Öld frá strandi Goðafoss við Straumnes í Aðalvík

StraumnesÍ dag er ein öld er liðin síðan Goðafoss strandaði við Straumnes undir samnefndu fjalli yst í Aðalvík. Þar sem flakið liggur núna munar aðeins um sexhundruð metrum að skipið hefði náð fyrir Straumnes. Miðað við það var það ótrúleg óheppni að skipið skuli hafa siglt upp í fjöru.

Skipstjórinn mun hafa gefið fyrsta stýrimanni stefnu til að sigla eftir út úr Aðalvík og hvarf hann svo úr brúnni. Úti var slæmt veður, snjókoma og ekkert skyggni og vissi stýrimaður ekki fyrr til en að skipið steytti á grunni.

Talstöðvar skipsins biluðu í strandinu og útilokað var að senda út hjálparbeiðni. Um borð voru fimmtíu og átta manns, farþegar og áhöfn.

Þegar skipið strandaði drapst á ljósavél og þurfti fólk að bíða í tvo sólarhringa í myrkri. Það var ekki fyrr en stýrimaður og nokkrir hásetar gátu róið á björgunarbát inn að Látrum í Aðalvík að hjálpin barst. Vandamálið var þá að allir bátar stóðu uppi enda hávetur og útræði ekkert. Mikil vinna var að sjósetja báta, senda skilaboð á milli bæja og skipuleggja hjálparstarf.

Aðalvíkingar björguðu áhöfn og farþegum. Má gera sér í hugarlund hversu aðstæður voru erfiðar. Þetta var frækileg björgun, enda veður slæmt og snjór og ís á fjörum og báta heimamanna byggðir til fiskveiða en ekki björgunarstarfa.

Straumnes4Goðafoss var nýtt skip, byggt í Kaupmannahöfn 1915 fyrir Eimskipafélag Ísland sem nefnt var „óskabarn þjóðarinnar, stofnað 17. janúar 1914. Strandið var gríðarlegt áfall fyrir félagið.

Árið 1980 fór ég í fyrsta skipti um Hornstrandir, ferðirnar áttu eftir að verða ótalmargar síðan. Þá gengum við þrír félagar á Straumnesfjall og að herstöðinni gömlu þar uppi. Eftir að hafa skoðað okkur um þar, skildu leiðir, þeir héldu sömu leið til baka en mér lék hugur á að fara niður að hinu sögufræga Straumnesi og ekki síður að Goðafossi.

Þetta var tilkomumikil ganga, niður Straumnesdal og út að vitanum á Straumnesi. Þar fyrir utan mætast hafstraumar og gat verið viðsjálvert fyrir litla báta að fara í röstina sem þar varð oft afar mikil.

Straumnes3Örskammt fyrir innan Straumnes, aðeins um hálfum kílómetra, eins og nefnt var hér í upphafi, liggur flakið af Goðafossi. Þegar ég átti leið þarna um höfðu áratugirnir farið illa með flakið. Aðeins stjórnborðsstefnið var nokkuð heillegt og mastur stóð skáhalt út í Aðalvík rétt eins og bending inn hana, minnisvarði um frækilegt björgunarafrek heimamanna. Skammt frá var stór gufuketill en skipið var knúið gufu.

Ég var einn, veðrið var ákaflega fallegt og stillt og áhrifin voru eins og að koma í kirkjugarð, mér fannst þetta nærri því helgur reitur.

Auðvitað var ekkert heillegt í skipinu. Brim, frost og óveður höfðu fyrir löngu tortímt því sem heimamenn gátu ekki bjargað.

Í Morgunblaði dagsins ritar Matthildur Guðmundsdóttir, Aðalvíkingur, grein þar sem hún fjallar um strand Goðafoss. Í henni segir hún:

Enginn spurði Látramenn hversu miklu eldsneyti þeir hefðu eytt við að flytja fólkið í land og bæta við ferð til Ísafjarðar. Það spurði heldur enginn um hve mikil matföng hefðu farið til að fæða 58 manns, en vetrarforði Látramanna minnkaði að sjálfsögðu við þessa björgun. Björgunarlaun voru engin.

400 olíutunnur voru um borð í Goðafossi og voru Látramenn fengnir til að bjarga þessum tunnum eftir því sem veður leyfði og sem laun fyrir þá vinnu fengu heimamenn ½ tunnu á hvert heimili.

Eitthvað máttu heimamenn nýta úr brotnandi skipsflakinu og til gamans má geta þess að eitt fjósið á staðnum varð frægt fyrir fína hurð sem þar var og á stóð með gylltum stöfum: „Fyrsta farrými.“

Straumnes2Forðum var það þannig að ekki var spurt um laun fyrir að bjarga náunganum í nauð hans. Þannig er það ekki heldur í dag.

Myndir, hægt er að stækka allar myndir:

  1. Loftmynd af Straumnesfjalli. Inn á það hefur strandstaðurinn verið merktur. Látrar eru neðst í hægra horninu. Þangað eru tæplega tíu kílómetra leið, róður á móti hvassviðri.
  2. Mynd af flaki Goðafoss, tekin 1980
  3. Mynd af stefni Goðafoss, tekin 1980
  4. Mynd tekin ofan af Straumnesfjalli 1995
  5. Goðafoss, skip Eimskipafélagsins.

Goðafoss

 


Ríkisstjórn um það sem er mikilvægast

Óli Björn KárasonSvo eru þeir sem eiga sér aðra drauma: Að mynduð verði ríkisstjórn sem tekst á við verkefnin sem mestu skipta: Heilbrigðiskerfið, almannatryggingar, menntakerfið og fjárfestingu í innviðum, ekki síst samgöngum. Að mynduð verði ríkisstjórn flokka sem eru tilbúnir til að nýta uppsveiflu í efnahagslífinu til að byggja upp til framtíðar, án þess að leggja auknar byrðar á heimili og fyrirtæki, sem fyrr fremur en síðar mun draga úr hagsæld.

Svona orðar Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skoðun sína sem raunar er stefna flokksins, og er einfaldlega ástæðan fyrir því að ég og tugþúsundir annarra kjósum hann. Þetta er að finna í grein Óla Björns í Morgunblaði dagsins, hófsöm, fallega orðuð og einlæg.

Þó er skammt er í varnaðarorðin:

Niðurstaða kosninganna í lok október kemur í veg fyrir að hægt sé að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka. Þessa vegna verða að minnsta kosti þrír flokkar að koma að næstu ríkisstjórn. Forystumenn stjórnmálaflokkanna geta leitað að málum sem sundra þjóðinni eða náð saman um þau sem skipta almenning mestu.

Þetta er eiginlega það sem maður fær stundum á tilfinninguna, að hinn pólitíski tilgangur sé ekki sá að vinna landi og þjóð sem best heldur að sundra og jafnvel að bylta því sem áunnist hefur. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef verkefni nýrrar ríkisstjórnar hverju sinni sé að umbylta öllu, draga til baka það sem fyrri ríkisstjórn hefur gert og svo framvegis, leggja ofurskatta á einstaklinga og fyrirtæki svo dæmi sé tekið. 

Óli Björn er ekki sammála þessu. Hann hvetur til þess að stjórnmálaflokkarnir leiti að málum sem sameina, skipta þjóðina mestu.

Hann leggst gegn skattahækkunum, telur að það skerði samkeppnisaðstöðu þjóðarinnar ef skattar séu hærri hér en í nágrannalöndunum, það muni einfaldlega valda því að okkur muni ganga erfiðlega að fá vel menntað fólk heim aftur ef það fær miklu hærri laun í öðrum löndum.

Í niðurlagi greinarinnar bendir hann á mikilvægt atriði:

Í stað þess að takast á um skattahækkanir er skynsamlegra að leggja drög að því að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs. Ef fjármagnskostnaður í hlutfalli af gjöldum hefði verið svipaður á síðasta ári og 2003-2006 hefði ríkið haft 46 milljörðum meira úr að spila. Þetta er næstum jafnmikið og allur rekstrarkostnaður Landspítalans. Þetta eitt lítið atriði sem gott er að hafa á minnisblaði og hafa upp á borði við myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Í meginatriðum hljóta allir að vera sammála því sem Óli Björn Kárason segir í greininni.

 


Bloggfærslur 30. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband