Sameining Bjartar framtíðar og Samfylkingar

Eina skynsama leiðin fyrir Samfylkinguna er að óska eftir sameiningu hennar og Bjartrar framtíðar, það er að höfuðbólið sameinist hjáleigunni.

Í sannleika sagt er ekki auðvelt fyrir þriggja manna flokk að sinna störfum sínum á Alþingi. Samfylkingin var stór flokkur og þar innan dyra er mikil þekking og reynsla í löggjafarvinnu og á stjórnkerfinu.

Samfylkingin getur ekki farið að dæmi Pírata og setið hjá í atkvæðagreiðslum með það að yfirskini að hafa ekki mannskap til að fylgjast með.

Björt framtíð er klofningur úr Samfylkingunni, báðir flokkar eru jafnaðarmannaflokkar og hægur leikur fyrir þessa flokka að sameinast. Þá yrði þingflokkur þeirra sjö manns og mun auðveldara fyrir báða aðila að sinna störfum sínum. Út á það ganga þingstörfin, að fólk leggi sig fram um að vinna landi og þjóð gagn. 

Óbreytt ástand er píratismi.


mbl.is Oddný hættir sem formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BF og Viðreisn óttast Sjálfstæðisflokkinn

Úrslit þingkosninganna voru gríðarleg vonbrigði fyrir vinstri flokkana og nú er bersýnilegt að enginn vill vinna undir forsæti Sjálfstæðisflokksins, allir óttast hann og stærð hans, jafnvel Viðreisn skelfur.

Hugmyndir voru uppi um að mynduð verði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Alls myndu 32 þingmenn mynda meirihlutann. Eins manns meirihluti er alltof lítill og gengur ekki af ástæðum sem öllum ætti að vera ljósar.

Vinstri grænir, Píratar og Samfylkingin vilja ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum. Raunar er það líka þannig með BF sem endurspeglast í andstöðu Óttars Proppé gegn því að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, getur ekki heldur hugsað sér að Bjarni Benediktsson verið forsætisráðherra.

Greinilegt er að nú er runnin upp tíð hrossakaupa og yfirskriftin er „Allt er betra en íhaldið“. Skítt með þjóðina.

Fjölmiðlar geta í gúrkutíð sinni fjallað endalaust um mögulegar stjórnarmyndanir. Eitt er þó greinilegt öllum sem á annað borð hafa einhverja ályktunarhæfni: Kollin er á pattstaða. Flestir stjórnmálaflokkar neita að koma út úr skápnum nema Sjálfstæðisflokkurinn sé í hæfilegri fjarlægð frá stjórnarráðinu.

Hægt er að mynda minnihlutaríkisstjórn, t.d. VG, BF og Viðreisnar með hlutleysi Pírata og Samfylkingarinnar. Þá þurfa stjórnmálamenn að gera það upp við sig hvort þeir geti treyst á stuðning Pírata.

Birgitta Jónsdóttir hefur reynst vera ólíkindatól sem jafnvel samstarfsmenn hennar í þremur flokkum átt verulega erfitt með samstarfið án þjónustu sálfræðings. Því til viðbótar eru nú eru komnir ellefu Píratar á þing, gjörsamlega óþekkt fólk, og enginn þeirra hefur reynslu eða þekkingu á stjórnsýslu eða þingstörfum.

Eflaust kann að vera að flokkarnir velji frekar að vinna með Sjálfstæðisflokknum en Pírötum því stuðningur þeirra kann að vera æði dýr, svona eins og frá segir af mafíunni í amrískum bíómyndum: Hún gerir mönnum tilboð sem ekki er hægt að hafna.


mbl.is Benedikt fái umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formaðurinn á að segja af sér formennsku og þingmennsku

Af hverju er Oddný ekki búin að axla ábyrgð og segja af sér? Formaður, sem missir 2/3 þingmanna sinna, á að segja af sér. Hún á líka að segja af sér þingmennsku og láta varamann taka sæti sitt. Hefur ekkert með Oddnýju að gera sem einstakling, heldur eingöngu að hún er formaður.

Þetta segir Marinó G. Njálsson á Facebook-síðu sinni. Mikið er til í þessu en fáir ræða stöðu Samfylkingarinnar, líklega vegna vorkunnar.

Einn skrifar athugasemd og nefnir að Samfylkingin gæti hreinlega sameinast Vinstri grænum.

Auðvitað er það möguleiki, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess sem Píratar hafa sagt að þriggja manna þingflokkur sé varla starfshæfur á þingi. Það kom berlega í ljós hjá þeim enda sátu þeir ýmist hjá eða voru sammála fráfarandi ríkisstjórn allt síðasta kjörtímabil.

Hins vegar er það jafnan svo að tal vinstri manna um ábyrgð á fyrst og fremst við andstæðinga þeirra, ekki þá sjálfa. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms sagði til dæmis ekki af sér eftir hrakfarir í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave.

Sagt er að Samfylkingin ætli að halda landsfund í lok vikunnar og hefur hún látið taka frá hornborð á Hótel Borg undir fundinn.


Gyllt lambaspörð eru og verða lambaspörð

Mikil óskapleg náfnykur er nú af stjórnarandstöðunni eftir úrslit kosninganna í gær. Samfylkingin er nánast komin í gröfina. Formaðurinn rís upp við dogg og gefur út þá hálfggrátandi út þá yfirlýsingu að ekki komi til greina að Samfylkingin fari í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Fullyrða má að það sé yfirlýsing aldarinnar. Fyrir hönd Sjálfstæðismanna um allt land leyfi ég mér að fullyrða að við munum reyna að fara að vilja formannsins.

Katrín Jakobsdóttir og fleiri eigendur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa verið með sambærilega yfirlýsingar um Sjálfstæðisflokkinn. í viðtali við mbl.is segir Katrín:

Mér finnst þetta vera ákall um fjöl­breytt­ari radd­ir; nú eru komn­ir sjö flokk­ar inn á þing þannig að við erum með fjöl­breytt­ara lit­róf en áður. Það væri mik­il­vægt að ný rík­is­stjórn end­ur­speglaði það með ein­hverj­um hætti og auðvitað störf okk­ar á þing­inu.

Skilur einhver þessi orð? Nei, auðvitað ekki. Þetta er bara innantómt tal, ætlað að réttlæta þá nöturlegu stöðu að ekkert verður úr Lækjarbrekkuríkisstjórn. Eflaust er hægt að gylla lambaspörð en þau verða hins vegar aldrei neitt annað en lambaspörð.

Píratar ætla ekki að vinna með Sjálfstæðisflokknum og það er gagnkvæmt.

Niðurstaðan er því einhvers konar nástaða. Standi flokkar við yfirlýsingar sínar eru möguleikar á ríkisstjórn einungis ef Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn, Björt framtíð og/eða Framsóknarflokkurinn vinni saman.

Minna má á að Theódóra Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, náði kjör sem þingmaður BF. Hún er fulltrúi í meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og BF í Kópavogi og það hefur gengið frábærlega vel.

Forðum var sagt að enginn borgarmúr væri svo hár að asni klyfjaður gulli kæmist ekki inn. Á sama hátt má telja að allar yfirlýsingar Vinstri grænna um að starfa ekki með Sjálfstæðisflokknum fjúki út í veður og vind ef tilboð kemur frá Bjarna. Jafnvel er líklegt að Samfylkingin rísi úr gröf sinni berist flokknum álíka tilboð.

 


mbl.is Útilokar eingöngu Pírata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin niðurlægð

Merkustu tíðindi kosninganna eru þau að Samfylkingin þurrkast nær út, fær 5,7% atkvæða. Fær þrjá menn kjörna, tapar sex þingmönnum. Formaður flokksins hangir inni ásamt tveimur mönnum, hvorugur þeirra er þekktur utan flokksins.

Þungavigtin

Árni Páll Árna­son, Helgi Hjörv­ar, Sig­ríður Ingi­björg Inga­dótt­ir, Val­gerður Bjarna­dótt­ir og Össur Skarp­héðins­son falla út af þingi. Snautlegur árangur eftir átján ára tilvist þessa flokks sem átti að sameina vinstri menn, vera hinn turninn á móti Sjálfstæðisflokknum. Þungavigtarfólkið hrasaði út af þingi, þetta sama fólk og var svo áberandi í ríkisstjórn Samfylkingar og VG.

Krataflokkur langt til vinstri

Hver er skýringin? Ekkert eitt getur skýrt allar þessar hörmungar flokksins. Þó verður að nefna að hann hvarf meðvitað frá því að vera vinstri sinnaður miðjuflokkur í að vera algjör vinstri flokkur. Hægri kratar fengu hæli hjá Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. Vinstri kratar sem ekki hugnaðist lengur að vera í Samfylkingunni fóru yfir í Vinstri græna og þar líður þeim ábyggilega betur. 

Innanbúðarerjur

Stríðsástand innan flokksins hefur veikt hann gríðarlega. Árni Páll Árnason náði sér aldrei eftir ódrengilega árás Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem ætlaði sér að verða formaður en tapaði með aðeins einu atkvæði. Sjálfsímynd manna getur laskast af minni ástæðum. Árni Páll bar ekki sitt barr eftir þetta. Nú eru þau bæði fallin af þingi, formaðurinn og tilræðismaðurinn.

Vinstri stjórn Jóhönnu

Vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms reyndist ekki vinsæl. Upphaflegt verk hennar var að hreinsa til eftir hrunið en ætlaði að gera svo miklu meira. Henni tókst í raun og veru ekkert.

Allt varð henni til trafala, ESB málið, Icesave, stjórnarskrármálið, dómar hæstaréttar um gjaldmiðlatengingu skulda, verðtryggingin, staða heimilanna og fleira og fleira. Meðan þessi ríkisstjórn sem kenndi sig við norræna velferð og skjaldborg um heimilin þóttist gera allt gerði hún ekki neitt. Á meðan sáu embættismenn um að stjórna landinu. Ríkisstjórnin var dauð af innanmeinum eftir tvö ár en eins og Brésnev forðum vissi hún ekki af því.

Niðurstaðan varð sú að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var rasskellt í kosningunum 2013. Samfylkingin hélt síðan áfram á sinni feigðarbraut meðan VG hafði vit á því að fela Steingrím og aðra forystumenn sína sem voru svo áberandi í vinstri stjórninni og sækja síðan nýtt fólk. Það dugði þeim.

Björt framtíð

Kratar eru þó ekki allir fallnir af þingi. Í Bjartri framtíð eru einn fjórir þingmenn. Hjáleigan er nú orðin stærri en höfuðbólið.

Sannast sagna er þetta snautlegur árangur Samfylkingarinnar. Hún er orðin minni en Alþýðuflokkurinn var nokkru sinni. Jafnaðarstefnan er greinilega í andaslitrunum. Kratar hafa fengið pólitískt hæli í öðrum flokkum og kunna hugsanlega að bíða eftir því að einhver hreinlyndur jafnaðarmaður vilji sameina vinstri menn enn einu sinni.


Umbótaríkisstjórn um hrossakaup

Katrín

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vill mynda umbótastjórn samkvæmt frétt á visir.is.

Alltaf er orðfærið skrýtið hjá þessum vinstri mönnum. Í mínu orðasafni er það tvímælalaust umbótastjórn sem afrekar þetta:

  • Kemur verðbólgunni niður í 1%
  • Eykur kaupmátt um 8,5%
  • Fátækt sú fjórða lægsta í OECD
  • Atvinnuleysi sé það 3% fjórða lægsta í OECD
  • Jafnrétti það mesta í heimi, 7. árið í röð
  • Aukið lánshæfi ríkisins á alþjóðavettvang
  • og fleira og fleira

Niðurstaðan er einfaldlega sú að orðfæri vinstri manna er skrýtið. Af markaðslegum ástæðum eru þeir hættir að kenna flokka sína við alþýðu og brátt hætta þeir að kenna þá við samstöðu eða samfylkingu. Þannig nafngiftir draga ekki að. 

Nú heitir það umbótastjórn þegar fjórir eða fimm flokkar eiga að koma saman til að mynda ríkisstjórn og freista þess að gera enn betur en núverandi ríkisstjórn hefur gert.

Flestir myndu kenna slíka ríkisstjórn við eitthvað annað. Mér dettur í hug hið gamla og góða íslenska orð hrossakaup.

 


Hinn eldklári stjórnmálafræðingur tjáir sig spaklega

Kosningar eru uppgripatíð fyrir stjórnmálafræðinga. Eftir að hafa kosið kom ég heim og viti menn, enn einn stjórnmálafræðingurinn var þá að tjá sig um allt og ekkert í aukafréttatíma Stöðvar2.

Hann var spurður álits á lélegri kjörsókn í morgun. Hinn spaki og alltsjáandi stjórnmálafræðingurinn svaraði þá með þeim orðum sem uppi munu verða meðan land byggist og verður framvegis vitnað í hann í skólum, vinnustöðvum, bókum og fréttaskýringaþáttum hér á landi og ábyggilega erlendis. Hann sagði:

Þetta gefur auðvitað þær vísbendingar að fólk er seinna á ferðinni ...

Manni verður hreinlega orðfall. Þvílíkt innsæi, þekking, menntun, speki og hnyttni sem viðstöðulaust kemur frá þessum gjörvilega fræðingi. Ég tók blauta húfuna ofan fyrir honum og hneigði mig fyrir framan flatskjáinn.

Sumir hefðu ábyggilega hagað sér eins og kjánar og sagst ekki geta svarað spurningu um hvað valdi lélegri kjörsókn. Aðrir hefðu bent á að verðrið sé leiðinglegt. Enn aðrir hefðu ábyggilega tjáð sig á allt annan hátt og gert sig að kjána. En ekki stjórnmálafræðingurinn, hann er flottastur. Honum er aldrei orðs vant. Þvílíkt rennerí orða.


Ósamstæðir og ósamvinnuþýðir vinstri flokkar

VinstriÞetta gæfulega fólk sem er á mynd úr frétt Morgunblaðsins hefur fundað undanfarna daga og ætlað að búa til ríkisstjórn fyrir kosningar. 

Þessir vinstri flokkar virðast ekki ætla að ná meirihluta í þetta skiptið. 

Samkomulagið í ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili var hörmulegt. Fjöldi þingmanna hrökklaðist áburt undan ofríki Steingríms og Jóhönnu.

Píratar eru óskrifað blað en ekki var samkomulagið gott í litla flokknum á þessu kjörtímabili. Sálfræðing þurfti til að ganga á milli þeirra.

Áður hét flokkurinn Borgarahreyfingin og þá gekk samstarfið ekki heldur vel. Þrír þingmenn rægðu þann fjórða svo illa að hann hrökklaðist helsærður úr flokknum Eftir það kallaðist flokkurinn Hreyfingin sem er líklega réttnefni. Sálfræðingar munu ábyggilega hafa nóg að gera hjá Pírötum á næsta kjörtímabili.

Vilji svo óheppilega til að þessir fjórir flokkar nái að mynda ríkisstjórn með meirihlutafylgi á Alþingi verður fróðlegt að sjá hvernig þeim gengur að vinna saman.

Varla vilja kjósendur taka áhættuna á því að fá þessa fjóra flokka í eina ríkisstjórn til þess eins að gera tilraunir með hagsmuni þjóðarinnar.


Vörumst Viðreisn, Iceave-hákarlinn

IcesaveStundum grípa menn til hræðsluáróðurs og þá helst þeir sem hafa vondan málstað að verja. Fyrir fimm árum var sett nýtt met í lágkúru í þeim efnum þegar Icesave hákarlinn var kynntur til sögunnar. Á bak við hann stóð Áfram hópurinn sem auglýsti grimmt og eyddi milljónum og aftur milljónum í að berjast gegn málstað Íslands.

Þetta segir Haraldur Hansson, á bloggi sínu. Hann varar fólk við Viðreisn, fólkinu sem barðist gegn málstað Íslands. 

Og Haraldur segir og vísar til hákarlsins á myndinni:

Að Icesave hákarlinum stóðu m.a. Benedikt Jóhannesson, Hanna Katrín Friðriksson og Dóra Sif Tynes, sem nú eru öll í framboði fyrir hákarlinn Viðreisn.

Þeim þótti sanngjarnt verð fyrir farmiða til Brussel að dæma þjóðina til fátæktar í nokkrar áratugi. Þeirra stóri draumur er enn að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.

Gerum eins og Haraldur, vörumst Viðreisn. Fólkið sem ætlaði okkur að kyngja Icesave samningunum. Benedikt og fleiri reyndust hafa rangt fyrir sér. Íslendingar greiddu ekki skuldir vanskilamanna og þeirri ákvörðum tókst ekki að hnekkja fyrir Evrópudómstólnum.

Þjóðin rasskellti flokkana Icesave flokkana í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og einum þingkosningum. Þannig virðist það ætla að verða núna. Viðreisn, Samfylkingin og Björt framtíð eru með svipað fylgi. Allir þessir flokkar eru á mörkum þess að ná kjöri í kosningunum á morgun.

Þjóðin vill ekki ganga í Evrópusambandið. Haraldur Hansson orðar þetta á einstaklega spaugilegan hátt:

Það er eitthvað svo táknrænt fyrir vantrú Viðreisnar á þjóðinni að velja listabókstafinn C, sem er ekki notaður í íslensku.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur

Sjálfstæðisflokkurinn verður sigurvegari kosninganna á morgunn. Skoðanakönnunum Gallup sem Ríkisútvarpið kynnti í dag, og könnun 365 miðla, virðast bera nokkuð vel saman.

Samkvæmt Gallup verður niðurstaðan þessi (niðurstöður 365 miðla innan sviga):

  1. Sjálfstæðisflokkurinn 27% (27,3%)
  2. Píratar 17,9% (18,4%)
  3. Vinstri græn 16,5% (16,4%)
  4. Framsóknarflokkurinn 9,3% (9,9%)
  5. Viðreisn 8,8% (10,5%)
  6. Samfylkingin 7,4% (5,7%)
  7. Björt Framtíð 6,8% (6,3%)

Greinilegt er að Píratar hirða fylgið af Samfylkingunni og jafnvel Bjartri framtíð. 

Píratar hafa aftur á móti ekki geta haldið fylginu sem fyrri skoðanakannanir virtust sýna að þeir hefðu frá Vinstri grænum.

Merkustu tíðindin eru án efa þau að kratar í Samfylkingunni og Bjartri framtíð hafa í sautján ár talað um breytingar á íslensku þjóðfélagi. Þær breytingar hafa einkum orðið þær að Alþýðuflokkurinn er ekki lengur til og Samfylkingin og Björt framtíð eru við það að falla út af þingi.

Þjóðin er greinilega ekki sammála þessum tveimur flokkum sem virðast vera að deyja innan frá Samfylkingin færði sig of langt til vinstri og munurinn á henni og Vinstri grænum var orðinn heldur lítill. 

Kratar hafa líklega fengið nóg af innanbúðarvandræðum Samfylkingarinnar og láta sig hverfa, þegjandi og hljóðalaust.

Vinstri kratar eru aftur komnir til Vinstri grænna þar sem þeir eiga heima. Miðjukratar og hægri kratar eru sumir hverjir komnir yfir í Viðreisn og bíða það upprisu ESB, Evru og annarra stefnumála krata.

Og ... fjölmargir hægri kratar eru komnir yfir í Sjálfstæðisflokkinn sem og fjöldi miðjumanna úr Framsóknarflokknum. Sjálfstæðisflokknum er greinilega treyst. 

Spá mín er að Sjálfstæðisflokkurinn fari yfir 30% í kosningunum á morgun. 

 

 


Glæstur ferill Illuga í stjórnmálum

IllugiÞetta þarfa og tímabæra framtak mun þegar hjá líður standa sem einn af merkustu bautasteinum ráðherratíðar Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, sem kveður nú stjórnmálin eftir glæstan feril.

Hann hefur að auki m.a. beitt sér fyrir auknum framlögum til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, stofnun nýs Hljóðritasjóðs, endurreisn Innheimtumiðstöðvar gjalda af höfundarvörðu efni, stutt myndarlega við Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, þ.m.t. Útflutningsjóð íslenskrar tónlistar, tryggt Íslensku óperunni rekstrarframlög til 5 ára og almennt reynst stétt tónlistarfólks og tónlistarunnenda afar öflugur haukur í horni.

Það hefur lengi verið í tísku hjá stjórnarandstöðunni að úthúða Illuga Gunnarssyni, menntamálaráðherra, fyrir embættisverk hans. Fáir menntamálaráðherrar hafa þó reynst betur og hefur Illugi. 

Ofangreind tilvitnun er úr grein í Fréttablaðinu í dag og er eftir Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmann, og Víking Heiðar Ólafsson, píanóleikara. Sá fyrrnefndi hefur hingað til ekki verið hallur undir Sjálfstæðisflokkinn en hikar þó ekki við að hæla Illuga. Í tilvitnuninni fagna höfundar þessum áfanga sem þeir nefna bautastein.

Það eru því mikil gleðitíðindi að þetta skuli nú hafa gengið farsællega eftir og að frá og með næsta skólaári standi tónlistarnemendum hérlendis til boða ný námsbraut sem gerir þeim kleift að ljúka framhaldsskólanámi í einum sameinuðum skóla með tónlist sem aðalfag.

Ekki nóg með það, báðir þessir ágætu tónlistamenn taka svo djúpt í árinni að segja feril Illuga í stjórnmálum sé glæstur ...

Heiður þeim sem heiður ber.

Í Morgunblaði dagsins er meðfylgjandi mynd og með henni segir meðal annars: 

Helstu forystumenn í samtökum tónlistarmanna hér á landi héldu kveðjuhóf í Hannesarholti í gær fyrir Illuga Gunnarsson, sem lætur af störfum sem mennta- og menningarmálaráðherra og hverfur af þingi. Að sögn Jakobs Frímanns Magnússonar var þetta gert til að þakka Illuga fyrir framlag hans til tónlistarinnar á liðnu kjörtímabili.

Illugi er hæglátur og kurteis maður. Hann fer ekki með himinskautum í starfi sínu sem ráðherra eða þingmaður. Einkenni hans eru að auki að hann er málefnalegur og sanngjarn. Í raun eru má líta á þessa kosti sem galla því þegar ráðist er á hann með offorsi svarar hann aldrei í sama máta. Hann rökræðir og hættir svo þegar þeir sem reyna að narta í hæla hans reynast ekki orðanna virði.

Sjálfstæðismenn sjá eftir góðum dreng úr stjórnmálunum og greinilegt er að fleiri sakna hans.


38 milljarða kr aukning til heilbrigðismála

heilbrigðismálPíratar hafa haldið því fram að ríkisstjórnin hafi dregið úr framlögum til heilbrigðismála. Jafnvel Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur komið fram í fjölmiðlum með þetta.

Gott og vel. Við getum ábyggilega gert betur. Hins vegar  hafa útgjöld til heilbrigðismála aldrei verið meiri.

ÓLi Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir á Facebook síðu sinni:

Samkvæmt fjárlögum þessa árs verða útgjöldin 38,5 milljörðum hærri en vinstri stjórnin ætlaði samkvæmt fjárlögum 2013. Hlutfallslega er mesta aukningin til sjúkrahúsa eða liðlega 40%, eins og sést á meðfylgjandi súluriti.

Á línuriti sem einnig fylgir (og fengið að láni frá SA) má sjá að aukning útgjalda til heilbrigðismála hefur verið mun meiri en aukning heildarútgjalda ríkissjóðs. Þetta er forgangsröðun.

Þeir sem hafa ætlað sér að kjósa Pírata eða aðra stjórnarandstöðuflokka vegna stefnu þeirra í heilbrigðismálum þurfa að endurskoða ákvörðun sína. Það er einfaldlega ekki nóg að trúa því sem hljómar sennilegast.


Hjáseta Pírata í atkvæðagreiðslum á þingi er furðuleg

Píratar bHvað eru Píratar að gera á þingi ef þeir greiða ekki atkvæði í 33% atkvæðagreiðslna? 

Á þinginu 2014 til 15 greiddi Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata ekki atkvæði í 623 skipti af þeim 968 atkvæðagreiðslum sem hann átti að vera viðstaddur. Þar að auki var hann fjarverandi í 174 atkvæðagreiðslum.

Slóðin eftir manninn er þessi:

  • Já atkvæði: 138, 17%
  • Nei-atkvæði: 33, 4%
  • Greiðir ekki: 623, 64%

Vandséð er hvort Jón Þór Ólafsson eigi eitthvað erindi inn á þing en hann býður sig engu að síður fram.

Björn Leví Gunnarsson býður sig einni fram til þings fyrir Pírata. Hann kom inn sem varamaður á síðasta þingi og greiddi atkvæði á þennan hátt í aðeins 29 atkvæðagreiðslum:

  • Já atkvæði: 4, 14%
  • Nei-atkvæði: 1, 3%
  • Greiðir ekki: 24, 83%

Maðurinn er svo illa undirbúinn að hann greiðir ekki atkvæði í 24 af 29 atkvæðagreiðslum. Flest bendir til að maðurinn hafi verið sofandi í þingsalnum. Á svona maður eitthvað erindi á Alþingi Íslendinga?

Í flokki Pírata eru þrír þingmenn. Ásta Guðrún Helgadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson. Þau greiddu atkvæði á síðasta þingi þennan hátt (að meðaltali):

  • Já atkvæði: 658, 61%
  • Nei-atkvæði: 38, 4%
  • Greiðir ekki: 338, 33%

Þetta er ótrúleg niðurstaða og bendir til þess að Píratar sinni einfaldlega ekki vinnunni sinni eins og þeim er ætlað að gera. Nema auðvitað að þeir geti ekki haldið sér vakandi. 

Miðað við þessi vinnubrögð er afar óskynsamlegt að kjósa Pírata.

 

 


Stjórnarandstaðan í 97% tilvika sammála meirihlutanum

StjórnarandstaðabbÍ öllum atkvæðagreiðslum á Alþingi var stjórnarandstaðan sammála stjórnarsinnum í 69% tilvika. Aðeins í 3% tilvika var hún á móti.

Þetta kemur í ljós þegar opinberar upplýsingar frá Alþingi um afstöðu þingmanna eru teknar saman.

Fátt bendir til þess að stjórnarandstaðan sé hörð og óvægin við ríkisstjórnarmeirihlutann.

Nei, hún er lin. Allt annað er bara í nösunum á henni, hún er bara að sýnast. Í stað þess að vera á móti situr hún hjá í 28% tilvika. Þar skilur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Með nokkrum sanni má segja að stjórnarandstaðan sé ekki á móti stjórnarmeirihlutanum í 97% tilvika. 

Stjórnarandstaðan tekur við frumvörpum og ályktunum frá ríkisstjórninni og samþykkir þau, ýmist án nokkurra mótmæla.

StjónrarmeirihlutibbÍ þessum 3% nei-atkvæða er forskrifað leikrit sem eiga að sýna hversu hörð hún er. Þá er hrópað, stappað, svívirðingum ausið og jafnvel er stundað málþóf. Og almenningur heldur að stjórnarandstaðan sé hrikalega töff á þinginu þegar hún er í raun og vera að missa sig út af þessum 3% nei-atkvæða.

Þetta er nú ástæðan fyrir því hversu stjórnarandstæðan nær svona vel saman. Það er nefnilega svo gaman í leikritinu, málþófinu og öllu ómálefnalega kjaftæðinu á Alþingi. 

Til viðmiðunar er ágætt að skoða hvernig stjórnarliðið greiðir atkvæði. Hjá þeim er þetta nokkuð klippt og skorið. Nei-atkvæðin eru þó mun tíðari. Líklega gerist það þegar stjórnarandstaðan leggur fram breytingartillögur og þær yfirleitt felldar.

Tekið skal fram að myndirnar byggja á meðaltali greiddra atkvæða, fjarvera og fjarvistir eru ekki reiknaðar mað.

Alþingi hefur á yfirstandandi kjörtímabili safnað  saman upplýsingum um atkvæðagreiðslur allra þingmanna, hvernig þeir greiða atkvæði í einstökum málum og fleira. Ofangreindar upplýsingar eru byggðar á þessum gögnum.

 


Loksins, loksins - formenn VG og Samfylkingar viðurkenna mistök

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu á Alþingi í júní 2009 að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ástæðan var einföld. Ríkistjórn sem kennd var við norræna velferð og skjaldborg ætlaði að sækja um aðild að Evrópusambandinu með einfaldri þingsályktunartillögu - að þjóðinni forspurðri.

Oddný G. Harðardóttir og aðrir félagar hennar í skjaldborgarríkisstjórninni hlógu sig máttlausa yfir tillögu Sjálfstæðisflokksins. Fannst hún yfirmáta heimskuleg enda ætluðu þessi sami meirihluta að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu þegar „samningurinn“ um inngönguna væri ljós. Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur ... ekki nema það þó, stundi þáverandi ríkisstjórnarmeirihluti upp á milli hláturkviðanna. Samt vissu þau að enginn samningur væri í boði hjá ESB.

Ætla mætti að þeim væri ekki beinlínis hlátur í huga þessu fólki sem neitaði að spyrja þjóðina. Allt bendir hins vegar til að það telji þessi mistök sín harla léttvæg og skipti litlu. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, viðurkenndi flissandi í útvarpsviðtali að það hafi verið mistök að fara af stað með aðildarumsókn án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Staðan er einfaldlega þannig á Íslandi í dag að við munum ekki fara aftur af stað án þess að spyrja þjóðina. Þannig er bara staðan núna. Þess vegna lofum við því að við munum fara þá leið.

Þetta segir núna formaður Samfylkingarinnar, Oddný G. Harðardóttir í viðtali við mbl.is.

Loksins tókst að toga þetta út úr báðum flokksformönnunum sem með hroka og yfirlæti höfnuðu á sínum tíma tillögu Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Afsakið, en er þessum þessum tveimur flokkum yfirleitt treystandi til að koma að stjórn landsins. Báðir guma af lýðræðisást sinni, gáfulegri stefnuskrá og vilja til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna í stærri málum.

Vinstri grænir samþykktu aðild að ESB þrátt fyrir að hafa hið gagnstæða í stefnuskrá sinni. Þeir seldu sig til að komast í ráðherrastóla.

Er eitthvað fyrirlitlegra en að svíkja stefnu sína og flokksmenn?


mbl.is Ekki aftur af stað án þjóðaratkvæðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær staða Íslands samkvæmt 70 mælikvörðum

Katrín JbEr hægt að trúa Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, þegar hún segir að allt sé í kalda koli á Íslandi?

Eru þeir trúverðugir þingmenn stjórnarandstöðunnar, það er vinstri flokkanna og Viðreisnar, sem halda þessu sama fram?

Nei, þessir stjórnmálamenn skrökva. Þeir vita að séu ósannindi nógu oft endurtekin eru margir svo barnalegir að trúa þeim, sérstaklega ef þeir sem halda þessu fram eru svo óskaplega vingjarnleg og brosmild.

Hvernig sem litið er á málin þá er staðan glæsileg eftir þriggja ára ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þar með er ekki sagt að við getum ekki gert betur, sinnt eldri borgurum, stutt við bakið á ungu fólki við húsnæðiskaup og svo framvegis.

Birgittab

Grundvallaratriðið er hins vegar þetta: Ríkissjóður hefur ekki nægar tekjur til að gera allt fyrir alla, hvað þá að greiða svokölluð „borgaralaun“ eins og Píratar halda fram. Raunar eitt það vitlausasta af mögum vitleysum sem komið hafa úr þeim herbúðum.

Lítum hins vegar á hvernig hin raunverulega staða er hér á landi.

Davíð Þorláksson, lögfræðingur, lagðist í rannsóknir á fullyrðingum vinstri manna og segir þetta á Facebook síðu sinni:

Flokkarnir sem bjóða sig fram til Alþingis, fyrir utan stjórnarflokkana, eiga það sameiginlegt að þeir telja stöðu mála skelfilega og þeir boða miklar breytingar. Maður hlýtur því að spyrja sig hvort þörf sé á breyttri stefnu eða hvort við séum á réttri leið. Skoðum nokkra mælikvarða sem ættu að gefa glögga mynd af lífsgæðum okkar. Bæði í samanburði við önnur lönd og einnig hvernig þeir hafa þróast hér síðastliðin ár. 

Lífsgæði

    • Jöfnuður
      • Gini stuðullinn er 0,25. Þriðji mesti jöfnuður í OECD, var 0,3 árið 2008 (lægri stuðull þýðir meiri jöfnuður).
    • Hamingja
      • 9,6 stig (af 10 skv. OECD Better Life Index), önnur hæsta í OECD.
    • Lífsfylling
      • 7,7 (á skálanum 0-10), þriðja hæsta í OECD, Meðaltalið er 6,8.
    • Fólksflutningar
      • Á síðustu þremur árum hafa 4.162 fleiri flutt til landsins en frá því. Árin þrjú þar á undan fluttu 3.857 fleiri frá landinu en til þess. Sveiflan er upp á 8.019.
    • Velferð og gæði samfélagsinnviða
      • 88,45 SPI stig, tíunda hæsta í heimi.
    • Eymdarvísitala
      • 4 stig, sú lægsta síðan mælingar hófust.
    • Gæði stuðningsnets
      • 8,8 stig (af 10 skv. OECD Better Life Index), önnur hæsta í OECD.
    • Öryggi
      • 8,8 stig (af 10 skv. OECD Better Life Index), tíunda hæsta í OECD.
    • Öryggisupplifun
      • 78%, 12. hæsta í OECD, meðaltalið er 69%.
    • Menntunarstig
      • 5,9 (á skalanum 1-7), ellefta hæsta í heimi, Singapúr er hæst með 6,3.
    • Ljósleiðaranotkun
      • 25,9%, 8. hæsta í OECD, meðaltalið er 17,9%.
    • Notkun samfélagsmiðla
      • 84%, hæsta í OECD.  

Fjármál heimilaSkuldir fyrirt og heim

    • Kaupmáttur
      • 137,2 stig, aldrei verið hærri, hækkaði um 8,5% sl. 12 mánuði.
    • Ráðstöfunartekjur
      • Jukust um 9,6% á mann 2014 -2015.
    • Fátækt
      • 4,6%, sú lægsta í OECD, Meðaltalið er 11,4%.
    • Fjárhagsaðstoð
      • Árið 2015 fækkaði þiggjendum um 9,7%.
    • Vanskil hjá Íbúðalánasjóði
      • 4,8% af lánasafni en var 8,6% ári áður.
    • Eigin húsnæði
      • 78% búa í eign húsnæði, hæsta hlutfall á Norðurlöndunum. Í Svíþjóð eru það 39%.
    • Húsnæðisverð
      • Hækkað um 37,2% á kjörtímabilinu á höfuðborgarsvæðinu.
    • Eiginfjárstaða
      • 76% með jákvætt eigið fé, jókst um 6,9% frá 2014 til 2015.
    • Skuldir
      • 156% af ráðstöfunartekjum, næst lægstu á Norðurlöndunum.  

Eldri borgarar

    • Fátækt
      • 3%, 4. lægsta í OECD, meðatalið er 12,6%.
    • Atvinnustig eldra fólks
      • 82%, lang hæst í OECD, meðaltalið er 44%.
    • Netnotkun
      • 89%, hæsta í OECD, meðaltalið er 49%.  

Ungt fólkAtvinnul ungra

    • Fátækt
      • 7%, 2. lægsta í OECD, meðaltalið er 14%.
    • Atvinnuleysi
      • Var 8% þegar samanburður var gerður innan OECD, sú fjórða lægsta í heimi, meðaltal OECD er 14%.
    • Fyrstu kaup
      • Voru 23% af fjölda kaupsamninga árið 2016, 22% árið 2015, 18% árið 2014 og 17% árið 2013, samanborið við 14% árið 2012, 12% árið 2011, 9% árið 2010, 8% árið 2009 og 9% árið 2008.
    • Búa enn í foreldrahúsumHúsnkostn
      • 52%, sjöunda lægsta í OECD, meðaltalið er 59%, á Ítalíu er það 81%.
    • Óvirkni
      • 6,2%, lægsta í OECD, meðaltalið er 14,6%.
    • Áhugi á stjórnmálum
      • 81%, ellefta hæsta á OECD, meðaltalið er 73%.
    • Stærðfræðiótti
      • 45%, fjórða lægsti í heimi, meðaltal OECD er 59%.
    • Aðgangur 6 ára nema að neti
      • 47%, sjöunda hæsta í OECD, meðaltalið er 32%.
    • Aðgangur 10 ára nema að neti
      • 75,5%, sjöunda hæsta í OECD, meðaltalið er 56,7%.  

Jafnrétti

    • Jafnrétti kynja
      • Mest í heimi 7 ár í röð skv. Globa Gender Gap Index World Economic Forum.
    • Launamunur
      • Munur á meðallaunum karla og kvenna er lægri en í Svíþjóð og lægri en OECD meðatalið sem er 15,6%.
    • Starfsumhverfi kvenna
      • 82 stig (af 100 í Economist Glass-Ceiling Index), það hæsta í heimi, meðaltal OECD er 58.
    • Háskólamenntun kvenna
      • 47% ungra kvenna hefur lokið háskólamenntun, sem er yfir meðaltalið OECD, samanborið við 34% karla.
    • Konur á þingi
      • 41,3%, þriðja hæsta í OECD, meðaltalið er 27,8%.
    • Kvennstjórnarmenn
      • 44%, hæsta í OECD, meðatalið er 20%.
    • Réttur til feðraorlofs
      • 13 vikur, lengsta á Norðurlöndunum, sjöunda lengsta í OECD, meðaltalið er 8 vikur.    

Ríkið og efnahagsástandVerðbólga

    • Verðbólga
      • Hefur verið 1,8% síðustu 12 mánuði, var 1,6% árið 2015 og 2% árið 2014, samanborið við 3,9% árið 2013, 5,2% árið 2012, 4% árið 2011, 5,4% árið 2010, 12% árið 2009 og 12,4% árið 2008.
    • Hagvöxtur
      • Var 4,2% árið 2015, 1,9% árið 2014 og 4,4% árið 2013, samanborið við 1,2% árið 2012, 2,0% árið 2011, -3,6% árið 2010, -7,9% árið 2009 og 1,5% árið 2008.
    • Krónan
      • Styrkst um 19,9% á kjörtímabilinu.
    • Úrvalsvísitalan 
      • Hækkað um 49,67% á kjörtímabilinu.
    • Lánshæfi ríkisins 
      • Farið úr BAA3 í A3, upp um 3 stig, hjá Moody‘s á kjörtímabilinu.
    • Viðskiptakjaraáhrif
      • 6% 2014-2015, hæsta í OECD, í Noregi voru þau minna en -6%.
    • Spilling
      • 79 stig (af 100 skv. Corruption Perception Index 2015), sú þrettánda minnsta í heimi.
    • Tiltrú á ríkinuSkuldir
      • 46%, sautjánda hæsta í heimi, meðaltal OECD er 42%.
    • Traust á dómstólum
      • 63%, þrettánda hæsta í OECD, meðaltalið er 54%.
    • Ferðamenn
      • 19,5% fjölgun að meðaltali 2010-2014, sú hæsta í OECD, Kórea í öðru sæti með 12,7%.  

Vinnumarkaður

    • Atvinnuleysi á kjörtímabilinu
      • Hefur minnkað um 54,31% á kjörtímabilinu, 7.836 voru atvinnulausir í upphafi kjörtímabilsins, en nú eru þeir 3.580.
    • Atvinnuleysi í samanburði við önnur löndAtvinnuleysi
      • Var 4,1% þegar samanburður var gerður við önnur lönd árið 2015, fjórða minnsta í heimi, meðaltal OECD var 6,7%.
    • Fjöldi starfa
      • Voru 174.500 í upphafi kjörtímabilsins en eru nú 199.200, það er fjölgun um 24.700, eða 14,2%.
    • Langtímaatvinnuleysi
      • 22,2% atvinnulausra, ellefta lægsta í heimi, meðaltal ESB er 48,2%.
    • Landsframleiðsla á mann
      • 5. hæsta í heimi, árið 2009 var hún sú fjórtánda hæsta.
    • Atvinnustig
      • 82%, hæsta í OECD, 66% er meðaltalið.  

Heilbrigði

    • Framlög til heilbrigðismála
      • Aukist um 27% á kjörtímabilinu, þar af hafa framlög til sjúkrahúsa aukist um 34%.
    • Heilsa
      • 85,5 stig (af 100 skv. S.þ.), það hæsta í heimi, meðaltalið er 59,3.
    • Heilsa
      • 8,6 stig (af 10 skv. OECD Better Life Index), 4. hæsta í OECD.
    • Fjöldi lækna
      • 3,6 á hverja 1.000 íbúa, 12. hæsta í OECD, meðaltalið er 3,3.
    • Fjöldi hjúkrunarfræðinga
      • 15,5 á hverja 1.000 íbúa, 4. hæsta í OECD, meðaltalið er 9,1.
    • Læknisheimsóknir
      • 6,0 á mann á ári, 16. lægsta í OECD, meðaltalið er 6,6.
    • Reykingar
      • 14% reykja daglega, 6. lægsta hlutfallið í OECD, meðaltalið er 19%.
    • Keisaraskurðir
      • 15,2%, lægsta í OECD, meðaltalið er 27,6%.
    • Lífslíkur eftir brjóstakrabbamein
      • 86,7%, 9. hæstu í OECD, meðaltalið er 84,9%.Innlagnir sykursjúkra: 60 á hverja 100.000 íbúa, 4. lægsta í OECD, meðaltalið er 150.

Umhverfismál

    • Umhverfisvernd
      • 2. umhverfisvænasta þjóð heims skv. EPI staðli.
    • Umhverfisgæði
      • 9,7 stig (af 10 skv. OECD Better Life Index), 2. hæsta í OECD.
    • Loftmengun
      • 20% verða fyrir skaðlegri loftmengun, 6. lægsta í OECD, í helmingi OECD ríkja er hlutfallið hærra en 90%.
    • Notkun endurnýjanlegra orkugjafa
      • 89%, hæsta í OECD, meðaltalið er 9%.
    • Rusl á íbúa
      • 350 kg, 5. lægsta í OECD, meðaltalið er 510 kg.
    • Endurvinnsla
      • 45% sorps endurunnið, 2. hæsta á Norðurlöndunum, 10. hæsta í OECD.  

Það er rétt að minna á að þau lönd heims þar sem eru mest lífsgæði eru í OECD. Að vera í hópi þeirra bestu þar þýðir yfirleitt að landið er meðal þeirra bestu í heimi.  

Eitt af ofangreindu segir kannski ekki mikið. En allt ofangreint segir okkur hátt og skýrt að við erum á réttri leið.

Væri því ekki rétt að láta af svartagallsrausinu, líta bjartsýn fram á veg og halda áfram að gera Ísland enn betra.  

Heimildir: OECD, Economist, Seðlabankinn, Hagstofan o.fl.

 

 


Fjölflokkastjórn og lýðræðisleg hrossakaup

Fjölflokkastjórn gæti verið áhugaverð fyrir lýðræðið í landinu þar sem fleiri kæmu að ákvarðanatöku og stefnumótun. Verkefnin þyrftu að vera skýr fyrirfram. Síðan gætu flokkarnir búið til samstarfsnefndir allra þessara flokka um verkefni ráðuneytanna sem væru ráðherrum til stuðnings og tryggðu að málin kæmu fram í góðri sátt.

Þessi skoðun er svo ákaflega sannfærandi en við nánari umhugsun er hún arfavitlaus enda höfð eftir Katrínu Júlíusdóttur, fráfarandi þingmanni Samfylkingarinnar. 

Aumingjans konan sér að flokkurinn hennar er við það að þurrkast út af þingi. Þess vegna fer hún í fótspor Össurar Skarphéðinssonar, fyrrum utanríkisráðherra og núverandi þingmanns (sem mun líklega falla af þingi eftir viku) en hann gengur á eftir Pírötum með grasið í skónum. Og Katrín vegsamar margra flokka ríkisstjórn.

Samkvæmt skoðanakönnunum virðist Samfylkingin þurrkast út af þingi eða verða smáflokkur hangi hún inni. Sem smáflokkur kemste hún ekki í ríkisstjórn nema í „fjöflokkastjórn“.

Þá þurfa Píratar að fá minnst 15 þingmenn, Vinsteri grænir minnst tíu þingmenn, Björt framtíð tvo, Samfylkingin tvo og krataflokkurinn Viðreisn hugsanlega fjóra eða fimm þingmenn.

Verði það getur lýðræðið í landinu tekið til kostanna og þá skemmta þingmenn sér við „ákvarðanatöku“ (orð sem er rassbaga) og stefnumótun, eins og Katrín Júlíusdóttir orðar það.

Haldið þið, lesendur góðir, að Samfylkingin myndi velja „fjölflokkastjórn“ ef hún fengi tuttugu þingmenn og Sjálfstæðisflokkurinn tuttugu og fimm? Nei, Kata myndi hlaupa í fangið á íhaldinu áður en talningu atkvæða er lokið.

Staðreyndin er nebbbbnilega sú að fjölflokkastjórnir eru vondar, þungar í vöfum, þar gerast mestu hrossakaupin.

Hvers vegna hefði til dæmis borgarfulltrúi Pírata tekið þátt í borgarstjórnarmeirihlutanum nema vegna þess að hann fékk dúsu. Veit einhver hver hún er?


Lífsgæði Íslendinga hafa aldrei verið betri, samt er öðru logið

Kosningar verða eftir viku og staða mála hefur aldrei í sögu lýðveldisins verið betri. Aldrei ... 

Stjórnarandstæðan og margir fjölmiðlar lýsa samt stöðu landsins eins og allt sé í kalda koli og lóðbeint á leiðinni til helv...

Þetta er ósatt. Hátt í eitthundrað staðreyndir segja allt annað. Hér er hluti þeirra:

  • Verbólga er er aðeins 1,8%

Ekki er langt síðan aðalkrafa ASÍ var lækkun verðbólgu. Helstu ávirðingar á ríkisstjórnir undanfarna áratuga tengjast of hárri verðbólgu. Nú er hún ekki nefnd.

  • Kaupmáttur launa

Hann hefur hækkað um 8,5% síðustu tólf mánuði sem þýðir einfaldlega að við getum keypt meira fyrir hverja krónu.

ASÍ og stjórnarandstæðan nefnir þetta ekki.

  • Ríkissjóður vel rekinn

Afgangur í ríkisfjármálum er 388 milljarðar króna. Samanlagður halli ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna var -346 milljarðar króna.

Stjórnarandstaðan reynir að þegja þetta í hel.

  • Fátækt

Sú lægsta í OECD, 4,6%. Meðaltalið þar er 11,4%. Auðvitað getum við gert miklu betur og eigum að gera það.

  • Menntunarstig

Ellefta sæti í heiminum, 4,9, Singapúr er hæst með 6,3. Ósanngjörn stjórnarandstaðan gerir lítið úr ágætu menntakerfi.

  • Jafnrétti kynja

Mest í heimi í sjö ár í röð. Við getum hins vegar gert miklu betur.

  • Spilling

Sú 13. minnsta í heimi og auðvitað eigum við að gera mikið betur.

  • Landsframleiðsla á mann

Sú 5. hæsta í heimi, árið 2009 var hún sú 14. hæsta. Þessi árangur næst ekki með því að ofurskattleggja einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki.

  • Umhverfisvernd

Önnur umhverfisvænsta þjóð heims skv. EPI staðli. Við erum á réttri leið, nýjar kynslóðir hafa önnur viðmið en þær eldri og þess vegna getum við gert miklu betur.

Við getum gert betur

Þetta sýnir svo ekki sé um villst að þjóðin er á réttri leið. Við vitum samt að hægt er að gera miklu betur og við viljum gera það.

Með því að gera lítið úr þeim árangri sem hefur nást er um leið gert lítið úr almenningi, okkur og starfi okkar.

Froðusnakkið 

Við greiðum skatta til samfélagsins. Við erum fagleg í störfum okkar, hvort sem við vinnum sem iðnaðarfólk, verkafólk, í heilbrigðisþjónustu, ferðaþjónustu, fiskveiðum, iðnaði svo dæmi séu tekin.

Við eigum ekki að láta froðusnakka í stjórnmálum komast upp með að skrökva að okkur, almenningi enda ljóst að staða samfélagsins er góð. Við eigum stóran þátt í þeim árangri sem hefur náðst.

Ég ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur í kosningunum eftir viku. Læt ekki Pírata, Vinstri græna og gamla eða nýja krata segja mér annað.

Tilraunastarf með ríkissjóð

Staðreyndin er einföld. Við getum ekki samþykkt einhverja tilraunastarfsemi með þann árangur sem þegar hefur náðst. Því miður er hætta á að það geti gerst því stjórnarandstaðan gaggar um þessar mundir: Nú getum við ... (af því að staðan er svona góð).

Munum hvernig ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fór með okkur. Munum líka að Pírötum er ekki treystandi. Þriggja mann þingflokkur þeirra þurfti sálfræðing til að laga friðinn, hvernig verður það ef þeim fjölgar.

Sálfræðingar til hjálpar

Munum líka að annar sálfræðingur þurfti að taka borgarstjórnarmeirihlutann í tíma, Píratar, Samfylkingin, Vinstri grænir og Björt framtíð. 

Getur nokkur ímyndað sér hvernig ástandið verður ef þessir flokkar komast í meirihluta í landsmálunum?

 


Er almenningi ekki treystandi?

Í verslunum hér á landi má einnig finna klaka sem fluttir eru inn frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Innflutti klakinn er ódýrari en sá sem er framleiddur hér og getur munað um 40%.

Ofangreint er úr tilfinningaþrunginni frétt á Ríkisútvarpinu þar sem agnúast út í innflutning á ís. Fréttin var langt í frá hlutlaus, framsetninginn og tónninn var að hneykslast og maður fékk það á tilfinninguna að þetta væri aldeilis ómögulegt. Svona er nú oft innrætining.

Hins vegar er eitt að flytja inn klaka til Íslands og bjóða til sölu, annað er að geta selt þennan klaka.

Víkur nú sögunni annað.

Sama er nú í ráði hér sam­kvæmt ráða­gerð Sjálf­stæð­is­flokks­ins sem er lík­ari flokki Pútíns , Rúss­neskri Ein­ingu, en allir aðrir stjórn­mála­flokkar á Vest­ur­lönd­um. Í nafni dreifðrar eign­ar­að­ild­ar, frelsis og lýð­ræðis ætla þessir menn að gefa öllum hluta­bréf í bönk­un­um, þannig að auð­velt verður fyrir íslenska olig­arka að ná meiri­hluta­valdi í íslenskum bönkum fyrir slikk. Þannig er komið aftan að kjós­end­um, það er kölluð almanna­væð­ing sem er í raun einka­væð­ing aftan frá.

Þetta segir Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, í pistli á vefnum kjarninn.is. Kveður þarna við sama tón og í fyrri fréttinni. Hvað svo sem hagfræðingurinn segir þá er margt brogað við gagnrýni hans.

Staðreyndin er nefnilega sú að svo óskaplega margir þykjast bera hag almennings fyrir brjósti en þegar upp er staðið er almenningi ekki treyst.

Klakinn í frétt Ríkisútvarpsins myndi ekki seljast nema vegna þess að hann er ódýrari en innlend framleiðsla. Og hverjir kaupa útlenda klakann? Jú, almenningur, þar á meðal ég, vegna þess að klakinn er ódýrari.

Svo segir einhver hagfræðingur að það sé vitlaust að gefa almenningi landsins hlutabréf í íslenskum bönkum af því að almenningur kann ekkert með hlutabréf eða peninga að fara. Að minnsta kosti liggur það í orðum hans. 

Allt ber þetta nú að sama brunni. Þrátt fyrir allt er almenningi ekki treystandi og þess vegna þarf eflaust að banna innflutning á klaka. Svo er það ómögulegt að gefa almenningi hlut í bönkum sem eru í eigu ríkisins. Að öðru leyti á fiskurinn í sjónum að vera almenningseign, landið, jöklarnir, arfurinn og tungumálið. Vandamálið er bara að almenningi er ekki treystandi ... að sumra mati


Tónlistarmaðurinn sem ákærir aðra vegna tengsla

Þetta er með ólíkindum ef maður skoðar hver er eginkona þessa ágæta mans og hverjum hún tengist óháð hvar í pólitík fólk stendur sorglegt dæmi.

Þetta skrifar tónlistamaður sem er afar virkur í athugasemdadálkum óvandaðra vefmiðla. Hann er að tjá sig um frétt á visir.is um trúnaðarbrot starfsmanns Seðlabankans í upphafi hrunsins 2008.

Út af fyrir sig er ekkert við því að segja þó fólk tjái sig heimskulega um atburði sem það þekkir ekki eða hefur ekki tæmandi vitneskju um. Fjöldi slíkra gerir sig daglega að kjána og öllum er sama. 

Svona náungar eins og tónlistamaðurinn og aðrir sem eru verr haldnir af þekkingarleysi og jafnvel heimsku tala ómælt um spillingu. Tónlistarmaðurinn tengir aðra við sökudólginn, jafnvel þá sem ekkert hafa gert af sér nema þekkja og umgangast hann. Á ensku hefur þetta verið kallað „guilt by association“. Slíkt er eiginlega gleggsta dæmið glataða röksemdafærslu þess sem ekki kann að nota heilasellurnar, hafi hann á annað borð einhverjar.

Ég fór að velta þess fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að vera einstakt „nóboddí“ og langt frá öllum virðingarstöðum í þjóðfélaginu, þá gæti ég verið í hættu staddur vegna ofbeldismanna í „stétt“ kjaftaska, orðháka og rógbera.

Staða mín er markast hugsanlega af eftirfarandi staðreyndum:

  1. Dóttir næst yngstu systur minnar er gift háttsettum dómara
  2. Sonur minn stjórnar fyrirtæki sem byggir hús til endursölu
  3. Ég þekki Gústaf Níelsson sem sagður er vera rasisti
  4. Kærasta yngri sonar míns er rússnesk og kann vel við Pútín
  5. Ég er Sjálfstæðimaður
  6. Tengdadóttir mín starfar hjá Borgun
  7. Góður vinur minn sat lengi í stjórn útgerðarfélags
  8. Ég hef nokkrum sinnum spjallað við Davíð Oddsson og kann vel við hann
  9. Fyrir tveimur árum gleymdi ég að greiða fyrir kexpakka í verslun, hann er enn ógreiddur
  10. Góður vinur minn færir bókhald

Jæja ... hmmm.

Sjáið nú hvernig hægt er að tvinna saman ávirðingar, gera lítið úr því sem ég er, hef sagt og gert, aðeins með því að skoða þá sem ég tengist.

Tónlistarmanninum sem ég gat um hér í upphafi, verður ekki skotaskuld úr því að gera mig að sorglegu dæmi um spillingu vegna tengingar við hina og þessa. Hann gæti eflaust sagt:

Sjáið hann Sigurð. Sonur hans er braskari, tengdadóttir hans starfar hjá Borgun, hann á kvótagreifa sem vin, annar vinur hans er rasisti, enn annar er bókari og kann prósentureikning sem er reikningsaðferð og jafnan notuð er til að hlunnfara alþýðuna. Svo er hann tengdur dómara og þekkir þrjótinn Davíð Oddsson. Hann stal kexpakka og lögfræðingurinn vinur hans og dómarinn bjarga honum frá fangelsi. 

Þetta er nú ljóti maðurinn, hann Sigurður.

Hið síðasta er svo sem alveg rétt, svona útlitslega séð.

Gáum nú hins vegar að því hversu auðvelt er að tengja okkur hingað og þangað, draga af því skelfilega andstyggilega ályktun sem gerir út af við hvert það manngrey sem vekur athygli í fjölmiðlum.

Hvað þá með fólk sem tengist einhverjum sem er eiturlyfjaneytandi, alkóhólisti, hefur setið í fangelsi, hefur lent í umferðaslysi þar sem aðrir hafa meitt sig illa eða jafnvel dáið. Á það fólk að tapa ærunni og hvað þarf það að gera til að fá mannorð sitt hreinsað.

Einhvern tímann í gamla daga var varað við því að sá sem hefði eitthvað á samviskunni gerðist dómari yfir öðrum. Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum ... var sagt. Væri mark tekið á svona varúðarorðum myndi tilveran vera um margt bærilegri og mörgum léttbærari.

Þetta hefur ekki haldið aftur af því einstaka sómafólki sem skrifar í athugasemdadálka sumra fjölmiðla. Jafnvel ekki þeim sem þremur árum fyrir hrun seldu útrásarvíkingum sálu sína.

Hver skyldi annars hafa ort þetta ágæta ljóð sem á svo vel við umræðuefnið hér?

Þú deyrð á hverjum degi, sérð nafnið þitt þurrkað út.
Það eina sem varð eftir af þér var fingrafar sem slapp við klút.
Þú glímir við drauga hvern einasta dag, hverja dimma nótt
þú verst með bókinni góðu, úr hverju horni er að þér er sótt.
Inn í þér brennur ofsafenginn eldur, þig langar að skaða þann
sem hvílir sæl við hlið hennar, óttinn í þér óx og brann.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband