Aðeins fimm jarðskjálftar í dag ...

SkjálftarJarðskjálftar á Íslandi koma í hviðum, stundum eru þeir mörg hundruð en svo fellur á kyrrð og ró, rétt eins og í dag, þriðudaginn 8. nóvember.

Frá miðnætti hafa orðið fimm jarðskjálftar, sem þykir nú ansi lítið, raunar svo ómerkilegt að varla er orð um það hafandi nema fyrir þá sök eina að þeir gerast sjaldan færri.

Fyrir nokkrum vikum var allt á öðrum endanum vegna hrinu skjálfta í Mýrdalsjökli. Allt tekur enda um síðir. 

Í dag var einn skjálfti sunnan við Brennissteinsfjöll á Reykjanesi, tveir voru sunnan við Herðubreið, einn varð í Goðalandi og einn í öskju Mýrdalsjökuls.

Þegar eldgosinu í Eyjafjallajökli lauk komu fram alls kyns spámenn og héldu því fram að Katla myndi gjósa á sama ári eða því næsta. Engin rök voru fyrir þessu önnur en draumar og spádómar í kaffibolla. 

Ekki eru allir skjálftar fyrir eldgosum en þversögnin felst í því að á undan eldgosum verða jarðskjálftar.

Myndin er af korti Veðurstofunnar og sýnir það skjálfta síðustu þriggja daga. Rauðu deplarnir eru þeir nýjustu.

 

 


Fréttir um engar fréttir eru fréttir ef álitsgjafinn segir svo ...

Ef stjórn­ar­mynd­un lend­ir í ein­hverj­um ógöng­um og það stefn­ir í kreppu þá er það nú bara þannig að menn munu vænt­an­lega skoða stöðuna í öðru ljósi. Ég held að þetta geti ekki komið á borðið í fyrstu at­rennu. Ég held að það myndi valda úlfúð, sér­stak­lega í VG, ef þeir myndu ekki alla­vega reyna eitt­hvað annað fyrst áður en þeir færu í bein­ar viðræður við Sjálf­stæðis­flokk­inn. Það er ekk­ert úti­lokað í póli­tík.

Þetta er togað út úr Grétari Þór Eyþórssyni, stjórnmálafræðingi og prófessor, í mbl.is. Í raun og veru hefur hann ekkert að segja nema það sem allir vita og skilja sem á annað borð fylgjast með pólitík.

Helstu álitsgjafar í fjölmiðlum eru án efa hinir vænstu menn en þeir vilja ekki bregðast  eru því nauðbeygðir til að segja eitthvað, bara eitthvað, eins og að það sé ekkert útilokað í pólitík eða það gæti dregið til tíðinda á næstu dögum

Í fjölmiðlum hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagt hver staðan er í stjórnarmyndunarviðræðum hans. Ekki þarf að leita til stjórnmálafræðings til að fá staðfestingu á því að annað hvort myndar Bjarni ríkisstjórn eða ekki.

Fjölmiðlarnir eru orðnir ærið undarlegir. Fréttir um engar fréttir eru orðnar svo afar mikilvægar fréttir af því að sennilegur álitsgjafi segir löngu máli að ekkert sé að frétta.

Skyldi enn rigna? Hef ekki heyrt í veðurfræðingi í langan tíma. Eitthvað blautt fellur samt af gráum himni ofan.

 

 


mbl.is Gæti dregið til tíðinda á næstu dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimskuleg grein um heimskulega ákvörðun

AlthingiForseti Íslands sem hefur sagt að hann: „vænti þess að þingið vindi ofan af þessari ákvörðun [Kjararáðs]“ getur gefið út að hann muni setja bráðabirgðalög áður en þing komi saman nema Kjararáð lækki launin eða hann fái það staðfest frá formönnum allra flokka að Alþingi muni vindi ofan af ákvörðuninni. Ef þessir þrír aðilar bregðast allir þá mun ég kæra ákvörðun Kjararáðs til dómstóla og hef nú þegar fengið til þess lögfræðing.

Þetta segir nýkjörinn þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson, í grein í Fréttablaðinu og þykir ábyggilega flestum greinin einstaklega skrýtin. Auðvitað er maðurinn ekki að gera neitt nema auglýsa sjálfan sig og um leið vaknar efi í huga lesandans, hvort vegi meira, sjálfsauglýsingin eða óánægjan með niðurstöðu Kjararáðs.

Sé mikil þykkja í Jóni Þór út af ákvörðuninni, af hverju vinnur hann ekki með þingflokki Pírata í málinu, það ætti nú að auka slagkraftinn tífalt? Gæti kannski verið að þingflokkurinn sé honum ekki sammála eða ræður bara löngunin til þess að auglýsa sjálfan sig sem hinn hugprúða riddara óréttlætisins?

Svo er það annað sem þingmaður á að vita. Forseti Íslands setur ekki bráðabirgðalög. Það gera ráðherrar ríkisstjórnar en forseti skrifar undir sé hann samþykkur.

Þegar nánar er að gáð er grein Jóns Þórs heimskuleg tilraun til að auglýsa sjálfan sig. Hann hótar að kæra ákvörðun Kjararáðs. Óvíst er að hverjum sú kæra beinist því flestir eru á þeirri skoðun að síðasta ákvörðun ráðsins hafi vægst sagt verið undarleg.

Í vísu sem ég nam einhvern tímann segir:

Heimskingjarnir hópast saman
og hefur hver af öðrum gaman.
Og eftir því sem þeir eru fleiri
eftir því verður heimskan meiri.

Fer nú saman að með heimskulegri grein hótar þingmaður kæru vegna heimskulegrar niðurstöðu Kjararáðs. Og ekki eru gáfurnar miklar því svo virðist sem hann hóti eftirtöldum:

  1. Forsetanum nema hann setji bráðabirgðalög gegn ákvörðun Kjararáðs
  2. Kjararáði, nema það hætti við allt saman
  3. Formönnum þingflokka, nema þeir lofi því að þeir láti Kjararáð hætta við allt saman

Furðulegar hefur varla neinn þingmaður skrifað og er þó úr mörgu að velja.

Og nú situr Jón Þór Ólafsson, háttvirtur þingmaður, með hendur í skauti og bíður þess að þeir sem hann hótaði sendi honum allra auðmjúklegast loforð um betrumbætur svo hann þurfi ekki að kæra.

Allflestir virðast vera á móti ákvörðun Kjararáðs og þar af leiðandi bendir allt til þess að henni verði breytt í meginatriðum. Í því ljósi er það fyndnasta við grein Jóns Þórs sú ómerkilega staðreynd að þegar upp er staðið getur hann sagt:

Sko, sjáiði hvernig ég lét afnema ákvörðun Kjararáðs. Mikið óskaplega er ég góður og vandaður maður.

Að lokum vil ég feta í fótspor þingmannsins og kæra Veðurstofu Íslands nema því aðeins að vætutíðinni linni, hvassviðri hætti og í staðinn fari að frysta og snjóa.

Myndin er af Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, fyrir utan þinghúsið, en því miður sést í gegnum hann.


mbl.is Kærir verði ákvörðun ekki breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband