Forsetinn á að halda sér til hlés við stjórnarmyndun

Forseti Íslands á algjörlega að halda sig til hlés á meðan á stjórnarmyndunarviðræðum stendur eða þreifingum í þá átt. Aðeins er tæpur mánuður frá kosningum og ekkert undrunarefni að ríkisstjórn skuli enn ekki hafa verið mynduð.

Á visir.is eru vangaveltur um að forsetinn þurfi að fara að reka á eftir með stjórnarmyndun. Þetta er algjörleg út í hött. Eini vandinn með starfstjórn er sú að hún hefur ekki afl til að fá fjárlagafrumvarp lögfest. Í sjálfu sér skiptir það ekki stórmáli vegna þess að aðrar leiðir eru til að halda ríkinu fjárhagslega gangandi.

Ljóst má hins vegar vera að úrslit þingkosninganna voru ávísun á stjórnarkreppu. Sitjandi ríkisstjórn féll og nær útilokað er að stjórnarandstaðan geti myndað meirihluta. Hversu mikið sem Vinstri grænir gylla svokallaða „fjölbreytni“ í fimm flokka stjórn þá yrði hún alltaf nær óvirk og líf hennar að öllum líkindum ærið skammvinnt.

Tveggja eða þriggja flokka ríkisstjórnir ganga best, nemi meirihlutinn í það minnsta kosti tveimur til þremur mönnum. Annað býður heim hættunni á spillingu.

Ekki verður leyst úr stjórnarkreppu með því að forsetinn gerist verkstjóri yfir þinginu, berji formenn flokkanna áfram með harðri hendi. Eðli þingræðisins er viljinn til að mynda meirihlutastjórn. Ríkisstjórn verður ekki mynduð með þvingunum forseta heldur trausti sem er á milli manna. Málefnastaðan skiptir litlu, persónulegt traust skiptir öllu.

Nýjar kosningar eru eina leiðin til að leysa úr stjórnarkreppu. Pattstaðan breytist ekki þó allir formenn fái stjórnarumboðið í viku eða tíu daga í senn. Raunar er það með öllu óeðlilegt að forsetinn íhugi að leyfa öllum að reyna sig við stjórnarmyndun. Til hvers í ósköpunum ætti til dæmis formaður Samfylkingarinnar að fá að mynda stjórn? Geti hann það ekki í óformlegu spjalli mun hann ekki geta það þegar til alvörunnar kemur.

Stjórnarmyndunarumboð er í raun og veru ekki til. Meirihluti getur myndast án íhlutunar forseta og þannig á það að vera. Enginn setur út á að forsetinn standi í dyragættinni og fylgist með, það skaða ekkert. 

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur talar eins og spámiðill rétt eins og flestir aðrir álitsgjafar með þessa menntun. Í viðtalinu á visir.is talar hann eins og hann viti nákvæmlega hvað forsetinn sé að hugsa eða hvað hann ætti að hugsa. Hann kemur með nýja frasa um stjórnarmyndunarviðræðurnar, kallar þær „lausbeislaðar“. Hvernig í ósköpunum verða stjórnarmyndunarviðræðu „beislaðar“?

Í sannleika sagt er orðið afar þreytandi að fylgjast með þessu stjórnmálafræðingum mala og mala um það sem allir vita og skilja. Mikli nær væri fyrir fjölmiðla að snúa sér að almenning og spyrja hann álits um stöðu mála. Baldur Þórhallsson hefur ekkert nýtt fram að færa í fréttinni á visir.is, nema ef til vill það að lesandinn greinir pínulítið ergelsi yfir því að fimmflokkaríkisstjórnin komst ekki á koppinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ágæt hjá þér Sigurður, en að því er mér sýnist þá skiptir forsetinn meira máli í þessu efni heldur en þú vilt vera láta. 

Það gengur ekki að láta keflið ganga rúnt eftir rúnt. Það gengur ekki einu sinni að láta Samfylkinguna hafa það, hvað þá hina björtu framtíð, Pírata eða Viðreisn.  

Sjálfstæðisflokkur og VG hafa hvort í sínu lagi átt viðræður við Pírata, Viðreisn og Framsóknarflokk, svo ég sé enga hvöt til að taka fleiri snúninga á þessu.

Hentugast væri að núverandi stjórn yrði skipuð starfstjórn og kláraði fjárlög og boðað yrði til kosninga á réttum tíma í vor, svo sem alltaf skyldi verið hafa.      

Hrólfur Þ Hraundal, 23.11.2016 kl. 22:53

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Værum við í stjórnarmyndunarviðræðum, Hrólfur, værum við í þann mund að undirrita stjórnarsáttmála. Skoðanir okkar eru keimlíkar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 24.11.2016 kl. 00:16

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Eru einungis tveir stjórnmálafræðingar á Íslandi? Baldur Þórhallsson og Eiríkur Bergman, þó af og til sé vitnað í Stefaníu? Spyr sá sem ekki veit. Sammála síðuhafa um það að blaðrið í þeim er tjara og getuleysi fréttamanna er orðið pínlega vandræðalegt.

" Aðeins er liðinn einn mánuður frá kosningum". Hvers vegna að missa sig?  

Þolinmæði þrautir vinnur allar, er sagt.

 Ljóst er orðið að ný ríkisstjórn verður ekki mynduð án aðkomu þeirra flokka sem skipuðu þá síðustu. Annars, eða beggja. Gangi það ekki, er hægt að fara að ræða aðrar kosningar, eða stjórnarkreppu. Fullreynt er þetta ekki enn, svo galið er að æsa upp umræðuna. Góðir hlutir gerast hægt. Forsetinn þarf ekki að veita umboð. Það vita flestir. Hvernig væri að veita engum umboð í tiltekinn tíma og gefa kjörnum fulltrúum næði, já algert næði, til að slá af sínu, sækja að hvorum öðrum og reyna að ná málamiðlunum, í einhvern tíma? Þetta snýst ekki um persónur og leikendur, heldur hag þjóðarinnar. Láta fréttasnápana lönd og leið? Fjölmiðlar, eins misslæmir og þeir eru orðnir, stýra allri umræðu og æsingur þeirra er alveg við það að verða óþolandi, ef ekki þegar orðinn.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 24.11.2016 kl. 01:16

4 Smámynd: Jón Þórhallsson

Rúv virðist vera á valdi gaypride-fólks og það teflir bara fram sínu fólki til að treysta sig í sessi.

Það er mjög slæmt þegar að þjóð/ríkið/ sem að játar KRISTNA TRÚ í sinni sjtórnarskrá er farið að borga fólki laun á rúv fyrir að stækka gaypride-gönguna í andstöðu við heilbrigð lífsgildi:

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/2185302/

Jón Þórhallsson, 24.11.2016 kl. 12:58

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ég er algjörlega ósammála þér, Jón. Fjöldi homma og lesbía er játar kristna trú og lífsgildi þeirra eru ekkert óheilbrigðari en annarra.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 24.11.2016 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband