Á nú Alþýðuflokkur að koma í stað Samfylkingar?

Auðvitað er það Sjálfstæðisflokknum að kenna að Samfylkingin er komin að fótum fram. Þetta er að minnsta kosti kenning Jóns Baldvins eftir því sem vefritið pressan.is segir um tal hans í útvarpsþætti.

Margir halda því fram að ný sé kominn tími til að dusta rykið af Alþýðuflokknum og flagga honum í stað Samfylkingarinnar. Sumsé, breyta um nafn og kennitölu og halda svo áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það gera að minnsta kosti margir þeirra sem eru í rekstri og fara á hausinn.

Eru menn búnir að gleyma Alþýðuflokknum, þessum smáflokki sem rýrnaði í samstarfi við aðra flokka en dignaði í stjórnarandstöðu? Hann var þekktur fyrir víg á formönnum sínum, steyptu þeim í þeirri von að einhver annar gæti fiskað meira. Þetta reyndist tálsýn, rétt eins og hjá Samfylkingunni.

Hverjum er það að kenna að Samfylkingin er komin að fótum fram? Jú, það er forystunni, stjórnmálamönnum hennar og hörmulega lélegri stefnuskrá.

Fólk er ekki fífl. Hvernig getur mönnum dottið í hug að hægt sé að leggja niður nafn á flokki og taka upp annað og halda að kjósendur láti glepjast.

Staðreyndin er einfaldlega sú að jafnaðarmönnum í Alþýðuflokknum og Samfylkingunni mistókst hvað eftir annað að sannfæra kjósendur um ágæti jafnaðarstefnunnar.

Vefsíðan Andríki lýsir þessum kjánaskap þannig:

Í kosningabaráttunni lýsti Oddný Harðardóttir furðu sinni á skoðanakönnunum vegna þess að Samfylkingin hefði „bestu stefnu í heimi“.

Að loknum kosningum sagði Oddný að úrslitin kölluðu á að Samfylkingin endurskoðaði stefnu sína.

Hún tekur þá kannski upp næstbestu stefnu í heimi og kannar hverju hún skilar.

 


Bloggfærslur 3. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband