Sjálfkrafa launahækkun án ábyrgðar er slæm

Þingmenn, ráðherrar og forseti teljast ekki stétt fólks eins og kennarar, smiðir eða hjúkrunarfræðingar svo dæmi séu tekin. Þessir aðilar fá að hámarki fjögurra ára ráðningarsamning, hann getur orðið styttri. Engu að síður er það algjörlega óásættanlegt að þeir fái að ákveð laun sín sjálfir. Þess vegna á kjararáð að ákveða laun þeirra.

Æðstu embættismenn þjóðarinnar eiga ekki heldur að ákveða laun sín. Hlutverk löggjafarþings er ekki að ákveða laun. Ráðherrar eiga ekki heldur að ákveða laun helstu samstarfsmanna sinna í ráðuneytunum, það fer ekki vel á því. Laun dómara eiga ekki að vera ákveðin af pólitískri stjórnsýslu, þá er hætta á spillingu. Þess vegna á kjararáð að ákveða laun þessara embættismanna. 

Svo er það allt annað mál að kjararáð ákveður laun fyrir fjölda fólks sem ætti að vera í launþegafélögum og þau eiga að semji um lauin eins og víðast tíðkast.

Hér hefur nú verið rakin ástæða fyrir því að kjararáð ákveður laun fjölda fólks. Auðvitað má endalaust deila um hver launin eigi að vera. Þó verður að taka það með í reikninginn að störf þessa fólks eru þess eðlis að skynsamlegra er að laun þeirra séu ákveðin af hlutlausum aðila.

Dómarar eru almennt á háum launum vegna þess að þá eru taldar minni líkur á spillingu eða að þeir þurfi að afla sér tekna með aukavinnu. Það er ekki talið samrýmast hlutleysi dómara að eiga tekjur sínar undir öðrum en ríkissjóði.

Í raun og veru ætti það sama að gilda um forseta, ráðherra, þingmenn og embættismenn. Það væri nú alveg óþolandi ef ráðherra fengið laun frá tveimur aðilum á sama tíma, einkafyrirtæki og ríkissjóði. Auðvitað geta þingmenn ekki heldur þjónað tveimur herrum. Hverjum væru þeir þá skuldbundnir? Hvar myndi trúnaður þeirra liggja?

Hér hefir ekki verið fjallað um launafjárhæðir. Líklega eru margir sammála ofangreindu en munu svo deila harðlega um fjárhæðir.

Nú hefur kjararáð birt úrskurð sinn. Forsetinn, ráðherrar og þingmenn snarhækka í launum, þvert á launaþróun í þjóðfélaginu. Þetta er svona nálægt því að vera sjálfkrafa launahækkun, eitthvað sem virðist gerast án þess að mannshöndin komi þar nærri. Hefði þessari launahækkun verið dreift á sex mánuði eða heilt ár hefði almenningur líklega ekki gert eins mikið mál úr þessu.

Vandinn er sá að lög um kjararáð eru einfaldlega ófullkomin. Þau taka ekki tillit til þróunar á launamarkaði. Með réttu ætti til dæmis að standa í lögunum að kjararáð mætti aldrei hækka laun um sem nemur tvöfaldri hækkun launa opinberra starfsmanna í síðustu kjarasamningum og þá miða við heilt ár í senn.

Jafnvel þó ákvörðun kjararáðs hafi að mörgu leyti verið réttlætanleg þá var hún röng vegna þess að hún fylgdi ekki launaþróun á almennum vinnumarkaði. Þetta er ástæðan fyrir því að fólki ofbýður.

 

 


mbl.is „Neistinn sem kveikti í púðurtunnunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort ræður, sannfæring þingmanns eða vilji meirihluta þjóðar?

Dómstóll í Englandi hefur úrskurðað á þá leið að ríkisstjórn Bretlands skuli leita samþykkis þingsins áður en svokallað úrsagnaferli úr ESB hefst.

Hér er um að ræða afar forvitnilegt álitamál sem er bæði siðferðilegt og ekki síður rammpólitískt. Látum nú vera þennan dóm en skoðum málið ef það verður svo eftir áfrýjun til hæstaréttar að ríkisstjórnin þurfi að fá samþykki þingsins fyrir útgöngu úr ESB.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni samþykkti meirihluti Breta að ganga úr ESB. Setjum sem svo að þingið sé ekki sammála þjóðinni, getur það þá hætt við Brexit? 

Í þessu felst nú álitamálið: Er þingmaður siðferðilega bundinn eigin sannfæringu eða meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Kjarni málsins er enn alvarlegri. Er þingmanni stætt á því að greiða atkvæði á móti niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu sem hugsanlega getur haft þær afleiðingar að ekki sé farið að vilja þjóðarinnar?

Hvað hefði til dæmis gerst ef lög væru þannig hér á landi ríkisstjórn geti ekki farið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu nema þingið samþykkti? Hvað hefði þá orðið um Icesave-samningana svo dæmi sé tekið?

Nú er það alkunna að almenningsálitið breytist hratt í skoðanakönnunum. Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram á allt öðrum tíma en skoðanakannanir. Þær gefa vísbendinu en eru ekki niðurstaða. Þar af leiðandi er útilokað að halda því fram að þingmanni sé skylt að fara eftir skoðanakönnunum í störfum á löggjafarþinginu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er hins vegar allt annað mál. Margir munu eiga erfitt með að ganga gegn þjóðarvilja, en sé hann þvert á sannfæringu versnar staðan.

Segjum sem svo að hér fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu og niðurstaðan sé svo lögð fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar. Hvað gera þingmenn?

  • Getur sá sem er á móti aðild kosið gegn þjóðarvilja?
  • Getur sá sem er með aðild kosið gegn þjóðarvilja?

Eflaust taka margir þessu létt og fullyrða að þjóðarvilji eigi að ráða en hvað verður þá um djúpa sannfæringu þingmannsins?

Gaman væri að heyra álit lesenda á þessu álitamáli, ekki um aðild Íslands að ESB eða Brexit enskra, heldur hinu siðferðilega og pólitíska.


mbl.is Dómararnir sagðir „óvinir þjóðarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband