Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Ögmundur boðar skrautritaðan sósíalisma

Stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn koma nú fram hver á fætur öðrum og krefjast breytinga á búvörulögum í anda frjálshyggjusjónarmiða. Engar undanþágur skuli leyfðar, markaðslögmál skuli vera algerlega ráðandi og öllu sem heitir samvinna og samlegð vísað á dyr. Skyldu allir sem kveðið hafa upp stóra dóma á undanförnum dögum hafa hugsað dæmið til enda?

Svo kerfislægur sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera hélt ég í einfeldni minni að hann myndi koma Mjólkursamsölunni til varnar í tilvistarbaráttu hennar sem byggist á einokun. Nei, hina sönnu kerfiskalla er greinilega að finna annars staðar. Ofangreind tilvitnun er úr grein Ögmundar Jónassonar, alþingismanns, þeim „erkikomma“ sem er einna málugastur Vinstri grænna. Grein Ögmundar birtist í Morgunblaði dagsins og undir yfirskriftinni: „Hvað gagnast neytendum og bændum?“. Svarið liggur í augum uppi eftir lestur greinarinnar.

Samkvæmt orðabók Ögmundar er samkeppni á markaði „frjálshyggja“, þó varla nýfrjálshyggja eða öfgafrjálshyggja. Við hin tölum, eiginlega hvar í flokki sem er, tölum einfaldlega um samkeppni vegna þess að annað gengur ekki. Ekki nokkurt réttlæti er fólgið í afskiptum ríkisvaldsins af markaðnum vegna þess að ríkið kann í eðli sínu ekki á neina starfsemi á markaði. Og jafnvel þó það taki þátt í samkeppni á markaði þá er það gert með þvílíkum endemum og svindli að ekki tekur nokkru tali. Látum það vera í bili.

Ögmundur ver einokun MS með kjafti og klóm. Hann segir:

Afkomu MS, fyrirtækis bændanna, er stýrt með verðlagningu á hráefni og afurðum þannig að hún er rétt liðlega 1% af veltu í góðu ári, um 300 milljónir af 20 milljarða króna veltu. Hagnaður stærsta smásölurisans, Haga, sem í raun ræður örlögum framleiðslufyrirtækja í matvælaiðnaði, nam í fyrra fjórum milljörðum króna af 76 milljarða veltu. Þetta er munurinn á fákeppnisfyrirtæki á markaði án kvaða og fyrirtæki sem lýtur regluverki og aðhaldi! 

Manninum stendur hrein hugmyndafræðileg ógn af því sem verður til þegar gjöld eru dregin frá tekjum fyrirtækis. Það er sem morð í huga hans að góður hagnaður sé af rekstri fyrirtækis. Vonandi heldur er það ekki skoðun hans að hagnaður af rekstri fyrirtækis skuli ekki vera meiri en 1,5% eins og hann segir að sé í tilviki MS. Það þætti nú merkileg ávöxtun hvorki 1,5% og raunar líka 5,26% eins og er hjá Högum miðað við upplýsingarnar sem Ögmundur gefur. Hann ætti að tékka á innlánsvöxtum í ríkisbankanum Landsbankanum og ekki síður útlánsvöxtum þar á bæ og hjá öðrum bönkum, svona til samanburðar.

Annars er alltaf vandinn við „erkikommana“ að þeir eru á móti hagnaði, enginn má græða. Það er hin argasta frjálshyggja. Takið svo eftir orðalaginu. Hagar eru „fákeppnisfyrirtæki á markaði án kvaða og MS er „fyrirtæki sem lýtur regluverki og aðhaldi“. Þetta kallast nú eiginlega skrautritaður sósíalismi.


Hvað veldur hækkun húsnæðis hér á landi?

Fasteignabólur virðast hafa sprottið upp í mörgum borgum vestur Evrópu. Þannig er það í Kaupmannahöfn, Ósló, Amsterdam og víðar. Í Reykjavík er mikill gröftur í fasteignabólunni.

Okkur leikmönnum finnst það undarlegt hversu húsnæðisverð hækkar án þess að eftirspurnin sé í samræmi við það. Gæti verið að önnur öfl spili á markaðinn og við það hækki fasteignaverðið úr öllu hófi.

Bygging fasteigna, íbúða og skrifstofuhúsnæðis, er tiltölulega einföld en þróuð atvinnugrein. Fyrir örfáum árum var mikið rætt um að á höfuðborgarsvæðinu væru þúsundir íbúða umfram þörf. Hvað gerðist? Ekki hefur þörfin aukist eða salan tekið svo mikinn kipp að það skýri bóluna hér á landi. 

Ég man ekki eftir að neinn hafi skoðað ástæðurnar fyrir hækkandi fasteignaverði hér á landi. 


mbl.is Írar óttast aðra fasteignabólu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæsavatnaleið er ekki merkilegt mannvirki ...

Vegurinn sem kenndur er við Gæsavötn er ekki merkilegur. Hann hefur aldrei verið unninn að neinu leiti og þar af leiðandi er enginn skaði þó hraunið hafi farið yfir hann. Gæsavatnaleið hefur ekki lokast. Það sem næst gerist er að fólk mun einfaldlega krækja fyrir hrauntotuna og fyrr en varir myndast önnur slóð.

Manni hefur svo sem sýnst á myndum frá gosstöðvunum og við hraunið að þeir sem þar hafa fengið að leika lausum hala hafi ekið utan vega. Þannig hefur það verið á flæðum Jökulsár frá því að menn fóru að aka þær. Ekki man ég eftir því að hafa séð önnur för en veginn sjálfan. Jökulsáin og vindurinn sjá um að fela öll vegsummerki. Hér en þó ekki verið að mæla utanvegaakstri bót. 


mbl.is Hraunið er komið yfir veginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áróður löggu og almannavarna styðst ekki við rök

Við, almenningur, höfum séð alls kyns lið spranga um á gosstöðvunum, fólk sem auðsjáanlega kann ekkert til í fjallamennsku eða ferðalögum, hvorki gangandi né akandi. Þetta fólk hefur á einhvern hátt getað fengið aðgöngumiða hjá lögreglustjórum og almannavörnum út á eitthvað annað en þekkingu sína og kunnáttu.

Á meðan er alvönum fjallamönnum harðbannað að fara þarna inn eftir og dæmi um að þyrlur hafi verið senda til að stoppa menn á bílum sem eru langt umfram það sem vísindamenn og „fjölmiðlamenn“ hafa yfir að ráða.

Og jafnvel vísindamenn hafa margir hverjir ekki sömu þekkingu á fjallamennsku og margir þeirra sem verða að hafa sig hæga.

Til viðbótar eru ferðaþjónustuaðilar sem hagsmuni hafa á því að geta farið með fólk á þær slóðir sem hingað til hafa veitt þeim miklar tekjur. Þeim eru núna allar bjargir bannaðar.

Er eitthvað sem mælir gegn því að almenningur fái að fara nálægt gosstöðvunum og skoða þær úr fjarlægð? Hingað til hefur mannfall meðal ferðamanna sem skoða gosstöðvar ekki verið neitt.

Við fjallamenn mótmælum auðvitað þessu banni. Áróður almannavarna virka ekki vegna þess að allir vita að hann hefur við lítil rök að styðjast. 

 


mbl.is „Þetta er afar óskynsamlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundargerð gáfumannaráðs um veðurfar

Fundi gáfumannaráðs veðurspámanna Íslands sitja gáfumenn frá gáfumannaráði og ennmeiragáfumannaráði ásamt minniháttar og minnimáttar. Fundinn sat einnig ritari fundargerðarinnar.

Veðrið í dag heldur áfram með sama hætti og síðustu daga. Engin merki sjást um að veðrið hætti eða það sé í rénun. Ekkert hefur dregið úr úrkomu. Rignir nú víðast um landið og mest þar sem úrkoman er mikil en minna annars staðar.

Lægðir koma og fara á svipaðan hátt og þær hafa gert frá því landsmenn litu fyrst til veðurs.

Þegar ekki skín sól er líkleg ástæða að ský hafi dregið fyrir hana. Þegar það gerist getur verið að það byrji að rigna.

Þrír möguleikar eru taldir líklegast um framvindu veðurs:

  • Rigningin hættir
  • Ekki hættir að rigna
  • Skúraveður, skin á milli
  • Súld (rétt upp hönd sem veit hvað orðið þýðir)
  • Vindur er yfirleitt á móti göngumanni, líka á bakaleið
Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.
Frá ennmeiragáfumannaráði: Appelsínur eru appelsínugular, lægðir eru litlausar. Varast ber að líta óvörðum augum til sólar þegar hún sýnir sig. Líklegt er að nú sé farið að hausta en það líður hjá. Langt er til vors en það styttist.

Þessi fundargerð barst mér í morgun. Við hana er fáu gáfulegu hægt að bæta.


Núna get ég ekki haldið kjafti ...

Ég segi nei, nú er búið að dæma svokölluð Árna Páls-lög ólögleg, ætti hann þá ekki að vera búinn að segja af sér þingmennsku? Það dettur honum ekki í hug, frekar en að þessir „frábæru“ rannsóknarblaðamenn DV myndu benda á það. Ráðherra sem sat í sömu ríkisstjórn og hann sat í var dæmdur fyrir ólöglegar aðgerðir þegar hún stoppaði af fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár. Ekki var krafist afsagnar Svandísar Svavarsdóttur. Hún var ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur sem einnig hefur verið dæmd, þar var á ferðinni ólögleg mannaráðning. Þetta gerðist svo allt á vaktinni hjá Steingrími J. Sigfússyni, sem í þrígang reyndi að troða Icesave ofan í kokið á okkur, skellti svo milljarða tapi Sparisjóðs Keflavíkur á okkur skattgreiðendur og skrifaði svo heila bók til að reyna að réttlæta voðaverkin. Ekki dettur honum í hug að segja af sér þrátt fyrir eigin loforð um það þegar hann sagðist mundu standa eða falla með Icesave-málinu.

Hvað þýðir það annars að standa eða falla með einhverju? Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur engan dóm fengið á sig í þessu máli, ekki heldur verið ákærð svo núna get ég ekki haldið kjafti og látið sem ég heyri ekki í þessum sjálfskipuðu dómurum sem sjá bara flísina í augum annarra en ekki bjálkann í eigin auga.

Þeir þurfa ekki að vera borðalagðir stjórnmálafræðingar, lögfræðingar eða hagfræðingar sem tjá sig í fjölmiðlum. Hann heitir Ólafur Karl Bergmann, húsasmíðameistari, sem ritar svo snöfurmannlega í Velvakanda Morgunblað dagsins. Í fyrirsögn segir hann „Ég get ekki þagað lengur“.

Ég staldra bara við Iceave ogólöglega mannaráðningu fyrrverandi forsætisráðherra. Hið fyrra hefði raunar átt að vera nóg til að sú ríkisstjórn segði af sér - þrisvar, ef það hefði verið hægt. 


Hegðunarvandamál nöldrara á netinu

Þegar netvæðingin hófst uppgötvaði fólk,sem áður hafði stundað umfangsmikið nöldur í stofunni heima hjá sér, að nú hefði það ómótstæðilegt tækifæri til að koma nöldursömum skoðunum sínum á öllum mögulegum hlutum á framfæri við fjölmarga aðra. Á þeim tíma var okkur sagt að þeir sem harðast gengju fram í rausi og svívirðingum kynnu ekki á netið. Þarna væri hegðunarvandamál sem myndi sannarlega rjátlast af fólki með tímanum. Það ætti bara eftir að læra á netið. Þetta hefur ekki reynst rétt. Sumir eru einfaldlega dónar og verða alltaf dónar. Við því er ekkert að gera. Verra er hversu margir taka mark á dónunum.

Þetta er vel mælt hjá Kolbrúnu Bergþórsdóttur í pistli í Morgunblaði dagsins. Ekki þörf á að bæta stafkrók við. Hins vegar eru margir þeirra sem skrifa pistla, blogg, nota Fésbókina eða rita í athugasemdadálka á bloggum afar málefnalegir og upplýsandi. Þess vegna er netið svo frábært og fræðandi. Því ber að fagna en leiða hjá sér þá sem Kolbrún nefnir.


Ríkið tapar alls ekki á svartri atvinnustarfsemi

... sem ekki höfðu leyfi til starfsemi gistiþjónustu.

Hver var hættan, hverjum var bani búinn, hver tapaði? Lögreglan og embætti ríkisskattstjóra vaða nú fram rétt eins og mafían í hollívúddbíómynd og berja á þeim sem vart geta borið hönd fyrir höfuð sér en hafa sótt tekjur til útlendra ferðamanna.

Nei, hættan var engin. Aungvum var bani búinn. Þeir einu sem töpuðu var ríkisvaldið og þó. Þegar öllu er á botninn hvolft græðir ríkið óbeint á svartri atvinnustarfsemi. Veltan fer öll inn í hagkerfið, fátt lekur til útlandsins. 

Ferðaþjónustan? Nei, hún tapar ekki, að minnsta kosti ekki öll. Einhvern veginn kemur þetta fólk til landsins sem gistir á stöðum sem ekki hafa leyfi til starfsemi gistiþjónustu.

Varla kemur það með nesti meðferðis, einhvers staðar fær það sér að borða. Varla kaupir það sér mat á veitingastað sem ekki hefur leyfi til veitingaþjónustu.

Þetta fólk fer á skemmtistaði, leikhús, söfn eða álíka því ekki skemmtir það sér yfir tengingaspili í herbergi í íbúð eða húsi sem ekki hefur leyfi til gistiþjónustu

Ef til vill fer þetta fólk í Þórsmörk, Vestmannaeyja, skoðunarferð á eldstöðvarnar og varla með fyrirtækjum sem ekki hafa leyfi til fólksflutninga. 

Virðisaukaskatturinn flæðir inn í ríkiskassann og beinir og óbeinir skattar verða hærri vegna svartrar atvinnustarfsemi heldur en ef hún myndi leggjast af. 

Getur það verið að þeir séu til sem bjóði ferðamönnum upp á þjónustu án leyfis til ferðaþjónustu? Þarf þá ekki að skoða hvers vegna ekki er hirt um að sækja um leyfi?

Líklega er kerfinu um að kenna, kostnaðinum við að stofna til fyrirtækjarekstrar, eftirlitgjöld hins opinbera, skattlagningu tekna og svo framvegis.

Ég held að það sé ráð að einfalda þetta allt saman þannig að tekjumöguleikarnir við skattsvik lækki stórlega svo að það hreinlega taki því ekki að sækja ekki leyfi til ferðaþjónustu. Þegar því er náð þarf lögreglan og ríkisskattsstjóri ekki að ganga frá einum gististað til annars og munda hafnarboltakylfu frammi fyrir húsráðanda eins og mafíósar í hollívúddbíómynd.

Ætli þeim lögreglustjóra og ríkisskattstjóra bregði ekki í brún ef svört atvinnustarfsemi leggst af. Það er nefnilega ekki gefið að þeir sem stunda haldi slíku áfram á „löglegan“ hátt. Þeir nenna því ábyggilega ekki vegna kostnaðar og fyrirhafnar. 


mbl.is Lokuðu fjórum útleigðum íbúðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf vex annað blóm í sömu krús eða annarri

Við rithöfundar og bókaútgefendur erum ekki að heimta nein forréttindi eða undanþágur frá sköttum og skyldum. Þetta er meira spurning um sjálfsagða tillitssemi gagnvart viðkvæmum hlut.

Þetta segir Hallgrímur Helgason, myndlistarmaður og rithöfundur, í grein í Morgunblaði gærdagsins. Man ekki hvenær ég sá síðast grein eftir sama höfund í Mogganum.

Mér hefur alltaf þótt það göfug íþrótt að semja texta af ýmsu tagi, bundið sem óbundið mál. Hef raunar alltaf talið þá nær almættinu sem slíkt geta og er Hallgrímur Helgason ekki undanskilinn. 

Greinin er þannig að ósjálfrátt veltir maður fyrir sér markmiðum fólks. Þau eru auðvitað ólík frá einum einstaklingi til annars. Undir niðri virðist allt spurning um peninga. Enginn vill enginn borga of mikið, hvorki fyrir vörur né í skatta. Í ljósi þess að fátt er öruggt í þessu lífi annað en skattar og ... dauðinn er skiljanlegt að margir vilji komast hjá því að greiða af tekjum sínum. Ef vel tekst til kætast þeir sem eiga meiri afgang en aðrir, hvernig sosum hann er fenginn.

Hvað skattana varðar er þetta alltaf spurning um réttlætingu. Skúrkar spá ekki í slíkt, þeir svíkja undan skatti og láta engan vita. Aðrir heimta þrepaskipt skattkerfi og réttlæta það með umhyggju fyrir okkur aumingjunum.

Réttlætingin er hins vegar forvitnileg athöfn. Hún tengist oft upphafningu á eigin verðleikum, umhyggjunni og mannúðinni. Fjölmargir falla fyrir slíkum fagurgala án þess að hugsa neitt um eðli máls.

Hallgrímur Helgason, rithöfundur er líkast til ekki skúrkur. Réttlæting hans á lægri virðisaukaskatti ofan á verð bóka tengist alls ekki því að hann hafi hagsmuna að gæta. Hann er ekki að spá í tekjumöguleika sína heldur er það göfgin sem ræður hvert penninn bendir. 

Sú framleiðsla að skrifa bók hvetur eflaust til lestrar. Sá sem framleiðir fatnað vill að fólki sé hlýtt og hvetur því til að fólk kaupi hana.

Hvort er nú göfugra starf, að skrifa og selja bækur eða framleiða og selja peysu?

Þá er það spurningin hvort ríkisvaldið sé þess umkomið að taka afstöðu. Á að verðlauna rithöfunda og seljendur bóka með því að leggja á söluverð þeirra lægri virðisaukaskatts? Hvers á þá peysuframleiðandinn og seljandi peysunnar að gjalda?

Er það virkilega svo að einn vöruflokkur sé göfugri en annar og á ríkið að fá að velja þá? Eiga til dæmis bækur, ýmiskonar barnavörur, matur og annað að bera lægri virðisaukaskatt en peysur, reiðhjól, íþróttavörur, tölvur, kók og súkkulaðikex?

Þetta er meira spurning um sjálfsagða tillitssemi gagnvart viðkvæmum hlut. Viljum við ekki viðhalda almennri lestrarkunnáttu og efla þann fræga lesskilning? „Hvað er auður, afl og hús / ef ekkert blóm vex í þinni krús?“ Þjóð sem ekki þekkir sérstöðu sína, sem ekki þekkir sinn mesta hæfileik og kann því ekki að hlúa að honum, er sorglegur flokkur. Þó að menn vilji „láta eitt yfir alla ganga“, „ekki gera neinar undanþágur“ og „einfalda kerfið“ þá eru til þeir menn sem ekki fara líka með sláttuvélina yfir blómabeðið. Það heitir víst menning.

Þetta segir rithöfundurinn Hallgrímur Helgasson sem vill efla lesskilning og viðhalda almennri lestrarkunnáttu og þess vegna eiga bækur að vera ódýrari en aðrar vörur. Án þess að spyrja neinn ákveður hann út frá eigin forsendum að bækur séu göfugari en flíspeysa. Honum yfirsést sú staðreynd að sláttuvélin hefur þegar farið yfir blómabeðið, hefur búið til þrepaskiptingu sem er algjör óþarfi.

Þetta allt veltir upp spurningum eins og þessum: Væri það atlaga að menningu þjóðarinnar ef allar vörur væru í sama virðisaukaskattsflokki, hvort sem þær eru bækur, flíspeysur, gisting, aðgangur í sundlaug, leikhús, laxveiði, matur og allt sem nöfnum tjáir að nefna?

Myndi visna blóm í krús ef aðeins væri einn virðisaukaskattsflokkur fyrir allar vörur? Myndi lesskilningi þjóðarinnar hnigna? Væri hætta á því að börn gætu ekki lært á tölvur? Myndu rithöfundar hætta að skrifa? Yrði hætta á því að bækur yrðu lélegri eða óskemmtilegri?

Nei, þetta er auðvitað tóm vitleysa að setja hlutina fram með þeim hætti sem rithöfundurinn gerir. Hann er í bullandi hagsmunabaráttu fyrir sjálfan sig og óttast það eitt að hafa minna í tekjur. Það er hins vegar mikill misskilningur.

Vaxtarmöguleikar blómsins í krúsinni velta á allt öðru en sköttum ríkisvaldsins. rithöfundar spretta upp árlega í tugatali vegna þess að fólk finnur hjá sér þörf til að skrifa, segja frá. Skiptir engu þótt Hallgrímur Helgason leggi pennann á hilluna.

 


Jarðskjálftaspár ljósi þeirra afla sem að baki liggja

Hér var einblínt á tölfræði um endurkomu skjálfta án þess að skilja þau ytri og innri öfl sem lágu að baki reglunni og hugsanlegan náttúrulegan breytileika þeirra.  

Þetta segir Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur, í grein í Morgunblaði helgarinnar og er þetta önnur greinin í greinaflokki um jarðskjálfta.

Ragnar fjallar hvernig hægt er að spá fyrir um jarðskjálfta. Í ofangreindri tilvitnun nefnir hann það sem öllum ætti að vera ljóst, að ekki er nóg að giska. Aðalatriðið er að dæmið sé rétt reiknað. Útkoman er ekki alltaf það mikilvægast heldur aðferðarfræðin. Ragnar segir að skilja þurfi þau öfl sem valda skjálftum.

Kínverskir fræðimenn spáðu rétt til um jarðskjálfta árið 1970 og vakti það heimsathygli. Fimm árum síðar varð mikill jarðskjálfti. Þeir vissu svo sem að hann væri á leiðinni en trúðu ekki á niðurstöður rannsókna sinna.

Svipað gerðist í Parkfield í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Um það segir Ragnar:

Reynslan frá Parkfield sýnir hve varasamt það er að byggja spádóma um það hvenær skjálftar
verða á tölfræði um endurtekningu atburða, þó ekki væri nema vegna þess hve stutt okkar
jarðskjálftasaga er og hversu illa hún nær yfir breytileika ástands í náttúrunni. Að taka eftir slíkum
reglum í sögunni er gott fyrsta skref í hættumati, en um leið eru þær ábending um að kafa dýpra til
að skilja hvaða kraftar liggja að baki þeim.
Því miður urðu „mistökin í Parkfield“ til að styrkja þær raddir sem sögðu að aldrei yrði hægt að spá fyrir um jarðskjálfta. 

Orð Ragnars minna á það sem Haraldur Sigurðsson, jarðskjálftafræðingur, segir um að reikna megi eldgos út í fjölda ára frá síðasta gosi. Hann dregur stórlega í efa að hægt sé að nota almanaksár eitt eða fleiri til að spá fyrir um eldgos, málið sé mun flóknara en vo.

Í lok greinarinnar segir Ragnar: 

Þegar lögð voru drög að alþjóðlegum jarðskjálftaspárannsóknum á Íslandi á níunda áratug síðustu
aldar eimdi vissulega enn eftir af bjartsýninni í kjölfar hinnar vel heppnuðu spár Kínverja 1975, en
raddir svartsýninnar voru farnar að styrkjast verulega. Við tókum vissulega mið af gagnrýninni en á
þann hátt að kafa dýpra, að skoða eðli þeirra breytinga í jarðskorpunni, sem leiða til stórra jarðskjálfta. 
 
 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband