Bréfin þrjú frá Stalín og formaður Samfylkingarinnar

Þegar Stalín dó er sagt að hann hafi skilið eftir þrjú númeruð bréf sem stíluð voru á eftirmann hans og skyldi sá opna þau í röð lenti hann í erfiðleikum í stjórnartíð sinni. 

Nikita Sergeyevich Khrushev tók við völdum í Sovétríkjunum árið 1953.

Nær því samstundis að hann varð aðalritari sovéska kommúnistaflokksins lenti hann í alvarlegum pólitískum vandræðum og þá opnaði hann fyrsta bréfið. Í því stóð einfaldlega:

„Kenndu kapítalistunum um allan vanda. Kveðja, Stalín“ 

Khrushchev gerði það og fékk nú ágætis andrými - í bili.

Í byrjun árs 1956 steðja stórkostlegir pólitískir erfiðleikar að og við liggur að allir nánustu stuðningsmenn hans snúi við honum baki. Þá grípur hann til bréfsins sem var merkt með tölustafnum 2. Í því stóð:

„Kenndu mér um allt sem úrskeiðis hefur farið. Kveðja, Stalín“

Þá glaðnaði verulega yfir Khrushchev og í frægri ræðu kenndi hann Stalín um allan vanda Sovétríkjanna og barg um leið pólitísku lífi sínu og undu nú allir sovéskir glaðir við hlutskipti sitt um sinn.

Leið nú og beið fram á haustið 1964 og var þá svo illa farið að þrengja að Khrushchev að hann átti fárra kosta völ. Mundi hann þá eftir þriðja bréfinu en það geymdi hann innst inni í stóra og trausta peningaskápnum á skrifstofunni.

Sveittur og titrandi af spenningi og opnaði Khrushchev bréfi. Í því stóð eftirfarandi:

„Skrifaðu þrjú bréf. Með kveðju Stalín.“

Þannig fór nú um sjóferð þá. Söguna um bréfin hans Stalíns datt mér í hug þegar ég las annað og ekki síður stórmerkilegt bréf, yfirlýsingu frá formanni Samfylkingarinnar. Í því kennir hann forvera sínum óbeint um öll vandræði vinstri stjórnarinnar síðustu.

Áður hafði formaðurinn formælt og kennt ljótu kapítalistunum um allt sem hugsanlega hefur miður farið hér á landi. 

Líklega á formaðurinn nú ekki lengur margra kosta völ. Hann gæti þó skrifað þrjú bréf og stílað á eftirmanninn sinn.


Bloggfærslur 12. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband