Annar hlaupaársdagur eftir 5.000 ár?

Í fréttum Ríkissjónvarpsins sagði að eftir um 5.000 ár gæti þurft að bæta við öðrum hlaupaársdegi til að samræma klukkuna við snúning jarðar og ferðalag hennar í kringum sólina.

Mér skilst að þingmenn Bjartrar framtíðar séu að leggja lokahönd á frumvarp til laga þess efnis að sá hlaupaársdagur verði annað hvort föstudagur eða mánudagur. Miklu skipti fyrir launafólk að helgin verði lengri en nú er.

Mér skilst að Píratar styðji frumvarpið en aðrir flokkar ætla að gefa sér góðan tíma til umhugsunar.


Hennar var hugurinn frammi á Melum ...

Stjórnmálamenn leita sér að málum til að vekja athygli á sér. Þeir eru ekki allir sem þeir eru séðir, að minnsta kosti hvað umhyggjuna varðar. Athyglin maður, athyglin, hún er eins og krónur og aurar fyrir marga, stjórnmálamennirnir þrífast á athyglinni. 

Í einhverjum fjölmiðlinum um daginn var gert lítið úr þeim þingmönnum sem minnst tala á Alþingi. Þeir voru taldir upp og getið um þær mínútur og sekúndur sem þeir stóðu í ræðustól. Ekki virtist þetta gert til að upphefja þingmennina.

Aðrir fjölmiðlar hneykslast á þeim alþingismönnum sem mest tala. Þeir eru líka taldir upp og getið um „málæði“ í klukkustundum, mínútum og jafnvel sekúndum.

Eins og alltaf er meðalhófið vandfundið og sjaldnast verða menn á eitt sáttir um frammistöðu stjórnmálamanna.

Einn þeirra, formaður Vinstri grænna, fann sér mál til að vekja á sér athygli. Hún fann „holu íslenskra fræða“. Átt er við húsgrunninn sem á að vera fyrir byggingu undir Hús íslenskra fræða. Mikill og sár vandlætingartónn var í rödd Katrínar Jakobsdóttur, alþingismanns, þegar hún krafði forsætisráðherra um efndir á því verkefni sem hún hóf en gat ekki staðið við. Katrín hefði ábyggilega komið til greina sem leikkona í aðalhlutverki en Óskarsverðlaunaafhendingunni er því miður lokið. 

Látum nú þetta væl um Melaholuna vera, margir hafa meiri áhyggjur af verkleysi vina Katrínar í borgarstjórn Reykjavíkur. Götur borgarinnar er þannig að það kostar ábyggilega andvirði margra húsa íslenskra fræða að fylla upp í þær. Enginn ekur ofan í húsgrunninn úti á Melum en margir skemma og eyðileggja dekk ökutækja sinna þegar þeir lenda ofan í þessum andsk... holum í götum borgarinnar.

Hugur formanns Vinstri grænna var frammi á Melum meðan götur borgarinnar drabbast niður vegna getuleysis borgarstjórnarmeirihlutans. Í hinum gjaldþrota borgarstjórnarmeirihlutanum er líka allt gert í felum eins og segir í kvæði Davíðs Stefánssonar um Brúðarskóna.

Katrín formaður myndi ábyggilega afla sér nokkurra atkvæða ef hún vekti athygli á holunum í götunum með sömu leikrænu tjáningunni og hún brúkaði við Melaholuna.


Veðurspár Veðurstofunnar og Belgings ekki samhljóða

VerðurstofanRegnið barði rúðurnar í stofugluggunum um það bil er ég var að leggja af stað gangandi þessa rétt tæpu fimm km í vinnuna.

Mér kom þetta á óvart því kvöldið áður hafði ég farið inn á vef Veðurstofunnar og þar var bókstaflega engin rigning í kortunum. Er ég kom út dró úr rigningunni og alla leiðina rigndi lítið. „Úrkoma mældist ekki ...“ svo notað sé algengt orðalag í veðurlýsingum frá Veðurstofunni.

Fjörtíu og fimm mínútum síðar opnaði ég tölvuna í vinnunni og kíkti á kortið og enn var „spáð“ þurru um morguninn þegar hafði hellirignt. Að vísu sást „úrkoma í nánd“ eins og fræg ummæli herma í áðurnefndum veðurlýsingum.

Veðurstofan hefur engan einkarétt á að „búa til“ veður og þess vegna kíkti ég á belging.is sem er afar góð veðurspásíða. Einn stjórnendum hennar er Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, sem margir muna úr veðurfréttum sjónvarps. „Hins geðþekka veðurfræðings ...“, eins og blaðamenn með skoðun myndu orða það.

BelgingurÉg bar saman veðurspá þessara tveggja vefsíðna fyrir klukkan tólf í dag.

Til að gera langa sögu stutta virðist spá Belgings miklu ítarlegri og úrkoma svo nálæg höfuðborginni klukkan tólf að hún er í „ítarnánd“ ef svo má að orði komast.

Veðurstofan er ekki á þessum buxunum og spáir þurru eins og sést á efra kortinu. Þar er úrkoman aðeins í „hefðbundinni nánd“. Gult þýðir rigning en á Belgingskortinu er úrkoman græn.

Eflaust eru góðar og gildar skýringar á þessum mismun og engin ástæða til að fara í einhverja samkeppni um réttar og réttari veðurspár.

Græni liturinn hjá Belgingi gæti merkt skýjafar með rigningu jafnvel þó ekki fylgi úrkoma. Hugsanlega gerir Veðurstofan ekki ráð fyrir slíku.

Samt er leikmaðurinn fullur forvitni og skilur fátt.

Merkilegt er þó að Veðurstofan fullyrti í gær og í dag að vera ætti þurrt þegar regnið barði rúðurnar í stofugluggunum hjá mér um átta leytið í morgun. Jafnvel núna segir hún að það hafi verið þurrt.

Misskilningurinn er þá líklega minn enda er mér nokk sama þó rigni. Veðrið er nefnilega spurning um hugarfar ekki óáran eins og sumir halda.

Samt fylgist ég með veðurfréttum eins og þær séu hinn stóri sannleikur lífsins.


Gengur 60 km yfir hálendið ... geri aðrir betur

He will walk up to 10 hours a day, and then pitch his own tent at night. Iceland's volatile volcanoes can erupt without notice, and Robbie group could have to run for their lives in an emergency. The 26 strong group will wade through mountain rivers and weave through vast steaming lava fields, trek across icy trails surrounded by jaw dropping sheer drops and scalding thermal springs.

Margir vilja láta gott af sér leiða og auðvitað ber að fagna því. Hitt er svo annað mál hvernig að málum er staðið. Í frétt mbl.is segir frá manni nokkrum af Englandi, Robbie, sem ætlar að ganga um 60 kílómetra yfir íslenskt hálendi og safna áheitum til góðra mála. Ekki er vitað hvar hann muni hefja göngu sína né hvar hann muni enda.

Sumsé, hann ætlar að ganga 60 kílómetra og ganga í allt að 10 klukkustundir á dag. Setjum þetta í kunnuglegt samhengi.

Oft er miðað við að hægt sé að ganga allt að 5 km á klukkustund. Miðað við það er hægt að ganga þrjátíu og fimm km á dag, það er með matarstoppum og hléum. Í þokkalegu formi getur áhugasamur göngumaður gengið 60 km á tveimur dögum og það þekkja flestir göngumenn.

 

Á milli Landmannalauga og Þórsmerkur eru 54 km. Göngumenn fara þessa leið sumir hverjir á einum til tveimur dögum, flestir á þremur til fjórum. Á leiðinni þarf að vaða ár og læki. Sumir hlaupa þessa leið, flestir svona á milli 6 og 8 klst.

Frá Hveravöllum og að skála Ferðafélags Íslands í Þverbrekknamúla eru 26 km, um tíu klukkustunda gangur og er þó ekki hratt farið yfir. Miðað er við stopp í Þjófadölum og svo skrölt áfram eftir hentugleikum

Um 30 km eru frá Hólaskjóli að Strútsskála Útivistar rétt norðan við Mælifellssand. Á leiðinni er vaðið yfir ár en kostur er að geta farið í heitt fótabað í Strútslaug nokkru áður en komið er í skála.

Þegar vel liggur á mér geng ég 4,7 km í vinnuna á 45 mínútum og svo til baka aftur. Að vísu á malbikuðum göngustígum eða steyptum gangstéttum og ég er ekki með 15-20 kg byrði á bakinu eins og í hálendisferðum.

Með fullri virðingu fyrir honum Robbí ætlar hann sér síst af öllu um of. Á móti kemur sú hætta sem segir frá í upphafi að eldfjöll kunni að gjósa án nokkurs fyrirvara og Robbí gæti þá átt fótum sínum fjör sitt að launa. Þetta er því mikil hetjuför og aflar hann vonandi mikils fjár fyrir verðug góðgerðamál.


mbl.is Gengur 60 km yfir hálendi Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég ligg undir feldi og íhuga ...

Vegna fjölmargra áskorana hef ég ákveðið að leggjast undir feld og íhuga mín mál. Í lífi hvers manns kemur sú stund að hann þarf að taka ákvarðanir um framtíð sína.

Ég er afar þakklátur þeim fjölda fólks sem tekið hefur eftir því að mikilvægi mitt í jarðlífinu byggist ekki aðeins á einkahagsmunum mínum heldur heldur þurfi ég að hugsa til samfélagsins alls og hvað því er fyrir bestu.

Þetta er nú ástæðan fyrir því að ég hef nú lagst undir feld og mun ekki birtast aftur fyrr en helv... flensan hefur rjátlast af mér.

Þakka þeim sem hafa bent mér á einkenni flensunnar. Sérstaklega þeim sem fullyrða að ekki sé hægt að hafa mig á vappi um borg og bý, smitandi annað og merkilegra fólk sem leggur jafnvel sumt hvert mun dýpri merkingu í undirfeldarskriðið en við hin grunnhyggnu.


Aðeins örlítill angi af risastórum byggðavanda

Hversu auðvelt er ekki að loka einhverjum hluta reksturs úti á landi og færa hann til Reykjavíkur? Háskóli Íslands er dæmi um stofnun sem meðvitað leggst gegn byggðinni í landinu en felur hana undir einhverjum rekstrarlegum forsendum. Sama gerir Landsbankinn, Íslandsbanki, Arion banki, Fréttablaðið og Íslandspóstur svo dæmi séu tekin.

Markaðssvæðin

Þessi fyrirtæki miða starfsemi sína við það sem kalla má hagkvæmni stóra markaðarins eða með öðrum orðum „eigin hagsmunir gegn annarra“. Með því að skipta landinu upp í ákveðin svæði eftir rekstrarlegir hagkvæmni er ekki hægt að taka tillit til lítilla markaðssvæða hvað á örsvæða eins og Laugarvatns. Þar hefur Háskólinn nú verið ákveðið að hætta með íþrótta- og heilsufræðinám.

Hér áður fyrr var rekstri yfirleitt þannig háttað þannig að kostnaður var miðað við allt landið. Í mörgum tilvikum er það enn svo. nefna má sem dæmi vöruverð sem yfirleitt er hið sama víðast hvar um landið. Spurningin er bara sú hversu lengi það heldur.

Excel spekingarnir

Svo komu einhverjir spekingar úr hundrað og einum Reykjavík sem þekkja ekkert til landafræði utan Elliðaár, hafa líklega aldrei farið út á land nema ef til vill í sumarhús með heitum potti í Grímsnesi. Þessir spekingar skilja ekki hvers vegna fólk býr annars staðar en á suðvesturhorni landsins en þeir eru aftur á mót afar færir í Excel-kúnstum.

Staðreyndin er þó sú þrátt fyrir allt er ansi lífvænlegt út um allt land og fær má fyrir því rök að víðast sé betra að búa en í á höfuðborgarsvæðinu. Ég þekki það af eigin raun og er þó ekkert að draga út ágæti þéttbýlisins hérna í króki Faxaflóa. Hins vegar er ekkert um þetta í þeim Excel-formúlum sem ég þekki.

Sleppa landsbyggðinni

Reyndar má finna út að rekstrarkostnaður er miklu minni miðað við einstakling þar sem markaðurinn er stærri. Líklegast er hægt að reikna sig til þess að hann sé hagkvæmastur þar sem flestir búa með hæstar tekjur. Þar af leiðandi er eflaust rétt hjá útgefanda Fréttablaðsins að dreifa blaðinu aðeins á höfuðborgarsvæðinu en sendi það í bunkum á bensínstöðvar annars staðar á landinu bnog þangað geti áhugasamir lesendur druslast til að sækja sér eintak.

Sama er með Íslandspóst, þeir sem þar stjórna málum geta svo sem sent póst út á land með bréfdúfum eða þá gert það sama og útgefandi Fréttablaðsins gerir. Og kallað aðferðina þjónustu.

Það er nefnilega svo miklu einfaldara að reikna rekstrarkostnaðinn bara á fjölmennu markaðssvæðunum en ekki víðast um landið. Öll önnur svæði verða þar með óhagkvæmari og dýrari. 

Reiknaður hagnaður

Ekki tíðkast lengur að gera eins og áður að líta á allt landið allt sem eitt markaðssvæði og reikna kostnaðinn þannig pr haus. Nei, þá kann hagnaðurinn að vera minni. Betra að gera eins og bankarnir, loka bara útibúum á landsbyggðinni, benda fólki á að nota einkabankann í tölvunni. Fyrir vikið skilar bankarnir tugum milljarða króna í hagnað - hver og einn.

Nú er svo komið að ástandið fer að verða afar slæmt víða um land. Þegar bankinn og pósturinn er farinn kemst óhjákvæmilega los á íbúa samfélagsins. Víðast er atvinnuástandið í jafnvægi það er að segja allir sem vilja eru með atvinnu. Hinir, sem ekki fá atvinnu við hæfi, jú þeir flytjast á brott. Jafnvægið í atvinnulífinu er þar með óbreytt.

Aðalvíkurvandinn

Vandinn er hins vegar sá að þegar Gunna missir vinnuna verður til efnahagsvandamál á heimilinu. Jón hugsar þá sína stöðu og saman velta þau fyrir sér hvort ekki sé betra að þau flytjist suður, þar sem auðveldara er að fá vinnu. Dóttirin er hvort eð þar í menntaskóla, yngri sonurinn að klára tíunda bekk. Flestir sjá hvert þetta leiðir.

Fyrir miðja síðustu öld gerðist það að fólki tók að fækka í Aðalvík á Hornströndum. Vandinn jókst þegar læknirinn fluttist í burtu og ekki síður er presturinn fór skömmu síðar. Eftir það hnignaði byggðinni uns enginn var eftir. Þetta er nokkuð einfölduð mynd en breytir engu í þessu sambandi sem hér um ræðir.

Landsbyggðin eldist

Litlu markaðssvæðinu á landsbyggðinni eru verulega viðkvæm en það er ekki allt. Stóru svæðin eiga líka talsvert undir högg að sækja. Síðast þegar ég kannaði hvernig samfélagið á Akureyri var saman sett kom í ljós að fátt hafði breyst. Fjölgun íbúa á Akureyri var fyrst og fremst meðal fólks sem var eldra en fjörtíu og fimm ára, það er fólk sem yfirleitt er hætt barneignum. Víðast hvar á landsbyggðinni er þetta einkennið á íbúasamsetningu sveitarfélaga. Jafnvel framtíð Akureyrar er ekki tryggð.

Hvort sem það er orsök eða afleiðing er það staðreynd að meðvituð fækkun starfa á landsbyggðinni hefur þær afleiðingar að fólki fækkar, ungu fólki snarfækkar og allt bendir til að mörg byggðalög muni innan skamms tíma leggjast í eyði.

Pólitísk spurning

Þjóðin stendur þá frammi fyrir þeirri spurningu hvort þetta sé sú framtíð sem hún sé sátt við.

Sé svo ekki verður til sú pólitíska spurning hvernig þjóðin ætli að koma í veg fyrir það sem óhjákvæmilega stefnir sé haldið áfram á vegferð sem meðal annars Háskóli Íslands hefur markað með ákvörðun sinni um íþrótta- og heilsufræðinám á Laugarvatni.

Í hnotskurn má líka vandamálinu við stöðu íslenskunnar, tungumálsins okkar. Því meir sem gefið er eftir þeim mun alvarlegri verða afleiðingarnar.

 


Klofna Píratar í afstöðu til manna og málefna?

Ef Píratar eru mátaðir við fyrirferðamikil deilumál í samfélaginu, s.s. ESB-umræðuna, verðtryggingu, byggðastefnu, fiskveiðistjórnun, heilbrigðismál og fleiri slík er lítið um píratískar áherslur sem skapa flokknum sérstöðu.

Þetta er án efa rétt hjá Páli Vilhjálmssyni sem hann ritar á blogg sitt, „Tilfallandi athugasemdir“. 

Til viðbótar við það sem Páll nefnir má geta um það sem kalla má hið mannlega viðhorf. Hér er átt við að fólk hefur mismunandi skoðanir hvert á öðru og deilur eru eðlilegar, ekki síst innan stjórnmálaflokks. Píratar eru annars stjórnmálaflokkur hvort sem þeim líkar það vel eða ekki. 

Fólk í stjórnmálaflokki sem hefur ákveðið skipulag lærir félagsstörf. Tekur mark á lýðræðislegum ákvörðunum, sættir sig við að hafa ekki náð meirihluta eða þeim frama sem á var stefnt. Ella verður ástandið eins og hjá Pírötum þar sem hver gáfumaðurinn á fætur öðrum þykist geta meir og betur en þeir sem eru í forsvari.

Og þingmenn Pírata eru vissulega ekki steyptir í sama mót. Einn grætur af því að fólk hefur skoðanir á henni og því sem hún stendur fyrir. Annar hikar ekki við að minna meintan „kaptein“ á því hvernig hún komst til valda og sú aðferð er ekki lagleg.

Allt er þetta svo yfirmáta mannlegt en um leið afar vanþroskað.

Kjósendur standa svo hjá og horfa með undrunaraugum að flokkinn sem virðist einhverra hluta vegna hafa náð mestum hæðum í skoðanakönnunum.

Er þá ekki kominn tími til að spyrja hver stefna flokksins er í verðtryggingunni, ESB málinu, byggðastefnu, fiskveiðistjórnun, heilbrigðismálum og öðrum mikilvægum málaflokkum? Eða er flokkurinn klofinn bæði um menn og málefni?

 


Nes listamiðstöð á Skagaströnd

NesÁstæða er til að óska Verksmiðjunni á Hjalteyri til hamingju með Eyrarrósina. Engu að síður er um leið tilefni til að nefna annað og alls ekki síðra menningarverkefni á landsbyggðinni.

Á Skagaströnd hefur í átta ár verið starfrækt Nes listamiðstöð. Þessi látlausa en stórmerkilega starfsemi hófst vorið 2008 og er í gömlu frystihús sem stendur við sjóinn á afar fallegum stað.

Líklega hafa yfir eitt þúsund manns komið í Nes listamiðstöð frá því hún tók til starfa og langflestir listmannanna eru útlendir. Fyrir lítið bæjarfélag skiptir talsverðu að fá um tvöhundruð gesti á hverju ári og allir dvelja þar að lágmarki í einn mánuð.

Listamennirnir gista hingað og þangað um bæinn, í húsnæði sem Listamiðstöðin leigir af einstaklingum og sveitarfélaginu.

Mestu máli skiptir að listamennirnir og bæjarbúar blanda geði saman. Listamiðstöðin stendur mánaðarlega fyrir sýningum á starfi listamannanna og boðið er upp á námskeið í margvíslegri listsköpun.

Á þessum átta árum hefur Skagaströnd komist víða í umræðuna. Þegar heim er komið segja listamennirnir frá dvöl sinni í litla listabænum nyrst á Íslandi. Spurnir hafa borist af þeim í fjölmiðlaviðtölum, þeir hafa skrifað um dvöl sína í bækur, haldið sýningar á verkum sínum og fengið birtar myndir í bókum og blöðum. Þetta hefur meðal annars gerst í fjarlægum löndum eins og Ástralíu, Singapore, Suður-Kóreu, Kína, Argentínu og einnig um alla Evrópu og Norður-Ameríku.

Margir koma grunlausir um það sem bíður þeirra, setjast bara upp í rútu í Reykjavík og eftir fjögurra tíma akstur eru þeir komnir í allt annað umhverfi, gjörólíku því sem þeir eru vanir.

Listamaður nokkur kom frá New York. Hann kvartaði óskaplega undan þessari þögn sem ríkti á Skagaströnd, hann gat hreinlega ekki sofið. Rúmum mánuði síðar var hann kominn til síns heima og sendi bréf til vina sinna á Skagastrand og kvartaði undan helv... hávaðanum í New York, honum kom varla blundur á brá.

Áströlsk kona skapaði list sína á Skagaströnd í nokkra mánuði að vetralagi. Þar sá hún snjó í fyrsta sinn á ævinni. Snjórinn var stórmerkilegur að hennar mati en það var sérstaklega eitt sem vakti athygli hennar og gleði. Engum tókst að giska á það og þú munt ekki heldur geta það, lesandi góður. Málið er að henni þótti mikil undur og stórmerki að heyra hvernig brakaði í snjónum á gönguferðum sínum. Fæstir leiða hugann að hljóðinu í snjónum.

Svo voru það listamennirnir sem dásömuðu langar, bjartar nætur, en gátu illa sofið nema gluggar væru vel byrgðir. Og þeir sem gátu aldrei haldið aftur af tárunum þegar þeir sáu sólarlagið, sólarupprisuna, skýjafarið og norðurljósin. Og ekki síður þeir sem sáu ekkert fegurra en íslenska hestinn eða kindurnar svo ekki sé talað um litlu lömbin.

Ef einhver á skilið að fá Eyrarrósina á næsta ári þá er það Nes listamiðstöðin á Skagaströnd.


mbl.is Verksmiðjan hlýtur Eyrarrósina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttablaðið í herferð gegn Bjarna Benediktssyni?

Á talsmáta Svandísar Svavarsdóttur, alþingismanns og fyrrum ráðherra Vinstri grænna, heitir það „klúður“ að Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, skuli ekki hafa hlutast til um „eitthvað“ þegar Landsbankinn seldi hlut sinn í Borgun.

Engu að síður hafði Svandís staðið að því ásamt félögum sínum og öðrum þingmönnum að stofna og setja lög um Bankasýslu ríkisins. Stofnunin er með sérstaka stjórn, framkvæmdastjóra og starfsmenn sem hafa þann starfa að sinna eignarhaldi ríkisins á fjármálastofnunum, þar með talið Landsbankanum. Markmiðið var að færa bankamálin í burtu frá stjórnmálunum. Það veit Svandís en skiptir hana engu máli.

Enginn efast um að æðsta takmark Svandísar Svavarsdóttur er að koma upp um „spillingu“ Bjarna Benediktsson, formanns Sjálfstæðisflokksins, og því talar hún um „klúður“ Bjarna vegna þess að hann aðhafðist „ekkert“ í þessu Borgunarmáli. Svo óforskömmuð er þessi stjórnmálamaður að hún svífst einskis í pólitík sinni, lætur að því liggja að þar sé spilling sem engin er. 

Verri og leiðari virðist Fréttablaðið vera í sínum leik. Á forsíðu blaðsins í dag forsíðan lög undir frétt með þessari fyrirsögn, sem er á stærð við það þegar hamfarir verða eða stríð brjótast út:

Einar ræddi Borgunarmálið ekki við Bjarna frænda sinn.

Sem sagt, einn þeirra sem keyptu hlut Landsbankans í Borgun ræddi ekki við bróðurson sinn um málið. Hver er þá fréttin? Jú, hún er á sama meiði og talsmáti Svandísar Svavarsdóttur, alþingismanns Vinstri grænna, að láta að einhverju liggja, ekki segja það beinum orðum heldur eftirláta öðrum túlkunina.

Og þannig segir meðal annars í forsíðufréttinni í Fréttablaðinu og síðan endurtekið með smávægilegum orðalagsbreytingum í innfrétt:

Það hefur vakið tortryggni í tengslum við umrædd viðskipti að Einar og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eru frændur. En Einar segist ekki hafa látið frænda sinn vita af því að hann hygðist taka þátt í þessum viðskiptum. „Nei, ég hef aldrei rætt þetta mál við hann,“ segir Einar.

Aðspurður segist Einar ekki hafa haft áhyggjur af því að skyldleiki sinn við Bjarna Benediktsson yrði til þess að gera málið tortryggilegt. „Nei, það hvarflaði ekki að mér.“ Einar segist hafa fengið fyrstu upplýsingar um viðskiptin í nóvember 2014, í sama mánuði og viðskiptunum lauk.

Flestir sjá að „fréttin er dauð“, ekkert nýtt er í henni. Hvers vegna er búin til frétt um þetta? Jú, ábyggilega vegna þess að „lesendur okkar þurfa að vita hvað er að gerast“ verða ábyggilega viðbrögð ritstjóra blaðsins. Þá dugar ekki bara forsíðan heldur þarf að endurtaka sömu „frétt“ inni í blaðinu. Hver er tilgangurinn ef ekki að gera Bjarna Benediktsson tortryggilegan?

Þetta sjá allir og skilja enda framsetningin nokkuð umbúðalaus. 


mbl.is Landsbankinn ber ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir sakna Katrínar miklu mest ... eða þannig

GráturDeilur innan Samfylkingarinnar taka á sig margvíslegar myndir. Varaformaður flokksins hefur ákveðið að hætta sem þingmaður og nú upphefst grátkór og keppni um mestan söknuð.

Þannig var það líka um árið er „alþýða“ manna í Norður-Kóreu grét, hágrét og stórgrét í þjóðlegri grátkeppni vegna dauða Kim Jong Il eða hvað réttborinn kóngurinn í þvísa landi hét nú.

Sem betur fer er Katrín Júlíusdóttir, varaformaður flokksins, enn í fullu fjöri og kát eins og vera ber með skynsamlega ákvörðun.

Aðrir eru ekki líkt því eins kátir. Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar er „mjög slegin yfir þessu“. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Samfylkingarinnar (!) er ekki sammála Ólínu og toppar hana með þessu: „Ég sakna hennar nánast nú þegar.“ Viðbúið er að einhver skjótist nú fram á sviðið og segist „sakna Katrínar miklu meira en allir aðir til samans og hvað svo sem þið segið ...“. Sá næsti mun ábyggilega segjast sakna hennar „tíuþúsund milljóntrilljón sinnum meira“ en einhver annar.

Í fjölmiðlum má búast við fjölda viðtala við samfylkingarfólk sem hefur svo margt að segja um þingmanninn og varaformanni, fréttatímar Ríkisútvarpsins munu fyllast af tárakveðjum og líklega verður leikin sorgartónlist eftir Tomaso Albinoni daginn út og inn.

Og að lokum mun allt fara í háaloft innan Samfylkingarinnar vegna þess að sumir sakna ekki Katrínar eins og aðrir sem sakna hennar miklu mest.

Til að fyrirbyggja misskilning er myndin hér fyrir ofan tekin í Norður-Kóreu er „alþýðan“ sannarlega grét látinn leiðtoga.


mbl.is „Sakna hennar nánast nú þegar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilja Vinstri grænir Borgunarmálið eða giska þeir bara?

Líklega er það bara mannlegt að reyna að finna blóraböggul til að taka alla þá sök sem hægt er. Hins vegar er það aldrei stórmannlegt að kalla eftir blóði, síst af öllu áður en öll kurl eru komin til grafar.

Vinstri grænir eru þannig innbyggðir að þeir þykjast vita meira en allir aðrir og skilja allt betur. Þess vegna eru þeir svo fljótir að kalla eftir afsögn, en aðeins þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. Þegar þeir eru í stjórn skipuleggja þeir skjaldborg um alþýðu manna og heimilin eins og gerðist á síðara kjörtímabili. Vegna aðgerðarleysis og jafnvel skilningsleysis þjáðist fólk innan þessarar skjaldborgar og fjöldi dæma sannar að Vinstri grænir tóku afstöðu með fjámagnseigendum frekar en alþýðu manna.

Auðvitað má taka ofan fyrir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, fyrir að skilja út á hvað Borgunarmálið snýst.

Að vísu var hún og aðrir þingmenn Vinstri græna svo grænir að reyna að draga Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra til ábyrgðar í því máli og kröfðust afsagnar hans. Að vísu rann á þá réttur litur er þeir skildu að Bankasýslan fer með málefni bankans en ekki ráðherrann og þeir roðnuðu lítilsháttar vegna skilninsleysisins.

Og nú halda Vinstri grænir að þeir hafi áttað sig á eðli Borgunarmálsins og vilja að blóðið renni. Öll yfirstjórn Landsbankans á að víkja.

Hver í ósköpunum getur tekið mark á skilningi Vinstri grænna hvort heldur þeir eru grænir eða rauðir í framan? Ekki áttuðu þeir sig á Icesave og gera ekki enn. Þeir halda fram að með Svavarssamningnum hefði þjóðin engu tapað og væri í dag í betri stöðu en án þeirra. Aðrir þakka þó sínum sæla fyrir því að þjóðin var ekki gerð ábyrg fyrir skuldum óreiðumanna og tók ekki á sig vexti sem hlotist hefðu af samningum Svavars Gestssonar.

Og hvorki Vinstri grænir né aðrir skilja hvers vegna Kaupþing og Glitnir voru afhentir kröfuhöfum án nokkurrar greiðslu. Það mál vekur nú ekki traust á þessum minnihlutahópi í íslenskum stjórnmálum.

Vinstri grænir skildu ekki heldur klyfjar gengislána og gerðu ekkert á stjórnartíma sínum en að styrkja bankana þegar Hæstiréttur dæmdi þau ógild.

Þeir skildu ekki áhrif hrunsins á eignir heimila og fjölskyldna og neituðu að koma til móts við þá sem áttu í vanda.

Lái manni hver sem vill en ég hef þá trú á skilningi Vinstri grænna hvort þeir eru í ríkisstjórn eða utan. Það kjaftar á þeim hver tuska í dag fyrir hönd alþýðu landsins en það er bara ekkert að marka.

Ég held að þeir séu að notfæra sér þetta Borgunarmálið til að sýnast klárari en þeir í raun og veru eru, þekir eru bara að giska sem er mun verra en að vera illa að sér.


mbl.is Stjórn Landsbankans víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréfin þrjú frá Stalín og formaður Samfylkingarinnar

Þegar Stalín dó er sagt að hann hafi skilið eftir þrjú númeruð bréf sem stíluð voru á eftirmann hans og skyldi sá opna þau í röð lenti hann í erfiðleikum í stjórnartíð sinni. 

Nikita Sergeyevich Khrushev tók við völdum í Sovétríkjunum árið 1953.

Nær því samstundis að hann varð aðalritari sovéska kommúnistaflokksins lenti hann í alvarlegum pólitískum vandræðum og þá opnaði hann fyrsta bréfið. Í því stóð einfaldlega:

„Kenndu kapítalistunum um allan vanda. Kveðja, Stalín“ 

Khrushchev gerði það og fékk nú ágætis andrými - í bili.

Í byrjun árs 1956 steðja stórkostlegir pólitískir erfiðleikar að og við liggur að allir nánustu stuðningsmenn hans snúi við honum baki. Þá grípur hann til bréfsins sem var merkt með tölustafnum 2. Í því stóð:

„Kenndu mér um allt sem úrskeiðis hefur farið. Kveðja, Stalín“

Þá glaðnaði verulega yfir Khrushchev og í frægri ræðu kenndi hann Stalín um allan vanda Sovétríkjanna og barg um leið pólitísku lífi sínu og undu nú allir sovéskir glaðir við hlutskipti sitt um sinn.

Leið nú og beið fram á haustið 1964 og var þá svo illa farið að þrengja að Khrushchev að hann átti fárra kosta völ. Mundi hann þá eftir þriðja bréfinu en það geymdi hann innst inni í stóra og trausta peningaskápnum á skrifstofunni.

Sveittur og titrandi af spenningi og opnaði Khrushchev bréfi. Í því stóð eftirfarandi:

„Skrifaðu þrjú bréf. Með kveðju Stalín.“

Þannig fór nú um sjóferð þá. Söguna um bréfin hans Stalíns datt mér í hug þegar ég las annað og ekki síður stórmerkilegt bréf, yfirlýsingu frá formanni Samfylkingarinnar. Í því kennir hann forvera sínum óbeint um öll vandræði vinstri stjórnarinnar síðustu.

Áður hafði formaðurinn formælt og kennt ljótu kapítalistunum um allt sem hugsanlega hefur miður farið hér á landi. 

Líklega á formaðurinn nú ekki lengur margra kosta völ. Hann gæti þó skrifað þrjú bréf og stílað á eftirmanninn sinn.


Sighvatur vill frjálsan innflutning á menguðum matvælum og sýklum

Nú er ástandið þannig að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Evrópusambandið og Smitvarnarmiðstöð Bandaríkjanna hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag. Þrátt fyrir það eru sýklalyf notuð sem vaxtarhvati í landbúnaði víða um heim. Læknar og vísindamenn eru að glíma við ofurbakteríur sem geta borist í menn og eru ónæmar fyrir öllum sýklalyfjum sem eru á markaði í dag.

Þetta segir Guðni Ágústsson fyrrum þingmaður og ráðherra í góðri grein í Morgunblaði dagsins. Hann hrekur það sem annar þingmaður og ráðherra, Sighvatur Björgvinsson, skrifaði um daginn í sama blað. Í henni ber sá síðarnefndi saman innflutningi á ferskum kjöti og ferðamönnum. Sighvatur reynir að vera fyndinn og finnst ótækt að ferðamennirnir séu ekki frystir í þrjátíu daga við komuna til landsins rétt eins og til dæmis er gert við nautakjöt.

Guðni er eðlilega ekki á sama máli og segja má að með grein sinni slátri hann rökum Sighvats.

Af hverju heldurðu að hér ríki bann á innflutningi lifandi dýra og hrás kjöts og matvæli skuli vottuð og heilbrigðisskoðuð sérstaklega? Það er gert til að tryggja dýravernd og forðast pestirnar og verja fólkið í landinu í leiðinni. Þú ert að reyna að rugla almenningsálitið með skrifum þínum.

Það sem Guðni nefnir hér að ofan er í raun kjarni málsins. Sighvatur heldur því fram að innflutningur sé í raun hættulaus og hann sé þar að auki neytendum í hag, þeir fái þar með ódýrari og jafnvel betri landbúnaðarafurðir. Guðni hefur aftur á móti rök við þessu og segir:

Veistu, að bæði í Evrópu og Bandaríkjunum er notað meira af sýklalyfjum í landbúnaði en fyrir mannfólk? Hér segja læknavísindin okkur að »ónæmar bakteríur geti hæglega borist til landsins með innfluttum matvælum og líkurnar séu meiri sé um hrátt kjöt frá verksmiðjubúum að ræða þar sem notuð eru sýklalyf til að örva vaxtarhraðann eða grænmeti sem vökvað eða skolað er með bakteríusmituðu vatni.

Þetta finnst Sighvati Björgvinssyni greinilega ekkert tiltökumál svo fremi sem innfluttar landbúnaðarafurðir séu á lægra verði - eða þá að hann veit ekki betur.

Margir telja að innflutningur landbúnaðarafurða geti verið stórkostlega hættulegur út frá þeim rökum sem Guðni nefnir. Til viðbótar kemur sú staðreynd að í öllum löndum eru landsbúnaðarafurðir niðurgreiddar og þar með innflutningur hingað. Vart er að treysta því að svo verði til frambúðar og hversu mikið hækka þau í verði þegar dregur úr niðurgreiðslum eða þær hætta.

Hér á landi hefur sú skoðun verið ríkjandi að þjóðin þyrfti að vera sjálfri sér næg um framleiðslu landbúnaðarafurða, talað er um fæðuöryggi. Þó svo að deilur séu um verð og fjárhæð innlendrar niðurgreiðslu hefur í raun verið þverpólitísk stefna að hér á landi sé rekinn landbúnað í friði fyrir niðurgreiddri erlendri samkeppni. O

g svo má spyrja hversu mikið eigum við að leggja í sölurnar til að viðhalda heilbrigðri framleiðslu og koma í veg fyrir sýklalyfjaónæmi. Guðni segir þetta:

Veistu, Sighvatur, af hverju læknar sprautuðu þig áður en þú fórst til Afríku? Það var gert til að verja líf þitt gegn menguðum matvælum og sýklum. [...]

Veistu, Sighvatur, að Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir sýkladeildar Landspítalans, segir að þrátt fyrir að í starfi sínu fáist hann mest við sýkla í mönnum sé ekki hægt að skilja menn frá dýrum. 


Reynisfjara, svona getur aldan verið hættuleg

DSC_0151Innanríkisráðherra og ráðherra ferðamála hafa ákveðið að lögreglugæsla skuli framvegis vera við Reynisfjöru. Þessi ákvörðun kemur í kjölfarið á hörmulegu slysi sem leiddi til dauða ferðamanns fyrr í dag Þetta er hárrétt ákvörðun og henni ber að fagna. Þetta er hættulegur staður og verkefni lögreglunnar eru að gæta að reglu þar sem þannig háttar til.

Eins og svo margir hef ég oft komið í Reynisfjöru, skoðað hellinn sem Jón Steingrímsson átti að hafa búið í og farið í Hálsanefshelli og skoðað stuðlabergið sem bókstaflega er ægifagurt.

Hér áður fyrr var enginn hræddur við brimið enda fáir ferðamenn og samlandar þekktu hættuna. Nú er öldin önnur og miðað við fjölda útlendra ferðamanna fara fáir Íslendinga í Reynisfjöru.

Já, Reynisfjara er stórkostlega falleg og alveg þess virði að fara þangað og skoða umhverfið. Hérna eru nokkrar myndir sem skýra dálítið hversu mikið afl sjórinn getur verið. Í fallegu veðri virðist ekkert trufla, hafflöturinn gárast varla, sólin skín í heiði en ...

Í þetta sinn komst ég ekki í hellinn, aðfallið var byrjað og af og til barði aldan stuðlabergið. Ég klifraði upp í örugga hæð og tók nokkrar myndir.

Á myndinni hér fyrir ofan, hægra megin, sést til stuðlabergsins og eins af Reynisdröngum. Ferðamaður gengur í sandinum þar sem aldan náði mest og smám saman náði hún lengra. Allir vita hversu gaman það er að „stríða“ öldunni,hlaupa undan henni upp fjöruna án þess að vökna.

DSC_0196 - Version 2DSC_0215 - Version 2Í gamla daga vorum við hetjur og leyfðum okkur að vökna, kannski upp að hnjám í þeirri von að öðlast aðdáun stelpnanna. Þær sögðu hins vegar að við værum bara fífl að gera þetta. Varð þá lítið út manni.

Á myndinni vinstra megin er ég kominn upp í stuðlabergið og tek mynd af útfalli öldunnar. Sjórinn fellur stutta stund út.

Hægra megin er önnur mynd sem tekin er tæpri hálfri mínútu síðar á sama stað og þá hefur aldan smám saman náð að fylla upp í fjöruna.

DSC_0217 - Version 2Sumir kunna að halda að þetta sé nú ekki mikið en ég fullyrði að ég hefði ekki náð að standa af mér ölduna. Hún er kraftmikil og það sem meira er að í útfallinu rennur sandurinn með út og maður missir fótanna afar hratt. Oft er illt að þurfa að verjast samtímis kraftinum í öldunni, útfallinu og sandskriðinu undir fótum manns. Takið svo eftir dimmri öldunni sem er í þann mund að ráðast á klettanna.

Svo er hérna til hægri myndin af því þegar dimma aldan, sem getið er um hér fyrir ofan, skall á klettunum. Af fréttum að dæma dreg ég þá ályktun að maðurinn sem dó hafi hugsanlega staðið þar sem aldan brotnar.

DSC_0161Á myndinni vinstra megin, sést hversu djúp aldan er miðað við konuna sem situr uppi í klettunum, þar sem ég hafði áður staðið og tekið myndirnar tvær fyrir ofan.

Smellið á myndirnar og sjáið þær stærri.

 

 

 

 

 


mbl.is Lögregluvakt við Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyfa formanninum að sitja en reka þingmenn Samfylkingarinnar

Samfylkingin á í tilvistarvanda. Margir láta sem svo að það sé formanninum að kenna, ekki hinum þingmönnunum.

Hugsum aðeins um það hvort vandi Samfylkingarinnar væri eitthvað minni ef Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður flokksins, hefði ekki rekið rýting í bak formannsins á síðasta landsfundi? Hefði allt lagast ef Sigríður Ingibjörg hefði unnið í formannskjörinu? Hmm ...

Vangaveltur um stöðu Samfylkingarinnar minna stundum á fótboltann. Þar er þjálfurunum kennt um slakt gengi og þeir oftast reknir í svipuðum aðstæðum. Raunar er sjaldgæft að fótboltafélög bjargi sér frá falli úr deild með því að skipta um þjálfara. Þetta er svona örþrifaráð, eignlega meira til að sýnast en hitt. 

Fótboltamennirnir eru hins vegar áfram í liðinu og það eru þeir sem eiga að skora mörkin og verjast en ekki þjálfarinn. Líklega ætti að skipta frekar um leikmenn en þjálfara, að minnsta kosti eru þá líkur á að nýir menn fari betur eftir því sem fyrir er lagt.

Aumingjans Árni Páll stjórnar ekki einstökum þingmönnum Samfylkingarinnar. Það er ljóst eftir atburði síðustu vikna.

Ef formaðurinn fiskar ekki, þá er fátt við því að gera. Jú, hérna eru ráð sem kratar geta nýtt sér ef eitthvað vit er í þeim.

Samfylkingin ætti að hætta öllum vangaveltum um að sparka formanninum. Betra væri að skipta um lið eins og í fótboltanum. Væri ekki gott ráð að hvetja nokkra þingmenn til að segja af sér núna á miðju kjörtímabili og fá einhverja nýja inn í staðinn, ferska og hressa með óspjallaðan kjörþokka í skoðanakannanir?

Hvetja ber til dæmi Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur til að segja af sér, einnig Ólínu Þorvarðardóttur sem og Katrínu Júlíusdóttur. Varamenn komi inn í stað þeirra og sitji á þingi út kjörtímabilið. Ganga síðan á röðina og segja öðrum þingmönnum, þeim sem ekki fiska, að hætta á þingi og rýma til fyrir nýju blóði. Fyrr en varir verður kominn nýlegur þingflokkur í bland við þá sem fyrir eru og allt í lukkunnar velstandi. 

Nú ef þetta gengur ekki seinni hluta kjörtímabilsins þá er alveg einboðið að auglýsa stöðu formannsins lausa til umsóknar og þá getur Sigríður Ingibjörg, Ólína og Katrín boðið sig fram til þings að nýju og haldið áfram leik sínum þar.

Og hvers vegna er ég, Sjálfstæðismaðurinn, að skipta mér hér af innanflokksmálum Samfylkingarinnar? Jú, ég er einu sinni þannig gerður að ég vorkenni alltaf þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Á ofangreindar tillögur ber því að líta sem ígildi mannúðarstarfs.

Svo má auðvitað nefna það í þessu sambandi að það myndi ekki saka ef þingmenn Samfylkingarinnar tileinkuðu sér vandaðan undirbúning fyrir þingfundi, vendu sig á málefnalegar rökræður og .... síðast en ekki síst: Leggja „Skítadreifaranum“ og hætta persónulegum árásum á pólitíska andstæðinga. 

Hver veit nema flokkurinn nái að endurheimta eitthvað af töpuðum atkvæðum með því að fara eftir þessum ráðum.


mbl.is Margþættur vandi Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilur Birgitta að aðlögunarviðræður eru ekki samningaviðræður?

Hversu oft þarf að endurtaka þá staðreynd svo skiljist að síðasta ríkisstjórn var ekki í samningaviðræðum við Evrópusambandið heldur aðlögunarviðræðum.

Afar mikilvægt er að stjórnmálamenn sem og aðrir átti sig á muninum á orðalaginu.

Á ensku nefnast þær Accession negotiations. Þær eru fyrir ríki sem ætla sér að ganga inn í ESB. Þetta eru ekki samningaviðræður og ESB varar beinlínis við þeirri túlkun enda býður sambandið ekki upp á samninga um aðild. Í þessu er sá „ómöguleiki“ falinn sem ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa talað um.

Sem sagt, það er ekki hægt að fara í aðrar viðræður en þær sem enda með aðild að ESB. Samningaviðræður um aðild að ESB eru ekki til samkvæmt reglum sambandsins.

Grundvallaratriðin ESB eru sett fram í 35 köflum og Ísland þarf að sýna og sanna í umræðum um hvern þeirra að það hafi tekið upp lög og reglur ESB. Þetta þarf samninganefnd ESB að samþykkja og löggjafarþing allra 27 ríkja sambandsins. Ekkert annað er í boði en það sem stendur í Lissabon-sáttmálanum sem er nokkurs konar stjórnarskrá sambandsins. Í því eru aðlögunarviðræðurnar faldar.

Þær undanþágur sem einstök ríki hafa frá lögum og reglum ESB eru afar léttvægar og skipta sáralitlu máli í samanburðinum við stóru málin eins og sjávarútvegsmál okkar. 

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður, getur vissulega krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. Hún verður samt að gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um einhvern samning sem aldrei var gerður og verður aldrei gerður.


mbl.is „Þráðurinn er rofinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Utanríkisráðherra ræður fluglæsa níu ára stúlku sem aðstoðarmann

EvaEftirfarandi tilkynning var í kvöld send frá utanríkisráðuneytinu til fjölmiðla:

Eva Adamsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra. Um er að ræða hálft starf. Eva er 9 ára og stundar nám við grunnskólann á Sauðárkróki.

Hún var í fjögur ári í Leikskólanum Brúsabæ í Hjaltadal og lauk þaðan námi sínu með lofsamlegum ummælum leikskólastjóra og þriggja fóstra. Hún hefur að auki passað litla bróður sinn frá því hann fæddist í samvinnu við móður sína.

Eva hefur farið nokkrum sinnum alein út í búð og keypt mjólk. Því til viðbótar fer reglulega út með ruslið. Hún hefur ofsalega oft farið með pabba sínum og mömmu til útlanda og til dæmis hefur hún tvisvar komið í Tívolí í Kaupmannahöfn.

Nám sitt mun Eva stunda meðfram starfinu hjá utanríkisráðherra. Þó mun hún ekki vegna anna getað farið út með ruslið fyrir foreldra sína.

Utanríkisráðherra segist hlakka til að vinna með Evu og telur hana hafa margt fram að færa í starfi sínu sem aðstoðarmaður ráðherra. Hún sé til dæmis alveeeeg fluglæs og skrifandi.

Af einföldum ástæðum er ofangreind frétttilkynning birt á þessum vettvangi. Ritstjóri muni ekki tjá sig um ráðninguna að sinni. Þó er óhætt að fagna því að utanríkisráðherra velji ungt fólk fram yfir eldra fólk í störf í ráðuneytinu enda ljóst að aldur, reynsla og þekking eru algjörlega ofmetnir þættir í stjórnsýslu og pólitík.

Myndin af Evu var tekin í dag í utanríkisráðuneytinu en hún hefur þegar hafið þar störf.


Quest - Hair, Beer & Whisky Saloon og álíka á Laugaveginum

„Fræga fólkið lét sig ekki vanta,“ segir í alræmdum dálki á mbl.is. Verið var að opna í fyrsta sinn veitingastað í Reykjavík undir nafninu „Lob­ster & Stuff“. Humar er vissulega góður sé hann rétt matreiddur en þetta „stuff“ er algjört óæti. Hef oft bragðað á „stöffi“ og alltaf orðið fyrir vonbrigðum. Auðvitað er ég ekki einn af fræga fólkinu, en með boðsmiða í höndunum hefði ég ábyggilega mætt enda finnst mér afar gott að drekka og borða á kostnað annarra.

Hins vegar verð ég að lýsa yfir vonbrigðum mínum með eigendur veitingastaðarins kunni viti ekki hvað „Lobster“ er á íslensku. Af hverju í ósköpunum eru þeir svo leiðinlegir að nota útlent heiti á veitingastaðinn? Dettur einhverjum í hug að ensk nafn huggnist íslenskum neytendum? Dettur einhverjum í hug að útlendum ferðamönnum þyki enskt nafn svo menningarlega merkilegt að þeir flykkist staðinn frekar en að fara á „Humarhúsið“. Hvað er annars átt við með „Stuff“?

Sem betur fer er hugsunarháttur flestra eigenda veitingastaða þannig að þeir telja það stað sínum til framdráttar að hann beri íslenskt nafn. Nefna má glæsilega veitingastaði eins og Lækjarbrekku, Kopar, Salt, Sægreifann, Sjávargrillið, Pottinn, Torfuna, Ísafold og Perluna. Man ekki eftir fleirum í augnablikinu.

Ég er með skrifstofu við Laugaveg í Reykjavík (vissara að taka bæjarfélagið fram). Á göngu minni um þessa fornfrægu götu virðast alltof margir eigendur fyrirtækja við hana kjósa ensk nöfn. Þarna má til dæmis finna þessi.

  • „Quest -Hair, Beer & Whisky Saloon“
  • „Igdlo Travel“
  • „Public House - Gastropub“
  • „Le bistro“
  • „Black Pepper Fashion“
  • „Room With a View apartment hotel“
  • „Trip“
  • „Freebird“
  • „Nostalgia“
  • „Kíkí queer bar“
  • og fleiri og fleiri 

Gleymdi hér fyrir ofan einu sem hlýtur að teljast botninn í enskri nafngift á íslensku fyrirtæki í Reykjavík: „Chuck Norris Grill“. Ferðamennirnir flykkjast ábyggilega á stað með svona flottu nafni.

Þakka má fyrir að enn sé verslunin Brynja við Laugaveg, Verslun Guðsteins Eyjólfssonar, Bókabúð Máls og menningar, Ullarkistan, Frú Fiðrildi, Tösku og hanskabúðin, Arkitektastofan Kím (sem þó er fyrir ofan Hlemm), Penninn Eymundsson og fleiri og fleiri fyrirtæki með frábær, lýsandi og jafnvel rómantísk nöfn.

Gleymdi hér að nefna uppáhaldsstaðinn minn sem er kaffihúsið Tíu dropar. Frábær staður sem ég legg stundum leið mína á. Hann er í kjallaranum á Laugavegi 27. Þar fær maður alltaf góða þjónustu og gott að borða. Því miður veit ég ekkert um kaffi hvorki þarna né annars staðar því ég hef aldrei drukkið slíkt. Mamma kenndi mér marga góða siði en gleymdi kaffinu í uppeldinu.

Þó ég sé nú frekar mikið á móti því að kalla íslensk fyrirtæki útlendum nöfnum þá er ég nú ekki svo öfgafullur að ég fljúgi ekki með Wow eða Icelandair, drekki ekki bjór á staðnum sem með langa nafninu, „Quest, Hair, Beer ...“ og það allt saman.

Mér hrýs samt hugur við því er götur í Reykjavík verða einhvern tímann nefndar enskum nöfnum til að hjálpa útlendum ferðamönnum á ráfi sínu um borgina. Ljósi punkturinn er þó sá að þá mun enginn villast til Siglufjarðar sem ætlar á hótel á „Hot Spring Street no.22a“.

Hins vegar verð ég að taka það fram hér í lokin, að á ferðum mínum í útlöndunum hef ég aldrei hrökklast frá veitingastöðum, verslunum eða öðrum fyrirtækjum þó nöfn þeirra hafi verið rituð á þýsku, frönsku, spænsku, grísku, armensku, kínversku, tyrknesku svo einhver tungumál séu nefnd. Margir hreinlega búast við því að enska hafi tekið yfir hvern einast menningarkima í heiminum. Þannig er það sem betur fer ekki og það er huggun harmi gegn.


Enginn á að fara á fjöll að vetrarlagi nema kunna til verka

í línuTvær mikilvægar reglur eru í fjallaferðum að vetrarlagi.

  1. Að nota ísexi og ísbrodda.
  2. Að kunna að nota þessi tæki og hafa æft sig í því undir leiðsögn.

Því miður verða stundum óhöpp í fjallaferðum að vetrarlagi, jafnvel alvarleg slys. Snjór, ís, bratti og veður geta valdið hinum vanasta fjallamanni vandræðum. Til að komast áfram nota vanir fjallamenn ýmsar græjur.

Í bratta er nauðsynlegt að hafa meðferðis ísöxi og ísbrodda. Ótrúlegt hversu maður kemst langt með þessum tækjum og svo ekki sé talað um að ferðast í línu en þá þarf belti og fleira.

fjallabunadur_mediumÞetta virðist allt mjög einfalt en reyndin er sú að hjálpartæki geta verið stórkostlega hættuleg í meðferð þeirra sem ekki kunna á þau.

Fólk hefur snúið sig á ökkla með ísbrodda á fótum og jafnvel fótbrotnað. Dæmi er um að fólk hafi runnið niður í móti og skaðað þá sem eru fyrir neðan með broddum eða ísöxi.

Í bratta er notað ákveðið öryggisgrip á ísöxi en það byggist á því að geta beitt öxinni því sem næst umsvifalaust. Mikilvægast að koma sér á magann og þrýsta efri hluta axarinnar niður og draga þannig úr hraða og helst að geta stöðvað sig algjörlega.

Til þess að þetta takist þarf þetta að vera vel æft, rétt eins og sundtökin sem flestir grípa til við fall í vatn. Vandinn er sá að þegar maður dettur í snjó í miklum bratta er hvert sekúndubrot dýrmætt. Að öðrum kosti er hætta á að maður endasendist stjórnlaust niður brekkuna á sívaxandi hraða með hræðilegum afleiðingum.

Svo er það þetta með ísbroddanna. Þeir bjarga engu þegar maður dettur í bratta. Sé reynt að spyrna við fótum er hætta á að þeir nái skyndilega festu og fóturinn hreinlega brotni.

Um daginn var ég í Vífilsfelli og hitti Íslendinga og útlendinga sem voru á hákubroddum, svona smábroddum sem margir ganga á þegar hált er á sléttlendi. Þannig græjur eru gangslausar í fjöllum.

Fyrir nokkrum árum gekk ég á Hvannadalshnúk í glampandi sól og blíðu. Í fjallinu voru hundruð annarra sem nutu útiverunnar og reyndu sig við þennan hæsta tind landsins. Myndin hér fyrir ofan var tekin í ferðinni. Á myndinni eru þrír hópar, tveir á leiðinni upp síðasta áfangann og einn á niðurleið.

Tveir hóparnir fara algjörlega rangt að, eðeins hópurinn sem er lengst til vinstri gerir rétt.

Ég man ekki hvort það hafi verið þessir hópar eða einhverjir aðrir en ég man eftir stórum hópi á niðurleið. Ofarlega í hópnum hrasaði maður og féll á þann næsta fyrir neðan hann. Sá datt á þann þriðja og svo koll af kolli. Verra var að nokkrir í hópnum rákust á göngufólk á uppleið og þar með voru örlög þeirra ráðin. Um tuttugu og fimm manns enduðu fyrir neðan brekkuna í einni bendu. Líklega kunni enginn í þessum hópum að tryggja ... Hvað skyldi það nú annars þýða?

Hópurinn til vinstri á myndinni gerir rétt. Fólkið gengur í krókaleiðum upp. Ef einhver dettur geta flestir séð til þess sem hrasar og tryggt, það er stungið ísöxinni eldsnöggt niður og tekið sér viðbragðsstöðu áður en strekkist á línunni.

Sé hópurinn hins vegar í beinni línu geta fæstir brugðist við áföllum. Sá sem dettur fellur venulegast á þann næsta og svo koll af kolli.

Neðri myndina fann ég á vefnum náttura.is. Þar er stutt en góð grein um eftir Árna Tryggvason og nefnist hún „Hugleiðing vegna óhappa á fjöllum“.

Í greininni varar Árni við að fólk fari á fjöll án útbúnaðar og þekkingar. Eftirfarandi er úr greininni og ég er fyllilega sammála:

Að mínu mati hafa margir þessara hópa farið offari í sínum ferðum. Duglegt fólk sem telur sér allt fært en kunnáttan lítil og oft er hópstjórinn upphafinn sem alvitur leiðtogi.

Aðili sem fer oft of geyst og hleypir með [í ferðina] fólki sem á ekkert erindi á fjöll. Sorgleg staðreynd sem hefur orðið of mörgum að falli og það jafnvel í fylgd mjög vanra fjallamanna. Í ferðum sem þessum er hópurinn aldrei sterkari en sá sem sístur er varðandi kunnáttu og búnað. Þetta er staðreynd sem allir verða að temja sér sem ætla í ferðir sem þessar. Kröfur þarf því að auka til þátttakenda í slíkum ferðum og ekki síst þarf að auka kröfur til skipuleggjenda slíkra ferða.

Ábyrgð fararstjóra eða hópstjóra er mikilvæg. Oft stjórnar sá ferð sem er mestur garpurinn, gengur hraðast eða hefur þekkingu á því svæði sem um er farið. Það er bara oft ekki nóg. Kröfur sem hópur á að gera jafnt til sín sem og til fararstjórans er að allir kunni til verka. Hafi fararstjórinn til dæmis ekki þekkingu á notkun brodda og ísexi og sé vanur að ferðast með slíkar græjur á hann ekki að stjórna hópi. Og það sem meira er, enginn í hópnum á erindi í fjöll að vetrarlagi nema hann sé vanur. Allt annað býður hættunni heim. Best er að æfa sig, byrja hægt og rólega undir leiðsögn þeirra sem kunna til verka.

Og svo er það aðalreglan í fjallaferðum og hún er sú að hafa þekking og kjark til að snúa við áður en það er of seint. Betra er að ofnota þessa reglu frekar en að láta björgunarsveit sækja sig eða þyrlu Landhelgisgæslunnar.


Máttlaus og aum Evrópuríki

Í Evrópuríkjunum búa samtals rúmlega 525 milljónir manna á fjögurra milljón ferkílómetra lands og er þá Rússland ekki með í þessari talningu. Þjóðirnar í álfunni njóta einhverra mestu velmegunar í heimi. Verg landsframleiðsla á mann er um fjórar milljónir króna á ári. Meðan allt lék í lyndi á Sýrlandi var hún um 655 þúsund krónur á ári.

Þjóðir Evrópu búa við lýðræði, háþróaða löggjöf, öfluga löggæslu, menntun, heilbrigðisþjónustu, menningu og ... gott mannlíf, svona yfirleitt. Í hamingju sinni talar fólk fjálglega um menningu sína og margir telja hana byggjast á kristnum gildum, náungakærleika og annað sem er fólki finnst fallegt að nefna á tyllidögum.

Sagt er að friður hafi ríkt í álfunni frá lokum seinni heimstyrjaldar. Undatekningarnar eru meðal annars tvær: Hryðjuverkastríð kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi og borgarastyrjöld milli þjóða fyrrum Júgóslavíu og kannski eitthvað annað „smálegt“.

Fátt bendir þó til að kristileg siðfræði sé hefndarþorstanum og drápsfýsninni yfirsterkari. Ekki er furða þótt maður velti því fyrir sér hvort hin kristnu gildi séu meira til viðmiðunar en að farið sé bókstaflega eftir þeim.

Svo gerist það ótrúlega að rúmlega ein milljón manna flosnar skyndilega upp frá heimahögum sínum vegna ófriðar og annarrar óáran. Íslamistar rísa upp og drepa fólk af sömu trú, svipað eins og hjaðningavíg kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi en bara af miklu stærri skala. Ástæðan er sú að þeir telja sig mega það samkvæmt trú sinni. Aðrir segja það rangt.

Harmleikurinn gerist í Sýrlandi, Líbýu, Túnis og víðar. Hvert leitar svo fjöldinn sem kemst á vergang vegna atburða í Sýrlandi og í fleiri arabaríkjum? Jú, í friðinn í Evrópu.

Og hvað gerist þar?

Evrópa fer nærri því á hliðina. Samtök ríkja í Evrópu geta ekki saman tekið við óvæntum gestum sem þó eru ekki nema um 0,2% af eigin mannfjölda. Allt virðist ætla að fara á hliðina, líklega vegna þess að efnahagslega stendur Evrópa á brauðfótum.

  • Landamæraeftirlitið liðast í sundur
  • Ekki er pláss fyrir flóttafólk í gistingu
  • Það er látið ganga hundruð kílómetra án matar og vatns
  • Flóttafólk fær ekki pláss í almenningsfarartækjum
  • Fólkið sveltur
  • Þúsundir manna drukkna á leið til Evrópu
  • Þúsundir barna týnast á vegum Evrópu
  • Glæpahópar ræna börnum og fullorðnum
  • Fólki er beitt ofbeldi
  • Sum ríki loka landamærum með gaddavírum og vopnuðum eftirlitsmönnum dag og nótt
  • Milljónir Evrópubúa halda að flóttamenn komi með ófriði

Er nokkur furða þó maður leyfi sér að álykta sem svo að Evrópuríkin séu einfaldlega máttlaus og aum fyrst þau geta ekki tekið skammlaust á móti einn milljón flóttamanna.

Hvers vegna er ekki umsvifalaust gengið í fyrirbyggjandi aðgerðir í löndum þar sem stríð og ófriður ríkja? Miðjarðahafið og Eyjahaf eru ekki stór og því furðulegt að fólk geti farið þar yfir á smáskekktum og gúmmítuðrum án þess að nokkrir verði þeirra var með berum augum, í sjónaukum, á radarskjám eða með háloftamyndum?

Er ef til vill öllum sama?

Hvað svo með glæpahópa sem leggja til ónýt fley undir flóttamenn sem þurfa að kosta öllu sínu til að fá pláss í þeim? Af hverju er ekki gengið í að koma í veg fyrir þennan ósóma? Samt eru þúsundir herskipa í löndum Vestur-Evrópu, Nató. Til hvers liggja þessi skip í höfn? Er ekkert brúk fyrir skip og áhafnir annað en að bíða eftir Rússum eða hryðjuverkamönnum?

Svo veltir maður fyrir sér hinum kristilegum gildum Evrópulanda, líka Íslands. Velmegunin er víst svo mikil í Evrópu að hin kristnu gildi mega sín einskis. Gestrisni sem öllum er kennd verður að engu vegna hræðslunnar við flóttafólkið. Sem sagt, ein milljón manna sem ekki eru ferðamenn heldur eru á flótta. Þá gerast þau undur og stórmerki að ...:

  • Dönsk stjórnvöld hirða öll verðmæti af flóttafólki
  • Norsk stjórnvöld vísa fólki til Rússlands þar sem frostið er gríðarlegt, bæði í andrúmslofti sem stjórnmálum.
  • Þeir Svíar eru til sem kveikja í húsum flóttamanna og hóta að drepa börn
  • Finnsk stjórnvöld ætla loka landamærum sínum.
  • Þýskur stjórnmálaflokkur vill láta skjóta flóttamenn við landamærin
  • Er hér ónefnd viðbrögð íbúa annarra Evrópulanda.

Auðvitað er allt þetta ósköp skiljanlegt enda er flóttafólk almennt stórhættulegt:

  • Það er ekki kristið sem auðvitað þýðir að það gæti beitt ofbeldi
  • Það er bláfátækt sem auðvitað þýðir að það þarf að betla
  • Það er atvinnulaust og tekur án efa vinnuna frá kristnu láglaunafólki
  • Það er veikt, að minnsta kosti sumir, sem þýðir byrði á heilbrigðiskerfinu
  • Það er húsnæðislaust sem þýðir að það verður byrði á félagslega kerfinu

Þegar öllu er á botninn hvolft virðist sem að allir hafa mjög sterka löngun til lífs og þörf á að afla sér viðurværis, matar og húsaskjól, ekki aðeins fyrir sjálfan sig heldur fjölskyldu sína og aðra nákomna. Þannig er þetta út um allan heim. Og hver eru nú hin kristnu gildi ef ekki að taka á móti fólki í neyð?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband