Gvendur hali spáir eins og stjórnmálafræðingur

Gvendur haliGvendur hali nefnist maður nokkur sem hefur ágæta sýn yfir íslensk stjórnmál. Hann er hissa á því að aldrei skuli nokkur blaða- eða fréttamaður tala við sig en upphefji í staðinn svokallað stjórnmálafræðinga.

Til að bæta úr skák tók ég viðtal við þennan ágæta mann og fer það hér á eftir:

Fyrirsögn: 

Telur að ríkisstjórn geti verið mynduð

Guðmundur H. Herlaugsson, spáfræðingur Lækjartorgs, seg­ir mjög erfitt að átta sig á hvort Katrínu Jak­obs­dótt­ur, for­manni Vinstri grænna, muni tak­ast að mynda fimm flokka stjórn.

„Það verður reynt til þraut­ar með þetta en það er mjög erfitt að átta sig á því hvort það geng­ur. Ég held að það gæti al­veg tek­ist,“ seg­ir Gvendur hali (hann óskar eftir því að vera kallaður svo).

„Svo verður maður að meta hvernig sam­setn­ing­in er, hvernig mál­efna­samn­ing­ur­inn lít­ur út og hvar ásteyt­ing­ar­stein­arn­ir eru, ef maður ætl­ar að spá því hversu lang­líf hún verður.“

Hálf þjóðin vildi gera Kötu að forseta

Spurður um hvort Katrín formaður Vinstri grænna sú rétta til að leiða nýja ríkisstjórn: 

„Já og nei Kannski eru sú rétta, kannski ekki. Sumir draga hana í efa aðrir ekki.“ 

Rökrétt skref

Að mati Gvends hala er það rökrétt skref hjá Katrínu að reyna að mynda ríkisstjórn. 

„Annars myndi hún ekki mynda ríkisstjórn. Það væri líka rökrétt skref, veltur bara á því í hvaða átt hún gengur, ætli hún á annað borð að fara í göngu.

Sko, það virðist að Vinstri grænir horfir til vinstri stjórnar enda felst það í nafni flokksins. Sumum kann að koma það á óvart, öðrum ekki. Ennfremur, sko, að er breidd í þessari stjórnarhugmynd. Hvað annað? Fimm flokka ríkisstjórn er óneitanlega breið hins vegar er kristaltært að dýptina vantar.“

En verða núverandi ríkisstjórnarflokkar með í samstarfinu? 

„Gerist það, þá verða stjórnarflokkarnir sjö, ef ekki þá verða þeir færri og þar með minni meirihluti og minni breidd. Vandinn er bara sá að verði stjórnarflokkarnir með í ríkisstjórn vinstri flokkanna, hverjir eiga þá að vera í stjórnarandstöðu? Hitt vita allir að þekking og reynsla vinstri flokkanna er að vera í stjórnarandstöðu“

Viðreisn og Björt framtíð staðið fast á sínum málum

Hann bætir við að þó allir séu tiltölulega jákvæðir þá standi menn á sínum málum, sem sé neikvætt.

„Ef aðeins einn stendur á sínum málum verður allt auðveldara. Standi aðrir á þessum eina á hann erfiðar uppdráttar.

Við sjáum hvernig Viðreisn og Björt framtíð hafa staðið fast á sínu gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Má vera að þeir verði slakari gegn Vinstri grænum, kannski ekki, og þó ...“

Bjarni vonsvikinn

Gvendur hali sagði greinilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins sé ekki hamingjusamur vegna þess að upp úr slitnaði milli hans, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar.

„Sjáðu nú til ... Bjarni kann að vera vonsvikinn, en það eru fleiri og það kemur dagur eftir föstudaginn í síðustu viku rétt eins og í dag.“

Ekki algjörir græningjar

Gvendur hali dró nú fram kristalskúlu sína og stakk henni í samband við netið. Hann rýndi í hana og sagði að vissulega sé óreynt fólk innan um á Alþingi. Hann bendir þó á að hjá Pírötum sé fólk með malbiksreynslu og reykingum.

„Ég bendi bara á að ef helmingurinn af þingflokknum er með meiri eða minni þingreynslu er hinn helmingur það ekki. Þetta er svona eins og að segja að þrír plús tveir séu fimm rétt þegar tveir plús þrír séu líka fimm, en þó ekki endilega sama fimman.“

Geturðu skýrt þetta nánar, Gvendur hali?

„Hélt að þetta lægi nú í augum uppi, Sigurður minn. Sko fjórir plús fimm eru níu, rétt eins og fimm plús fjórir eru líka níu, þó þarf ekki að vera að það sé sama nían heldur ný nýja. Þrjár endur á þingi verða ekkert endilega tíu endur nema þeim sé fjölgað og hvaða gagn er af því ef helmingurinn er reynslulaus?

Hmmm ...

„En talandi um reynslulítið fólk þá er hægt að minna fólk á að fólk kaus fólk árið 1991 og þá varð nýtt fólk þingfólk án þess að verða nokkru sinn ráðherrafólk, þó einstaka hafi orðið ráðherra í langan tíma,“ greindi Gvendur hali Herlaugsson frá og kippti kristalkúlunni úr sambandi.

Hér er ekki verið að bera saman viðtalið við Gvend hala við viðtal mbl.is við stjórnamálafræðing og prófessor með viðlíka þekkingu og er að finna hér. Þó verður að segjast eins og er að Gvendur hali er skýr enda stundum nefndur Guðmundur skýrari.


mbl.is Telur að fimm flokka stjórn gæti náðst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagmunir þjóðarinnar eru aðrir en hagsmunir verslunarinnar

ungarHvers vegna eru íslensk stjórnvöld með reglur um að innflutt kjöt sé fryst? Svarið er einfalt, það er einfaldlega vegna sjúkdómahættu.

Ef reglur Evrópusambandsins um innflutning á landbúnaðarafurðir, sem  Ísland hefur lögleitt, eru þess eðlis að opna skuli landið fyrir landbúnaðarsjúkdómum sem grassera í Evrópu þá er ekkert annað uppi á borðinu en að nema lögin úr gildi. 

Í öðru lagi skiptir stóru máli að landbúnaður hér innanlands getur hvorki keppt í verði eða magni við útlendar landbúnaðarafurðir. Við erum einfaldlega jaðarsvæði og örsmár markaður.

Þriðja atriðið er fæðuöryggi landsins. Óheftur innflutningur landbúnaðarafurða gerir þjóðina fæðulausa komi eitthvað í veg fyrir eðlilegar samgöngu á hafi eða í lofti.

Fjórðu rökin eru að í öllum löndum Evrópu eru landsbúnaðarafurðir niðurgreiddar og þar með innflutningur hingað. Vart er að treysta því að svo verði til frambúðar og hversu mikið hækka þau í verði þegar dregur úr niðurgreiðslum eða þær hætta.

Það er algjörlega óábyrg afstaða að heimta ótakmarkaðan innflutning landbúnaðarafurða og sú krafa kemur nær eingöngu frá hagsmunaaðilum, innflytjendum og verslunum.

Innlend framleiðsla er dýr, sú útlenda ódýr, buddan ræður. Hver er þó staða okkar sem sjálfstæðrar þjóðar ef við getum ekki brauðfætt landsmenn þegar eitthvað bjátar á í samgöngukerfi heimsins? Á íslensk þjóð að vera að öllu leyti háð innflutningi matvæla? 

Skilyrði um að opna fyrir óheftan innflutning landbúnaðarafurða frá Evrópu er ógn við sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar.

Sjá hér nánar um notkun hormóna í landbúnaði og hér um notkun á sýlalyfjum til að efla vöxt sláturdýra.

Ég leitaði mér að myndefni við þennan pistil og mér til gríðarlegs hryllings fann ég ótal vefsíður sem segja frá takmarkalausri grimmd í sláturhúsum í Evrópu og annars staðar. Ég hreinlega fékk það ekki af mér að birta slíka mynd hér.

Staðreyndin er að minnsta kosti þessi: Íslensk sláturhús eru mjög vel rekin og meðferð sláturdýra er mannúðleg. Myndin sem hér fylgir er úr erlendu kjúklingasláturhúsi. Ungar fylgja með eggjaskurn yfir í gáma þar sem þess líf þeirra fjarar skjótlega út og öllum er andskotans sama.

Fyrir mig og mína vil ég frekar dýrari íslenskar landbúnaðarvörur vitandi að reglum um slátrun er fylgt og veit að hér eru hvorki notaðar sýklalyf eða hormónalyf í sama mæli og víðast annar staðar. Vel má vera að ég geti fengið hjá Ferskum kjötvörum ódýrt kjöt en ég get aldrei geta treyst uppruna þess eða hvernig staðið var að slátrun dýrsins.


mbl.is Ríkið tapar máli um innflutningsbann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúpínan, gleðigjafi fyrir menn og mófugla

HeiðmörkÞeir fuglar eru nefndir mófuglar sem verpa í móum og mýrum. Nefna má lóu, spóa, stelk, sendling, kjóa, rjúpu, hrossaguk og fleiri tegundir.

Auðvitað kunna fuglar ekki að tjá sig en með rannsóknum hefur verið hægt að finna út hvaða kröfur þessir fuglar gera til umhverfisins. Til dæmis hefur komið fram að þeir kjósa frekar að gera hreiður sín í lúpínubreiðum en víðast hvar annars staðar.

Í grein í vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences er grein sem nefnist „Avian abundance and communities in areas revegetated with exotic versus native plant species“ og er eftir Brynju Davíðsdóttur, Tómas Grétar Gunnarsson, Guðmund Halldórsson og Bjarna Diðrik Sigurðsson er að finna forvitnilega rannsókn um mófugla.

Á vef Skógrætarinnar segir um rannsóknina:

Höfundar rannsökuðu áhrif mismunandi landgræðsluaðgerða á þéttleika og tegundasamsetningu fugla og á fjölda smádýra. Á 26 stöðum á landinu voru borin saman:

    1. Óuppgrædd svæði,
    2. Endurheimt mólendi og
    3. Land sem hafði verið grætt upp með alaskalúpínu.

Mikill munur var á fjölda fugla milli gróðurlenda. Á óuppgræddu landi var að meðaltali 31 fugl á ferkílómetra, 337 á endurheimtu mólendi og 627 á landi sem hafði verið grætt upp með lúpínu. Þar sem fuglar voru fleiri var einnig meira af smádýrum sem eru mikilvæg fæða fuglanna.

Í endurheimtu mólendi var mest um vaðfugla, tegundir sem fer hnignandi á heimsvísu, en í lúpínu var meira um algengari tegundir. Heiðlóa og lóuþræll voru algengustu tegundirnar í endurheimtu mólendi en hrossagaukur og þúfutittlingur í lúpínu. Þéttleiki sumra fuglategunda virtist vera háður framvindustigi landgræðslusvæða. Þessi rannsókn sýnir að landgræðsla eykur líffræðilega fjölbreytni dýrategunda en mismunandi landgræðsluaðgerðir leiða til mismunandi þróunar vistkerfanna.

MorsárdalurÉg hef lengi dáðst að lúpínu og þá sérstaklega hversu hratt hún breiðist út, jafnvel á örfoka landi. Hún er algjör gleðigjafi fyrir augð þegar hún blómstrar. Þetta er nú samt einungis það sé sjá má með berum augum. Gagnsemi lúpínunnar er ekki síður fólgin í því að hún vinnur köfnunarefni úr andrúmsloftinu og skilar því í jarðveginn, öðrum jurtum til gagns.

Köfnunarefni (nitur) skortir stórlega í íslenskum jarðvegi en fáist það verður gjörbreyting á. Skógrækt er tilvalin í svæðum þar sem lúpínan hefur náð fótfestu. Það hefur til dæmis gerst á stórkostlegan hátt í Bæjarstaðaskógi við Mórsárdal og víðar.

Sumir sjá ofsjónum yfir framgangi lúpínunnar, meðal annars fyrrum umhverfisráðherra Vinstri grænna sem fyrirskipaði upprætingu hennar með öllum tiltækum ráðum meðal annarshvatti hann til að eitrað væri fyrir henni.

Sem betur fer er herferðin gegn lúpínu löngu töpuð. Við útbreiðsluna verður ekki ráðið á annan hátt en að rækta skóg. Staðreyndin er  nefnilega sú að þessi fallega blágræna jurt þrífst ekki í skugga. Meðan stjórnendur margra sveitarfélaga geta ekki á sér heilum tekið vegna útbreiðslu lúpínunnar, moka henni í burtu eða eitra, taka aðrir henni fagnandi og stunda skógrækt. Síðarnefnda aðferðin er margfallt ódýrari en eiturhernaðurinn.

Víst er að mófuglarnir hafa talað og sagt hvar þeim líður best. Gróðurinn er foldarskart eins og Jónas Hallgrímsson orti forðum. Því miður þekkti hann ekki lúpínuna annars hefði hann ort henni ódauðleg ljóð.

Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
allstaðar fyllir þarfir manns.

 


Bloggfærslur 18. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband