Annar hlaupaársdagur eftir 5.000 ár?

Í fréttum Ríkissjónvarpsins sagði að eftir um 5.000 ár gæti þurft að bæta við öðrum hlaupaársdegi til að samræma klukkuna við snúning jarðar og ferðalag hennar í kringum sólina.

Mér skilst að þingmenn Bjartrar framtíðar séu að leggja lokahönd á frumvarp til laga þess efnis að sá hlaupaársdagur verði annað hvort föstudagur eða mánudagur. Miklu skipti fyrir launafólk að helgin verði lengri en nú er.

Mér skilst að Píratar styðji frumvarpið en aðrir flokkar ætla að gefa sér góðan tíma til umhugsunar.


Hennar var hugurinn frammi á Melum ...

Stjórnmálamenn leita sér að málum til að vekja athygli á sér. Þeir eru ekki allir sem þeir eru séðir, að minnsta kosti hvað umhyggjuna varðar. Athyglin maður, athyglin, hún er eins og krónur og aurar fyrir marga, stjórnmálamennirnir þrífast á athyglinni. 

Í einhverjum fjölmiðlinum um daginn var gert lítið úr þeim þingmönnum sem minnst tala á Alþingi. Þeir voru taldir upp og getið um þær mínútur og sekúndur sem þeir stóðu í ræðustól. Ekki virtist þetta gert til að upphefja þingmennina.

Aðrir fjölmiðlar hneykslast á þeim alþingismönnum sem mest tala. Þeir eru líka taldir upp og getið um „málæði“ í klukkustundum, mínútum og jafnvel sekúndum.

Eins og alltaf er meðalhófið vandfundið og sjaldnast verða menn á eitt sáttir um frammistöðu stjórnmálamanna.

Einn þeirra, formaður Vinstri grænna, fann sér mál til að vekja á sér athygli. Hún fann „holu íslenskra fræða“. Átt er við húsgrunninn sem á að vera fyrir byggingu undir Hús íslenskra fræða. Mikill og sár vandlætingartónn var í rödd Katrínar Jakobsdóttur, alþingismanns, þegar hún krafði forsætisráðherra um efndir á því verkefni sem hún hóf en gat ekki staðið við. Katrín hefði ábyggilega komið til greina sem leikkona í aðalhlutverki en Óskarsverðlaunaafhendingunni er því miður lokið. 

Látum nú þetta væl um Melaholuna vera, margir hafa meiri áhyggjur af verkleysi vina Katrínar í borgarstjórn Reykjavíkur. Götur borgarinnar er þannig að það kostar ábyggilega andvirði margra húsa íslenskra fræða að fylla upp í þær. Enginn ekur ofan í húsgrunninn úti á Melum en margir skemma og eyðileggja dekk ökutækja sinna þegar þeir lenda ofan í þessum andsk... holum í götum borgarinnar.

Hugur formanns Vinstri grænna var frammi á Melum meðan götur borgarinnar drabbast niður vegna getuleysis borgarstjórnarmeirihlutans. Í hinum gjaldþrota borgarstjórnarmeirihlutanum er líka allt gert í felum eins og segir í kvæði Davíðs Stefánssonar um Brúðarskóna.

Katrín formaður myndi ábyggilega afla sér nokkurra atkvæða ef hún vekti athygli á holunum í götunum með sömu leikrænu tjáningunni og hún brúkaði við Melaholuna.


Veðurspár Veðurstofunnar og Belgings ekki samhljóða

VerðurstofanRegnið barði rúðurnar í stofugluggunum um það bil er ég var að leggja af stað gangandi þessa rétt tæpu fimm km í vinnuna.

Mér kom þetta á óvart því kvöldið áður hafði ég farið inn á vef Veðurstofunnar og þar var bókstaflega engin rigning í kortunum. Er ég kom út dró úr rigningunni og alla leiðina rigndi lítið. „Úrkoma mældist ekki ...“ svo notað sé algengt orðalag í veðurlýsingum frá Veðurstofunni.

Fjörtíu og fimm mínútum síðar opnaði ég tölvuna í vinnunni og kíkti á kortið og enn var „spáð“ þurru um morguninn þegar hafði hellirignt. Að vísu sást „úrkoma í nánd“ eins og fræg ummæli herma í áðurnefndum veðurlýsingum.

Veðurstofan hefur engan einkarétt á að „búa til“ veður og þess vegna kíkti ég á belging.is sem er afar góð veðurspásíða. Einn stjórnendum hennar er Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, sem margir muna úr veðurfréttum sjónvarps. „Hins geðþekka veðurfræðings ...“, eins og blaðamenn með skoðun myndu orða það.

BelgingurÉg bar saman veðurspá þessara tveggja vefsíðna fyrir klukkan tólf í dag.

Til að gera langa sögu stutta virðist spá Belgings miklu ítarlegri og úrkoma svo nálæg höfuðborginni klukkan tólf að hún er í „ítarnánd“ ef svo má að orði komast.

Veðurstofan er ekki á þessum buxunum og spáir þurru eins og sést á efra kortinu. Þar er úrkoman aðeins í „hefðbundinni nánd“. Gult þýðir rigning en á Belgingskortinu er úrkoman græn.

Eflaust eru góðar og gildar skýringar á þessum mismun og engin ástæða til að fara í einhverja samkeppni um réttar og réttari veðurspár.

Græni liturinn hjá Belgingi gæti merkt skýjafar með rigningu jafnvel þó ekki fylgi úrkoma. Hugsanlega gerir Veðurstofan ekki ráð fyrir slíku.

Samt er leikmaðurinn fullur forvitni og skilur fátt.

Merkilegt er þó að Veðurstofan fullyrti í gær og í dag að vera ætti þurrt þegar regnið barði rúðurnar í stofugluggunum hjá mér um átta leytið í morgun. Jafnvel núna segir hún að það hafi verið þurrt.

Misskilningurinn er þá líklega minn enda er mér nokk sama þó rigni. Veðrið er nefnilega spurning um hugarfar ekki óáran eins og sumir halda.

Samt fylgist ég með veðurfréttum eins og þær séu hinn stóri sannleikur lífsins.


Bloggfærslur 29. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband