Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Þau voru ekki á mínum vegum ...

Alltaf ferskir og hressir þessir krakkar í VG. Fróðlegur göngutúr í miðbænum. Líklega verið gagnlegra fyrir þá að slást í för með tæplega 800 manns sem tóku þátt í ÍR hlaupinu fyrr um daginn.

Hins vegar verð ég að segja fyrir mína parta, þetta fólk var ekki að mótmæla á mínum vegum. Ég skora á fólk að fordæma þetta ofbeldi. Ekkert gagn er af svona hegðun, skemmir einfaldlega fyrir þeim þrýstingi sem heiðarlegt fólk vill setja á stjórnvöld landsins vegna ástand efnahagsmála.


mbl.is Gas Gas Gas á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli hverfa í skugga mótmæla

Engum málstað er greiði gerður með svona skrílslátum. Líklegast þykist þessi lýður vera að mótmæla bankahruninu og efnahagsástandinu.

Niðurstaðan er þó afar einföld: Fólki var meinað um þann lýðræðislega rétt að tjá sig, fólk varð fyrir líkamlegum skaða, tæki og tól voru skemmd eða eyðilögð og síðast en ekki síst áhorfendur fengu ekki notið þess réttar að hlusta á rökræður stjórnmálamanna.

Sú staðreynd verður ekki hrakin að efni mótmælanna hafa horfið í skugga mótmæla. Efnisleg niðurstaða er verri en engin.

Fjölmargar aðrar aðferðir hefðu verið árangursríkari. Til dæmis hróp, köll, notkun bílflauta o.s.frv. Þess í stað ætluðu mótmælendur að reyna að gera sjálfa sig að einhvers konar pístlarvottum. Sanniði til. Nú upphefst kórinn um ofbeldi lögreglu, ólöglega gasnotkun og að þetta hafi bara verið lýðræðislegur tjáningarmáti ...


mbl.is Fólk slasað eftir mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn sækir um vist í „ormagryfju“

Hvernig stendur á því að enginn sækir um embætti sérstaks saksóknara? Getur það einfaldlega verið að starfið þyki ekki áhugavert? Varla. Þá getur skýringin hugsanlega verið sú að hæft fólk líti á embættið sem nokkurs konar „ormagryfju“ vegna þeirrar gríðarlegu athygli sem óhjákvæmilega beinist að þeim einstaklingi sem ráðinn verður.

Mjög hæfir einstaklingar höfðu verið ráðnir til að sinna undirbúningi fyrir embættið. Þeir sögðu sig þó frá vegna fjölskyldutengsla. Að öllum líkindum var það rétt ákvörðun hjá þeim en líklega skipti miklu að þeir urðu strax fyrir mjög óvægnum árásum og því var jafnvel haldi fram að viðkomandi væru á kafi í spillingunni!

Líklega treysta fáir sér í starf sem getur haft leiðinlegar hliðarverkanir. Allir sem hugsanlega tengjast viðkomandi verða teknir til skoðunar og allt sem saksóknarinn, fjölskylda hans, áar og niðjar hafa aðhafst verður lagt honum til lasts, allt verður að háalvarlegum ávirðingum.

Líklegast er eina lausnin sú að leita út fyrir landsteinanna, finna einhvern sem er með öllu ættlaus, á hvorki fjölskyldu né vini.


mbl.is Enginn sótti um embætti sérstaks saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur Sjálfstæðisflokknum ekki við

Ég get ekki séð að það komi okkur Sjálfstæðismönnum nokkuð við þótt Samfylkingin hafi eða hafi ekki umboð til að sækja um ESB aðild. Sjálfstæðisflokkurinn er á kafi í athugun á hagkvæmni ESB aðildar og það gerir hann á eigin forsendum.

Niðurstaða verður kynnt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok janúar og sá fundur tekur ákvörðun um framhaldið. Samfylkingarfólk mun ekki sækja þann fund og mun engin áhrif hafa á umfjöllunina.

Taki landsfundur ákvörðun um að láta reyna á aðildarumsókn þá má allt eins búast við því að flokkurinn vilji fá þjóðaratkvæðagreiðslu áður en farið er í aðildarviðræður. Sé þjóðin sammála því að sækja um aðild þá held ég að það sé breið samstaða innan flokksins að niðurstöður aðildarviðræða verði kyrfilega kynntar fyrir landsmönnum og aftur mun þjóðin kjósa og þá um hvort hún vilji ganga í ESB á fengnum forsendum.

Lykilatriðið er að enginn velkist í vafa um vilja þjóðarinnar, hvorki fyrir né eftir aðildarviðræður.


mbl.is Segir forystu ekki hafa umboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartnættisfréttamennska tekur völdin

Ansi sniðugt hjá Mogganum að fatta upp á svona frétt sem getur hreinlega verið framhaldsfrétt. Nú getur blaðamaðurinn dundað sér við að raða kaupmættinum niður eftir árum.

Svartnættisfréttamennskan verður nú allsráðandi og fjölmiðlar keppast um að færa okkur slæmu fréttirnar en hinar góðu verða jafnan útundan. Við fáum það æ betur á tilfinninguna að allt sé nú á leiðinni til andskotans og ekkert geti bjargað þjóðinni.

Svo lítur maður í kringum sig. Sólin hækkar á lofti. Börnin brosa, fjölskyldur hittast, vinir koma saman. Er kreppa í samskiptum fólks. Nei, ekki enn. Fjölmiðlar standa sig bara ekki nógu vel með svartnættisfréttirnar.

Og enn lítur fólk undrandi í kringum sig. Húsin standa óskemmd. Keppan hefur engin áhrif haft á vegi eða brýr. Atvinnutækin er en nothæf. Þúsundir manna halda daglega til vinnu sinnar, laun eru greidd, fólk borgar af lánum sínum, gengur erinda sinna í verslunum. Flest allt gengur sinn vanagang. Er það vegna þess að fjölmiðlum tekst ekki nógu vel upp með svartnættisfréttir sínar?

En þeir reyna ...

Satt að segja er kominn tími til að fjölmiðlar taki upp skynsamlegri stefnu í fréttaflutningi þó ekki sé til annars en að koma í veg fyrir að einhverjir einstaklingar leggist ekki í þunglyndi. Ábyrgðin er mikil.


mbl.is Svipaður kaupmáttur og í árslok 2004
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindur leikur lausum hala ...

Ja,hérna. Er nú vindur farinn að vera vandamál.

Auðvitað verður að „handsama“ hann nema því aðeins að hann hafi áður verið í haldi og einhver hafi leyst ... Gæti verið að vindurinn leiki nú lausum hala og fari frekar hratt yfir láð og lög? Er þá ekki bara best að vara einfaldlega við hvassviðri, stormi eða fárviðri?


mbl.is Varað við vindi á Vesturlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varla mögulegt ...

Hver var eiginlega spurningin hjá Bloomberg og ekki síður við hverja var talað? Skoðanir manna eru svo gríðarlega mismunandi. Kunningi minn einn sem telst til vinstri manna er gríðarlega heitur og væri áreiðanlega til í að láta hendur skipta. Aðrir eru rólegri og flestir yfirvegaðir. Þó eru allir sem ég þekki og umgengst verulega reiðir og sárir vegna kreppunnar.

Fólk er ekki á einu máli um sök eða ábyrgð. Hversu langt aftur á að fara? Er þetta allt Davíð Oddsyni að kenna sem forsætisráðherra og seðlabankastjóra? Sumir segja að hann hafi leyft allt og þegar talað var um að setja öllu þessu frjálsræði lög eða reglur þá hafi hann mótmælt og talað um haftastefnu.

Er þetta ríkisstjórninni að kenna sem fylgdist ekki nægilega vel með? Þær raddir hafa heyrst að sparka eigi viðskiptaráðherranum fyrir þá sök að hafa ekki fylgst neitt með aðgerðum Seðlabankans eða leitað eftir samráði við bankaráð Seðlabankans.

Á að kenna síðustu ríkisstjórn um, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um vandann? Einhver vill kenna Jóni Baldvin Hannibalssyni um allt saman af því að hann hafði forystu um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég hef maldað í móinn og sagt að það sé rangt að persónugera vandamálið og fara í „nornaveiðar“. Menn hafa mótmælt mér og sagt að stjórnmálamenn og embættismenn beri ábyrgð. Ég hef spurt á móti hver ábyrgðin eigi að vera og hvernig hún sé skilgreind. Fjölmargir hafa sagt að í raun fylgi engin ábyrgð störfum stjórnmálamanna eða embættismanna nema um sé að ræða afglöp eða beinlínis lögbrot. Ég get svo sem samþykkt það. Margir hafa einfaldlega bent á þá staðreynd að afsögn embættismanna og stjórnmálamanna hljóti að vera eðlileg þegar í ljós komi að þeir hafa ekki staðið vaktina fyrir okkur sem skyldi.

Þegar upp er staðið þá stendur það eitt uppúr að enginn hefur enn axlað ábyrgð. Það er meðal annars ástæðan fyrir reiði fólks. Sá sem er reiður gerir oft heimskulega hluti og þess vegna gæti komið til þess að eitthvað annað gerist en að einstaka rúða brotni, eggjum sé kastað eða þingmönnum sé varnað aðganga að þinghúsinu.

Hins vegar held ég að það sé ekki í íslenskri þjóðarsál að beita ofbeldi. Skiptir þá litlu hvað einstakir örhópar mótmælenda vilja gera og jafnvel láti af verða. Meirihluti þjóðarinnar mun áreiðanlega fordæma slíkt.


mbl.is Óttast að uppúr sjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til minningar um yndislegt fólk

Soffí og Gestur, stúdentar

Þessu ber að fagna. Hér er um að ræða göfugt verkefni sem gefandanum er til mikils sóma og mun án efa halda á lofti nöfnum þeirra ágætu hjóna Björgu Magnúsdóttur og Magnúsar Jónassonar sem jafnan hafa verið kenndi við bæinn Túngarð í Dölum.

Dætur Magnúsar Friðrikssonar og Soffíu Gestsdóttur á Staðarfelli á Fellsströnd í Dölum, hétu Björg, sem áður er getið, og Þuríður, sem var amma mín í móðurætt.

Bróðir þeirra var Gestur. Hann drukknaði 2. október 1920 er bátur sem hann var á hvolfdi og fórust með honum Þorleifur Guðmundsson, vinnumaður á Staðarfelli og vinnukona sem hét Sigríður en því miður man ég ekki föðurnafn hennar.

Magnús Friðriksson og fjsk

Þetta hræðilega slys gekk afar nærri þeim hjónum. Þau hættu búskap og fluttu til Stykkishólms. Jörðina gáfu þau til ríkisins með því fororði að þar væri stofnaður og rekinn húsmæðraskóli. Það var gert en tímar hafa breyst og nú er á Staðarfelli rekin meðferðarstofnun á vegum SÁÁ.

Dætur þeirra Magnús og Soffíu giftust snemma. Þuríður amma mín giftist Sigfinni Sigtryggsyni frá Sólheimum og áttu þau eitt barn, Soffíu sem síðar giftist Sigurði Skúlasyni.

Björg giftist Magnúsi Jónassyni frá Túngarði. Þau áttu tvö börn, Soffíu og Gest. Björg menntaði sig og varð ljósmóðir og reyndist afar farsæl.

Minningar mínar um þetta frændfólk mitt eru mér enn ljóslifandi. Björg frænka var eins og Þuríður amma, systir hennar, ákaflega blíðlynd kona. Hún var barngóð með afbrigðum. Þau hjónin fluttust til Reykjavíkur og bjuggu alla tíð í Drápuhlíð. Fjölskylda mín fluttist löngu síðar á mölina og fyrir tilviljun keyptu foreldrar mínir íbúð í Barmahlíð, aðeins steinsnar í burtu.

Björg frænka, Magnús, Soffía og Gestur voru alltaf hluti af nánustu tilveru minni og raunar allra systkina minna. Einn atburður öðrum fremur er þó greyptur í barnsminni mitt. Þannig var að eftir heimsóknir til Bjargar og Magnúsar var litli snáðinn alltaf leystur út með nokkrum brjóstsykursmolum sem bornir voru fyrir hann á undirskál og mátti hann velja. Auðvitað fór ekki hjá því að strákurinn legði saman tvo og tvo og fengi út fjóra. Hann gerði sér því oft erindi til Bjargar frænku og það þurfti hvorki að vera langt eða merkileg, alltaf fékk hann brjóstsykurinn. Stundum kom hann með einn og einn vin með sér en það skipti engu máli. Nammið skilaði sér.

dscn6487b.jpgSvo var það einu sinni að við komum fjölmargir félagar í Drápuhlíðina og hringdum á dyrabjöllunni. En þá brá svo við að Björg frænka kom ekki til dyra heldur Magnús bóndi með sitt mikla yfirvaraskegg og sínar þungar brýr til dyra. Honum fannst þetta krakkastóð vera bara til að sníkja, sem auðvitað var hárrétt, og bandaði því burtu. Vonsvikin héldum við heim á leið en vorum varla hálfnuð yfir í Barmahlíð þegar Soffía frænka náði okkur. Hún hafði séð til okkar og vissi hvað klukkan sló og hljóp á eftir okkur með brjóstsykurinn og allir fengu mola. Þessi frænka þín er alveg svakalega góð, sögðu strákarnir.

Ég hef oft hugsað það hversu yndislegt þetta frændfólk mitt var. Í því var svo mikil hlýja og manngæska og þannig var hún amma mín líka og ekki síður móðir mín. Skil bara ekkert í því hvers vegna ég erfði ekkert af þessum kærleika og mannúð. En það er nú allt önnur saga.

Soffía frænka mín Magnúsdóttir var mikil öðlingskona. Hún var skarpgreind en jafnfram afar hlý en það var lenska í þessu fólki að trana sér aldrei fram. En þegar hún mælti þá var hlustað. Hún var fróð og kunni vel þá list að segja frá. Og ekki var hann síðri hann Gestur bróðir hennar.

Einu sinni fórum ég með foreldrum mínum og þeim systkinum vestur að Staðafelli þeirra erinda að gefa kirkjunni Guðbrandsbiblíu. Ég var áreiðanlega langt innan við tíu ára. Á leiðinni var mikið spjallað og margt frá að segja og maður hlustaði agndofa á þessa andans spekinga, að manni fannst, tala. Man ég þó að hafa fengið að skjóta inn orði og orði. Þegar við nálguðumst Staðarfell þá voru umræðurnar orðnar afar heimspekilegar og skildi ég lítið en náði þó að varpa fram spurningu sem allir götuðu á. Hafði ég líklega engan skilning hvort spurningin passaði inn í umræðurnar en Gestur frændi hafði orð á því að strákurinn væri bara nokkuð snjall. Ég varð auðvitað afar upp með mér þó spurningin væri einfaldur orðaleikur: Hvað er á milli himins og jarðar. Það var hvorki loft, ský, flugvélar eða nokkuð annað heldur aðeins samtengingin „og“. Var þetta lengi í minnum haft en markaði ekki neitt upphaf að frekari heimspekilegum tilburðum af minni hálfu.

Þetta er nú orðinn dágóður pistill um dánargjöf Soffíu frænku minnar Magnúsdóttur. Ég veit svo vel að allir í fjölskyldu minni minnast hennar af miklum hlýleika. Hún var skírð í höfuðið á ömmu sinni, móðir mín fékk sama nafn og eftir því sem ég get næst komist þá eiga þær systradætur fjórar nöfnur í stórfjölskyldunni og þar af er ein Soffía Magnúsdóttir sem að vísu ber millinafnið Guðrún. 

Gleði min er einlæg. Það er bara eitt sem mér gremst af eigingirni minni en það er að hafa ekki vitað fyrirfram um stofnun styrktarsjóðsins og því ekki getað verið viðstaddur stofnun hans. Ég dreg stórlega í efa að neitt af systkinum mínum eða börnum þeirra hafi vitað af þessum merka atburði. Við hefðum örugglega öll fjölmennt vegna þess að minning Soffíu Magnúsdóttur er okkur afar kær. Það er nú bara svoleiðis að ættingjar Soffíu Magnúsdóttur, og núlifandi niðjar Magnúsar og Soffíu frá Staðrfelli, eru hátt í eitt hundrað.

Meðfylgjandi myndir eru úr fjölskyldualbúminu. Efsta myndin er af þeim systkinum Soffíu og Gesti Magnúsarbörnum.

Næsta mynd er af fjölskyldunni að Staðarfelli, hjónunum Soffíu Gestsdóttur og Magnúsi Friðrikssyni og börnum þeirra, Björgu, Gesti og Þuríði.

Þriðja myndin er tekin fyrir utan kirkjuna á Staðarfelli þann 2. júlí 2006. Stórfjölskyldan kom saman eina helgi í Stykkishólmi gerði sér ferð inn í Dali til að skoða aðstæður á Staðarfelli, Hofakur og minjasafnið á Laugum. Staðreyndin er nefnilega sú að við eigum ættir okkar að rekja annars vegar í Stykkishólm og Fagurey og hins vegar í Dali. Og við erum öll ákaflega stolt af uppruna okkar.


mbl.is Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar styrktir til framhaldsnáms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram mótmælendur ...

Þetta er bráðfyndið. Liggur við að maður sé bara sammála þessum frábæru krökkum í Vinstri grænum. Alveg afbragðs hugmynd að loka Fjármálaeftirlitinu með keðju. Gallinn við hana er hins vegar sá að þeir sem standa á bak við framkvæmdina sýna ekkert afl, engan fjölda sem stendur við bakið á þeim.

Grunduvöllur mótmæla er ekki síst að sýna samtakamátt fjöldans. Aftur á móti má ekki gleyma einstaklingnum sem þarf að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn til mótmæla. Helgi Hóseason hefur ekki endilega rangt fyrir sér þó hann standi einn árið út og árið inn á horni Langholtsvegar og Holtavegar með lítið spjald.

Birtingarmyndir mótmæla þurfa þannig ekki að fara eftir neinu normi og þaðan af síður þarf að gera kröfu til þess að einhver fjöldi standi á bak við þau. Mótmæli eru tjáning og skiptir þannig engu hversu margir standi á bak við þau.

Hörður Torfason getur þess vegna staðið einn á Austurvelli, hent skó eða eggi í Alþingishúsið, staðið hljóður eða úthúðað ríkisstjórninni. Mótmælin eru jafnsönn eins og mótmæli sex þúsund manna sem koma á sama tíma og belja í einum kór.

Svo er það hitt, hvaða áhrif hafa mótmæli og hvenær á að taka mark á þeim. Ég er einfaldlega þeirra skoðunar að þeir sem mótmælin beinast gegn þurfa að taka tillit til þeirra á einn eða annan hátt. Stjórnvöld hljóta að miða aðgerðir sínar við það að sem víðtækust sátt náist um þær.

Áfram mótmælendur, sýnið frumlegheit, friðsemd og áræði. Þá er hugsanlega von til þess að fleiri bjóði upp á kaffi og kökur.


mbl.is Hengilásar og forsetakaffi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðumst gegn atvinnuleysisdraugnum án tafar

Er verðbólgan ekki samkvæmt því sem spáð var? Fyrst ætti hún að aukast og síðan drægi úr henni eftir því sem liði á árið.

Hef í raun minni áhyggjur af verðbólgu en meiri af atvinnuleysi. Kannski geta einhverjir spekingar leiðrétt mig, en segir ekki svo í fræðunum að verðbólga og atvinnuleysi séu andstæðir pólar, mjög erfitt sé að ná hvort tveggja niður með sömu meðölum.

Sé svo ætti ríkisstjórnin að leggja mestu áhersluna á að draga úr atvinnuleysi eins og kostur er. Með því vinnst að minnsta kosti tvennt. Annar vegar dregur úr óöryggi fólks og hins vegar er ljóst að eftir því sem atvinnuleysi er minna er neyslan meiri sem auðvitað þýðir meira streymi fjármagns um æðar samfélagsins. Er það ekki markmiðið?

Hins vegar er ekkert óyggjandi í þessum efnum. Það er bara ekki svo að við getum valið að ráðast gegn einu af því sem plagar þjóðfélagið og geymt hitt á ís á meðan. Líklegast þarf að berjast á öllum vígstöðvum í einu. En fyrir alla muni, leggjum samt til atlögu við atvinnuleysisdrauginn án tafar.


mbl.is Verðbólgan mælist 18,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband