Eldgos í Brennisteinsfjöllum ... eða ekki

ReykjanesEnga athygli vekur að í morgun, rétt fyrir klukkan átta var jarðskjálfti við Kleifarvatn upp á 3 stig. Það þykir nokkuð mikið á þessum slóðum. Svona stórir jarðskjálftar í Kötluöskjunni eða Bárðarbungu fá umsvifalaust stríðsfyrirsagnir á vefmiðlum.

Skjálftinn var tæpan einn km frá Systrastapa en hann er gengur út í vatnið vestanvert nálægt því miðju.f

Annað sem vekur athygli leikmannsins eru skjálftahrina hefur verið í nokkrar vikur suðaustan við Fagradalsfjall. Fjallið er um átta km norðaustan við Grindavík. 

Jarðfræði Reykjaness er dálítið skrýtin. Þar eru sprungur sem hafa norður-suður stefnu. Þetta eru svokallaðar sniðgengissprungur sem þýðir að verði hreyfing í þeim fara barmar þeirra í gagnstæðar áttir.

Sex eldstöðvakerfi eru á Reykjanesskaga og fullt af gjám og misgengjum. þetta eru Reykjanes, Eldvörp-Svartsengiu, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og loks Hengill.

Merkilegast er að á Reykjanesi verða varla stærri jarðskjálftar en sem sex stiga. Sú kenning er uppi og hefur líklega verið sönnuð að skjálfti í einu kerfi geti búið til spennu sem framkalli síðar skjálfta í næsta kerfi fyrir austan.

Leikmannsþankarnir eru á þá leiða að hugsanlega hafa skjálftarnir við Fagradalsfjall búið til mikla spennu sem olli svo stóra skjálftanum í Krýsuvíkurkerfinu í morgun. Spurningin er sú hvort að sá skjálfti hafi verið nógu stór til að losa úr allri spennu Fagradalskerfisins.

Hvað næst gerist veit enginn. Hugsanlega verður jarðskjálfti í Brennisteinsfjallakerfinu og þá er komið að „the scary moment“, staðreyndinni sem allir óttast. Sko, Brennisteinsfjallakerfið hefur lengi verið virkasta eldstöðvakerfið á Reykjanesi, mest hraun hafa runnið þaðan.

Nú er ég ekki að spá gosi á þessum slóðum nema þar verði gos á næstunni en verði það ekki er þetta bara leikmannstal ... Hef ekki hundsvit á jarðfræði.


Stjórnmálafræðingur sem malar og malar í beinni útsendingu

StjórnarmyndunarumboðiðBein útsending Ríkissjónvarpsins frá Bessastöð var vægast sagt undarleg. Þarna var fullt af fjölmiðlamönnum biðu eftir formanni Sjálfstæðisflokksins og forsetanum. Fyrir algjöra tilviljun var stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann staddur þarna.

Fyrsta spurningin sem stjórnmálafræðingurinn fékk var þessi: Hvað er líklegast að gerist núna?

Hvað er eiginlega að Ríkissjónvarpinu? Hvers vegna í ósköpunum er verið að láta einhvern stjórnmálafræðing vera að mala og mala um allt og ekkert? Eiríkur Bergmann býr ekki yfir neinni spádómsgáfu og veit ekkert í smáatriðum hvað gerist umfram okkur hin.

Allir vita að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gengur inn til forsetans og að loknum fundi gengur hann út. Ekki þarf stjórnmálfræðing til að lýsa skrefum Bjarna. Ekki þarf heldur stjórnmálafræðing til að lýsa möguleikum á stjórnarmyndun, þetta liggur allt fyrir og er gömul tugga og hundleiðing.

Dómgreindarbrestur fréttastofu Sjónvarpsins er hrikalegur. Hún getur ekki boðið upp á beinar útsendingar sem hafa það eitt að markmiði að láta fréttamenn mala eða stjórnmálafræðinga vera að sýna sig. Henni dugar einfaldlega að taka upp fréttamannafund Bjarna og/eða Guðna að loknum fundi þeirra og sýna svo í fréttatímum.

Og spurningarnar, maður lifandi ... Þegar spurningum er varpað til viðmælenda þurfa fréttamenn að hafa nokkuð glögga mynd af því sem þeir vilja vita. Annars verður þetta bara tilgangslaust mal. Og þannig var beina útsending.

Eiríkur, Bjarni vill ekkert segja, kvartaði fréttamaðurinn, eftir að formaður Sjálfstæðisflokksins hafði gengið inn á Bessastaði án þess að ræða fyrst við fréttamenn. Þvílíkt rugl. Auðvitað vissu allir að Bjarni myndi ekki halda blaðamannafund áður en hann talaði við forsetann. Jafnvel stjórnmálafræðingar vita þetta.

Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, er orðinn jafn þreyttur sem álitsgjafi eins og annar stjórnmálafræðingur var hér áður fyrr alltaf í sjónvarpi og útvarpi, Svanur Kristjánsson. Ef ekki er hægt að finna aðra álitsgjafa er ástæða til að leit út fyrir raðir stjórnmálafræðinga. Það væri nú engin goðgá að gefa aumingja Eiríki frí í svona tvö ár.

Myndin er af stjórnarmyndunarumboðinu sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skilaði inn til forsetans. Skjalið er álíka trúverðugt og fréttastofa Ríkisútvarpsins.


Nakinn maður með froðukjaft

TrúðurStaðreyndin er sú að ég hef engan húmor fyrir sjálfum mér. Hlæ aldrei með þegar verið er að grínast í mér, fitja bara upp á trýnið og legg ævilanga fæð á þá sem slíkt gera. Hins vegar er eftirfarandi örsaga svo bráðfyndin að gamalt, lítið notað bros rifnar upp hjá mér. Það hjálpar vissulega að langt er síðan sagan gerðist. Örugglega tveir sólarhringar.

Stundum liggur á. Þá er hlaupið og hamast þangað til öllu er lokið og hægt að slaka á. Meðan á því gengur er samt sem áður vissara að hafa augun opin, taka eftir umhverfinu og gæta sín á að gera ekki neitt sem hefur óafturkræfar afleiðingar, alvarlegar eða skoplegar.

Laugardagur til leiðinda

Þannig var að á seinni part laugardags var ég að sinna fjölskyldumálum, skutla fólki bæjarleið og svo annað álíka eins og að versla í kvöldmatinn. Eins og berserkur hamaðist ég við að klára allt þetta svo ég kæmist nú í sund fyrir kvöldið.

sturtaOg mér tókst það. Svínbeygði inn í götuna við sundlaug Vesturbæjar, lagði hart á stýrið til að komast í bílastæðið (ók við það næstum því á virðulegan mann sem raunar var á hlaupum), rauk út úr bílnum, læsti honum með fjarstýringunni, hljóp að innganginum, tróð mér á milli fólks sem þar stóð eins og kjánar og kjaftaði og reykti, staðnæmdist við afgreiðsluna, leit á afgreiðslukonuna sem gaf mér engan gaum, skellti kortinu á lesarann, hoppaði ofan í kjallarann, rann til á blaut gólfinu, reif mig úr fötunum, tróð þeim í skápinn og renndi mér fótskriðu inn í sturtuna, skrúfaði frá og naut þess að finna heitt vatnið ylja mér um kroppinn.

Þá góndi ég upp í loftið í sælu og afslappelsi.

Slökkviliðsmaðurinn

dýfa„Hvað í fjandanum ertu að gera hér.“ Reiðileg rödd bergmálaði um tómar sturturnar. Hann var alklæddur með slöngu í höndunum eins og slökkviliðsmaður sem var að leita að eldinum.

„Ha ég ...“ Hváði ég aldeilis undrandi yfir bergmálinu og litaðist um í kringum mig en sá engan. Ekki nokkurn mann nema hrópandann.

„Já, þú,“ hrópaði meintur slökkviliðsmaður.

„Tja ..., hvað heldurðu?“ Ég hugsaði mig um eitt andartak til að finna eitthvað fáránlega út í hött til að rugla í manninum en fann ekkert svo ég sagði bara vera í sturtu eins og allir gera sem leggja leið sína inn í þessi húsakynni sundlaugarinnar.

„Hvernig komstu hingað inn, spurði náunginn. „Við erum fyrir löngum búin að loka.“

Úbbs ...

Og þarna stóð ég eins og drottinn hafði skapað mig með ekkert annað en sápufroðu mér til afsökunar og hún dugði skammt. Ég stamaði ...

„Við erum búin að loka, þú átt ekkert að vera hérna,“ fullyrti maðurinn. „Hvernig komstu inn?“

Þó ég sé fljótfær og stundum vitlaus er ég oft fljótur að ná tökum á aðstæðum. Og nú var ég búinn að ná mér og átti auðvelt með að svara í sömu tónhæð og maðurinn. Auðvitað átti ég ekki að svara, heldur skammast mín og hrökklast út sömu leið og ég hafði komið inn. En þar sem ég var bókstaflega með allt á hælum mér, og rúmlega það, fannst mér illt að viðurkenna sök mína svo ég þráaðist við með hávaða og tuði.

Slökkvi„Ég gekk bara inn eins og ég er vanur. Heldurðu að ég hafi kannski komið inn um glugga, ha? ... já heldurðu það kannski, ha ...?“ hrópaði ég og froðan sem lak niður andlit mitt frussaðist í áttina að manninum.

Sástu ekkert?

„Sástu ekki að það var lokað, sástu ekki skiltið, sástu ekki að gólfið bar blautt, sástu ekki að það er ekki nokkur maður hérna niðri,“ hrópaði maðurinn en náði ekki í hálfkvisti við hávaðann í mér.

„Nei, ég var ekkert að pæla í neinu. Ég er aldrei að velta öðrum fyrir mér,“ sagði ég aðeins lægra og mundi þá eftir að hafa séð að lyklar voru í hverjum skáp og gólfið rennblautt. Ósjálfrátt sljákkaði aðeins í mér við þetta endurlit og ég fann svo glöggt að staða mín batnaði ekki hætis hót þó ég hrópaði.

„Hva, sérðu ekki neitt maður, ertu algjörlega blindur?“

„Skiptir einhverju máli hvernig ég kom inn eða hvað ég hafi séð eða ekki séð. Hér er ég hvort sem þér líkar það betur eða verr. Og það er ykkur að kenna að maður geti komist hingað niður eftir lokun.“ Þetta fundust mér alveg prýðileg rök og þau höfðu smávægileg áhrif.

„Já, helvítis hliðið lokast ekki sjálfkrafa,“ viðurkenndi maðurinn, aðeins lágværari en áður.

„Ég get ekkert að því gert,“ sagði ég. „Komst hingað niður án þess að neinn stoppaði mig og afsakaðu það,“ sagði ég. Mér fannst hálfur sigur unninn, staðan allt í einu 14:2 fyrir hrópandann.

NakinnNakinn maður með kjaft

„Ekkert mál,“ sagði maðurinn, sem mér fannst vera slökkviliðsmaður en var líklega starfsmaður laugarinnar, kannski sturtuvörður. Svo hvarf hann inn um einhverjar dyr.

Sá óþægilegi grunur læddist þarna að mér að þrátt fyrir hrópin hafi hann verið að því kominn að springa úr hlátri. Það er skiljanlegt, því hvað er hlægilegra en nakinn maður með kjaftbrúk. Auðvitað á maður að þegja og koma sér hljóðlega í burtu.

Og það gerði ég á mettíma. Tók á rás um leið og maðurinn hvarf, skolaði af mér sápuna, þurrkaði mér, hentist í fötin og hljóp upp. Í afgreiðslunni var fjöldi fólks, sem betur fer ekki allir farnir og því tók enginn eftir mér þegar ég laumaðist út. Ekki einu sinni afgreiðslukonan bak við glerið. Tæplega 35 sekúndur liðu frá því að sturtuvörðurinn hvarf og þar til ég var kominn út í bíl.

Ég komst þó alla vega í sturtu, hugsaði ég, og reyndi að finna eitthvað jákvætt við atburðinn. Innst inni vissi ég þó að ég hefði verið bölvaður asni að gefa ekki gaum að öllu því sem gaf til kynna að laugin væri lokuð.

Held að best sé nú að halda sig víðs fjarri vesturbæjarlauginni næstu vikurnar eða þangað til sturtuverðinum hefur tekist að gleyma mér. Jæja, kannski þarf hann eitt eða tvö ár eða að hann gerir það, kannski aldrei. Nú er þó fyllilega ástæða að biðja hann hér með afsökunar á kjaftbrúki mínu. Það var ekki viðeigandi (en gerir þó söguna aðeins skemmtilegri í endursögninni).


Jón Þór Ólafsson þingmaður hótar og hótar en enginn hlustar

Óttarr Proppé er vingjarnlegasti og kurteisasti maður sem þið hittið. Eflaust þolir hann ekki að vera hataður eins og mun gerast þegar hann styður aftur og aftur og aftur spillingu forystu XD í þingsal, á nefndarfundum, í atkvæðagreiðslum.

Lög um bitlinga. Óttar Proppé. Já.
Lög á verkföll kennara. Óttar Proppé. Já.
Lög um einkavæðingu heilbrigðisþjónustu. Já.

Þetta segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, um formann Bjartrar framtíðar. Ástæðan er án efa sú að Óttar tekur þátt í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar. 

Píratar ætluðu eins og svo margir aðrir stjórnmálaflokkar að breyta umræðuhefðinni í íslenskri pólitík. Frá stofnun flokksins hefur ekkert breyst. Jón Þór og fleiri Píratar hafa hins vegar tileinkað sér gamaldags umræðuhefð sem byggir á illu umtali og almennum leiðindum. 

Fyrir örfáum dögum hótaði Jón Þór að kæra úrskurð kjararáðs nema því aðeins forseti Íslands, kjararáð og formenn þingflokkanna lýstu því yfir að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi.

Enginn hefur gefið út neina yfirlýsingu til að þóknast þingmanninum. Enn stendur úrskurður kjararáðs óhaggaður og Jón Þór hefur ekki kært einn eða neinn né höfðað mál.

Hann stendur hins vegar eftir eins og kjáni, búinn að hóta kæru en enginn hlustar

Hvað er verra en að vera stóryrtur þingmaður sem enginn tekur mark á? 

 

 


Ég fann stjórnarmyndunarumboðið ... og skilaði því til Guðna

StjórnarmyndunarumboðiðIlla gengur að mynda ríkisstjórn og flestir hafa verið að búast við að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins skilaði inn stjórnarmyndunarumboðinu. Það gerði hann hins vegar ekki í gær og ekki dag.

En ástæðan er ekki sú sem allir halda, að Bjarni sé að reyna til þrautar. Nei, nei, hann gafst upp fyrir löngu.

Vandinn er bara sá að hann getur ekki skilað inn stjórnarmyndunarumboðinu vegna þess að hann týndi því.

Og hvað haldið þið, lesendur góðir ...? Jú, ég fann það fyrir algjöra tilviljun í fyrradag.

Þetta er mikið leyndarskjal sem enginn hefur séð nema formenn stjórnmálaflokka. Raunar er það glænýtt því Guðni Th. Jóhannesson hefur af skiljanlegum ástæðum aldrei áður veitt umboð til stjórnarmyndunar.

Jæja, ég fann umboðið á bekk í austurhorni Austurvallar, þar sem trén slúta yfir og veita dálítið skjól fyrir vindi og rigningu. Þarna lá það í algjöru tilgangsleysi og beið því sem verða vildi.

Og ... vitið þið hvað, lesendur góðir? Ég hafði umboðið til stjórnarmyndunar í höndunum, notaði það ekki og skilaði því til forseta Íslands.

Þetta mun vera í fyrsta sinn í gjörvallri stjórnmálasögu Íslands að maður sem hvorki er forsætisráðherra, formaður stjórnmálaflokks eða alþingismaður hefur skila umboði til stjórnarmyndunar til forseta Íslands.

Raunar var komið fram yfir afgreiðslutíma hjá forsetanum og ég nennti ekki að hjóla suður á Bessastaði svo ég stakk blaðinu í plastpoka og tróð því inn um bréfalúguna á Sóleyjargötu. Má vera að það hafi krumpast dálítið en ég hafði vit á því að taka mynd af því áður.

Núna sé ég dálítið því að hafa ekki hitt forsetann og fengið einhvern til að taka mynd af mér við athöfnina, hefði farið í sunnudagsfötin og sett á mig bindi. Þetta hefði ábyggilega þótt dálítið fyndin mynd, ekki síst fyrir hann Guðna.

Smellið á myndina af umboðinu til að sjá umboðið betur.


Flugvöllur verður aldrei byggður í Hvassahrauni

Flugvöllur verður aldrei byggður í Hvassahrauni sem er sunnan Hafnarfjarðar. Það myndi kosta meira en 100 milljarða króna auk þess sem hann verður aldrei jafngóður og sá í Reykjavík.

Þessu má líkja við að fjölskylda teldi gáfulegra að setja fjölskyldubílinn í brotajárn og kaupa annan á miklu lakari en á hærra verði en sá gamli var metinn á. 

Þjóðin hefur efni á að byggja nýtt sjúkrahús vegna þess að það gamla er úrelt og ekki nógu hentugt. Flugvöllurinn í Reykjavík er í afar góðu standi og getur staðið undir innanlandsflugi um ókomna framtíð.

Viðhald á fjölda bygginga í eigu ríkisins hefur verið vanrækt í fjölda ára, sá kostnaður er upp á tugi milljarða. Vegakerfið er enn í uppbyggingu og heldur ekki í við aukna umferð. Um tíu milljarða kostar að breikka einbreiða brýr. Víðast um land þarf að tvöfalda vegi. Fjölga þarf heilsugæslustöðvum og hjúkrunarheimilum og svo má lengi telja upp brýn verkefni sem bíða úrlausnar. 

Þjóðin getur ekki frestað þessum og fjölda annarra framkvæmda öllu lengur til þess eins að byggja flugvöll í Hvassahrauni.

Borgarstjórinn í Reykjavík segir innanlandsflugið á tímamótum. Það er rangt.

Einu krossgöturnar sem þjóðin stendur nú frammi fyrir eru vegna þeirrar pólitísku stefnu meirihlutans í Reykjavík að leggja flugvöllinn af. Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti landsmanna á móti því.

Beinar hótanir eða duldar fara stjórnmálamönnum illa. Tillaga borgarstjórans um flugvöllinn er ekkert annað. Hann stingur upp á að flugvöllurinn verði um takmarkaðan tíma á sama stað ef annar verði byggður í Hvassahrauni. Fjöldi fólks hefur fært rök fyrir því að flutningur flugvallarins úr Reykjavík sé tóm vitleysa, meðal þeirra er Ómar Ragnarsson.

 

Borgarstjórinn að hann geti villt um fyrir Akureyringum og öðrum með því að leggja til að miðstöð sjúkraflugs verði á Akureyri. Vonlítið er að þeir kokgleypi þá beitu.

Pólitík borgarstjórans í Reykjavík eru ekkert annað en léleg tilraun til að reyna að færa umræðuna frá kjarna málsins; að flugvöllurinn verði um ókomna framtíð í Reykjavík. Í því eru fólgnir hagsmunir þjóðarinnar.


mbl.is Neyðarbraut eða ekki, þar er efinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsögðu hlutirnir og álitsgjafaspekin

Gallup76% kíkja á veðurspána daglega. Eru þá hin 24% yfirleitt illa klædd? Hegðun almennings þarf ekki að koma á óvart frekar en veðrið.

Þetta segir í auglýsingu Gallup sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðs dagsins. Hún er snjöll að mörgu leyti. Hlutfallstalan vekur athygli og lesandinn er eiginlega nauðbeyður til að lesa áfram, og hefur án efa gaman af. Þá er tilgangi auglýsingarinnar náð.

Hins vegar er rökleiðslan ekkert sérstök þó hún sé í sjálfu sér dálítið sniðug en hún vakti upp dálitlar pælingar hjá mér.

Undanfarið hef ég verið að hnýta dálítið í fjölmiðla og álitsgjafa þeirra, sérstaklega stjórnmálafræðinga.

Ástæðan er sú að fjölmiðlar geta varla birt fréttir um staðreyndir án þess að hafa heimildir fyrir þeim, svokallaða álitsgjafa sem segja eiginlega ekkert annað en það sem þokkalega vel gefið fólk hefur þegar áttað sig á. Álitsgjafarnir eru margir einstaklega klárir í innihaldslausu tali.

  • Þegar skoðanakannanir fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sýna að lítill munur sé á fylgi tveggja frambjóðanda er hringt í stjórnmálafræðinginn og hann segir að staðan sé „tvísýn“.
  • Þegar margir bílar eru á samtímis á götum borgarinnar eða þjóðvegum er lögreglumaðurinn kallaður til og hann segir kallar ástandið „mikla umferð“.
  • Eitthvað blaut fellur af himni ofan og lendir á öllum án tillits til efnahags, trúarbragða eða synda og þá er veðurfræðingurinn kallaður til og sá segir eftir dálitla umhugsuna að nú „rignir“.
  • Þegar hamarshögg berast frá húsi er byggingafræðingurinn kallaður til að hann veit hvað er að gerast, verið er að „byggja hús“.
  • Grasið vex og byggakrarnir bylgjast í sumargolunni. Bóndinn svarar fjölmiðlinum og segir að „sprettan“ sé góð.

Sko, þetta eru hinir sjálfsögðu hlutir sem allir vita og átta sig á. Ég þarf ekki veðurfræðing til að segja mér að úti rigni. Ég hef djúpan skilning á því að hvað umferð er og margir bíla eða margt fólk á ferð kallast í daglegu tali mikil umferð. Það fer ekki framhjá neinum þegar verið er að byggja hús og allur gróður vex að sumri til og oft er vöxturinn hraður og góður.

Vandinn vex þó þegar fjölmiðlarnir vilja fá stjórnmálafræðinginn eða aðra álíka álitsgjafa til að spá fram í tímann rétt eins og menntun þeirra og meintar gáfur gefi þeim meiri og víðtækari sýn en okkur hinum.

Hvað gerist núna, getur Bjarni myndað ríkisstjó?n.“ Og fræðingurinn gerir sig greindarlegan og svarar án umhugsunar: „Tja, annað hvort myndar hann stjórn eða ekki ...“ Ég geri mér í hugarlund að þá brjótist út fögnuður á ritstjórninni yfir þessu einstaka og framsýna svari.

Hér á landi hefur notkun regnhlífa ekki tíðkast eins og í „lygnari“ löndum. Í skóla í Noregi deildum við stundum um hvort sá væri svartsýnismaður sem að morgni dags færi með regnhlíf í vinnuna jafnvel þó á þeirri stundu væri sól í heiði og ekki ský á himni. Hvað mætti þá kalla þann sem ekki tekur regnhlíf með sér í þrátt fyrir skýjaðan himinn? Bjartsýnann ...?

Ég fer daglega inn á vef Veðurstofunnar og lít á veðurspána. Hins vegar vel ég aldrei fatnað eftir henni. Mér dugar nefnilega að líta út um gluggann og eins og flestir veit ég nokkurn veginn hvernig veðrið verður þann daginn.

Líklega er ég einn af þeim sem er alltaf að safna upplýsingum og en kann ekki að nota þær í réttu samhengi.

 

 

 

 


Konuandlit í Jökulsárlóni

FallegAna1ar myndir heilla mig. Á vef CNN sá ég þessar sérkennilegu myndir sem „götulistamaðurinn“ Sean Yoro  frá Hawaii gerði hér á landi.

Listaverkið nefnist „A'o 'Ana“ eða Aðvörun (e. Warning).

Myndin er tekin við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Þarna er eins og að kona rétt setji andlit sitt upp úr vatnsborðinu.

Auðvitað er þetta tilbúningur en engu að síður heillandi í umhverfi sínu. 

Mér skilst að listamaðurinn máli mynd af konunni og komi fyrir víða um heim og taki myndir síðan myndir af listaverkinu í einstöku umhverfi. Tilgangurinn er að verkja athygli á afleiðingum hlýnunar jarðar.

Smellið á myndirnar og sjáið þær stærri.

Ana2

 

 

 

 

 

 

Ana3


Einföld skýring á sigri Trumps, unga fólkið kaus ekki

Skoðanakannanir eru ekki ósvipaðar kosningum því þær mæla afstöðu fólks á þeirri stundu sem þær eru gerðar, ekkert annað. Forspárgildi þeirra er fólgið í því að fólk breyti ekki um skoðun og kjósi eins á kjördag.

Stærsti munurinn er hins vegar sá að í skoðanakönnunum er leitað til fólks. Í kosningum þarf fólk að fara á kjörstað.

Á þessu tvennu munar „nennu“ ef svo má að orðið komast, það er að segja, fyrirhöfninni að þurfa að fara á kjörstaðinn og hugsanlega bíða þar í nokkra stund í biðröð til að kjósa. 

Tengt þessu er yngri kynslóðir meta oft á tíðum lýðræðislegan rétt sinn léttar en eldri kynslóðir sem meta kosningarétt sinn sem tæki til að hafa áhrif. Þetta erfyrst og fremst spurning um hugarfar.  

Forvitnilegt verður að sjá kannanir um kosningaþátttöku kjósenda í forsetakosningunum eftir aldri. 

Til samanburðar má taka þjóðaratkvæðið Breta um Brexit. Samkvæmt könnunum hefur komið í ljós að yngra fólk vildi vera áfram í ESB en eldra fólk kaus að yfirgefa sambandið. Þó þetta sé staðreynd hefur lítill gaumur hefur verið gefinn að því að ungt fólk mætti síður á kjörstað en það eldra.

Samkvæmt Sky Data er aldurshlutfall þeirra sem kusu í Brexit eftirfarandi:

18-24: 35%
25-34: 58%
35-44: 72%
45-54: 75%
55-64: 81%
65+: 83%

Þetta eru sláandi niðurstöður. Spyrja má hvaði hefð gerst ef meðaltal kosningaþátttöku allra hópa hefði verið nær 80%.

Í skoðanakönnunum hefur því verið hampað að stuðningur við Clinton hafi verið mikill í yngri aldurhópum og meðal menntaðs fólks. Ég held að ástæðan fyrir tapi hennar sé sú að yngra fólkið einfaldlega ekki mætt á kjörstað. 

Samkvæmt lista á vefritinu Vox yfir stuðningi fólks 18 til 30 ára við forsetafrabjóðendur kemur í þetta í ljós:

  • Af afrískum uppruna: 55% styðja Clinton en 1% Trump, óákv/kjósa ekki: 28%
  • Af asískum uppruna: 52% styðja Clinton en 12% Trump, óákv/kjósa ekki: 22%
  • Af S-Amerískum uppruna: 43% styðja Clinton, 11% Trump, óákv/kjósa ekki: 29%
  • Hvítir: 27% styðja Clinton, 27% Trump, óákv/kjósa ekki: 23%
  • Allir 18-30 ára: 36% styðja Clinton, 18% Trump, óákv/kjósa ekki: 23%

Takið eftir því hversu hátt hlutfall ætlar ekki að kjósa eða er óákveðið. Líkur benda til að hinir ungu stuðningsmenn Clintons samkvæmt þessum lista hafi hreinlega ekki mætt á kjörstað. Það munaði ábyggilega um minna en þetta fyrir Clinton en sáralítið fyrir Trump.

Ég er ekkert sérstakur aðdáandi Hillary Clinton og enn síður Donald Trumps en vakti þó fram eftir til að fylgjast með úrslitunum. Rétt áður en að ég fór að sofa fannst mér að austurströndin væri ekkert sérstaklega fylgjandi Clinton eins og ég hafði haldið. Í ljós kom að Trump tók Flórída, óákveðna fylkið., það var slæmur fyrirboði. Svo vaknaði maður eftir nokkurra stunda svefn og fékk fréttirnar að Trump væri með fleiri kjörmenn og því orðinn forseti. Dapur dagur.

Mér þótti hins vegar fyndin afstaða eins vinar míns sem sagði um úrslitin: 

Vonandi sér Kölski sig um hönd og segir að við þurfum að gleyma öllu sem hann hafi sagt. Það var nú bara til að fá athygli. Nú er tími til að sameina og byggja upp og það sérstaklega innan USA, segir hann. Svo mun kerfið bara éta hann.

 

Viðbót

SpáSeinni part dags rakst ég á sundurliðaða útgönguspá á CNN þar sem fram koma athyglisverðar upplýsingar. 

  • Karlar, 48% kjörsókn, 41% kaus Clinton og 53% Trump
  • Konur, 52% kjörsókn; 54% kaus Clinton, 42% Trump

Einnig fylgir aldurskipting kjósenda. Athyglisvert er að bera hana saman við aldurshlutfallið samkvæmt Sky Data hér að ofan. Hún er eins í meginatriðum.

Unga fólkið kýs ekki eins og það eldra. Tæpur fjórðungur yngra fólks nýtir kosningarétt sinn. Þetta er alþjóðlegt mein.

 


mbl.is Hverju breytir sigurinn á alþjóðavísu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins fimm jarðskjálftar í dag ...

SkjálftarJarðskjálftar á Íslandi koma í hviðum, stundum eru þeir mörg hundruð en svo fellur á kyrrð og ró, rétt eins og í dag, þriðudaginn 8. nóvember.

Frá miðnætti hafa orðið fimm jarðskjálftar, sem þykir nú ansi lítið, raunar svo ómerkilegt að varla er orð um það hafandi nema fyrir þá sök eina að þeir gerast sjaldan færri.

Fyrir nokkrum vikum var allt á öðrum endanum vegna hrinu skjálfta í Mýrdalsjökli. Allt tekur enda um síðir. 

Í dag var einn skjálfti sunnan við Brennissteinsfjöll á Reykjanesi, tveir voru sunnan við Herðubreið, einn varð í Goðalandi og einn í öskju Mýrdalsjökuls.

Þegar eldgosinu í Eyjafjallajökli lauk komu fram alls kyns spámenn og héldu því fram að Katla myndi gjósa á sama ári eða því næsta. Engin rök voru fyrir þessu önnur en draumar og spádómar í kaffibolla. 

Ekki eru allir skjálftar fyrir eldgosum en þversögnin felst í því að á undan eldgosum verða jarðskjálftar.

Myndin er af korti Veðurstofunnar og sýnir það skjálfta síðustu þriggja daga. Rauðu deplarnir eru þeir nýjustu.

 

 


Fréttir um engar fréttir eru fréttir ef álitsgjafinn segir svo ...

Ef stjórn­ar­mynd­un lend­ir í ein­hverj­um ógöng­um og það stefn­ir í kreppu þá er það nú bara þannig að menn munu vænt­an­lega skoða stöðuna í öðru ljósi. Ég held að þetta geti ekki komið á borðið í fyrstu at­rennu. Ég held að það myndi valda úlfúð, sér­stak­lega í VG, ef þeir myndu ekki alla­vega reyna eitt­hvað annað fyrst áður en þeir færu í bein­ar viðræður við Sjálf­stæðis­flokk­inn. Það er ekk­ert úti­lokað í póli­tík.

Þetta er togað út úr Grétari Þór Eyþórssyni, stjórnmálafræðingi og prófessor, í mbl.is. Í raun og veru hefur hann ekkert að segja nema það sem allir vita og skilja sem á annað borð fylgjast með pólitík.

Helstu álitsgjafar í fjölmiðlum eru án efa hinir vænstu menn en þeir vilja ekki bregðast  eru því nauðbeygðir til að segja eitthvað, bara eitthvað, eins og að það sé ekkert útilokað í pólitík eða það gæti dregið til tíðinda á næstu dögum

Í fjölmiðlum hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagt hver staðan er í stjórnarmyndunarviðræðum hans. Ekki þarf að leita til stjórnmálafræðings til að fá staðfestingu á því að annað hvort myndar Bjarni ríkisstjórn eða ekki.

Fjölmiðlarnir eru orðnir ærið undarlegir. Fréttir um engar fréttir eru orðnar svo afar mikilvægar fréttir af því að sennilegur álitsgjafi segir löngu máli að ekkert sé að frétta.

Skyldi enn rigna? Hef ekki heyrt í veðurfræðingi í langan tíma. Eitthvað blautt fellur samt af gráum himni ofan.

 

 


mbl.is Gæti dregið til tíðinda á næstu dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimskuleg grein um heimskulega ákvörðun

AlthingiForseti Íslands sem hefur sagt að hann: „vænti þess að þingið vindi ofan af þessari ákvörðun [Kjararáðs]“ getur gefið út að hann muni setja bráðabirgðalög áður en þing komi saman nema Kjararáð lækki launin eða hann fái það staðfest frá formönnum allra flokka að Alþingi muni vindi ofan af ákvörðuninni. Ef þessir þrír aðilar bregðast allir þá mun ég kæra ákvörðun Kjararáðs til dómstóla og hef nú þegar fengið til þess lögfræðing.

Þetta segir nýkjörinn þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson, í grein í Fréttablaðinu og þykir ábyggilega flestum greinin einstaklega skrýtin. Auðvitað er maðurinn ekki að gera neitt nema auglýsa sjálfan sig og um leið vaknar efi í huga lesandans, hvort vegi meira, sjálfsauglýsingin eða óánægjan með niðurstöðu Kjararáðs.

Sé mikil þykkja í Jóni Þór út af ákvörðuninni, af hverju vinnur hann ekki með þingflokki Pírata í málinu, það ætti nú að auka slagkraftinn tífalt? Gæti kannski verið að þingflokkurinn sé honum ekki sammála eða ræður bara löngunin til þess að auglýsa sjálfan sig sem hinn hugprúða riddara óréttlætisins?

Svo er það annað sem þingmaður á að vita. Forseti Íslands setur ekki bráðabirgðalög. Það gera ráðherrar ríkisstjórnar en forseti skrifar undir sé hann samþykkur.

Þegar nánar er að gáð er grein Jóns Þórs heimskuleg tilraun til að auglýsa sjálfan sig. Hann hótar að kæra ákvörðun Kjararáðs. Óvíst er að hverjum sú kæra beinist því flestir eru á þeirri skoðun að síðasta ákvörðun ráðsins hafi vægst sagt verið undarleg.

Í vísu sem ég nam einhvern tímann segir:

Heimskingjarnir hópast saman
og hefur hver af öðrum gaman.
Og eftir því sem þeir eru fleiri
eftir því verður heimskan meiri.

Fer nú saman að með heimskulegri grein hótar þingmaður kæru vegna heimskulegrar niðurstöðu Kjararáðs. Og ekki eru gáfurnar miklar því svo virðist sem hann hóti eftirtöldum:

  1. Forsetanum nema hann setji bráðabirgðalög gegn ákvörðun Kjararáðs
  2. Kjararáði, nema það hætti við allt saman
  3. Formönnum þingflokka, nema þeir lofi því að þeir láti Kjararáð hætta við allt saman

Furðulegar hefur varla neinn þingmaður skrifað og er þó úr mörgu að velja.

Og nú situr Jón Þór Ólafsson, háttvirtur þingmaður, með hendur í skauti og bíður þess að þeir sem hann hótaði sendi honum allra auðmjúklegast loforð um betrumbætur svo hann þurfi ekki að kæra.

Allflestir virðast vera á móti ákvörðun Kjararáðs og þar af leiðandi bendir allt til þess að henni verði breytt í meginatriðum. Í því ljósi er það fyndnasta við grein Jóns Þórs sú ómerkilega staðreynd að þegar upp er staðið getur hann sagt:

Sko, sjáiði hvernig ég lét afnema ákvörðun Kjararáðs. Mikið óskaplega er ég góður og vandaður maður.

Að lokum vil ég feta í fótspor þingmannsins og kæra Veðurstofu Íslands nema því aðeins að vætutíðinni linni, hvassviðri hætti og í staðinn fari að frysta og snjóa.

Myndin er af Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, fyrir utan þinghúsið, en því miður sést í gegnum hann.


mbl.is Kærir verði ákvörðun ekki breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn eru ekkert hoppandi hrifnir af ríkisstjórn með VG

Sé Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður og fyrrverandi formaður Vinstri grænna, á þeirri skoðun að flokkur sinn geti unnið með Sjálfstæðisflokknum, á hann að segja svo.

Æ, fleiri eru farnir að tala eins og véfrétt, draumaráðningarfólk, spámenn eða álíka lið sem veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Enginn vill tala hreint út því þá er alltaf hætta á að hlutirnir þróist þvert á það sem spáð er. Betra er að tala í allar áttir til þess að geta síðar meir sagst hafa spáð rétt. Að minnsta kosti segist Steingrímur hafa séð hrunið fyrir og er hann þó ekki meðal frænkustu spámanna landsins.

En fyrst að Steingrímur hefur sagt að ekki skuli loka neinum dyrum er næst á dagskránni að segja það sem allir eru að tala um: Ríkisstjónrarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn kemur til greina ... Ekki blaðra út í allar áttir.

Steingrími til hugarhægðar skal það tekið fram að við Sjálfstæðismenn erum ekkert hoppandi hrifnir af ríkisstjórn með Vinstri grænum. Það er einfaldlega svo að okkur langar síður að leika við þá sem ítrekað hafa hrekkt okkur í sandkassanum.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, veit mætavel um hug okkar Sjálfstæðismanna og að formaður flokksins myndi þurfa að leggja mikla vinnu á sig til að sannfæra okkur og ekki er víst að hann hafi árangur sem erfiði.


mbl.is Telur VG þurfa tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfkrafa launahækkun án ábyrgðar er slæm

Þingmenn, ráðherrar og forseti teljast ekki stétt fólks eins og kennarar, smiðir eða hjúkrunarfræðingar svo dæmi séu tekin. Þessir aðilar fá að hámarki fjögurra ára ráðningarsamning, hann getur orðið styttri. Engu að síður er það algjörlega óásættanlegt að þeir fái að ákveð laun sín sjálfir. Þess vegna á kjararáð að ákveða laun þeirra.

Æðstu embættismenn þjóðarinnar eiga ekki heldur að ákveða laun sín. Hlutverk löggjafarþings er ekki að ákveða laun. Ráðherrar eiga ekki heldur að ákveða laun helstu samstarfsmanna sinna í ráðuneytunum, það fer ekki vel á því. Laun dómara eiga ekki að vera ákveðin af pólitískri stjórnsýslu, þá er hætta á spillingu. Þess vegna á kjararáð að ákveða laun þessara embættismanna. 

Svo er það allt annað mál að kjararáð ákveður laun fyrir fjölda fólks sem ætti að vera í launþegafélögum og þau eiga að semji um lauin eins og víðast tíðkast.

Hér hefur nú verið rakin ástæða fyrir því að kjararáð ákveður laun fjölda fólks. Auðvitað má endalaust deila um hver launin eigi að vera. Þó verður að taka það með í reikninginn að störf þessa fólks eru þess eðlis að skynsamlegra er að laun þeirra séu ákveðin af hlutlausum aðila.

Dómarar eru almennt á háum launum vegna þess að þá eru taldar minni líkur á spillingu eða að þeir þurfi að afla sér tekna með aukavinnu. Það er ekki talið samrýmast hlutleysi dómara að eiga tekjur sínar undir öðrum en ríkissjóði.

Í raun og veru ætti það sama að gilda um forseta, ráðherra, þingmenn og embættismenn. Það væri nú alveg óþolandi ef ráðherra fengið laun frá tveimur aðilum á sama tíma, einkafyrirtæki og ríkissjóði. Auðvitað geta þingmenn ekki heldur þjónað tveimur herrum. Hverjum væru þeir þá skuldbundnir? Hvar myndi trúnaður þeirra liggja?

Hér hefir ekki verið fjallað um launafjárhæðir. Líklega eru margir sammála ofangreindu en munu svo deila harðlega um fjárhæðir.

Nú hefur kjararáð birt úrskurð sinn. Forsetinn, ráðherrar og þingmenn snarhækka í launum, þvert á launaþróun í þjóðfélaginu. Þetta er svona nálægt því að vera sjálfkrafa launahækkun, eitthvað sem virðist gerast án þess að mannshöndin komi þar nærri. Hefði þessari launahækkun verið dreift á sex mánuði eða heilt ár hefði almenningur líklega ekki gert eins mikið mál úr þessu.

Vandinn er sá að lög um kjararáð eru einfaldlega ófullkomin. Þau taka ekki tillit til þróunar á launamarkaði. Með réttu ætti til dæmis að standa í lögunum að kjararáð mætti aldrei hækka laun um sem nemur tvöfaldri hækkun launa opinberra starfsmanna í síðustu kjarasamningum og þá miða við heilt ár í senn.

Jafnvel þó ákvörðun kjararáðs hafi að mörgu leyti verið réttlætanleg þá var hún röng vegna þess að hún fylgdi ekki launaþróun á almennum vinnumarkaði. Þetta er ástæðan fyrir því að fólki ofbýður.

 

 


mbl.is „Neistinn sem kveikti í púðurtunnunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort ræður, sannfæring þingmanns eða vilji meirihluta þjóðar?

Dómstóll í Englandi hefur úrskurðað á þá leið að ríkisstjórn Bretlands skuli leita samþykkis þingsins áður en svokallað úrsagnaferli úr ESB hefst.

Hér er um að ræða afar forvitnilegt álitamál sem er bæði siðferðilegt og ekki síður rammpólitískt. Látum nú vera þennan dóm en skoðum málið ef það verður svo eftir áfrýjun til hæstaréttar að ríkisstjórnin þurfi að fá samþykki þingsins fyrir útgöngu úr ESB.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni samþykkti meirihluti Breta að ganga úr ESB. Setjum sem svo að þingið sé ekki sammála þjóðinni, getur það þá hætt við Brexit? 

Í þessu felst nú álitamálið: Er þingmaður siðferðilega bundinn eigin sannfæringu eða meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Kjarni málsins er enn alvarlegri. Er þingmanni stætt á því að greiða atkvæði á móti niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu sem hugsanlega getur haft þær afleiðingar að ekki sé farið að vilja þjóðarinnar?

Hvað hefði til dæmis gerst ef lög væru þannig hér á landi ríkisstjórn geti ekki farið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu nema þingið samþykkti? Hvað hefði þá orðið um Icesave-samningana svo dæmi sé tekið?

Nú er það alkunna að almenningsálitið breytist hratt í skoðanakönnunum. Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram á allt öðrum tíma en skoðanakannanir. Þær gefa vísbendinu en eru ekki niðurstaða. Þar af leiðandi er útilokað að halda því fram að þingmanni sé skylt að fara eftir skoðanakönnunum í störfum á löggjafarþinginu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er hins vegar allt annað mál. Margir munu eiga erfitt með að ganga gegn þjóðarvilja, en sé hann þvert á sannfæringu versnar staðan.

Segjum sem svo að hér fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu og niðurstaðan sé svo lögð fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar. Hvað gera þingmenn?

  • Getur sá sem er á móti aðild kosið gegn þjóðarvilja?
  • Getur sá sem er með aðild kosið gegn þjóðarvilja?

Eflaust taka margir þessu létt og fullyrða að þjóðarvilji eigi að ráða en hvað verður þá um djúpa sannfæringu þingmannsins?

Gaman væri að heyra álit lesenda á þessu álitamáli, ekki um aðild Íslands að ESB eða Brexit enskra, heldur hinu siðferðilega og pólitíska.


mbl.is Dómararnir sagðir „óvinir þjóðarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á nú Alþýðuflokkur að koma í stað Samfylkingar?

Auðvitað er það Sjálfstæðisflokknum að kenna að Samfylkingin er komin að fótum fram. Þetta er að minnsta kosti kenning Jóns Baldvins eftir því sem vefritið pressan.is segir um tal hans í útvarpsþætti.

Margir halda því fram að ný sé kominn tími til að dusta rykið af Alþýðuflokknum og flagga honum í stað Samfylkingarinnar. Sumsé, breyta um nafn og kennitölu og halda svo áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það gera að minnsta kosti margir þeirra sem eru í rekstri og fara á hausinn.

Eru menn búnir að gleyma Alþýðuflokknum, þessum smáflokki sem rýrnaði í samstarfi við aðra flokka en dignaði í stjórnarandstöðu? Hann var þekktur fyrir víg á formönnum sínum, steyptu þeim í þeirri von að einhver annar gæti fiskað meira. Þetta reyndist tálsýn, rétt eins og hjá Samfylkingunni.

Hverjum er það að kenna að Samfylkingin er komin að fótum fram? Jú, það er forystunni, stjórnmálamönnum hennar og hörmulega lélegri stefnuskrá.

Fólk er ekki fífl. Hvernig getur mönnum dottið í hug að hægt sé að leggja niður nafn á flokki og taka upp annað og halda að kjósendur láti glepjast.

Staðreyndin er einfaldlega sú að jafnaðarmönnum í Alþýðuflokknum og Samfylkingunni mistókst hvað eftir annað að sannfæra kjósendur um ágæti jafnaðarstefnunnar.

Vefsíðan Andríki lýsir þessum kjánaskap þannig:

Í kosningabaráttunni lýsti Oddný Harðardóttir furðu sinni á skoðanakönnunum vegna þess að Samfylkingin hefði „bestu stefnu í heimi“.

Að loknum kosningum sagði Oddný að úrslitin kölluðu á að Samfylkingin endurskoðaði stefnu sína.

Hún tekur þá kannski upp næstbestu stefnu í heimi og kannar hverju hún skilar.

 


Ómerkilegt stjórnarmyndunarleikrit í 20 köflum

Höfum það á hreinu að ekki þarf „umboð“ eða leyfi frá forseta Íslands til að mynda ríkisstjórn. Ef til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð vilja mynda ríkisstjórn, þá einhenda þessir flokkar sér í það án þess að gera rúmrusk á Bessastöðum.

Þess í stað er búið að semja alveg stórundarlega atburðarás sem er síst af öllu skilvirk enda kanna að verða úr henni leikrit sem spinnst sjálfvirkt áfram án allrar skynsemi, verður jafnvel að tuttugu kafla gamanleik eða satíru. Látum hugann reika:

1. kafli

Forsetinn ræðir í klukkutíma við formenn allra stjórnmálaflokka sem náðu manni kjörinn á þingið.

2. kafli

Forsetinn hugsar málið í tuttugu og fjórar klukkustundir og hringir svo í einn formann og boðar hann á fund á Bessastöðum.

3. kafli

Forsetinn afhendir formanni eins stjórnmálaflokksins „umboð“ til stjórnarmyndunar. Umboðið er þó hvergi til, hvorki skriflegt né munnlegt, heldur segir forsetinn: Ef þú getur myndað ríkisstjórn væri það gott. Komdu svo til mín aftur eftir helgi og segðu mér hvernig gengur.

4.kafli

Forsetinn heldur blaðamannafund og upplýsir hverjum hann hefur falið að mynda stjórn. Forsetinn er spurður um launakjör sín. Formaðurinn sem ætlar að mynda ríkisstjórn svarar fyrirspurnum. Hann er spurður um launahækkanir kjararáðs.

5. kafli

Formaðurinn sem ætlar að mynda ríkisstjórn kallar formenn annarra stjórnarflokka til fundar við sig í Ráðherrabústaðnum, einn í senn.

6. kafli

Formaðurinn sem ætlaði að mynda ríkisstjórn hittir forsetann á fundi á Bessastöðum og skilar „umboðinu“. Honum hefur ekki tekist að mynda ríkisstjórn.

7. til 13. kafli

Forsetinn veitir öðrum formanni stjórnmálaflokks „umboð“ til stjórnarmyndunar. Sá boðar formenn hinna stjórnmálaflokkanna á sinn fund og kannar möguleikanna. Honum tekst ekki að mynda ríkisstjórn og skilar því umboðinu. Þetta endurtekur sig í fimm skipti til viðbótar. 

14. kafli

Forsetinn hugsar málið ... enn og aftur. Hann boðar til blaðamannafundar ... enn og aftur og segist hugsanlega, kannski, ef til vill og jafnvel vera að íhuga utanþingsstjórn.

15. kafli

Meintur formaður stjórnmálaflokks tekur djúpan smók og hringir í forsetann og segist geta stutt minnihlutastjórn vinstri sinnaðra flokka.

16. kafli

Forsetinn boðar til blaðamannafundar og lofar formann stjórnmálaflokksins og biður hann um að mynda minnihlutastjórn og styðja hana.

17. kafli

Minnihlutastjórn er mynduð með stuðningi stjórnmálaflokksins.

18. kafli

Stjórnmálaflokkurinn sem lofaði stuðningi við minnihlutastjórn klofnar í fernt vegna þess að ekki er sátt um fjárlagafrumvarpið, ráherra, önnur lög, stjórnarskránna og svo framvegis.

19. kafli

Minnihlutastjórnin segir af sér og forsetinn biður hana að sitja fram yfir næstu kosningar.

20. kafli

Meirihluti þingsins boðar til þingkosninga.

Svona getur nú farið þegar óskilvirkni og sýndarmennska fær að ráða.

Líklegast er best að eftir hverjar kosningar að formaður stærsta stjórnmálaflokksins fái „umboðið“, þegjandi og hljóðalaust og án atbeina forseta. Hinir formennirnir eigi þó frítt spil og geti gert það sem þeir vilja, myndað ríkisstjórn eða beðið símtalsins frá stóra flokknum.

Verðandi forsætisráðherra sem tekst að mynda ríkisstjórn hringir svo í forsetann og tilkynnir honum stöðu mála. Forsetinn kinkar gáfulega kolli og heldur svo áfram því sem hann var að gera þegar hann var truflaður með símhringingu. Eða þá að forsetinn lesi um stjórnarmyndunina á Facebook.

Þess má hér geta að verðmiðinn á þingkosningar er líklega um 200 milljónir króna. Skynsamlegast er að kjósa aftur heldur en að búa til hundleiðinlegt leikrit sem hefur engan tilgang nema halda stjórnvöldum frá stjórn landsins og löggjöf.

Nema auðvitað að land og þjóð „fúnkeri“ bara ágætlega án ríkisstjórnar og löggjafarþings.


Sjálfsásakanainnantökusökudólgaleitandi pakk

Smám saman tókst þeim að fæla æ fleiri frá flokknum, með lokuðum prófkjörum, kvótum og girðingum sem allur almenningur hló að. Og þeim tókst færa flokkinn svo langt til vinstri að hann gleymdi erindi sínu. Þegar öllu er á botninn hvolft líkar þeim betur við hið þrönga erindi Vinstri grænna en sitt eigið.

Þegar pakkið tekur síðan að sér að reka kosningabaráttu er útkoman fyrirsjáanleg. Erindið er ekkert, utan loforðið um að greiða fyrirfram skaðabætur fyrir krónuna. Annars almennt hjal um gott samfélag og réttlæti. Ekkert sem hönd á festi. Enginn baráttuandi, ekkert pönk, engin uppreisn gegn Panamastjórninni. Og enginn sem kunni til verka svo að séð yrði.

Þessi tilvitnun er úr einni af þeim bestu greinum sem ég hef lesið í langan tíma. Ekki vegna þess að höfundurinn Karl Th. Birgisson er að fjalla um félaga sína í brunarústum Samfylkingarinnar, ekki af því að hann er afburða ritfær maður og ekki vegna þess að ég sem Sjálfstæðismaður sé að hlakka yfir óförum stjórnmálaflokksins í kosningunum.

Nei, Greinin er góð vegna þess að hún tekur á því þegar stjórnmálin vantar í pólitíkina, yfirborðsmennskunni, þegar menn gleyma stefnunni, staðfestunni og eldmóðnum.

Vissulega var Samfylkingin stjórnmálaflokkur með stefnu. Hins vegar breyttist allt vegna þess að fólkið í vinsældarleiknum reyndist ekki vanda sínum vaxið, eða með orðum Karls:

Þetta er líka fólkið sem fór á taugum í Hruninu. Þau görguðu hæst einmitt þegar yfirvegunar var þörf. Þau voru enn í taugaáfalli þegar endurreisnin átti sér stað 2009-2013.

Í stað þess að standa hnarreist, finna til ábyrgðar sinnar og ganga til verka lögðust þau í naflaskoðun. Skrifuðu skýrslur þar sem mátti eiginlega lesa að Samfylkingin hefði valdið Hruninu. Skipulag hennar og vinnubrögð.

Þarna lýsir Karl fólkinu sem ber ekki skynbragð á stjórnmál, fólkið sem hrærist í ómerkilegum dægurmálum og aflar upplýsinga úr fyrirsögnum fjölmiðla en lætur vera kynna sér málin lítið meira en að fara inn á Facebook. Þetta fólk er svo sem til í flestum flokkum. 

Og Karl heldur áfram:

Á meðan aðrir stóðu sótugir upp í hársrætur í brunarústabjörgun kyntu þau undir aðför að Steinunni Valdísi Óskarsdóttur. Þau lyftu ekki litlafingri henni til varnar þegar setið var um heimili hennar. Þau lögðu Björgvin G. Sigurðsson í einelti og gera enn, eina manninn sem axlaði ítrekað pólitíska ábyrgð á atburðum sem hann tók engar ákvarðanir um. Þau töldu líka landsdómsmálið vera meðal stærstu réttlætisverka jafnaðarmanna á seinni árum.

Þegar fylgi flokksins var loks farið að hjarna við þótti þeim tímabært að reyna að steypa forystunni með sólarhrings fyrirvara á landsfundi, þvert á hina merku lýðræðishefð um að formann skuli kjósa í almennri kosningu allra félagsmanna. Sú aðgerð ein segir allt um dómgreind Reykjavíkurpakksins.

Smám saman tókst þeim að fæla æ fleiri frá flokknum, með lokuðum prófkjörum, kvótum og girðingum sem allur almenningur hló að. Og þeim tókst færa flokkinn svo langt til vinstri að hann gleymdi erindi sínu. Þegar öllu er á botninn hvolft líkar þeim betur við hið þrönga erindi Vinstri grænna en sitt eigið.

Þetta gerist þegar sá tilgangur með stjórnmálastarfi færist frá því að vinna landi sínu og þjóð gagn og beinist þess í stað að sjálfinu, „like-unum“ og „vinunum“ á Facebook og smáatriðunum.

Karl kallar þetta fólk „reykvíska sjálfsásakanainnantökusökudólgaleitandi liðið“ og heldur því fram að það sé nú þingmannslaust. Þar hefur hann rangt fyrir sér. Nokkrir nýir af þessari gerð voru kosnir á þing um síðustu helgi en eru í öðrum flokkum.

Þó Samfylking virðist nú heyra sögunni til þarf gott fólk í öllum flokkum að taka sig nú saman og fara að vinna að því að færa stjórnmálin að hærra plan. Gera þau þannig að stefnan verði aftur sú að búa til betra Ísland.

Sá leikur sem nú stendur yfir og kallast „stjórnarmyndunarviðræður“ á lítið skylt við annað en samkvæmisleik sem hver sumir taka þátt í vegna þess að þeir vilja ekki vera útundan, þora ekki að taka afstöðu af hræðslu við hugsanlegar afleiðingar. Þegar svo er komið sögu í stjórnmálum er markmiðið sjálfið, ekki stefna eða hugsjón.

 


Ekki er hægt að semja um umsókn að ESB

Ekkert nýtt er í svari Evrópusambandsins til Svavars Alfreðs Jónssonar. Allir sem eru læsir og skilja ensku hafa getað aflað sér sömu upplýsinga á vef sambandsins.

Hinir ólæsu og þeir sem ekkert kunna í öðrum tungumálum hafa hins vegar haldið því fram að hægt sé að sækja um aðild að ESB, „semja“ við sambandið og í ljósi niðurstöðunnar hafnað eða samþykkt samninginn.

Svona rugl streymir nú frá fólki sem heldur að aðild að ESB fari eftir sömu reglum og þegar Bretar, Svíar, Finnar, Danir og fleiri þjóðir gengu í sambandið. Þá var boðið upp á samning en ekki lengur.

Nú er boðið upp á Lissabonsáttmálann, stjórnarskrá ESB. Annað hvort samþykkja umsóknarríki hann eða ganga ekki í sambandið. Enginn samningur er í boði nema ef vera skyldi tímabundnar undanþágur í smávægilegum málum.

Hagsmunir einstakra ríkja innan ESB eru svo miklir að til dæmis Spánverjar, Portúgalar eða Frakkar myndu aldrei samþykkja að Ísland fái að halda núverandi fiskveiðistefnu og lokaðri landhelgi.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að Ísland mun aldrei sem umsóknarríki geta sett öðrum ríkjum skilyrði fyrir inngöngu sinni í ESB.

Allir geta spurt Evrópusambandið um skilyrði fyrir inngöngu og fá alltaf sama svar, núna síðast Svavar Alfreð Jónsson. Aðlögun felur í sér að umsóknarríki tekur upp lög og reglur ESB jafnt og þétt og verður ESB-ríki í áföngum. Þegar aflögunni er lokið er ekki hægt að snúa við; þjóðaratkvæðagreiðsla í lok aðlögunarferlis er aðeins formsatriði.

Þetta segir Páll Vilhjálmsson í pistli á bloggsíðu sinni í morgun. Hann vakti um leið athygli á erindi Svavars Alfreðs Jónssonar til Evrópusambandsins og svari þessi.


mbl.is Reglur ESB „óumsemjanlegar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálfræðingar og annað fólk með skyggnigáfu

Hefði Kjaradómur ekki stolið senunni í gær með undarlegum úrskurði sínum værum við neytendur fjölmiðla enn að fylgjast með tíðindalausum stjórnarmyndunarviðræðunum.

Allt er orðið frétt, ráðist er að formanni stjórnmálaflokks á hlaði Bessastaða og hann þýfgaður um ekki neitt. Við fáum að kynnast með fatasmekk formanns Bjartrar framtíðar og fréttum af svokölluðu umboði til stjórnarmyndunar. 

Samt fáum við ekki fréttir frá miðlum eða spámönnum því í þeirra stað eru komnir stjórnmálafræðingar sem tjá sig um fortíð og framtíð.

Þeir eru spurðir um áhrif veðurs á kjörsókn, hvaða ríkisstjórn geti verið mynduð, hver muni verða forsætisráðherra, hvaða flokkar muni skipa næstu ríkisstjórn og hvernig henni muni reiða af fram til jóla og jafnvel vors.

Öllu þessu svara stjórnmálamenn líkt og draumaráðningarmenn eða þeir sem rýna í spil. Loðnir í svörum, langorðir og alvara lífsins lekur af þeim.

Samt sá enginn þeirra fyrir afsögn formanns Samfylkingarinnar, ekki stjórnmálafræðingar, ekki þeir sem ráða drauma, spá í spil eða kaffibolla né heldur þeir sem búa yfir skyggnigáfu.

Hva ... er ekkert að marka þetta lið?

  • Enginn stjórnmálafræðingur sá fram á útreið Samfylkingarinnar í kosningunum. Hún kom ekki heldur fram í kaffibollum eða spilum.
  • Enginn stjórnmálafræðingur fattaði að Sjálfstæðisflokkurinn myndi auka fylgi sitt í kosningunum.

Niðurstaðan er einföld. Ekkert er að marka þá sem spá fram í tímann. Ekki stjórnmálafræðinga, draumaráðningarfólk, þá sem spá í spil, kaffibolla, innyfli dýra eða stjörnur á himinhvelinu. Þetta fólk sér ekki fram í tímann, veit ekkert hvað gerist umfram okkur hin sem fylgjumst með fréttum. Trúgirni margra fjölmiðlunga er hins vegar ótrúleg, ef þannig má að orði komast.

Annars eru hér stórmerkilegar fréttir sem enginn stjórnmálafræðingur né liðið sem spáir í spil hefur nokkra hugmynd um:

  • Formaður Bjartrar framtíðar muni kaupa nýjan jakka, einn eða fleiri áður en yfir lýkur.
  • Formaður Sjálfstæðisflokksins mun einhvern næstu daga skrifa eitthvað á blað og hringja nokkur símtöl. 
  • Formaður Vinstri grænna mun brosa út í bæði, jafnvel þó hún fái alvarlega spurningu.
  • Formaður Viðreisnar mun setjast á fund með þingflokknum.
  • Samfylkingin mun sameinast Bjartri framtíð og nefnast eftir það Björt samtíð.
  • Framsóknarflokkurinn mun ekki klofna

Allt þetta og meira til eru staðreyndir. Ég veit þetta, þekki stjórnmálafræðing ... meina draumspakan mann.

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband