Klofna Píratar í afstöðu til manna og málefna?

Ef Píratar eru mátaðir við fyrirferðamikil deilumál í samfélaginu, s.s. ESB-umræðuna, verðtryggingu, byggðastefnu, fiskveiðistjórnun, heilbrigðismál og fleiri slík er lítið um píratískar áherslur sem skapa flokknum sérstöðu.

Þetta er án efa rétt hjá Páli Vilhjálmssyni sem hann ritar á blogg sitt, „Tilfallandi athugasemdir“. 

Til viðbótar við það sem Páll nefnir má geta um það sem kalla má hið mannlega viðhorf. Hér er átt við að fólk hefur mismunandi skoðanir hvert á öðru og deilur eru eðlilegar, ekki síst innan stjórnmálaflokks. Píratar eru annars stjórnmálaflokkur hvort sem þeim líkar það vel eða ekki. 

Fólk í stjórnmálaflokki sem hefur ákveðið skipulag lærir félagsstörf. Tekur mark á lýðræðislegum ákvörðunum, sættir sig við að hafa ekki náð meirihluta eða þeim frama sem á var stefnt. Ella verður ástandið eins og hjá Pírötum þar sem hver gáfumaðurinn á fætur öðrum þykist geta meir og betur en þeir sem eru í forsvari.

Og þingmenn Pírata eru vissulega ekki steyptir í sama mót. Einn grætur af því að fólk hefur skoðanir á henni og því sem hún stendur fyrir. Annar hikar ekki við að minna meintan „kaptein“ á því hvernig hún komst til valda og sú aðferð er ekki lagleg.

Allt er þetta svo yfirmáta mannlegt en um leið afar vanþroskað.

Kjósendur standa svo hjá og horfa með undrunaraugum að flokkinn sem virðist einhverra hluta vegna hafa náð mestum hæðum í skoðanakönnunum.

Er þá ekki kominn tími til að spyrja hver stefna flokksins er í verðtryggingunni, ESB málinu, byggðastefnu, fiskveiðistjórnun, heilbrigðismálum og öðrum mikilvægum málaflokkum? Eða er flokkurinn klofinn bæði um menn og málefni?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband