Flokkurinn með bestu stefnu í heimi á leið af þingi

johannaVið erum með bestu stefnu í heimi, ég hef enga trú á því.

Þetta segir Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, í viðtali á visir.is og er hún að svara því hvort hörmulegt fylgi flokksins í skoðanakönnunum sé vegna stefnu hans.

Og þá svarar hún svo barnalega að flokkurinn sé með bestu stefnu í heimi ...

Látum vera að gagnrýna formanninn fyrir kjánalegt svar. Séu stefnumálin ekki ástæðan fyrir því að kjósendur hafa gerst fráhverfir flokknum þá varður að kenna einhverju öðru um. 

Gæti verið að kennimerkið, lógóið, sé svona ljótt að fólk kjósi ekki Samfylkinguna? Nei, varla.

Gæti verið að húsnæði flokksins sé svo fráhrindandi að kjósendur velji frekar aðra flokka? Nei, varla.

Hvað annað gæti skaðað flokkinn fyrst það eru ekki stefnumálin, lógóið, húsnæði, húsgögnin eða annað álíka?

Maður þorir varla að nefna það en hér berast böndin að þingmönnunum. Má vera að starf þeirra á nýloknu þingi hafi ekki fallið kjósendum vel í gerð.

Ef til vill er fólki líka enn í fersku minni axarsköft flokksins á síðasta kjörtímabili þegar hann reyndi að troða Íslandi í ESB á fölskum forsendum, vildi láta skattgreiðendur greiða Icesave skuldirnar, breyta stjórnarskránni og fleira og fleira.

Jú, líklega er þetta sennilegasta skýringin.

Og í þokkabót mun Oddný G. Harðardóttir, formaður flokksins, ekki ná kjöri sé eitthvað að marka síðustu skoðanakannanir. Ekki eru það nú góð meðmæli, hvorki með henni né hinum þingmönnunum.

Mörgum kann að finnast stórbrotið að vera með bestu stefnu í heimi og klúðra henni vegna þess að þingmennirnir eru ekki starfi sínu vaxnir.

Hægra megin á myndinni er núverandi formaður Samfylkingarinnar, Oddný G. Harðardóttir, og fyrrum formaður, Jóhanna Sigurðardóttir.

Þegar Jóhanna hætti sem formaður hafði fylgið aldrei frá upphafi verið lægra. Við formennskunni tók Árni Páll Árnason (hann sést ekki á myndinni) og honum tókst að koma flokknum í 10% fylgi. Oddný hefur tekist að koma fylginu í 7% (þrátt fyrir bestu stefnu í heimi) en enn er hálfur mánuður til kosninga og aldrei að vita hvort hún komi því undir fimm prósentin.


Bloggfærslur 14. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband