækir á íslenskt mál, rýrir það og breytir því. Vandamál bæði fullorðinna og einnig ungs fólks er kæruleysi á borð við talsmáta framkvæmdastjórans hér að ofan, rýr orðaforði sem er afleiðing minnkandi bóklesturs og almenn andskotans leti.

Ó ... svo gleymdi ég nefna að nefna þykistuleikinn, að sletta ensku til að sýnast vera eitthvað annað og meira en fólk í raun og veru er.


Hvað annað en að skora mark?

Skor er m.a. stigafjöldi í íþróttakeppni. Sögnin að skora, um það að ná árangri, hefur ekki öðlast fullan tilverurétt en sést þó oft: „Ísland skorar hátt í alþjóðlegum samanburði.“ Við erum þá ofarlega á blaði eða lista, fáum háa einkunn, erum framarlega eða í fremstu röð. Nú, eða hátt metin.

Svo segir í frábærum dálki í Morgunblaðinu. Ég hnautum þó í dag um að þar er sagt að sögnin að skora hafi ekki náð fullum tilverurétti, líklega á höfundurinn við íslenskt mál.

Skyldi maðurinn aldrei hafa heyrt um að fótboltamenn skori mark? Varla er hægt að orða einn atburð skýrar.

Þetta orð hefur verið með fullan tilverurétt í íslensku máli frá því ég man eftir mér og ábyggilega í langan tíma fyrir mína daga.

Víst er það úr ensku; „gain (a point, goal, run, etc.) in a competitive game: McCartney scored a fine goal“.

Á móti má benda á að til dæmis nafnorðið togari er komið beint úr ensku og hefur öðlast hér tilverurétt. Fletti orðinu upp í netorðabók og fékk meðal annars nokkuð forvitnilega skýringu um upprunann:

„Mid 16th century (as a verb): probably from Middle Dutch traghelen ‘to drag’ (related to traghel ‘dragnet’), perhaps from Latin tragula ‘dragnet“.

Flestir Íslendingar vita hvað dragnet er. Margir hefa verið á dragnetaveiðum (ekki er þó átt við að tilgangurinn sé að veiða dragnet, heldur í það).

 


Illa hönnuð göngubrú virkar eins og stífla

FyrirJákvætt er að borgaryfirvöld skuli hafa sett brýr yfir Elliðaárnar, aðra rétt fyrir ofan gamla og ljóta rafstöðvarhúsið og hina við göngin undir Reykjanesbrautina.

Vandinn er bara sá að í vatnavöxtum hefur vestari áin alltaf flætt úr farvegi sínum við undirgöngin.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var 8. október 2015 sést hvernig flæðir upp úr farveginum. Þarna var auðvitað ófært enda fáir sem hvort eð er fóru þarna um. 

Síðan var byggð brú á þessum stað og aðstæður gjörbreyttust. Hönnuðir vissu greinilega ekki að vatnavextir hækka yfirborð á, annars hefðu þeir haft brúna bogadregna eða hækkað hana örlítið.

eftirÞess vegna er hún fyrirstaða þegar vex í ánni, rétt eins og sést á meðfylgjandi mynd sem tekin var 14. október 2016. Einnig má hér benda á góða mynd á mbl.is.

Brúin er breið og góð og er í beinu framhaldi af göngu- og hjólastígunum. Gallinn er bara sá að hún tekur á sig vatn, virkar eins og stífla, og veitir því að hluta að mynni undirganganna sem liggja aðeins lægra og þar myndast stundum stór pollur, gangandi og hjólandi umferð til leiðinda.


mbl.is Vatnsyfirborðið nærri brúnni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill skjálfti í Bárðarbungu

SkjálftarEkki telst til tíðinda þó jörð skjálfi nema mikill skjálft mælist. Í gærkvöldi hófst skjálftahrina í norðanverðri Bárðarbungu. Um tuttugu skjálftar, eitt stig eða meiri, hafa orðið þarna á einum sólarhring, það er frá því um kl. 19 í gærkvöldi.

Merkilegast er að einn skjálfti náði að verða 4 stig, sem er nú frekar sjaldgæft. Annars voru samtals sex skjálftar stærri en þrjú stig. Allir eru skjálftarnir á mismunandi dýpi, allt frá 100 m undir yfirborði og niður í átta km.

Á meðfylgjandi korti frá Veðurstofunni sjást upptök skjálftanna.

Skjálftar yfir þremur stigum eru merktir með stjörnu. Hrinan er eins og vant er í norðurhluta Bárðarbungu, líklegast á jaðri öskjunnar.

Vinstra megin á kortinu er Tungnafellsjökull og nyrst í Vatnajökli er Dyngjujökull.


Gvendur hali spáir eins og stjórnmálafræðingur

Gvendur haliGvendur hali nefnist maður nokkur sem hefur ágæta sýn yfir íslensk stjórnmál. Hann er hissa á því að aldrei skuli nokkur blaða- eða fréttamaður tala við sig en upphefji í staðinn svokallað stjórnmálafræðinga.

Til að bæta úr skák tók ég viðtal við þennan ágæta mann og fer það hér á eftir:

Fyrirsögn: 

Telur að ríkisstjórn geti verið mynduð

Guðmundur H. Herlaugsson, spáfræðingur Lækjartorgs, seg­ir mjög erfitt að átta sig á hvort Katrínu Jak­obs­dótt­ur, for­manni Vinstri grænna, muni tak­ast að mynda fimm flokka stjórn.

„Það verður reynt til þraut­ar með þetta en það er mjög erfitt að átta sig á því hvort það geng­ur. Ég held að það gæti al­veg tek­ist,“ seg­ir Gvendur hali (hann óskar eftir því að vera kallaður svo).

„Svo verður maður að meta hvernig sam­setn­ing­in er, hvernig mál­efna­samn­ing­ur­inn lít­ur út og hvar ásteyt­ing­ar­stein­arn­ir eru, ef maður ætl­ar að spá því hversu lang­líf hún verður.“

Hálf þjóðin vildi gera Kötu að forseta

Spurður um hvort Katrín formaður Vinstri grænna sú rétta til að leiða nýja ríkisstjórn: 

„Já og nei Kannski eru sú rétta, kannski ekki. Sumir draga hana í efa aðrir ekki.“ 

Rökrétt skref

Að mati Gvends hala er það rökrétt skref hjá Katrínu að reyna að mynda ríkisstjórn. 

„Annars myndi hún ekki mynda ríkisstjórn. Það væri líka rökrétt skref, veltur bara á því í hvaða átt hún gengur, ætli hún á annað borð að fara í göngu.

Sko, það virðist að Vinstri grænir horfir til vinstri stjórnar enda felst það í nafni flokksins. Sumum kann að koma það á óvart, öðrum ekki. Ennfremur, sko, að er breidd í þessari stjórnarhugmynd. Hvað annað? Fimm flokka ríkisstjórn er óneitanlega breið hins vegar er kristaltært að dýptina vantar.“

En verða núverandi ríkisstjórnarflokkar með í samstarfinu? 

„Gerist það, þá verða stjórnarflokkarnir sjö, ef ekki þá verða þeir færri og þar með minni meirihluti og minni breidd. Vandinn er bara sá að verði stjórnarflokkarnir með í ríkisstjórn vinstri flokkanna, hverjir eiga þá að vera í stjórnarandstöðu? Hitt vita allir að þekking og reynsla vinstri flokkanna er að vera í stjórnarandstöðu“

Viðreisn og Björt framtíð staðið fast á sínum málum

Hann bætir við að þó allir séu tiltölulega jákvæðir þá standi menn á sínum málum, sem sé neikvætt.

„Ef aðeins einn stendur á sínum málum verður allt auðveldara. Standi aðrir á þessum eina á hann erfiðar uppdráttar.

Við sjáum hvernig Viðreisn og Björt framtíð hafa staðið fast á sínu gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Má vera að þeir verði slakari gegn Vinstri grænum, kannski ekki, og þó ...“

Bjarni vonsvikinn

Gvendur hali sagði greinilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins sé ekki hamingjusamur vegna þess að upp úr slitnaði milli hans, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar.

„Sjáðu nú til ... Bjarni kann að vera vonsvikinn, en það eru fleiri og það kemur dagur eftir föstudaginn í síðustu viku rétt eins og í dag.“

Ekki algjörir græningjar

Gvendur hali dró nú fram kristalskúlu sína og stakk henni í samband við netið. Hann rýndi í hana og sagði að vissulega sé óreynt fólk innan um á Alþingi. Hann bendir þó á að hjá Pírötum sé fólk með malbiksreynslu og reykingum.

„Ég bendi bara á að ef helmingurinn af þingflokknum er með meiri eða minni þingreynslu er hinn helmingur það ekki. Þetta er svona eins og að segja að þrír plús tveir séu fimm rétt þegar tveir plús þrír séu líka fimm, en þó ekki endilega sama fimman.“

Geturðu skýrt þetta nánar, Gvendur hali?

„Hélt að þetta lægi nú í augum uppi, Sigurður minn. Sko fjórir plús fimm eru níu, rétt eins og fimm plús fjórir eru líka níu, þó þarf ekki að vera að það sé sama nían heldur ný nýja. Þrjár endur á þingi verða ekkert endilega tíu endur nema þeim sé fjölgað og hvaða gagn er af því ef helmingurinn er reynslulaus?

Hmmm ...

„En talandi um reynslulítið fólk þá er hægt að minna fólk á að fólk kaus fólk árið 1991 og þá varð nýtt fólk þingfólk án þess að verða nokkru sinn ráðherrafólk, þó einstaka hafi orðið ráðherra í langan tíma,“ greindi Gvendur hali Herlaugsson frá og kippti kristalkúlunni úr sambandi.

Hér er ekki verið að bera saman viðtalið við Gvend hala við viðtal mbl.is við stjórnamálafræðing og prófessor með viðlíka þekkingu og er að finna hér. Þó verður að segjast eins og er að Gvendur hali er skýr enda stundum nefndur Guðmundur skýrari.


mbl.is Telur að fimm flokka stjórn gæti náðst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagmunir þjóðarinnar eru aðrir en hagsmunir verslunarinnar

ungarHvers vegna eru íslensk stjórnvöld með reglur um að innflutt kjöt sé fryst? Svarið er einfalt, það er einfaldlega vegna sjúkdómahættu.

Ef reglur Evrópusambandsins um innflutning á landbúnaðarafurðir, sem  Ísland hefur lögleitt, eru þess eðlis að opna skuli landið fyrir landbúnaðarsjúkdómum sem grassera í Evrópu þá er ekkert annað uppi á borðinu en að nema lögin úr gildi. 

Í öðru lagi skiptir stóru máli að landbúnaður hér innanlands getur hvorki keppt í verði eða magni við útlendar landbúnaðarafurðir. Við erum einfaldlega jaðarsvæði og örsmár markaður.

Þriðja atriðið er fæðuöryggi landsins. Óheftur innflutningur landbúnaðarafurða gerir þjóðina fæðulausa komi eitthvað í veg fyrir eðlilegar samgöngu á hafi eða í lofti.

Fjórðu rökin eru að í öllum löndum Evrópu eru landsbúnaðarafurðir niðurgreiddar og þar með innflutningur hingað. Vart er að treysta því að svo verði til frambúðar og hversu mikið hækka þau í verði þegar dregur úr niðurgreiðslum eða þær hætta.

Það er algjörlega óábyrg afstaða að heimta ótakmarkaðan innflutning landbúnaðarafurða og sú krafa kemur nær eingöngu frá hagsmunaaðilum, innflytjendum og verslunum.

Innlend framleiðsla er dýr, sú útlenda ódýr, buddan ræður. Hver er þó staða okkar sem sjálfstæðrar þjóðar ef við getum ekki brauðfætt landsmenn þegar eitthvað bjátar á í samgöngukerfi heimsins? Á íslensk þjóð að vera að öllu leyti háð innflutningi matvæla? 

Skilyrði um að opna fyrir óheftan innflutning landbúnaðarafurða frá Evrópu er ógn við sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar.

Sjá hér nánar um notkun hormóna í landbúnaði og hér um notkun á sýlalyfjum til að efla vöxt sláturdýra.

Ég leitaði mér að myndefni við þennan pistil og mér til gríðarlegs hryllings fann ég ótal vefsíður sem segja frá takmarkalausri grimmd í sláturhúsum í Evrópu og annars staðar. Ég hreinlega fékk það ekki af mér að birta slíka mynd hér.

Staðreyndin er að minnsta kosti þessi: Íslensk sláturhús eru mjög vel rekin og meðferð sláturdýra er mannúðleg. Myndin sem hér fylgir er úr erlendu kjúklingasláturhúsi. Ungar fylgja með eggjaskurn yfir í gáma þar sem þess líf þeirra fjarar skjótlega út og öllum er andskotans sama.

Fyrir mig og mína vil ég frekar dýrari íslenskar landbúnaðarvörur vitandi að reglum um slátrun er fylgt og veit að hér eru hvorki notaðar sýklalyf eða hormónalyf í sama mæli og víðast annar staðar. Vel má vera að ég geti fengið hjá Ferskum kjötvörum ódýrt kjöt en ég get aldrei geta treyst uppruna þess eða hvernig staðið var að slátrun dýrsins.


mbl.is Ríkið tapar máli um innflutningsbann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúpínan, gleðigjafi fyrir menn og mófugla

HeiðmörkÞeir fuglar eru nefndir mófuglar sem verpa í móum og mýrum. Nefna má lóu, spóa, stelk, sendling, kjóa, rjúpu, hrossaguk og fleiri tegundir.

Auðvitað kunna fuglar ekki að tjá sig en með rannsóknum hefur verið hægt að finna út hvaða kröfur þessir fuglar gera til umhverfisins. Til dæmis hefur komið fram að þeir kjósa frekar að gera hreiður sín í lúpínubreiðum en víðast hvar annars staðar.

Í grein í vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences er grein sem nefnist „Avian abundance and communities in areas revegetated with exotic versus native plant species“ og er eftir Brynju Davíðsdóttur, Tómas Grétar Gunnarsson, Guðmund Halldórsson og Bjarna Diðrik Sigurðsson er að finna forvitnilega rannsókn um mófugla.

Á vef Skógrætarinnar segir um rannsóknina:

Höfundar rannsökuðu áhrif mismunandi landgræðsluaðgerða á þéttleika og tegundasamsetningu fugla og á fjölda smádýra. Á 26 stöðum á landinu voru borin saman:

    1. Óuppgrædd svæði,
    2. Endurheimt mólendi og
    3. Land sem hafði verið grætt upp með alaskalúpínu.

Mikill munur var á fjölda fugla milli gróðurlenda. Á óuppgræddu landi var að meðaltali 31 fugl á ferkílómetra, 337 á endurheimtu mólendi og 627 á landi sem hafði verið grætt upp með lúpínu. Þar sem fuglar voru fleiri var einnig meira af smádýrum sem eru mikilvæg fæða fuglanna.

Í endurheimtu mólendi var mest um vaðfugla, tegundir sem fer hnignandi á heimsvísu, en í lúpínu var meira um algengari tegundir. Heiðlóa og lóuþræll voru algengustu tegundirnar í endurheimtu mólendi en hrossagaukur og þúfutittlingur í lúpínu. Þéttleiki sumra fuglategunda virtist vera háður framvindustigi landgræðslusvæða. Þessi rannsókn sýnir að landgræðsla eykur líffræðilega fjölbreytni dýrategunda en mismunandi landgræðsluaðgerðir leiða til mismunandi þróunar vistkerfanna.

MorsárdalurÉg hef lengi dáðst að lúpínu og þá sérstaklega hversu hratt hún breiðist út, jafnvel á örfoka landi. Hún er algjör gleðigjafi fyrir augð þegar hún blómstrar. Þetta er nú samt einungis það sé sjá má með berum augum. Gagnsemi lúpínunnar er ekki síður fólgin í því að hún vinnur köfnunarefni úr andrúmsloftinu og skilar því í jarðveginn, öðrum jurtum til gagns.

Köfnunarefni (nitur) skortir stórlega í íslenskum jarðvegi en fáist það verður gjörbreyting á. Skógrækt er tilvalin í svæðum þar sem lúpínan hefur náð fótfestu. Það hefur til dæmis gerst á stórkostlegan hátt í Bæjarstaðaskógi við Mórsárdal og víðar.

Sumir sjá ofsjónum yfir framgangi lúpínunnar, meðal annars fyrrum umhverfisráðherra Vinstri grænna sem fyrirskipaði upprætingu hennar með öllum tiltækum ráðum meðal annarshvatti hann til að eitrað væri fyrir henni.

Sem betur fer er herferðin gegn lúpínu löngu töpuð. Við útbreiðsluna verður ekki ráðið á annan hátt en að rækta skóg. Staðreyndin er  nefnilega sú að þessi fallega blágræna jurt þrífst ekki í skugga. Meðan stjórnendur margra sveitarfélaga geta ekki á sér heilum tekið vegna útbreiðslu lúpínunnar, moka henni í burtu eða eitra, taka aðrir henni fagnandi og stunda skógrækt. Síðarnefnda aðferðin er margfallt ódýrari en eiturhernaðurinn.

Víst er að mófuglarnir hafa talað og sagt hvar þeim líður best. Gróðurinn er foldarskart eins og Jónas Hallgrímsson orti forðum. Því miður þekkti hann ekki lúpínuna annars hefði hann ort henni ódauðleg ljóð.

Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
allstaðar fyllir þarfir manns.

 


Þessi fundur er bara fyrir fjölmiðla

VGSæll, Logi.

Sæl, Katrín.

Nei, ert þú gengin aftur, Oddný? Ég meina, varstu ekki hætt?

Jú, ég var og er hætt sem formaður en hann Logi þarf á aðstoð að halda. Ég þarf að halda í hendina á honum svona til að byrja með, hann er svo nýr greyið. Samfylkingin má ekki við neinum byrjendamistökum ef ske kynni að kosið verði aftur. Flokkur með best stefnu í heimi má hreinlega ekki falla af þingi.

Hvað um það, verið velkomin hingað. Eins og þið vitið er ég með stjórnarmyndunarumboðið. Það er að vísu orðið dálítið þvælt eftir að hafa verið hjá honum Bjarna í tvær vikur en það dugar.

Já, það er orðið langt síðan að sósíalisti hefur fengið að mynda ríkisstjórn. Var það ekki Lúðvík Jósefsson sem reyndi það síðast?

Skiptir engu, Oddný mín. Nú vil ég spyrja ykkur, kæru vinir og félagar: Er Samfylking tilbúin til að mynda ríkisstjórn með okkur VG og fleiri flokkum.

Alveg tvímælalaust. Ekki spurning. Við styðjum öll góð mál, hvað sem það kostar.

Hvað segir þú Logi, spurningunni er eiginlega beint til þín sem formanns.

Tja ... ég er bara sammála. Er þaki Oddný ...?

Jú, auðvitað, ég var að segjaða. Hins vegar gerum við þá kröfu að fá tvö ráðherraembætti, sérstaklega innanríkisráðuneytið og einnig utanríkisráðuneytið. Svo viljum við að nýja ríkisstjórnin sæki aftur um inngöngu í ESB.

Elsku Oddný mín, auðvitað munum við skoða að láta ykkur frá tvö ráðuneyti. Og við í VG höfum ekkert á móti því að ganga í ESB. En heyrðu, ansi er alltaf þessi jakki alltaf fallegur. Hvar fékkstu hann?

Þetta er nú bara jakki úr Hagkaup en alveg gasalega lekker, svona eins og peysan þín.

Þessi drusla? Hana keypti ég fyrir mörgum árum í Kolaportinu, en hún dugar von úr viti. En naglalakkið þitt, Oddný mín, en hvað það er nú rautt og fallegt.

Já, þessi tónn í rauða litnum er algjört æði ...

Ahem ... Oddný, má ég ekki bara fara. Ha? Mér heyrist að fundurinn sé búinn.

Jú, farðu bara Logi minn. Við stelpurnar ætlum að halda áfram að spjalla næsta klukkutímann, þetta er svona fyrir fjölmiðla. Þú skilur ...

Mundu samt, að ef einhver fréttamaður spyr þá ertu að fara á mikilvægan fund en þú teljir mjög líklegt sé að við náum saman um myndun ríkisstjórnar.

Geri það, bæ ...


mbl.is Katrín fundar með Samfylkingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pattstaða í pólitíkinni og krafa um nýjar kosningar

Pattstaða er komin upp í íslenskum stjórnmálum. Eftir að Sjálfstæðisflokknum mistókst að mynda stjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð er fátt bitastætt eftir. 

Í stuttri en skilmerkilegri frétt á mbl.is er grein gerð fyrir möguleikum formanns VG á ríkisstjórnum. 

Þeir eru þessir:

Þriggja flokka rík­is­stjórn­ir:

VG + Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn + Pírat­ar = 41 þingmaður, 10+21+10

VG + Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn + Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn = 39 þing­menn, 10+21+8

VG + Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn + Viðreisn = 38 þing­menn 10+21+7

VG + Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn + Björt framtíð = 35 þing­menn 10+21+4

VG + Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn + Sam­fylk­ing­in = 34 þing­menn 10+21+3

Fjög­urra flokka rík­is­stjórn­ir:

VG + Pírat­ar + Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn + Viðreisn = 35 þing­menn, 10+10+8+7

VG + Pírat­ar + Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn + Björt framtíð = 32 þing­menn, 10+10+8+4

Fimm flokka rík­is­stjórn­ir:

VG + Pírat­ar + Viðreisn + Björt framtíð + Sam­fylk­ing­in = 34 þing­menn, 10+10+7+4+3

VG + Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn + Viðreisn + Björt framtíð + Sam­fylk­ing­in = 32 þing­menn, 10+10+7+4+3

Samkvæmt yfirlýsingum formanns Vinstri grænna kemur samstarf við Sjálfstæðisflokkinn ekki til greina. Raunar hafa flokksmenn VG látið að því liggja að samstarf við Framsóknarflokkinn komi ekki heldur til greina.

Einn kostur í stöðunni

Aðeins einn kostur er þá eftir og það er fimm flokka ríkisstjórn VG, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar. Sú ríkisstjórn yrði nyti stuðnings 34 þingmanna, eins tveggja manna meirihluta. Það yrði ekki ásættanleg ríkisstjórn þegar litið er á hversu frábrugðnir flokkarnir eru, sérstaklega sker Viðreisn sig frá hinum, og ansi ólíklegt að sá flokkur láti til leiðast.

Neita samstarfi

Stjórnmálaflokkarnir hafa málað sig út í horn með því að neita að starfa með einstökum öðrum flokkum. Til viðbótar kemur sú einfalda staðreynd að hin skítuga orðræða í pólitíkinni hefur verið slík á undanförnum árum að mikið þarf til þess að til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn geti sætt sig við samstarf við Vinstri græna og Pírata.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að annað hvort verða forystumenn flokkanna, þingmennirnir, að sættast við aðra flokka og mynda ríkisstjórn. Kostirnir eru þriggja flokka ríkisstjórn VG og Sjálfstæðisflokksins með Framsóknarflokkinn, Viðreisn eða Bjarta framtíð sem þriðji flokkurinn.

Orðræðan undanfarin ár

Fjöldi Sjálfstæðismanna leggst hart gegn samstarfi Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Þeir telja að flokkurinn muni setja mikið niður með því að starfa með fólki sem hefur stundað róg um Sjálfstæðisflokkinn í langan tíma. Slíkt verður ekki verið fyrirgefið á samri stundu og tilboð um ráðherrastóla býðst og ekki heldur þó forsætisráðherrastóllinn sé innifalinn.

Í Sjálfstæðismönnum er mikil þykkja gagnvart VG og fleiri flokkum. Það er ómögulegt ástanda og bendir aðeins til þess eins að orðræðan í íslenskri pólitík er ónýt og eyðileggjandi fyrir þjóðina. 

Stjórnmál geta ekki gengið út á róg, ruddaskap og hálfsannleika en þannig er það nú hjá mörgum stjórnmálaflokkum, sérstaklega í Vinstri grænum. Er þá nokkur furða þó Sjálfstæðismenn hafni samstarfi við flokkinn.

Nýjar kosningar

Eina staðan í stjórnmálum er að kjósa aftur. Flokkarnir verða að leita til þjóðarinnar og láta hana leysa úr þeirri pattstöðu sem komin er. Líklegast er best að kjósa í febrúar og starfsstjórn Sjálfstæðiflokksins og Framsóknar starfi þangað til.


mbl.is Hvaða kosti hefur Katrín?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband