Forsetinn á að halda sér til hlés við stjórnarmyndun

Forseti Íslands á algjörlega að halda sig til hlés á meðan á stjórnarmyndunarviðræðum stendur eða þreifingum í þá átt. Aðeins er tæpur mánuður frá kosningum og ekkert undrunarefni að ríkisstjórn skuli enn ekki hafa verið mynduð.

Á visir.is eru vangaveltur um að forsetinn þurfi að fara að reka á eftir með stjórnarmyndun. Þetta er algjörleg út í hött. Eini vandinn með starfstjórn er sú að hún hefur ekki afl til að fá fjárlagafrumvarp lögfest. Í sjálfu sér skiptir það ekki stórmáli vegna þess að aðrar leiðir eru til að halda ríkinu fjárhagslega gangandi.

Ljóst má hins vegar vera að úrslit þingkosninganna voru ávísun á stjórnarkreppu. Sitjandi ríkisstjórn féll og nær útilokað er að stjórnarandstaðan geti myndað meirihluta. Hversu mikið sem Vinstri grænir gylla svokallaða „fjölbreytni“ í fimm flokka stjórn þá yrði hún alltaf nær óvirk og líf hennar að öllum líkindum ærið skammvinnt.

Tveggja eða þriggja flokka ríkisstjórnir ganga best, nemi meirihlutinn í það minnsta kosti tveimur til þremur mönnum. Annað býður heim hættunni á spillingu.

Ekki verður leyst úr stjórnarkreppu með því að forsetinn gerist verkstjóri yfir þinginu, berji formenn flokkanna áfram með harðri hendi. Eðli þingræðisins er viljinn til að mynda meirihlutastjórn. Ríkisstjórn verður ekki mynduð með þvingunum forseta heldur trausti sem er á milli manna. Málefnastaðan skiptir litlu, persónulegt traust skiptir öllu.

Nýjar kosningar eru eina leiðin til að leysa úr stjórnarkreppu. Pattstaðan breytist ekki þó allir formenn fái stjórnarumboðið í viku eða tíu daga í senn. Raunar er það með öllu óeðlilegt að forsetinn íhugi að leyfa öllum að reyna sig við stjórnarmyndun. Til hvers í ósköpunum ætti til dæmis formaður Samfylkingarinnar að fá að mynda stjórn? Geti hann það ekki í óformlegu spjalli mun hann ekki geta það þegar til alvörunnar kemur.

Stjórnarmyndunarumboð er í raun og veru ekki til. Meirihluti getur myndast án íhlutunar forseta og þannig á það að vera. Enginn setur út á að forsetinn standi í dyragættinni og fylgist með, það skaða ekkert. 

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur talar eins og spámiðill rétt eins og flestir aðrir álitsgjafar með þessa menntun. Í viðtalinu á visir.is talar hann eins og hann viti nákvæmlega hvað forsetinn sé að hugsa eða hvað hann ætti að hugsa. Hann kemur með nýja frasa um stjórnarmyndunarviðræðurnar, kallar þær „lausbeislaðar“. Hvernig í ósköpunum verða stjórnarmyndunarviðræðu „beislaðar“?

Í sannleika sagt er orðið afar þreytandi að fylgjast með þessu stjórnmálafræðingum mala og mala um það sem allir vita og skilja. Mikli nær væri fyrir fjölmiðla að snúa sér að almenning og spyrja hann álits um stöðu mála. Baldur Þórhallsson hefur ekkert nýtt fram að færa í fréttinni á visir.is, nema ef til vill það að lesandinn greinir pínulítið ergelsi yfir því að fimmflokkaríkisstjórnin komst ekki á koppinn.


Tekjur borgarinnar aukast en skuldir hækka

En Magnús Már er hreykinn af því að áætlun meirihluta borgarstjórnar sýnir 1,8 milljarða afgang á næsta ári. Borgarfulltrúinn lætur í engu getið að bætt afkoma byggist á tekjum af söluhagnaði og sölu byggingarréttar. Vonandi verður rekstrarniðurstaðan jákvæð og grunur um að forsendur fjárhagsáætlunar séu þegar brostnar reynist ekki á rökum reistur. Því miður er hins vegar töluvert í land að rekstur A-hluta sé sjálfbær.

Þetta segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaði dagsins. Í henni segir hann borgarfulltrúa Samfylkingarinnar til um rekstur borgarinnar.

Borgarfulltrúann Magnús Már Guðmundsson þekkja fáir. Hann er hluti af vinstra liðinu sem stjórnar Reykjavíkurborg en hefur látið lítið fara fyrir sér. Var raunar í sjöunda sæti á lista Samfylkingarinnar við kosningarnar 2014. Þó vildi svo til að hann vaknaði einn rigningardaginn fyrir skömmu og skrifaði grein því honum sárnaði við Óla Björn vegna enn annarrar greinar.

Skemmst er nú frá því að segja að Óli Björn birtir í grein dagsins syndaregistur vinstra liðsins í borgarstjórn. Það lítur svona út og það er hreint hörmuleg upptalning:

  • Langtímaskuldir A-hluta jukust um 137% að raunvirði frá árslokum 2009 (árið fyrir valdatöku Samfylkingar og ári eftir hrun fjármálakerfisins) til loka árs 2015.
  • Heildarskuldir nær tvöfölduðust og voru tæplega 40 milljörðum meiri á föstu verðlagi.
  • Eigið fé minnkaði um 2,9 milljarða.
  • Heildartekjur voru 16,5 milljörðum krónum hærri að raunvirði 2015 en 2009.
  • A-hluti hafði 113 þúsund krónum hærri tekjur af hverjum borgarbúa 2015 en 2009 á föstu verðlagi. Rekstrargjöld voru hins vegar 199 þúsund krónum hærri.
  • Skuldir A-hluta jukust að raunvirði um 315 þúsund krónur á hvern íbúa. Eigið fé minnkaði á sama tíma um 45 þúsund.
  • Að raunvirði var veltufé frá rekstri 38% minna á síðasta ári en 2009. Veltufé er mælikvarði á stöðu grunnrekstrar A-hluta.
  • Í árslok 2009 var veltufjárhlutfallið 2,12 en var komið niður í 1,18 við lok síðasta árs.

Afrekaskráin er ekki sérlega glæsileg. Magnús Már vill því fremur benda á fögur fyrirheit um framtíðina en standa skil á kosningaloforðum og afrekum liðinna ára:

„Með aga og skipulögðum vinnubrögðum kraftmikils starfsfólks, stjórnenda og meirihlutans í borgarstjórn hefur tekist að leggja fram fjárhagsáætlun með afgangi sem sýnir góðan rekstur Reykjavíkurborgar.“

 

Gamli frasinn um grjót og glerhús á hér ágætlega við. Til skýringar er A-hluti borgarsjóðs sá hluti rekstrarins sem alfarið er rekinn af skattfé, B-hlutinn eru fyrirtæki og stofnanir borgarinnar sem reknar eru sem sjálfstæðar einingar.

Hvernig verður það svo EF vinstri flokkarnir ná saman um ríkisstjórn. Þá verður það eflaust orðað af stolti og barnslegri gleði að þeim hafi tekist að koma sér saman um eitthvað ... bara eitthvað.

Við skulum vona að ekki komi til þess að sama klúðrið verði við landstjórnina og í Reykjavík.

 

 


Bloggfærslur 23. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband