Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016

Hinn stæki ofbeldiskúltúr um Davíð Oddsson ...

Hann er ábyggilega stoltur og hreykinn maðurinn sem segist vera „fréttamaður“ en kann þá list öðrum betur að tvinna saman ótrúlegar formælingar um Davíð Oddsson. Atli Þór Fanndal virðist lifa og þrífast á hatursskrifum. Hann segir í einhvers konar opnu bréfi í kvennabladid.is:

Nei, þá kemurðu út úr veggjunum og kallar eftir uppgjöri um þinn stæka ofbeldiskúltúr. Varnarlaus enda ekkert efnahagshrun til að dreifa huga fólks. Nakinn eftir að þegnarnir hafa kynnst lífinu með kónginum úti á jaðri. Ekki horfinn en máttlaus og tuðandi. Ekkert að óttast þar.

Við lestur greinarinnar datt mér í hug konan sem flúði til Raufarhafnar vegna eltihrellisins sem skildi ekki að konan sætti sig ekki við andlegt og líkamlegt ofbeldi.

Má vera að Atli sé ekki eltihrellir, hann eltir en hrellir ekki, miklu frekar er hann aumkunarverður. Lesandinn fyllist samúð með manninum sem getur ekki á sér heilum tekið vegna Davíðs. Læknar munu eflaust telja það mjög óheilbrigt að vera svo upptekinn af einhverjum öðrum í hatri sínu að annað komist ekki að. 

Gegn slíkum kenndum má ábyggilega finna góð lyf nema því aðeins að Atli sé þegar á lyfjum við skriftir sínar. Það myndi nú skýra ótal margt ef svo væri en því miður eru litlar líkur á því að maðurinn geti þannig afsakað sig..

Annars eru eltihrellar misgáfulegir. Flestri eru óttalegir vitleysingar enda ekki beinlínis gáfumerki að ná ekki að ráða við hatrið og heiftina og svo fylgir að þeir kunna ekki að tjá sig málefnalega. 

Kvennabladid.is skrýtið blað. Ritstjórinn lætur hafa þetta eftir sér um forsetaframbjóðendur samkvæmt þeim ágæta vefmiðli eirikurjonsson.is:

Ef Andri, Guðni og Davíð væru réttir á matseðli þá væri Andri grænt salat með íslenskum fjólum,Guðni væri klassískur íslenskur heimilismatur og Davíð löngu útrunnin Sómasamloka.

Auðvitað er þetta bráðfyndið, ekki síst fyrir þá sök að höfundurinn ætlaði á síðasta að gefa kost á sér til forseta Íslands. Hún komst þó nægilega snemma að því að meiri eftirspurn var eftir Sómasamlokum en henni - jafnvel útrunnum.

Er þetta ekki bara satt og rétt um Davíð Oddsson? kann nú einhver lesandinn að spyrja.

Það kann vel að vera. Ég þekki örugglega ekki Davíð Oddsson jafn vel og Atli og ritstjóri kvennbladid.is sem ég man ómögulega hvað heitir. Vinátta okkar Davíðs er frekar einhliða, hann þekkir mig ekki en ég hef lengi fylgst með honum og met hann meira en marga aðra.

Hins vegar segir það nokkuð um innrætið hvernig einstaklingur talar um aðra. Lítið bara á athugasemdadálka í fjölmiðlum og hvernig talsmátinn er þar hjá fólki sem almennt er nefnt „virkir í athugasemdum“.

Ómálefnaleg og níðingsleg ummæli eru meira lýsandi um þá sem viðhafa slíkt en þá sem um er rætt. Margt bendir til þess að Atli Þór Fannarsson sé búinn að tileinka sér obeldiskúltúrinn sem hann vill endilega smyrja á Davíð Oddsson. Því miður eru fleiri í þessum afkima mannlegs veikleika. 


Hvar eru þessar tvær gömlu myndir teknar?

TrébFornleifur nefnist blogg sem Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, fornleifafræðingur skrifar. Oft skrifar Vilhjálmur skemmtilega og varpar upp forvitnilegum hliðum á fortíðina. 

Í pistli um daginn birtir Vilhjálmur tvær gamlar myndir og óskar eftir liðsinni lesenda til að finna hvar þær voru teknar. Stundum er ég nokkuð naskur að finna út hvar gamlar myndir eru teknar en í þetta sinn er ég frekar blankur, eyddi samt drjúgum hluta sunnudagsins til einskis. 

Vilhjálmur segir:

Á myndinni má sjá fjóra karla, leiðsögumennina (Guides), sem bendir einhvern megin til þess að útlendingar gæti hafa verið með í för. Myndin sýnir einnig fjögur hross. Áð er við stórt og gamalt reynitré. Þjóðminjasafnið upplýsir að myndin sé tekin í Grafningi og að maður sjái líka á í bakgrunninum niðri á flatlendinu.

TréMér sýnist hins vegar að þetta séu aðeins voldugri vötn en á, og ímyndaði mér, áður en ég sá dóm Þjóðminjasafns fyrir þeirra mynd, að hún væri tekin nærri Laugavatni. Ef einhverjir geta skorið úr um það væru upplýsingar vel þegnar. Er myndin úr Grafningi eða úr nágrenni Laugavatns.

Oft er ráð að kanna hvort gamlar myndir sem birtar eru á vef eða prenti séu speglaðar, sérstaklega ef áhöld eru um staðsetningu. Hér er fyrri myndin, sú efri er eins og birtist á Fornleifi en sú neðri er spegluð. Hægt er að smella á myndirnar og stækka.

Mér finnst eins og að efri myndin sé rétt og þá gæti hún hugsanlega verið af Úlfljótsvatni og ofar sé Þingvallavatn. Þessi kenning stenst þó ekki að öllu leyti. Landslagið virðist frekar flatt og Búrfell í Grímsnesi er ekki sjáanlegt. Þá velti maður því fyrir sér hvort neðri myndin sé rétt og hún tekin úr hlíðum Búfells. Það finnst mér ólíklegt, hlíðarnar heldur brattar.

Ég velti því líka fyrir mér hvort myndin væri af Laugarvatni og Apavatni. Efri myndin gæti þess vegna verið tekin suðvestan við Laugardalsfjall, en lögun vatnanna passar ekki og svo eru þau alloft nálægt hvoru öðru til að hugmyndin gangi upp.

Svona má nú fimbulfamba um eitthvað sem maður veit ekkert um og því er betra að kalla til leitarflokka.

Tré2bcSé myndin stækkuð má sjá að þarna eru sandbrekkur og rofabörð hingað og þangað. Lítið vatn virðist vera skammt frá minna vatninu og í fjarska, lengst til hægri, má greina fjöll og vötn.

Næsta mynd gæti hugsanlega verið af sama reynivið, en Vilhjálmur segir á bloggi sínu:

Reynirinn "í Grafningi" hélt líklegast áfram að vaxa og dafna, því í byrjun 20. aldar var tekin mynd reyni einum miklum (sjá hér). Myndina tók Magnús Ólafsson og á bakhlið hennar er ritað: 10 álna hátt Reyniviðartré í Grafningi. Ætli það pár sé nú ekki frekast ástæðan fyrir því að myndin af reyninum hér ofar í "brekkunni" er tileinkuð er Sigfúsi Eymundssyni og sögð úr Grafningi? En er þetta nú í raun og veru sama tréð og á myndunum tveimur hér ofar? Hvar er þá fjallið í bakrunninum sem er á steríómynd Magnúsar Ólafsson, sem var tekin á tímabilinu 1905-1920?

Tré2bOg til að geta velt fyrir sér myndinni er hún hér spegluð. Mér finnst ekki ólíklegt að fjallið í bakgrunni sé Laugarvatnsfjall. Hins vegar truflar forgrunnurinn mig talsvert. Þar virðast vera fossar sem falla fram af einhverri sléttu og þar með er nágrenni Laugarvatns úr sögunni. 

Hægt er að rýna lengi í þessar myndir en gæðin eru ekki mikil og þær eru nokkuð rispaðar.

Spurningin sem eftir stendur er þá þessi með reyniviðinn. Hvar stóð hann eða stendur hann jafnvel enn? Þar gæti lausnin verið. Má vera að einhverjir þekki hann og um leið sagt frá hvar myndirnar, önnur eða báðar, voru teknar.

Gaman væri nú ef einhverjir lesendur þessara lína gætu aðstoðað.

 


Tóm vitleysa að reka þjálfara KR, betra að tuska liðið til

KRKR tapaði leik á dögunum og allir eru að tapa sér og heimta afsögn þjálfarans. Þetta er bara eins og hjá Samfylkingunni. Hún tapar og tapar fylgi í skoðanakönnunum og menn halda að lausnin felist í því að heimta höfuð formannsins.

Fótbolti er ekki flókin íþrótt. Hún felst í fyrsta lagi í því að láta ekki andstæðingana flækjast fyrir sér þegar boltinn er rakinn í mark þeirra. Í öðru lagi gengur íþróttin út á að koma í veg fyrir að andstæðingarnir komi boltanum í annað mark en þeirra eigið.

Hverjir standa nú að því að verjast andstæðingunum og koma boltanum í mark þeirra? Jú, það eru víst leikmennirnir, þessir ellefu sem hlaupa um á stuttbuxunum sínum.

Þjálfarinn er ekki í stuttbuxum og þar af leiðandi ekki inni á leikvellinum nema í einstaka tilvikum. Annars vegar þegar honum mislíkar og hleypur óvart inn á völlinn til að berja dómarann og hins vegar þegar hann er spilandi þjálfari, eins og það er kallað. Hann skorar þar af leiðandi engin mörk né sinnir hann varnarvinnu. Hann stendur bara þögull á hliðarlínunni eins og fylgist með og kallar stundum eitthvað til leikmanna.

Þjálfari KR gerir eins og allir aðrir í hans stöðu, leggur upp leikinn, skipar leikmönnum fyrir. Jafnan er það svo að leikmenn liða fara oft ekki eftir því sem þjálfararnir segja. Oft tapast þá leikur.

Áður en þjálfarinn er skorinn ber auðvitað að huga að „sakleysingjunum“, það er stuttbuxnaliðinu. Jafnan skal byrja á fyrirliðanum, hann á að stjórna inni á vellinum en oft gerir hann það ekki. Svo eru aðrir leikmenn teknir fyrir. Stóðu þeir sig nægjanlega vel? Ef ekki þá er tvennt til ráða. Reka helv... leikmanninn eða láta hann taka 100 armbeygjur, það er þjálfa þá betur svo þeir hlýði. Annar ku armbeygjur vera ansi góðar í boltaþjálfun - held ég.

Nú ef í harðbakkann slær þá má svo sem reka þjálfaragreyið. Nú til dags er það oftar gert en að reka liðið. Brottrekstur þjálfara er samt aldeilis síðasta sort eins og dæmin sanna. Lið sem hefur fengið íhlaupaþjálfara stendur sig sjaldnast betur en undir stjórn þess fyrri.

Sama er með blessaða Samfylkinguna. Hún ætti auðvitað að heita Fylkingin vegna þess að forskeytið er löngu týnt, aungvir vinna þar saman og allir berja á þjálfaranum formanninum.

samfylkingin_logoAnnars er staðan sú að þegar eitthvað bjátar á er sökin yfirleitt ekki þar sem beinast liggur við að leita. Öll mál eru flóknari en svo að hægt sé að kenna þjálfara eða formanni stjórnmálaflokks um það sem miður fer. Þess vegna gæti verið betra að reka aðra löpp þjálfarans og hausinn á fyrirliðanum, þessir líkamshlutar eru hvort eð er sjaldnast í mikill notkun.

Gangi svo KR-ingum vel í sumar, samt ekki of vel, eins og forsetaframbjóðandinn sagði.


Falin ESB-stefna Viðreisnar, Samfylkingar og VG

vidreisn2014Hér er frétt frá 2014 um fyrirhugaða stofnun Viðreisnar, sem vill ljúka aðildar- viðræðum við ESB, á vegum Benedikts Jóhannessonar ofl.

Undarlegt hvað allt um ESB hverfur núna, líka hjá Guðna Th.!

Þetta segir Ívar Pálsson í pistli á bloggsíðu sinni. Ívar er hefur einstaklega glöggt auga í stjórnmálunum, mér finnst nauðsynelegt að fylgjast með blogginu hans.

Svo rækilega hefur vinstri flokkunum verið velt upp úr hinni dæmalausu aðildarumsókn að ekki einu sinni Samfylkingin reynir að halda fram ágæti ESB lengur. Hún gafst upp.

Vinstri grænir ætluðu aldrei inn en seldu sannfæringu sína í ESB málinu fyrir stóla við ríkisstjórnarborðið. Auðvitað er engin spilling fólgin í því að selja sannfæringu sína.

Og Guðni Th. Jóhannesson, sá ágæti forsetaframbjóðandi, er ekki lengur á þeirri skoðunar að við eigum að fara inn í ESB. Að minnsta kosti lætur hann á engu bera í því máli. En ekki misskilja mig, Guðni er fínn gæi, en ég ætla bara að kjósa Davíð Oddson.

Flokkurinn sem kennir sig við viðreisn vildi fyrir tveimur árum „ljúka aðildarviðræðunum við ESB“. Hvað hefði það nú þýtt? Jú, við værum komin inn í ESB vegna þess að þær viðræður sem voru þá í gangi voru einfaldlega aðlögunarviðræður, ekki aðildarviðræður eða samningaviðræður að einu eða neinu leiti.

Nú felur þessi nýstofnaði flokkur stefnumiðið en lætur þess þó getið að hann vilji láta taka upp Evru hér á landi. Einmitt. Evru tekur ekkert ríki upp nema hafa fulla aðild að ESB.

Niðurstaðan er því sú að við þurfum að vera vakandi yfir sjálfstæði okkar og berjast hart fyrir því. Látum það ekki villa okkur sýn þó áðurnefndir þrír flokkar séu ekki að flagga þeirri stefnu sinni að við eigum að ganga í ESB.


Á að taka á móti 3-5 milljónum ferðamanna?

DSC_4694Með rökum má draga í efa að hugmyndir forstjóra Icelandair Group um að Ísland geti tekið við þremur til fimm milljónum ferðamanna á ári séu raunhæfar. Til að svo megi verða þarf að efla alla innviði ferðaþjónustunnar og raunar samfélagsins alls. Þar með er komið að þeirri pólitísku spurningu hvort þjóðin sé tilbúin til þess.

Komugjald á ferðamenn sem leggja leið sína hingað til lands eru ekki aðeins tekjuöflun, eðli gjaldsins er að hluta til þess að draga úr fjöldanum. Í sjálfu sér væri ekkert óeðlilegt við að stjórnvöld leggðu slíkt gjald.

Allt að 30% árleg aukning ferðamanna sem nú eru nálægt einni og hálfri milljón inn í land þar sem íbúarnir eru aðeins um 330.000 manns er á besta falli vafasöm.

Neikvæðar afleiðingar

Dæmi um neikvæðar afleiðingar ferðamannastraumsins er innflutningur á vinnuafli til að sinna þeim störfum sem lítil eftirspurn er eftir hjá innfæddum. Hér er auðvitað átt við störf við þrif sem jafnan eru lægst launuð en engu að síður svo afar mikilvæg að telja má þau til grundvallaratriða í fjölmörgum greinum ferðaþjónustu. Til viðbótar er hinar illu afleiðingar þessa skorts; mansal, þrældómur og illur aðbúnaður.

Þjóðvegir

Þrjár til fimm milljónir ferðamanna þýða mikið álag í samgöngumálum. Hringvegurinn er mjór, ein akrein í hvora átt, engin skil á milli, einbreiðar brýr, vetrarumferð er vandamál, malarvegir utan hringvegarins eru stórhættulegir óvönum, merkingar vega miðast eingöngu við innfædd, hálendið er stórhættulegt óvönum og svo framvegis.

Nánast hvergi í náttúru landsins eru aðstæður til að taka á móti ferðamönnum. 

DSC00066Skemmdir

Eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað hér á landi,íslenskum sem erlendum, hafa gönguleiðir látið stórlega á sjá.  Eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað hér á landi,íslenskum sem erlendum, hafa gönguleiðir látið stórlega á sjá. Þeim mun fleiri sem nýta sér merktar gönguleiðir þeim mun meira slitna þær, eðli máls samkvæmt. Þær grafast niður og í rigningartíð sækir vatn í þær sem grefur þær enn meira niður og verða göngumönnum nær ófærar. Þeir færa sig þá til og annargöngustígur myndast við hlið þess gamla og sagan endurtekur sig.

Átroðningur

Nú er svo komið að alvarlegar skemmdir hafa orðið á ýmsum náttúruperlum víða um land vegna ágangs ferðamanna og viðhaldsleysi ágöngustígum. Nefna má fjölmarga staði utan þjóðgarða: Gönguleiðir í Goðalandi og Þórsmörk, gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls, göngustígana upp á Þverfellshorni í Esju, göngustíginn á Vífilsfell, gönguleiðir í Lakagígum, nokkrir gönguleggir á Hornströndum, gönguleiðir í kringum Landmannalaugar, gönguleiðir við Veiðivötn og leggir á hinni vinsælu gönguleið milli Landmannalauga og Þórsmerkur liggja undirstórskemmdum. Fleiri svæði mætti nefna.

DSC_0035bEkki meir?

Af þessu og öðrum ástæðum sem hér hefur ekki verið nefndar má ljóst vera að hvorki landið né þjóðin getur tekið við öllu fleiri ferðamönnum án þess að hugað sé að innviðunum. Vissulega er til duglegt fólk sem byggir hótel, veitingastaði, afþreyingarfyrirtæki og sinnir leiðsögn og kynningu.

Þetta dugar hins vegar ekki til, okkur vantar fólk, við þurfum að byggja upp varnir á viðkvæmum stöðum í náttúru landsins, skipuleggja þarf starfið og svo framvegis.

Framar öllu þarf að taka pólitíska ákvörðun um framhaldið. Það er ekki eins og allir séu sammála forstjóra Icelandair Group, jafnvel þó allt sem hér hefur verið nefnt væri komið í gott horf.


mbl.is Komugjöld munu fæla fólk frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítadreifarinn í vinnu en skynsemin í fríi

Sumt fólk er þannig innréttað að það leggst hart gegn ómálefnalegri umræðu annarra en stundar hana engu að síður eins og það fái borgað fyrir. Má vera að svo sé.

Stutt er í kosningar, framboðsfrestur runnin út og því ekkert til fyrirstöðu að fara með skítadreifarana út og bera á. Hópur alzheimerssjúklinga starfa sem sjálfboðaliðar á kosningaskrifstofu Davíðs Oddssonar [...]

Þeir voru í óða önn við að dreifa athyglinni frá því hve oft Davíð hefur gert í buxurnar með því að henda skít í alla aðra þegar ljósmyndara fréttastofu bar að garði nú í morgun.

Svona er viðhorf Kvennablaðsins, sjá hér. Auðvitað er þetta andstyggilegur áróður og lýsir þeim sem ritar meir og betur en þeim sem um er rætt.

Að baki álíka skrifum stendur klókt fólk sem veit nákvæmlega hvað það er að gera. Markmiðið er eins og fyrr að hamra stöðugt á því sama, að Davíð Oddsson sé óalandi og óferjandi. Áróðursbrögð af þessu tagi eru ekki ný hér á landi, þau þekkjast víða um lönd og reynst vel við mannorðsmorð.

„Afþvíbara“

Mannlegt eðli er ábyggilega talsvert brogað. Víða í samfélögum út um allan heim á fólk erfitt, ekki vegna eigin gerða eða aðgerðaleysis, heldur vegna annarra. 

Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.

Þegar andstaða byggist ekki á góðum og skýrum forsendum og er endurtekin í sífellu er hún oftast nefnd einelti, og þannig var hún eitt sinn skilgreind. 

Áróður án málefnalegra forsendna gerir þá kröfu að allir taki afstöðu og það nægir yfirleitt að enginn sé til varna. Þannig er það á skólalóðinni þegar stóri sterki strákurinn lemur þann litla eða á samfélagsvefnum þar sem leitast er við að ata einhvern óhróðri. Oftar en ekki er ástæðan fyrir eineltinu „afþvíbara“.

Verstir allra eru þeir sem standa hjá og gera ekkert, meirihutinn sem horfir á andstyggðina en tekur ekki þátt. Í því er fólgin afstaða.

Engu að síður seytlast áróðurinn inn, jafnvel í gott og vandað fólk. Ástæðan er einföld. Fæstir leggja það á sig að grafast fyrir um sannleikann, falla frekar fyrir hálfsagðri vísu eða óhróðri af því að það er svo fyrirhafnarlítið. Þannig fær hálfsannleikurinn eða jafnvel lygin stöðuhækkun og verður óhrekjanlegur sannleikur.

„Fyrirsagnahausar“

Má vera að margir séu „fyrirsagnahausar“, fólk sem lætur sér nægja að lesa fyrirsagnir fjölmiðla eða hlusta á ágrip frétta. Þannig fæst auðvitað aldrei rétt mynd af neinu máli. Engu að síður virðist allt vera svo kunnuglegt, nánast þannig að sannleikurinn sé viðkomandi ljós.

Í grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Einbirni sögð lifa lengur“ segir: 

“Þeir ein­stak­ling­ar sem koma úr stór­um fjöl­skyld­um eign­ast færri börn og lifa skem­ur en þeir sem koma úr litl­um fjöl­skyld­um.“

Sá sem les fyrirsögnina og stutt ágrip af henni á mbl.is og sér vísað til Íslenskrar erfðagreiningar er sannfærður. Síðan kemur í ljós að fréttin er byggð á vafasömu forsendum en „fyrirsagnahausinn“ lætur sér það eflaust litlu skipta. Þetta er nógu sennilegt til að vera satt.

Skynseminni hleypt í frí

„Ef við kjósum Davíð Oddsson forseta Íslands“, segir í fyrirsögn á vefritinu stundin.is. Í greininni eru talin upp tólf atriði sem eiga að vera rök gegn því að kjósa manninn. Þar stendur þetta án nokkurs fyrirvara:

Við munum hafa kosið mann sem tímaritið Time taldi upp sem einn af 25 mönnum sem báru mesta ábyrgð á efnahagskreppunni 2008.

Þó höfundurinn beiti fyrir sig tímaritinu Time verður fullyrðingin ekki sannari enda kunnugt að svo ákaflega auðvelt er að ljúga með heimildum. Önnur atriði í greininni eru álíka sannfærandi og raunar erfitt fyrir lesandann að átta sig leyfi hann sér það yfirleitt. Sumum finnst nefnilega betra að gera eins og þeir sem horfa upp á atvikið á skólalóðinni, láta það bara afskiptalaust. Aðrir gefa skynsemi sinni leyfi til fjarvistar og leggja trúnað á óhróðurinn.

Stórmannlegra er hins vegar að skora eigin skynsemi á hólm og afla sér upplýsinga. Vandamálið er að við ofurefli er stundum að etja sem er stöðugur áróður. Hann birtist ekki aðeins í stríðsfyrirsögnum vafasamra vefrita, heldur hálfsannleikurinn, kvartsannleikurinn og skrökvið sem birtist svo víða. Verst af öllu er þó misnotkunin, fjölmiðill sem þykist vera trúverðugur en er ekkert annað en endurómur einkaskoðana þeirra sem skrifa í hann.

Skítadreifari um skítadreifara um ...

Má vera að rökræða byggist á því að nálgast sannleika eða besta hugsanlega niðurstöðu í hverju máli. Hún stendur hins vegar ekki undir nafni þegar óhróðri, hálfsannleika og lygum er beitt. 

Vandamálið er skítadreifarinn sem notaður er vegna meintrar notkunar annarra á skítadreifara. Þá verður niðurstaðan aldrei önnur en sú að jafnt lag af mykju leggst á umhverfið og óþefurinn veldur samfélaginu miklum vanda.

Lygar og óhróður gengisfellur umræðuna og hún hrapar niður á vafasamt plan, rökræðan gufar upp og krafan um málefnalega afstöðu hverfur. Þannig er verið að réttlæta ranglætið, gefa afslátt af sannleikanum til að koma höggi á mann, málefni eða hópa. Þetta getur aldrei gengið upp til lengdar og má í raun sjá víðar en í aðdraganda forsetakosninga. 

Verst af öllu er þó að sjá gott og heiðarlegt fólk tapa skynseminni og skokka með skítadreifaranum. Það getur ekki verið neinum manni holl lífsstefna.


Íslensk ermagreining harmar gagnabakka

Undanfarin ár hefur undirritaður rannsakað fyrirbrigðið skalla með Íslenskri ermagreiningu. Með því að nota gagnabakka hennar er ljóst að fólk með skalla er undantekningalaust með færri hár en það sem hefur mörg höfuðhár. Einkum er ljóst að konur sem eiga foreldra hafa að meðaltali fleiri hár en karlar og skiptir litlu þó þeir séu munaðarlausir.

Nú hefur fyrirtækið hafnað því að samþykkja ofangreinda uppgötvun þar sem undirritaður á að hafa brett upp ermar og þvegið gagnabakkann. Ekki er fótur fyrir því. Í gagnabakka Íslenskrar ermagreiningar eru enn hárnákvæmar upplýsingar en það breytir þó ekki þeirri staðreynd að fyrirtækið hefur ekki lagt neitt fram sem nýst getur lyfjaframleiðendum til að framleiða lyf við hárleysi. Öðrum hefur tekist að ná umtalsverðum árangri gegn hárvexti, nefna má vax, plátra, tangir og annað álíka.

Vegna fjölmargra frétta um meintan árangur Íslenskrar ermagreiningar sem byggist á gagnabakka hennar sér undirritaður sig knúinn til að lýsa því yfir að vinna fyrirtækisins var ekki að miklum gæðum. Samstarfinu er því sjálfhætt og hann getur því enn á ný skrikað um frjáls höfuð.

Undirritaður.


mbl.is ÍE þvær hendur sínar af staðhæfingum Robert Lynch
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

United endurnýjar allt eins og Liverpool, allt nema lógóið

Stjórn Manchester United hefur rekið heiðursmanninn Lúðvík van Gaal. Tilgangurinn er að koma manni að sem þekktur sem kjaftaskur, hann veður yfir fólk og þiggur fyrir það gríðarlegar fúlgur fjár. Í þokkabót fær hann nær ótakmarkaða peninga til að kaupa nýja leikmenn.

Auðvitað verður það þannig að United mun standa sig vel á næstu leiktíð. Annað hvort væri það nú. Innkaupastjórinn og lagerstjóri þeirra munu vinna saman að losa félagið við leikmenn og kaupa aðra í staðinn. Liðið verður óþekkjanlegt rétt eins og Liverpool í vetur. Allt nýtt, leikmenn, þjálfari, nuddari, peysur og orkudrykkir. Búningsklefinn verður án efa málaður og skipt um snaga.

Hið eina sem verður eins er lógóið og baráttusöngurinn rétt eins og hjá Liverpool.

Þetta er stórbissniss og engin ástæða til að missa sig yfir lógói. Hverjum er ekki alveg sama um til dæmis KR þegar nær allir leikmennirnir eru nýir og þjálfarinn er gæi af Skaganum.

Svona gerast kaupin á eyrinni. Ekkert er upprunalegt, allt aðkeypt og ekkert framhald eða þróun.

Og hvað verður nú um Lúðvík og fjölskylduna. Enginn hugsar um þau.


mbl.is Van Gaal rekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er ekki drullusama um þennan Atla Fannar?

Eftir að Davíð svar­aði spurn­ingum í beinni útsend­ingu á Face­book-­síðu Nova í vik­unni birti mbl.is frétt undir fyr­ir­sögn­inni 27.000 horfðu á Davíð — full­kom­lega eðli­leg fyr­ir­sögn ef það væri hægt að sýna fram á að 27 þús­und manns hefðu horft útsend­ing­una.

Hið rétta var að búið var að horfa á ein­hvern hluta upp­tök­unnar af útsend­ing­unni 27 þús­und sinn­um. Ég segi ein­hvern hluta vegna þess að aðferð­irnar sem Face­book notar til að telja áhorf eru í besta falli rausn­ar­leg­ar. Áhorfin telja eftir aðeins þrjár sek­úndur eru liðn­ar. Mynd­böndin spil­ast oft sjálf­krafa og meira að segja án hljóðs. Til sam­an­burðar þá hleypa mynd­banda­veitur á borð við Vimeo og Youtube taln­ing­unni ekki í gegn fyrr en búið er að horfa á tvo þriðju mynd­bands.

Það mætti sem­sagt deila í áhorfs­töl­una með tveim­ur. Jafn­vel þrem­ur. En þetta snýst ekki um það.

Nei, þetta snýst ekki um það. Blaðamaður á vefmiðlinum kjarninn.is, Atli Fannar Bjarkason, getur ekki á sér heilum tekið vegna forsetaframboðs Davíðs Odddsonar. Hann skrifar jafnan af heift um Davíð og kjökrar vegna framboðsins.

Ofangreind tilvitnun er úr grein hans sem nefnist „Er öllum drullusama um Morgunblaðið?“ Má vera en ég held að flestir hafi ekki nokkurn áhuga á kjarninn.is.

Til að byrja með hafa fleiri frambjóðendur en Davíð setið fyrir svörum hjá símafyrirtækinu Nova. Atli Fannar missir sig eingöngu um Davíð. Halla Tómasdóttir og Guðni Jóhannesson, forsetaframbjóðendur, fá ekki yfir sig gusuna frá manninum. Kjarninn er greinilega hlutdrægt rit og hverjum er ekki „drullusama“ um það. Enginn les það nema vinstri gáfumenni - allir einn og átta.

Annars er það grátlega fyndið að lesa tilraun Atla Fannars til að telja niður þá sem fylgdust með upptöku af viðtalinu við Davíð Oddsson. Með tænilegum útskýringum fær hann það út að aðeins 9.000 manns hafi horft á viðtalið, ekki 27.000.

Hann deilir í töluna með tveimur eða þremur. „En þetta snýst ekki um það,“ segir Atli. Lesandanum er það ljóst. Þetta snýst eiginlega um Atla Fannar og heift hans gegn Davíð, en hverjum er ekki „drullusama“ um geðheilsu hins fyrrnefnda.

Davíð var reglulega fyndinn og skemmtilegur í þessu viðtali, ég hlustaði á það allt og skemmti mér afar vel. Ég hlustaði líka á Guðna, hann var flottur, jafnvel þó hann sé svo forneskjulegur að nota PC en ekki Makka. wink

 


Birgitta skilur ekki og er því illt í maganum

Stundum þegar Birgitta Jónsdóttir tekur til máls bendir margt til þess að hún tali bara til að tala. Ástæðan er einfaldlega sú að sjaldnast leggur hún eitthvað uppbyggilegt til málanna.

Sé skynsemin ekki fyrir hendi er besti kosturinn að þegja. Engu skiptir hvernig þingmanni líður í mallakútnum eða annars staðar í kroppnum. 

Í frétt mbl.is er endursögn af orðum hennar á þingi í dag þessi: Hún sagði fjár­mála­gjörn­ing­ana mjög flókna og kynn­ing­una á frum­varp­inu yf­ir­borðslega. Einnig taldi hún að betra hefði verið að bíða með frum­varpið þangað til nýtt þing væri komið til starfa svo að nægt traust væri fyr­ir hendi.

Með öðrum orðum Birgitta Jónsdóttir skilur ekki frumvarpið. Þó svo að kosið væri í dag eru ekki líkur á því að ný ríkisstjórn eða meirihluti á Alþingi væri jafn stór og sá sem stendur að þessari ríkisstjórn. Hafi þingmaðurinn ekki traust á frumvarpinu kýs hún án efa á móti því. Þar að auki gæti hún lagst í málþóf, það er eitt af því fáa sem hún gerir af þekkingu og skilningi.

Gjamm Birgittu um fjármála- og efnahagsráðherrann er merki um skort á háttvísi og tilgangurinn hinn sami og lesa má hjá virkum í athugasemdum sumra fjölmiðla. Þar er ekki miklu viti fyrir að fara.


mbl.is Með ónot í maganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband