Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Forsætisráðherra skýri stöðuna vegna ESB umsóknarinnar

Fleirum en mér er órótt vegna meðferðar ríkisstjórnarinnar á aðildarumsókninni í Evrópusambandið. Styrmir Gunnarsson ritar góðan pistil á Evrópuvaktina og segir þar:

Það er afar mikilvægt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, skýri stefnu og afstöðu ríkisstjórnarinnar til aðildarumsóknar Íslands að ESB betur en ráðherrar hafa gert til þessa í stefnuræðu sinni á Alþingi.

Hvað þarf að skýra betur?

Í fyrsta lagi þarf að skýra stöðu þeirrar yfirlýsingar stjórnarflokkanna í stjórnarsáttmála að staða viðræðna við ESB verði metin svo og þróun Evrópusambandsins. Hvar er þetta mál á vegi statt?

Í öðru lagi þarf ríkisstjórnin að upplýsa hvenær og með hvaða hætti hún ætlar að draga aðildarumsóknina að ESB til baka. Ísland er enn umsóknarríki, þrátt fyrir að „hlé“ hafi verið gert á viðræðum.

Í þriðja lagi þarf forsætisráðherra að útskýra afstöðu stjórnarflokkanna til þeirra fyrirheita, sem gefin voru í kosningabaráttunni um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins. Þær útskýringar hafa ekki komið fram heldur hafa einstakir ráðherrar og þingmenn talað út og suður.

Það hefur verið haldið illa á þessu máli fram til þessa gagnvart almenningi. Áform ríkisstjórnarinnar um næstu skref eru óljós þótt enginn dragi í efa, að stjórnarflokkarnir séu samstiga í því að hætta viðræðum. Þeim gengur hins vegar augljóslega illa að ákveða með hvaða hætti það verði gert. 

Ég er sammála Styrmi. Forsætisráðherra þarf að skýra málið. Það er út í hött að utanríkisráðherra taki sér löggjafarvald og álíti sem svo að hann einn geti afturkallað þingsályktun Alþingis eða látið sem svo að nýr meirihluti sé kominn og þurfi ekki að greiða atkvæði. Utanríkisráðherra er ekki Alþingi við megum ekki gleyma því að formið er ekki aðeins tildur heldur bráðnauðsynlegur hluti löggjafarvaldsins. Hlé er aðeins stundarfyrirbrigði.

Við eigum að leggja umsóknina um aðild að ESB undir þjóðaratkvæði. Það er eina leiðin til að fá málið út úr heiminum í eitt skipti fyrir öll. Ég er þess fullviss að þjóðin mun hafna aðildinni.


95 til 100% húsnæðislán eru nauðsynleg

Þegar upp er staðið er í langflestum tilvikum farsælast að að fólk eigi húsnæði sitt. Vandinn hér á landi eru ósveigjanlegar lánareglur Íbúðalánasjóðs og banka. Annar vandi er sá hversu viðkvæmur húsnæðismarkaðurinn er fyrir breytingum á lánamöguleikum. Hækki þeir er víst að íbúðaverð hækkar nær samstundis. Ábyrgð fasteignasala er líka mikil, Margir halda því fram að vegna stundahagsmuna séu þeir vísir til að meta íbúðir hærra en gæði húsnæðisins standa til. Þá skáka þeir í því skjóli að staðsetningin skipti máli.

Stærstur vandinn er þó þeirra sem leigja, byggja á þeim ótrygga markaði. Ég hef áður skrifað um þessi mál og lagt fram tillögur.

Er sá sem greiðir til dæmis 140-200 þúsund krónur á mánuði í húsaleigu óhæfur sem íbúðarkaupandi miðað við kröfur Íbúðalánasjóðs og bankanna?

Nei, ekkert endilega. Þúsundir manna þurfa að leigja af því að þeir uppfylla ekki kröfur um eigið fé. Sá sem kaupir íbúð, segjum á 21 milljónir króna, fær venjulega lán fyrir 80% fjárhæðarinnar og þarf þá að vera með 4,2 milljónir í eigið fé.

Margir hafa hrakist út á leigumarkaðinn vegna þess að þeir hafa misst íbúð einhverra hluta vegna og ungt fólk bætist við markaðinn og þarf að kaupa sína fyrstu íbúð. Saðan er hins vegar sú að venjulegt launafólk hefur varla tök á því að gera þetta tvennt í einu, greiða mánaðarlega leigu og spara jafnframt fyrir útborgun í nýrri íbúð.

Lausnin á þessu vandamáli er í sjálfu sér einföld. Gengið er þá út frá því að sá sem borgar leigu að fjárhæð 140-200 þúsund krónur sé tvímælalaust borgunarmaður fyrir samsvarandi húsnæðisláni.

Hugmynd mín er sú að hann fengi tvenns konar lán. Annars vegar hefðbundið húsnæðislán og hins vegar „skammtíma“ húsnæðislán til fjögurra ára.

Lauslegur útreikningur á þessum tvískipta lánaformi gæti litið út eins og hér kemur fram:

  1. Mánaðarleg afborgun af 16,8 milljón króna húsnæðisláni er um 78.000 krónur á mánuði.
  2. Mánaðarleg afborgun af 4,2 milljón króna húsnæðisláni er um 77.000 krónur á mánuði
  3. Niðurstaða en því sú að samtals greiðir lántakinn á fyrstu fjórum árunum 155.000 krónur á mánuði sem í raun og veru er hagstæðari kjör en að leigja á ótryggum markaði.
Nú kann einhver að fullyrða að þetta séu einfaldlega 100% húsnæðislán og þau séu stórhættuleg.
 
Það er vissulega rétt, svo langt sem það nær. Þau eru hins vegar ekki hættuleg. Taka þarf eftirfarandi með í reikninginn:
  1. Íbúðalánasjóður og bankar eiga á fimmta þúsund íbúðir, margar ekki í leigu, liggja undir skemmdum
  2. Húsaleigumarkaðurinn er ótryggur og slæmur kostur fyrir flesta
  3. Þeir sem leigja íbúðir eru yfirleitt traustir greiðendur 
  4. Fæstir geta greitt húsaleigu og sparað um leið fyrir útborgun í íbúð
  5. Sparnaður sem myndast með eignamyndun í eigin húsnæði er sambærilegur við sparnað
Það er svo annað mál hvernig hægt er að fjármagna þessa viðbót við íbúðarlánakerfi ríkisins. Engu að síður eru hagsmunir almennings í þessu miklir. Hagsmunir banka eru hins vegar sáralitlir í þessu nema því aðeins að sá banki sem er í eigu ríkisins ríði á vaðið fyrir hvatningu stjórnvalda.
 
Ég hvet til þess að þessi hugmynd fái málefnalega umfjöllun því hún er góð og myndi koma til móts við hagsmuni þúsunda landsmanna. Útfærsluna á þessum kosti þarf auðvitað að ræða nánar.
 

 


mbl.is Cameron boðar 95% lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt byrjaði þetta með mistökum Björns og Guðbjarts

Rök Björns Zoëga fyrir því að hætta sem forstjóri Landspítalans vekur upp nokkrar hugsanir. Fyrir það fyrsta vakti það þjóðarathygli á síðasta ári er hann óskaði eftir launahækkun á fundi með þáverandi velferðarráðherra, Guðbjarti Hannessyni. 

Á sama tíma og Björn óskaði eftir launahækkuninni var gríðarleg óánægja allra starfsmanna með laun sín og fullyrða má að þegar Guðbjartur velferðarráðherra varð við launahækkun Björns hafi Landspítalin beinlínis hrokkið niður af þeirri rekstrarlegu bjargbrún sem forstjóranum er tamt að tala um núna. Allar starfstéttir spítalans reiddust og friðurinn var úti. Það voru því Björn og Guðbjartur sem settu spítalann í þá stöðu hvar engin leið fannst til baka.

Þar að auki voru rök Björns fyrir launahækkuninni ekki þau að ábyrgðin væri mikil, hann væri önnum kafinn eða vinnutíminn væri svo langur. Nei, rök forstjórans voru þær að hann væri læknir og vildi líka sinna læknisstörfum með forstjórastarfinu ... Sem sagt hann ætlaði að sinna tveimur störfum í einu og fá vel útilátin laun fyrir hvort tveggja.

Er það að furða þó aðrir starfsmenn hafi um stund staðið agndofa og síðan ákveðið að krefjast launahækkana.

Skipperinn er sem sagt kominn í björgunarbátinn og heldur því fram að skipið sem er á hliðinni sé ekki að sökkva, það sé bara með gangtruflanir og hann varar við því að það kunni að sökkva.

Nei, það er alltof seint fyrir fráfarandi forstjóra að halda því fram að gjörðir hans hafi ekkert með stöðu Landspítalans að gera. Björn gerði stórkostleg mistök með launakröfu sinni á síðasta ári og pólitískt dómgreindarleysi Guðbjarts Hannessonar var hrikalegt. Hins vegar má alveg spyrja þeirrar spurningar hvort axarskaft þeirra tvímenninga hafi einfaldlega orðið til þess að flýta því óhjákvæmilega. Varla ber að þakka fyrir það ef rétt er?

Staða mála kennir okkur það eitt að læknisfræðimenntun og rekstrarfræðileg menntun er tvennt ólíkt. Höldum læknum frá forstjórastarfinu og fyrir alla muni höldum rekstrarfólkinu frá skurðstofunum.


mbl.is Fjárlögin ástæða uppsagnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónuleg útgönguleið við leiðarlok

Sjálfsvíg getur verið fullkomlega eðlileg leið. Að baki þarf ekki að vera geðsjúkdómur af neinu tagi. Staða einstaklings getur einfaldlega verið sú að hann er kominn að leiðarlokum að eigin mati og fátt annað eftir. Auðvitað er það hugur viðkomandi sem þarna ræður, ályktun eins manns og kemur í raun og veru fáum öðrum við. Hver er eiginlega þess umkominn að mega tala um fyrir þeim sem stendur á þessum tímamótum? Hér er ekki um neina rökræðukeppni heldur dýpstu tilfinningu sem einn maður getur haft og hana er erfitt að deilda með öðrum, eiginlega útilokað.

Hér er ekki verið að gera lítið úr vandamálum sem leiða marga til sjálfsvígs, vanda sem í raun og veru er hægt að koma í veg fyrir en aðstæður vissulega margar og ólíkar. 

Öllum er annt um eigin virðingu og vilja halda henni í þokkalegu standi þangað til yfir lýkur. Varla er hægt að gera nokkrum manni jafn illt og að svipta hann sjálfsvirðingu og frelsi til að ákveða um líf sitt.

Aðstandendur standa auðvitað berskjaldaðir eftir andlát ástvinar. Skiptir litlu máli hvort um sé að ræða sjálfsvíg, slys, aldurstengda sjúkdóma eða aðra. Öllum finnst einfaldlega sárt að sjá á eftir vinum eða ættingjum. Sorg og þjáning er ekki aðeins brotthvarfið sem slíkt heldur líka aðdragandinn, dánarorsökin. Þetta er skiljanlegt því tilfinningarnar eru ólíkar og snúast um það hversu nákomin við erum. Auðvitað er hér auðveldara um að tala en að vera í sporum syrgjanda, ég viðurkenni það fúslega.

Ég þekki verulega vel til aðstæður eins og ég hef lýst hér að ofan. Þar hefur rökræðan hefur reynst vera gagnslaus. Engin sorg er afleiðing þeirrar niðurstöðu sem viðkomandi hefur komist að, raunar aðeins gleði að hafa fundið út leið frá því sem hefur ekki lengur nokkurn tilgang, að hans mati. Þetta endar allt einhvern veginn og niðurstaðan verður alltaf hin sama, það slokknar á lífskveiknum. En það er þungt að bera þessa vitneskju og raunar óskaplega íþyngjandi að fá ekkert að gert. Þegar ákvörðun hefur verið tekin af heilbrigðum huga þess sem er skynsamur og ákveðinn er fátt hægt að segja.

Margir kvíða endalokunum og þá einkum því að verða ósjálfbjarga eins og Donald Low lýsir í myndbandinu og ekki síður að verða öðrum byrði. Eflaust vilja margir útgönguleið sem hæfir forsendum þeirra um innihaldsríkt og gjöfult líf og fá að fara með reisn áður en hið endanlega kall kemur.


mbl.is „Ég mun deyja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaninn er harður húsbóndi

Styttingar í ritmáli eiga flestar ef ekki allar rót sína að rekja til blýsetningar á ritum, ritvéla og annarrar gamalla nauðsynja. Flestar þeirra eiga eiga ekki við lengur.

Svo fastir eru margir í þessu að enn rita þeir t.d., o.s.frv., ofl.  svo örfá dæmi séu nefnd. Á stafrænni öld tækninnar er þetta algjör óþarfi.

Við þurfum ekki lengur að spara pláss, hvorki í prentuðu máli né á netmiðlum. Undantekningarnar eru líklega SMS skilaboðin, Twitter og stundum á Fésbókinni.

Íslenskufræðingar er margir hverjir steyptir í fornaldarmót. Sá fróði maður sem sér um þann fróðlega þátt „Málið“, á blaðsíðu 45 í Mogganum (bls. 45 í Mbl.!) skrifar jafnan e-r í stað einhver, e-ð (eitthvað) og álíka, rétt eins og hann þurfi að spara plássið.

Þannig er það nú að ritvinnsluforrit, hvort heldur það eru forritin sem við notum í einkatölvunni eða þau sem notuð eru á fjölmiðlunum sjá um að jafna bilið á milli orða þannig að línan öll sé eðlileg. Hægt er að auka bil á milli stafa, hækka og lækka stöðu stafa eða orða í línu. Og mörg ritvinnsluforrit hjálpa notandanum meira að segja og koma með tillögur. Þegar ég skrifa „t.d.“ þá breytir Word forritið mitt því og ég sé „til dæmis“ á skjánum.

Þó verður að segjast eins og er að hefðin eða vaninn er erfiður húsbóndi sem margir komast ekki frá, hversu fegnir sem þeir vildu. 


Vel útilátin flenging verklýðsforingja en ekki klapp á kinn

Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, hélt því fram á fésbókarsíðu sinni að Kári Stefánsson væri að ganga erinda alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Amgen þegar hann tjáði sig um slæma fjárhagsstöðu íslensks heilbrigðiskerfis.

Fróðlegt er að lesa grein Kára í Morgunblaðinu í morgun en hún birtist á blaðsíðu tuttugu og níu undir fyrirsöginni „Verkalýðsforinginn“.

Auðvitað bjóst maður við að Kári myndi myndi í grein sinni löðrunga Gylfa fram og ausa svívirðingum yfir hann. Þannig fór það nú ekki. Vel ritfær maður og aukreitis vel menntaður hagar sér ekki eins og götustrákur eða þaðan af verra þegar hann vill segja mönnum til syndanna í blaðagrein.

Vissulega fær Gylfi að finna til tevatnsins en svo meistaralegur er stíll Kára að maður yrði ekki hissa á því að hann fengi blóm frá Gylfa fyrir blíðuyrðin.

Hvassari en þetta er Kári ekki í grein sinni:

Samkvæmt útvíkkaðri kenningu Gylfa gæti allt tal um vanda heilbrigðiskerfisins átt rætur sínar í fjárhagslegum hagsmunum manna sem vilja selja heilbrigðiskerfinu eitt eða annað. Þetta er eina framlag Gylfa til umræðunnar um þann vanda heilbrigðiskerfisins sem er farinn að vega að vellíðan, heilsu og lífi meðlima þeirra stéttarfélaga sem mynda ASÍ. Báturinn er að sökkva, marar í hálfu kafi, og Gylfi er ekki að ausa út úr honum heldur inn í hann. 

Kári ber síðan smyrsl á sár Gylfa, setur á plástur og kyssi loka á bágtið og án efa verður sá síðarnefndi hoppandi glaður og telur greinina ekkert annað en hól. Hann þarf þó að minnast þess að ekki er allt sem sýnist, jafnvel þó Kári segi þessi fallegu orð:

Ég er í litlum vafa um að Gylfi gæti leitt þannig byltingu innan verkalýðshreyfingarinnar vegna þess að hann ber til hennar sterkar tilfinningar þótt þær geri það að verkum að hann skjóti stundum föstum skotum í vitlausa átt. Það er nefnilega þannig að tilfinningar, ærlegar og kraftmiklar, eru lykillinn að öllu góðu í lífinu, líka að verkalýðshreyfingu sem þjónar sínu samfélagi vel. 

Þegar öllu er á botninn hvolft er innihaldið í grein Kára þetta: Gylfi, þú gerðir upp á bak í þessari fésbókarfærslu. Hættu að skrökva upp á annað fólk eða ljúga til um tilgang þess í lífinu. Haltu þig við launþegamálin, þar ertu einfaldlega í stórkostlegum vanda. Reyndu ekki einu sinni að beina athygli fólks frá mistökum þínum með því að gera lítið úr öðrum ... asninn þinn! 

Eða eins og götulýðurinn í athugasemdakerfum ákveðinna fjölmiðla myndi sega: Gylfi, hoppaðu upp í ... 

En mikið asskoti er nú Kári Stefánsson góður penni að geta flengt mann svo rækilega og sá sem fyrir flengingunni verður heldur að hann hafi fengið klapp á kinn. 


Orðskrípið -valkostur-

Ólafur heitinn Odds, íslenskukennari í MR, strikaði einhverju sinni sem oftar með rauðu í ritgerð hjá mér. Með rökum hélt hann því fram að það sem hafði skrifað, „valkostur“, væri marklaust orð. Það væri samsett úr tveimur orðum sem þýddu hér um bil það sama. Svona álíka vitlaus samsetning og bílaleigubíll eða hestvagnshestur ...

Ekki náði Ólafur að kenna nægilega mörgum til að geta útrýmt þessu orðskrípi. Þess var líklega enginn kostur og um það hafði hann ekkert val. Þar af leiðandi hangir það inni, mörgum gömlum nemendum hans Óla til mikilla leiðinda.


ASÍ, SA og Viðskiptaráð fara með rangt mál

Svo virðist sem ASÍ, SA og Viðskiptaráð viti ekki hvernig aðildarviðræður við ESB fari fram eða þá að þessi samtök reyni einfaldlega að blekkja almenning. Hvort tveggja er afar alvarleg staða fyrir þessi virðulegu samtök.

Samkvæmt því sem ESB gefur og parktíserar með umsóknarlöndum er um að ræða aðlögunarviðræður, ekkert annað. Þá sýnir umsóknarlandið fram á í 35 köflum hvernig það hefur tekið upp lög, reglur og stjórnsýslu ESB eða sannfærir samtökin um það hvernig upptakan eigi að fara fram. Öll lönd ESB þurfa að samþykkja niðurstöður viðræðna um hvern kafla og í lokin inngönguna.

Enginn samningur er gerður nema um undanþáguatriði sem skipta aldrei neinu máli til framtíðar og eiga einungis við undantekningar frá lögum og reglum ESB til að umsóknarlandið aðlagist sem fyrst.

Það er því algjör blekking og rugl ef einhver reynir að halda því fram að hægt sé að semja við ESB um aðild. Umsóknarland aðlagast samtökunum en ekki öfugt.  


mbl.is Vilja gera úttekt á stöðu ESB-viðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakka ber Gísla Marteini fyrir störf hans

Alltaf hefur mér fundist undarlegt hversu margir vilja glefsa í Gísla Martein Baldurson, fráfarandi borgarfulltrúa. Ekki þekki ég manninn persónulega en hann kemur mér fyrir sjónir sem heiðarlegur og málefnalegur maður, einstaklega geðugur og prúður í framgöngu. Hælbítarnir eru margir og þeir ráðast oftast á gott fólk vegna þess að það ber sjaldnast hönd fyrir höfuð sér.

Ekki hef ég alltaf verið sammála Gísla Marteini. Er til dæmis á öndverðum meiði við hann í flugvallarmálinu og aðalskipulagi Reykjavíkur. Það breytir hins vegar ekki skoðun minni á manninum og síst af öllum geri ég lítið úr honum.

Sem borgarfulltrúi hefur hann staðið sig vel þó ég kvarti hástöfum undan því hversu hann og fleiri borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi verið slakir í að berjast gegn meirihlutanum í borginni, gefið honum meiri slaka og velvild heldur en hann á nokkru sinni skilið.

Að leiðarlokum er hins vegar við hæfi að þakka Gísla Martein fyrir störf sín fyrir Sjálfstæðisflokkinn og borgarbúa og óska honum velfarnaðar í Ríkisútvarpinu þar sem hann þekki vel til. 


mbl.is Gísli Marteinn hættir í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra getur ekki afturkallað lög

Auðvitað er það fagnaðarefni ef nýsett lög um náttúruvernd verði afnumin og gömlu lögin haldi gildi sínu. Svandís Svavarsdóttir, fyrrum umhverfisráðherra, fór með rangt mál í Ríkisútvarpinu í morgun þegar hún hélt því fram að fullt tillit hafi verið tekið til athugasemda þegar frumvarp til þessara laga voru til meðferðar í þinginu.

Samtök Útivistarfélaga sögðu þá:

Mörg aðildarfélög Samút [Samtök útivistarfélaga] skiluðu inn athugasemdum við drögum að frumvarpi til náttúruverndarlaga Skemmst er frá því að segja að lítið sem ekkert tillit var tekið til innsendra athugasemda. Flest félaganna gagnrýndu jafnframt að lítið og ómarkvisst samráð var haft við undirbúning Hvítbókar sem er grunnurinn að drögunum um frumvarp til náttúruverndarlaganna.  

Fyrir okkur sem teljumst útivistarfólk og ferðumst um landið eru lögin hrákasmíði. Ég hef áður fullyrt að í því sé aragrúi af hugsanavillum og meinlokum.  Í 22. grein kemur fram að tjalda má „hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur ...“. Ekki veit ég hvað hefðbundið viðlegutjald er. 

Lengi átti ég North Face kúlutjald, sérlega gott tjald, notaði það í tuttugu ár. Það ekki beinlínis hefðbundið en kosturinn var sá að það var ekki þyngra en svo að ég gat gengið með það til dæmis um allar Hornstrandir. Sem sagt þetta var óhefðbundið göngutjald utan alfararleiðar. Oft tjaldaði ég því ekki langt frá bílnum mínum. Þá hefur það líklega kallast óhefðbundið viðlegutjald við alfaraleið.

Nú hefur ráðherra ákveðið að leggja fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að lögin verði felld úr gildi. Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins segir í fyrirsögn: „Lög um náttúruvernd afturkölluð“. Þetta er alveg dæmalaus talsmáti og lýsir slæmum innræti ráðherrans gagnvart þinginu, svo ekki sé meira sagt. Staðreyndi er einfaldlega sú að ráðherra, hvað þá ráðuneyti, getur ekki afturkallað lög. Þannig er það einfaldlega ekki. Raunar getur þingið ekki afturkallað lög, aðeins fellt lög að hluta eða öllu leyti úr gildi.

Ráðherrann, sem jafnframt er þingmaður, getur lagt fram frumvarp í eigin nafni eða ríkisstjórnarinnar, þar sem hann leggur til að nýju náttúruverndarlögin verði felld úr gildi. Það er allt annað mál en að afturkalla lög. Með þessu er það Alþingi sem tekur afstöðu til tillögu ráðherrans en ekki að hann afturkalli eitt eða neitt.

Ýmsir kunna að álíta að þetta sé nú smáræði og skipti engu. Nei, þetta er stórmál. Fjölmargir utan þings og innan, sýna Alþingi hinn megnustu óvirðingu þegar þeir halda að þeir geti ráðskast með þingið og vilja þess og ráðist gegn hefðum sem mótast hafa í langan tíma. Óvirðingin sem þinginu er sýnd á vefsíðu ráðuneytisins er ótrúleg.

Minnir á utanríkisráðherra sem telur hægt með einföldum úrskurði sínum að fella niður ályktun þingsins um aðildarumsókn að ESB. Ráðherra hefur ekki slík völd og auðvitað þarf Alþingi að samþykkja sambærilega ályktun um að það vilji ekki ganga inn í ESB. Þannig eru bara leikreglurnar og ráðherrann getur ekki buslað í kringum þær og látið sem að þingmeirihluti sé sama og samþykki við öllum sem honum dettur í hug.

Þriðja dæmið er hinn ótrúlega skammsýni þingmaður Pírata sem telur sig þess umkominn að geta dæmt samþingmenn sína með því að nota ekki hefðbundin ávörp.

Virðing Alþingis fer þverrandi og það er ekki síst út af málum sem hér hafa verið nefnd. Nóg er um upplausn í þjóðfélaginu og jafnvel stjórnsýslunni og því mikilvægt að Alþingi haldi haus og sýni staðfestu. Það gerist hins vegar ekki ef þingmenn og ráðherrar eru staðráðnir í því að vera í einhverjum egósentrískum leik. Líklega ekki furða að það gerist þegar helstu ráðgjafar ráðherra og þingmanna eru í mörgum tilvikum litlir bógar með fátæklega reynslu og þekkingu á innviðum þingsins og stjórnarráðsins


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband