Enginn á að fara á fjöll að vetrarlagi nema kunna til verka

í línuTvær mikilvægar reglur eru í fjallaferðum að vetrarlagi.

  1. Að nota ísexi og ísbrodda.
  2. Að kunna að nota þessi tæki og hafa æft sig í því undir leiðsögn.

Því miður verða stundum óhöpp í fjallaferðum að vetrarlagi, jafnvel alvarleg slys. Snjór, ís, bratti og veður geta valdið hinum vanasta fjallamanni vandræðum. Til að komast áfram nota vanir fjallamenn ýmsar græjur.

Í bratta er nauðsynlegt að hafa meðferðis ísöxi og ísbrodda. Ótrúlegt hversu maður kemst langt með þessum tækjum og svo ekki sé talað um að ferðast í línu en þá þarf belti og fleira.

fjallabunadur_mediumÞetta virðist allt mjög einfalt en reyndin er sú að hjálpartæki geta verið stórkostlega hættuleg í meðferð þeirra sem ekki kunna á þau.

Fólk hefur snúið sig á ökkla með ísbrodda á fótum og jafnvel fótbrotnað. Dæmi er um að fólk hafi runnið niður í móti og skaðað þá sem eru fyrir neðan með broddum eða ísöxi.

Í bratta er notað ákveðið öryggisgrip á ísöxi en það byggist á því að geta beitt öxinni því sem næst umsvifalaust. Mikilvægast að koma sér á magann og þrýsta efri hluta axarinnar niður og draga þannig úr hraða og helst að geta stöðvað sig algjörlega.

Til þess að þetta takist þarf þetta að vera vel æft, rétt eins og sundtökin sem flestir grípa til við fall í vatn. Vandinn er sá að þegar maður dettur í snjó í miklum bratta er hvert sekúndubrot dýrmætt. Að öðrum kosti er hætta á að maður endasendist stjórnlaust niður brekkuna á sívaxandi hraða með hræðilegum afleiðingum.

Svo er það þetta með ísbroddanna. Þeir bjarga engu þegar maður dettur í bratta. Sé reynt að spyrna við fótum er hætta á að þeir nái skyndilega festu og fóturinn hreinlega brotni.

Um daginn var ég í Vífilsfelli og hitti Íslendinga og útlendinga sem voru á hákubroddum, svona smábroddum sem margir ganga á þegar hált er á sléttlendi. Þannig græjur eru gangslausar í fjöllum.

Fyrir nokkrum árum gekk ég á Hvannadalshnúk í glampandi sól og blíðu. Í fjallinu voru hundruð annarra sem nutu útiverunnar og reyndu sig við þennan hæsta tind landsins. Myndin hér fyrir ofan var tekin í ferðinni. Á myndinni eru þrír hópar, tveir á leiðinni upp síðasta áfangann og einn á niðurleið.

Tveir hóparnir fara algjörlega rangt að, eðeins hópurinn sem er lengst til vinstri gerir rétt.

Ég man ekki hvort það hafi verið þessir hópar eða einhverjir aðrir en ég man eftir stórum hópi á niðurleið. Ofarlega í hópnum hrasaði maður og féll á þann næsta fyrir neðan hann. Sá datt á þann þriðja og svo koll af kolli. Verra var að nokkrir í hópnum rákust á göngufólk á uppleið og þar með voru örlög þeirra ráðin. Um tuttugu og fimm manns enduðu fyrir neðan brekkuna í einni bendu. Líklega kunni enginn í þessum hópum að tryggja ... Hvað skyldi það nú annars þýða?

Hópurinn til vinstri á myndinni gerir rétt. Fólkið gengur í krókaleiðum upp. Ef einhver dettur geta flestir séð til þess sem hrasar og tryggt, það er stungið ísöxinni eldsnöggt niður og tekið sér viðbragðsstöðu áður en strekkist á línunni.

Sé hópurinn hins vegar í beinni línu geta fæstir brugðist við áföllum. Sá sem dettur fellur venulegast á þann næsta og svo koll af kolli.

Neðri myndina fann ég á vefnum náttura.is. Þar er stutt en góð grein um eftir Árna Tryggvason og nefnist hún „Hugleiðing vegna óhappa á fjöllum“.

Í greininni varar Árni við að fólk fari á fjöll án útbúnaðar og þekkingar. Eftirfarandi er úr greininni og ég er fyllilega sammála:

Að mínu mati hafa margir þessara hópa farið offari í sínum ferðum. Duglegt fólk sem telur sér allt fært en kunnáttan lítil og oft er hópstjórinn upphafinn sem alvitur leiðtogi.

Aðili sem fer oft of geyst og hleypir með [í ferðina] fólki sem á ekkert erindi á fjöll. Sorgleg staðreynd sem hefur orðið of mörgum að falli og það jafnvel í fylgd mjög vanra fjallamanna. Í ferðum sem þessum er hópurinn aldrei sterkari en sá sem sístur er varðandi kunnáttu og búnað. Þetta er staðreynd sem allir verða að temja sér sem ætla í ferðir sem þessar. Kröfur þarf því að auka til þátttakenda í slíkum ferðum og ekki síst þarf að auka kröfur til skipuleggjenda slíkra ferða.

Ábyrgð fararstjóra eða hópstjóra er mikilvæg. Oft stjórnar sá ferð sem er mestur garpurinn, gengur hraðast eða hefur þekkingu á því svæði sem um er farið. Það er bara oft ekki nóg. Kröfur sem hópur á að gera jafnt til sín sem og til fararstjórans er að allir kunni til verka. Hafi fararstjórinn til dæmis ekki þekkingu á notkun brodda og ísexi og sé vanur að ferðast með slíkar græjur á hann ekki að stjórna hópi. Og það sem meira er, enginn í hópnum á erindi í fjöll að vetrarlagi nema hann sé vanur. Allt annað býður hættunni heim. Best er að æfa sig, byrja hægt og rólega undir leiðsögn þeirra sem kunna til verka.

Og svo er það aðalreglan í fjallaferðum og hún er sú að hafa þekking og kjark til að snúa við áður en það er of seint. Betra er að ofnota þessa reglu frekar en að láta björgunarsveit sækja sig eða þyrlu Landhelgisgæslunnar.


Máttlaus og aum Evrópuríki

Í Evrópuríkjunum búa samtals rúmlega 525 milljónir manna á fjögurra milljón ferkílómetra lands og er þá Rússland ekki með í þessari talningu. Þjóðirnar í álfunni njóta einhverra mestu velmegunar í heimi. Verg landsframleiðsla á mann er um fjórar milljónir króna á ári. Meðan allt lék í lyndi á Sýrlandi var hún um 655 þúsund krónur á ári.

Þjóðir Evrópu búa við lýðræði, háþróaða löggjöf, öfluga löggæslu, menntun, heilbrigðisþjónustu, menningu og ... gott mannlíf, svona yfirleitt. Í hamingju sinni talar fólk fjálglega um menningu sína og margir telja hana byggjast á kristnum gildum, náungakærleika og annað sem er fólki finnst fallegt að nefna á tyllidögum.

Sagt er að friður hafi ríkt í álfunni frá lokum seinni heimstyrjaldar. Undatekningarnar eru meðal annars tvær: Hryðjuverkastríð kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi og borgarastyrjöld milli þjóða fyrrum Júgóslavíu og kannski eitthvað annað „smálegt“.

Fátt bendir þó til að kristileg siðfræði sé hefndarþorstanum og drápsfýsninni yfirsterkari. Ekki er furða þótt maður velti því fyrir sér hvort hin kristnu gildi séu meira til viðmiðunar en að farið sé bókstaflega eftir þeim.

Svo gerist það ótrúlega að rúmlega ein milljón manna flosnar skyndilega upp frá heimahögum sínum vegna ófriðar og annarrar óáran. Íslamistar rísa upp og drepa fólk af sömu trú, svipað eins og hjaðningavíg kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi en bara af miklu stærri skala. Ástæðan er sú að þeir telja sig mega það samkvæmt trú sinni. Aðrir segja það rangt.

Harmleikurinn gerist í Sýrlandi, Líbýu, Túnis og víðar. Hvert leitar svo fjöldinn sem kemst á vergang vegna atburða í Sýrlandi og í fleiri arabaríkjum? Jú, í friðinn í Evrópu.

Og hvað gerist þar?

Evrópa fer nærri því á hliðina. Samtök ríkja í Evrópu geta ekki saman tekið við óvæntum gestum sem þó eru ekki nema um 0,2% af eigin mannfjölda. Allt virðist ætla að fara á hliðina, líklega vegna þess að efnahagslega stendur Evrópa á brauðfótum.

  • Landamæraeftirlitið liðast í sundur
  • Ekki er pláss fyrir flóttafólk í gistingu
  • Það er látið ganga hundruð kílómetra án matar og vatns
  • Flóttafólk fær ekki pláss í almenningsfarartækjum
  • Fólkið sveltur
  • Þúsundir manna drukkna á leið til Evrópu
  • Þúsundir barna týnast á vegum Evrópu
  • Glæpahópar ræna börnum og fullorðnum
  • Fólki er beitt ofbeldi
  • Sum ríki loka landamærum með gaddavírum og vopnuðum eftirlitsmönnum dag og nótt
  • Milljónir Evrópubúa halda að flóttamenn komi með ófriði

Er nokkur furða þó maður leyfi sér að álykta sem svo að Evrópuríkin séu einfaldlega máttlaus og aum fyrst þau geta ekki tekið skammlaust á móti einn milljón flóttamanna.

Hvers vegna er ekki umsvifalaust gengið í fyrirbyggjandi aðgerðir í löndum þar sem stríð og ófriður ríkja? Miðjarðahafið og Eyjahaf eru ekki stór og því furðulegt að fólk geti farið þar yfir á smáskekktum og gúmmítuðrum án þess að nokkrir verði þeirra var með berum augum, í sjónaukum, á radarskjám eða með háloftamyndum?

Er ef til vill öllum sama?

Hvað svo með glæpahópa sem leggja til ónýt fley undir flóttamenn sem þurfa að kosta öllu sínu til að fá pláss í þeim? Af hverju er ekki gengið í að koma í veg fyrir þennan ósóma? Samt eru þúsundir herskipa í löndum Vestur-Evrópu, Nató. Til hvers liggja þessi skip í höfn? Er ekkert brúk fyrir skip og áhafnir annað en að bíða eftir Rússum eða hryðjuverkamönnum?

Svo veltir maður fyrir sér hinum kristilegum gildum Evrópulanda, líka Íslands. Velmegunin er víst svo mikil í Evrópu að hin kristnu gildi mega sín einskis. Gestrisni sem öllum er kennd verður að engu vegna hræðslunnar við flóttafólkið. Sem sagt, ein milljón manna sem ekki eru ferðamenn heldur eru á flótta. Þá gerast þau undur og stórmerki að ...:

  • Dönsk stjórnvöld hirða öll verðmæti af flóttafólki
  • Norsk stjórnvöld vísa fólki til Rússlands þar sem frostið er gríðarlegt, bæði í andrúmslofti sem stjórnmálum.
  • Þeir Svíar eru til sem kveikja í húsum flóttamanna og hóta að drepa börn
  • Finnsk stjórnvöld ætla loka landamærum sínum.
  • Þýskur stjórnmálaflokkur vill láta skjóta flóttamenn við landamærin
  • Er hér ónefnd viðbrögð íbúa annarra Evrópulanda.

Auðvitað er allt þetta ósköp skiljanlegt enda er flóttafólk almennt stórhættulegt:

  • Það er ekki kristið sem auðvitað þýðir að það gæti beitt ofbeldi
  • Það er bláfátækt sem auðvitað þýðir að það þarf að betla
  • Það er atvinnulaust og tekur án efa vinnuna frá kristnu láglaunafólki
  • Það er veikt, að minnsta kosti sumir, sem þýðir byrði á heilbrigðiskerfinu
  • Það er húsnæðislaust sem þýðir að það verður byrði á félagslega kerfinu

Þegar öllu er á botninn hvolft virðist sem að allir hafa mjög sterka löngun til lífs og þörf á að afla sér viðurværis, matar og húsaskjól, ekki aðeins fyrir sjálfan sig heldur fjölskyldu sína og aðra nákomna. Þannig er þetta út um allan heim. Og hver eru nú hin kristnu gildi ef ekki að taka á móti fólki í neyð?

 


Undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar er mikilvæg

Það [heilbrigðiskerfið] hefur ekki fylgt framþróun í læknisfræði, hvorki hvað snertir notkun á tækjabúnaði né bestu lyfjum og helstu stofnanir þess eru hýstar á þann veg að það kemur í veg fyrir að hægt sé að veita nægilega mikla og góða þjónustu. Hnignun heilbrigðiskerfisins hefur að mestu leyti verið óháð því hvaða stjórnmálaflokkar hafa verið við völd vegna þess að hún hefur verið stöðug og samfelld.

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem nú safnar undirskriftum og hvetur til að meira fé verði lagt í íslensk heilbrigðismál.

Tæplega sextíu þúsund manns hafa skrifað undir hjá Kára og ljóst að stór hluti Sjálfstæðismanna er sammála honum. Viðbrögð forystumanna Sjálfstæðisflokksins og margra annarra eru undarleg. Í stað þess að fagna því að almenn samstaða náist um aukið fjármagn á heilbrigðiskerfið virðist sem að margir noti tækifærið og ráðist á Kára, geri athugasemdir um orðalag, prósentuhlutfall og annað smálegt sem skiptir í heildina litlu máli.

Heilbrigðiskerfið er dýrt en sé almenn samstaða meðal fólks um að leggja því til meira fé er sjálfsagt að ganga í það mál og um leið að draga úr öðrum útgjöldum til mótvægis. 

Hafi heilbrigðiskerfinu hnignað þarf að taka á því en auðvitað er það ekki aðeins gert með auknu fjármagni. Hins vegar er það pólitískt rangt að berjast með oddi og egg gegn undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar.

Staðreyndin er einfaldlega sú að enginn vill slasast eða veikjast, en lífið kemur á óvart. Allir vilja að öryggisnetið sé til staðar, læknar, hjúkrunarfólk, lækningatæki, húsnæði og annað sem þarf. Þetta viljum við öll að sé fyrsta flokks, fyrir okkur, ættingja, vini og alla aðra. Við sættum okkur ekki við annað.

Þetta er ástæðan fyrir því að tæplega sextíu þúsund manns skrifa undir hjá Kára. Enginn og allra síst forysta Sjálfstæðisflokksins, á að leggjast gegn undirskriftasöfnuninni eða gera hana tortryggilega.

Sjálfstæðismenn skrifa í þúsundum undir hjá Kára enda ekkert í henni sem er í andstöðu við stefnu flokksins. 

Svo er það allt annað mál hvort það sé vel rekið eða hvort það eigi allt að vera í höndum ríkisins.  


Bullið í Trump og pólitík Sanders

Með vaxandi áhuga hef ég fylgst með aðdraganda forkosninganna stóru flokkanna í Bandaríkjunum vegna forsetakosninganna, Republikana og Demókrata. Raunar hefur mér oft þótt lítill munur á þeim miðað við íslenskan eða jafnvel evrópskan raunveruleika. Nú bregður hins vegar svo við að tveir frambjóðendur gera leikinn mun skemmtilegri en ella, það er ef skemmtun má kalla. Sá sem þetta ritar hefur gaman af stjórnmálum en telur þau hins vegar mikið alvörumál þó hægt sé að hafa ýmislegt í flimmtingum.

Donald Trump kemur mér fyrir sjónir sem skrýtinn maður, hann er ábyggilega greindur en er margt sem hann hefur látið hafa eftir sér ekki svo ýkja gáfulegt. Í Bandaríkjunum er fylgst með hverju orði sem frambjóðendur láta frá sér fara.

Hér er um nokkur ummæli sem höfð eru eftir Donald Trump:Donald-Trump-Making-Smug-Face

“Ariana Huffington is unattractive, both inside and out. I fully understand why her former husband left her for a man – he made a good decision.”

“I will build a great wall – and nobody builds walls better than me, believe me – and I’ll build them very inexpensively. I will build a great, great wall on our southern border, and I will make Mexico pay for that wall. Mark my words.”

“The beauty of me is that I’m very rich.”

“It’s freezing and snowing in New York – we need global warming!”

“I think the only difference between me and the other candidates is that I’m more honest and my women are more beautiful.” 

Þetta er nú bara örlítið brot af því sem maðurinn segir. Verð að segja eins og er að svona frambjóðandi vekur ekki áhuga.

Þegar litið er á „heimskuleg“ ummæli Bernie Sanders er allt annað uppi á tengingnum. Síst af öllu er hann vændur um greindarskort. Það sem honum er hins vegar lagt til lasts byggist á stjórnmálaskoðunum hans og auðvitað eru margir með andstæðar skoðanir. Dæmi um ummæli sem fjölmargir gagnrýna er eftirfarandi:Bernie

“A nation will not survive morally or economically when so few have so much while so many have so little. We need a tax system which asks the billionaire class to pay its fair share of taxes and which reduces the obscene degree of wealth inequality in America”

“Education should be a right, not a privilege. We need a revolution in the way that the United States funds higher education.”

“Social Security is a promise that we cannot and must not break.”

“Meanwhile, as the rich become much richer, the level of income and wealth inequality has reached obscene and unimaginable levels. In the United States, we have the most unequal level of wealth and income distribution of any major country on Earth, and it’s worse now then at any other time since the 1920s.”

“We must transform our energy system away from fossil fuels and into energy efficiency and sustainable energies.”

Bernie Sanders er hrukkóttur karl, lotinn í herðum og hefur fjarri því sama sjónvarpsþokka og aðrir fjöldaframleiddir forsetaframbjóðendur. Engu að síður leggur maður við eyrun þegar hann talar og ... það sem meira er, maður er bara nokkuð sammála.

Sanders segist vera „democratic socialist“ aðrir segja hann vera „social democrat“. Á þessu tvennu er talsverður munur. Hann er kapítalisti og styður ekki ríkiseign fyrirtækja og hefur síst af öllu lagst gegn einkaframtakinu. Munurinn á þessu er án efa að stjórnmálin í Bandaríkjunum sem um flest eru ólík þeim hér á landi og annars staðar í Evrópu.

Stundum er það beinlínis fyndið þegar jafnaðarmenn hér á landi telja sig eiga eitthvað sameiginlegt með bandaríska Demókrataflokknum og jafna Sjálfstæðisflokknum við Republikana. Hvort tveggja er fjarri öllum raunveruleika. 

Bernie Sanders styður heilbrigðiskerfi eins og það er byggt upp hér á landi, menntakerfi og fleira. Rétt eins og ég og aðrir Sjálfstæðismenn og höfuð hingað til ekki verið kallaðir sósíalistar.


Bloggfærslur 6. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband