Sjálfsásakanainnantökusökudólgaleitandi pakk

Smám saman tókst þeim að fæla æ fleiri frá flokknum, með lokuðum prófkjörum, kvótum og girðingum sem allur almenningur hló að. Og þeim tókst færa flokkinn svo langt til vinstri að hann gleymdi erindi sínu. Þegar öllu er á botninn hvolft líkar þeim betur við hið þrönga erindi Vinstri grænna en sitt eigið.

Þegar pakkið tekur síðan að sér að reka kosningabaráttu er útkoman fyrirsjáanleg. Erindið er ekkert, utan loforðið um að greiða fyrirfram skaðabætur fyrir krónuna. Annars almennt hjal um gott samfélag og réttlæti. Ekkert sem hönd á festi. Enginn baráttuandi, ekkert pönk, engin uppreisn gegn Panamastjórninni. Og enginn sem kunni til verka svo að séð yrði.

Þessi tilvitnun er úr einni af þeim bestu greinum sem ég hef lesið í langan tíma. Ekki vegna þess að höfundurinn Karl Th. Birgisson er að fjalla um félaga sína í brunarústum Samfylkingarinnar, ekki af því að hann er afburða ritfær maður og ekki vegna þess að ég sem Sjálfstæðismaður sé að hlakka yfir óförum stjórnmálaflokksins í kosningunum.

Nei, Greinin er góð vegna þess að hún tekur á því þegar stjórnmálin vantar í pólitíkina, yfirborðsmennskunni, þegar menn gleyma stefnunni, staðfestunni og eldmóðnum.

Vissulega var Samfylkingin stjórnmálaflokkur með stefnu. Hins vegar breyttist allt vegna þess að fólkið í vinsældarleiknum reyndist ekki vanda sínum vaxið, eða með orðum Karls:

Þetta er líka fólkið sem fór á taugum í Hruninu. Þau görguðu hæst einmitt þegar yfirvegunar var þörf. Þau voru enn í taugaáfalli þegar endurreisnin átti sér stað 2009-2013.

Í stað þess að standa hnarreist, finna til ábyrgðar sinnar og ganga til verka lögðust þau í naflaskoðun. Skrifuðu skýrslur þar sem mátti eiginlega lesa að Samfylkingin hefði valdið Hruninu. Skipulag hennar og vinnubrögð.

Þarna lýsir Karl fólkinu sem ber ekki skynbragð á stjórnmál, fólkið sem hrærist í ómerkilegum dægurmálum og aflar upplýsinga úr fyrirsögnum fjölmiðla en lætur vera kynna sér málin lítið meira en að fara inn á Facebook. Þetta fólk er svo sem til í flestum flokkum. 

Og Karl heldur áfram:

Á meðan aðrir stóðu sótugir upp í hársrætur í brunarústabjörgun kyntu þau undir aðför að Steinunni Valdísi Óskarsdóttur. Þau lyftu ekki litlafingri henni til varnar þegar setið var um heimili hennar. Þau lögðu Björgvin G. Sigurðsson í einelti og gera enn, eina manninn sem axlaði ítrekað pólitíska ábyrgð á atburðum sem hann tók engar ákvarðanir um. Þau töldu líka landsdómsmálið vera meðal stærstu réttlætisverka jafnaðarmanna á seinni árum.

Þegar fylgi flokksins var loks farið að hjarna við þótti þeim tímabært að reyna að steypa forystunni með sólarhrings fyrirvara á landsfundi, þvert á hina merku lýðræðishefð um að formann skuli kjósa í almennri kosningu allra félagsmanna. Sú aðgerð ein segir allt um dómgreind Reykjavíkurpakksins.

Smám saman tókst þeim að fæla æ fleiri frá flokknum, með lokuðum prófkjörum, kvótum og girðingum sem allur almenningur hló að. Og þeim tókst færa flokkinn svo langt til vinstri að hann gleymdi erindi sínu. Þegar öllu er á botninn hvolft líkar þeim betur við hið þrönga erindi Vinstri grænna en sitt eigið.

Þetta gerist þegar sá tilgangur með stjórnmálastarfi færist frá því að vinna landi sínu og þjóð gagn og beinist þess í stað að sjálfinu, „like-unum“ og „vinunum“ á Facebook og smáatriðunum.

Karl kallar þetta fólk „reykvíska sjálfsásakanainnantökusökudólgaleitandi liðið“ og heldur því fram að það sé nú þingmannslaust. Þar hefur hann rangt fyrir sér. Nokkrir nýir af þessari gerð voru kosnir á þing um síðustu helgi en eru í öðrum flokkum.

Þó Samfylking virðist nú heyra sögunni til þarf gott fólk í öllum flokkum að taka sig nú saman og fara að vinna að því að færa stjórnmálin að hærra plan. Gera þau þannig að stefnan verði aftur sú að búa til betra Ísland.

Sá leikur sem nú stendur yfir og kallast „stjórnarmyndunarviðræður“ á lítið skylt við annað en samkvæmisleik sem hver sumir taka þátt í vegna þess að þeir vilja ekki vera útundan, þora ekki að taka afstöðu af hræðslu við hugsanlegar afleiðingar. Þegar svo er komið sögu í stjórnmálum er markmiðið sjálfið, ekki stefna eða hugsjón.

 


Ekki er hægt að semja um umsókn að ESB

Ekkert nýtt er í svari Evrópusambandsins til Svavars Alfreðs Jónssonar. Allir sem eru læsir og skilja ensku hafa getað aflað sér sömu upplýsinga á vef sambandsins.

Hinir ólæsu og þeir sem ekkert kunna í öðrum tungumálum hafa hins vegar haldið því fram að hægt sé að sækja um aðild að ESB, „semja“ við sambandið og í ljósi niðurstöðunnar hafnað eða samþykkt samninginn.

Svona rugl streymir nú frá fólki sem heldur að aðild að ESB fari eftir sömu reglum og þegar Bretar, Svíar, Finnar, Danir og fleiri þjóðir gengu í sambandið. Þá var boðið upp á samning en ekki lengur.

Nú er boðið upp á Lissabonsáttmálann, stjórnarskrá ESB. Annað hvort samþykkja umsóknarríki hann eða ganga ekki í sambandið. Enginn samningur er í boði nema ef vera skyldi tímabundnar undanþágur í smávægilegum málum.

Hagsmunir einstakra ríkja innan ESB eru svo miklir að til dæmis Spánverjar, Portúgalar eða Frakkar myndu aldrei samþykkja að Ísland fái að halda núverandi fiskveiðistefnu og lokaðri landhelgi.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að Ísland mun aldrei sem umsóknarríki geta sett öðrum ríkjum skilyrði fyrir inngöngu sinni í ESB.

Allir geta spurt Evrópusambandið um skilyrði fyrir inngöngu og fá alltaf sama svar, núna síðast Svavar Alfreð Jónsson. Aðlögun felur í sér að umsóknarríki tekur upp lög og reglur ESB jafnt og þétt og verður ESB-ríki í áföngum. Þegar aflögunni er lokið er ekki hægt að snúa við; þjóðaratkvæðagreiðsla í lok aðlögunarferlis er aðeins formsatriði.

Þetta segir Páll Vilhjálmsson í pistli á bloggsíðu sinni í morgun. Hann vakti um leið athygli á erindi Svavars Alfreðs Jónssonar til Evrópusambandsins og svari þessi.


mbl.is Reglur ESB „óumsemjanlegar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálfræðingar og annað fólk með skyggnigáfu

Hefði Kjaradómur ekki stolið senunni í gær með undarlegum úrskurði sínum værum við neytendur fjölmiðla enn að fylgjast með tíðindalausum stjórnarmyndunarviðræðunum.

Allt er orðið frétt, ráðist er að formanni stjórnmálaflokks á hlaði Bessastaða og hann þýfgaður um ekki neitt. Við fáum að kynnast með fatasmekk formanns Bjartrar framtíðar og fréttum af svokölluðu umboði til stjórnarmyndunar. 

Samt fáum við ekki fréttir frá miðlum eða spámönnum því í þeirra stað eru komnir stjórnmálafræðingar sem tjá sig um fortíð og framtíð.

Þeir eru spurðir um áhrif veðurs á kjörsókn, hvaða ríkisstjórn geti verið mynduð, hver muni verða forsætisráðherra, hvaða flokkar muni skipa næstu ríkisstjórn og hvernig henni muni reiða af fram til jóla og jafnvel vors.

Öllu þessu svara stjórnmálamenn líkt og draumaráðningarmenn eða þeir sem rýna í spil. Loðnir í svörum, langorðir og alvara lífsins lekur af þeim.

Samt sá enginn þeirra fyrir afsögn formanns Samfylkingarinnar, ekki stjórnmálafræðingar, ekki þeir sem ráða drauma, spá í spil eða kaffibolla né heldur þeir sem búa yfir skyggnigáfu.

Hva ... er ekkert að marka þetta lið?

  • Enginn stjórnmálafræðingur sá fram á útreið Samfylkingarinnar í kosningunum. Hún kom ekki heldur fram í kaffibollum eða spilum.
  • Enginn stjórnmálafræðingur fattaði að Sjálfstæðisflokkurinn myndi auka fylgi sitt í kosningunum.

Niðurstaðan er einföld. Ekkert er að marka þá sem spá fram í tímann. Ekki stjórnmálafræðinga, draumaráðningarfólk, þá sem spá í spil, kaffibolla, innyfli dýra eða stjörnur á himinhvelinu. Þetta fólk sér ekki fram í tímann, veit ekkert hvað gerist umfram okkur hin sem fylgjumst með fréttum. Trúgirni margra fjölmiðlunga er hins vegar ótrúleg, ef þannig má að orði komast.

Annars eru hér stórmerkilegar fréttir sem enginn stjórnmálafræðingur né liðið sem spáir í spil hefur nokkra hugmynd um:

  • Formaður Bjartrar framtíðar muni kaupa nýjan jakka, einn eða fleiri áður en yfir lýkur.
  • Formaður Sjálfstæðisflokksins mun einhvern næstu daga skrifa eitthvað á blað og hringja nokkur símtöl. 
  • Formaður Vinstri grænna mun brosa út í bæði, jafnvel þó hún fái alvarlega spurningu.
  • Formaður Viðreisnar mun setjast á fund með þingflokknum.
  • Samfylkingin mun sameinast Bjartri framtíð og nefnast eftir það Björt samtíð.
  • Framsóknarflokkurinn mun ekki klofna

Allt þetta og meira til eru staðreyndir. Ég veit þetta, þekki stjórnmálafræðing ... meina draumspakan mann.

 

 

 


Bloggfærslur 1. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband