Reynisfjara, svona getur aldan verið hættuleg

DSC_0151Innanríkisráðherra og ráðherra ferðamála hafa ákveðið að lögreglugæsla skuli framvegis vera við Reynisfjöru. Þessi ákvörðun kemur í kjölfarið á hörmulegu slysi sem leiddi til dauða ferðamanns fyrr í dag Þetta er hárrétt ákvörðun og henni ber að fagna. Þetta er hættulegur staður og verkefni lögreglunnar eru að gæta að reglu þar sem þannig háttar til.

Eins og svo margir hef ég oft komið í Reynisfjöru, skoðað hellinn sem Jón Steingrímsson átti að hafa búið í og farið í Hálsanefshelli og skoðað stuðlabergið sem bókstaflega er ægifagurt.

Hér áður fyrr var enginn hræddur við brimið enda fáir ferðamenn og samlandar þekktu hættuna. Nú er öldin önnur og miðað við fjölda útlendra ferðamanna fara fáir Íslendinga í Reynisfjöru.

Já, Reynisfjara er stórkostlega falleg og alveg þess virði að fara þangað og skoða umhverfið. Hérna eru nokkrar myndir sem skýra dálítið hversu mikið afl sjórinn getur verið. Í fallegu veðri virðist ekkert trufla, hafflöturinn gárast varla, sólin skín í heiði en ...

Í þetta sinn komst ég ekki í hellinn, aðfallið var byrjað og af og til barði aldan stuðlabergið. Ég klifraði upp í örugga hæð og tók nokkrar myndir.

Á myndinni hér fyrir ofan, hægra megin, sést til stuðlabergsins og eins af Reynisdröngum. Ferðamaður gengur í sandinum þar sem aldan náði mest og smám saman náði hún lengra. Allir vita hversu gaman það er að „stríða“ öldunni,hlaupa undan henni upp fjöruna án þess að vökna.

DSC_0196 - Version 2DSC_0215 - Version 2Í gamla daga vorum við hetjur og leyfðum okkur að vökna, kannski upp að hnjám í þeirri von að öðlast aðdáun stelpnanna. Þær sögðu hins vegar að við værum bara fífl að gera þetta. Varð þá lítið út manni.

Á myndinni vinstra megin er ég kominn upp í stuðlabergið og tek mynd af útfalli öldunnar. Sjórinn fellur stutta stund út.

Hægra megin er önnur mynd sem tekin er tæpri hálfri mínútu síðar á sama stað og þá hefur aldan smám saman náð að fylla upp í fjöruna.

DSC_0217 - Version 2Sumir kunna að halda að þetta sé nú ekki mikið en ég fullyrði að ég hefði ekki náð að standa af mér ölduna. Hún er kraftmikil og það sem meira er að í útfallinu rennur sandurinn með út og maður missir fótanna afar hratt. Oft er illt að þurfa að verjast samtímis kraftinum í öldunni, útfallinu og sandskriðinu undir fótum manns. Takið svo eftir dimmri öldunni sem er í þann mund að ráðast á klettanna.

Svo er hérna til hægri myndin af því þegar dimma aldan, sem getið er um hér fyrir ofan, skall á klettunum. Af fréttum að dæma dreg ég þá ályktun að maðurinn sem dó hafi hugsanlega staðið þar sem aldan brotnar.

DSC_0161Á myndinni vinstra megin, sést hversu djúp aldan er miðað við konuna sem situr uppi í klettunum, þar sem ég hafði áður staðið og tekið myndirnar tvær fyrir ofan.

Smellið á myndirnar og sjáið þær stærri.

 

 

 

 

 


mbl.is Lögregluvakt við Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband