Katrín og Steingrímur eru ólík en sammála um skatthækkanir

Það hefur verið mjög góður andi í þessari vinnu, málefnaleg og góð skoðanaskipti. Í okkar hópi er ekkert uppnám af einu né neinu tagi. Og fjarri því að þar sé unnið með einhverjum hótunum. Þetta er það sem heitir á góðri íslensku rakalaus Moggalygi.

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum allsherjarmálaráðherra í vinstristjórninni 2009 til 2013, í viðtali við visir.is. Hann heldur þessu fram vegna fréttar Morgunblaðs dagsins um að Vinstri grænir áformi skattahækkanir verði af myndun fimmflokkaríkisstjórnarinnar (langt orð). 

Steingrímur gapir vel að vanda enda orðhákur mikill. Formaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, sagði hins vegar á Facebook: 

Þessar áherslur Vinstri grænna ættu ekki að koma neinum á óvart. Við lofum nefnilega ekki auknum útgjöldum í heilbrigðisþjónustu og skólamálum (sem allir segjast vilja) nema við teljum að við getum aflað tekna á móti og að þeirra tekna sé aflað með réttlátum hætti.

Eins og vant er þarfnast orð Katrínar túlkunar við. Lausnarorðin hjá Katrínu eru feitletruð. Sem sagt, Vinstri græn ætla ekki að afla tekna með óréttlátum hætti ...

Þá er það spurningin hversu langt nær réttlæti hennar yfir sjálfsaflafé almennings. Við fengum að kynnast því meðan Katrín var menntamálaráðherra í vinstri stjórninni sem kennd er við Steingrím og Jóhönnu.

Hún samþykkti skattlagningu á almenning á ráðherratíma sínum og líklega heldur hún því fram að allar skatthækkanirnar sem hún og Steingrímur stóðu að hafi verið réttlátar ...

Af þessum tveimur tilvitnuðu orðum Steingríms og Katrínar eru þau sammála um að hækka þurfi skatta. Þá stendur það út af borðinu hvað sé Moggalygi og hvað ekki eða þá ekkert.

Eflaust ríkir hinn mesti friður við borð formannanna sem eru að reyna að mynda ríkisstjórn. Kattasmölunin er ekki enn í umræðunni.

Katrín Jakobsdóttir talar flátt. Þegar hún segist ætla að afla tekna með réttlátum hætti á hún við skattahækkanir og þá er vissara að gæta að sér. 


mbl.is Ætti ekki að koma á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband