Hið forna -at- er ágætt í netfang

Þegar Sigfinnur afi minn Sigtryggson dó fékk ég til eignar Íslendingasögurnar hans. Þetta voru fallega innbundnar bækur sem sómdu sér vel í bókahillunni. Í dag eru þær orðnar verulega slitnar og ekki eins álitlegar og forðum er ég var ellefu ára snáði með þessar fínu bækur í höndunum. Bendir kannski til að þær hafi verið illilega lesnar, sumar þó meira en aðrar. Eyrbyggja er frekar snjáð, einnig Laxdæla, Grettissaga og Njálssaga.

Jæja, ég vandist á að lesa fornsögurnar með gamalli stafsetningu og man ekki til þess að mér þætti það neitt tiltökumál. Merkilegt var samt þegar komið var í Menntaskólann að fá nokkrar sögur á samræmdu nútímamáli. 

Nú gerist það að í dag var ég með annað eyrað við gufuna og datt þá inn á þátt með Braga Valdimarssyni sem spjallaði um íslenskt mál í þættinum „Tungubrjótur“. Fínn þáttur.

Líklega var það tilviljun að þegar „Tungubrjóti“ var lokið var leikið tónverkið „Hnetubrjóturinn“ eftir rússneska tónskáldið Pyotr Ilyich Tchaikovsky. Tónlistin er um tækið sem notað er til að brjóta hnetu. Held að ekkert sé til sem nefnist „Hnotubrjótur“. Samt er iðulega sagt frá „hnotubrjótinum eftir Tchaikovsky“. Hnota er viðartegund og um hana hefur enginn ort listaverk í tónum eftir því sem ég best veit. Hnota er þó iðulega söguð og til eru þeir sem leika tóna á sög.

Nóg um það. Bragi vakti í þætti sínum athygli á tákninu „@“, það er „att“ merkinu sem notað er í tölvupóstum. Það segir til um eiganda tölvupósts, þess sem sent er til eða póstur fæst frá, dæmi: gunnar@hlidarenda.is.

Viðkvæmt fólk eins og ég og fleiri höfum oft varast að kalla táknið „att“ af því að það er meint útlenska. Þess í stað segja margir „hjá“ og skrifa stundum gunnar(hjá)hlidarenda.is til þess að villa um fyrir tölvuþrjótum og netfangasöfnurum.

Bragi bendir á að í fornsögum með fornri stafsetningu er forsetningin „at“ skrifað í stað „að“:

Þeira sonr var Hámundr, faðir Gunnars at Hlíðarenda.

Og hér kviknar ábyggilega ljós hjá lesandanum rétt eins er peran í hausnum á mér glóði þegar Bragi nefndi þessa einföldu staðreynd.

Sumsé. Við þurfum ekkert annað en að brúka forna íslensku og segja upphátt að netfangið sé „gunnar at hlíðarenda.is“. Svo er það bara smekkatriði hversu fast við kveðum að hinni fornu sögn, segjum „at“ eða „att“.

Málið leyst. Íslenskan leynir á sér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband