Hver var þessi Johann Sebastia Bach?

Bach

Í matarboði í fyrrakvöld var talsvert rætt um menntun og minni. Þá rifjaði ég upp þegar bandarískur yfirmaður eiginkonu minnar fyrir nær aldarfjórðungi gat flaggað meistaragráðu í viðskiptafræði, en þegar talið barst að tónskáldi að nafni J.S. Bach hafði hann ekki hugmynd um hver það var. Fyrir mér er slíkur maður ómenntaður.

Þetta skrifar Einar Falur Ingólfsson, blaðamaður og ljósmyndari, í Ljósvaka Morgunblaðs dagsins.

Þegar öllu er á botninn hvolft er spurningin þessi: Hvað er menntun?

Flestir minnast kennslustunda í skóla sem þeim þótti algjör tímaeyðsla. Hversu oft var ekki sagt: Sko, ég á aldrei eftir að hafa neitt gagn af þessu. Án efa var átt efa við dönsku, sagnfræði,, líffræði, stærðfræði og líklega öll fög sem kennd voru.

Ungt fólk veit fátt en þegar aldurinn færist yfir uppgötva flestir hversu þekking þeirra er í raun og veru lítil. 

Í gær átti ég spjall við konu sem er læknir og hefur að auki lokið nokkrum prófum í öðrum greinum, sumsé hámenntuð kona. Hún sagðist eiga þá ósk heitasta að komast aftur á skólabekk, læra til dæmis frönsku og fleira og fleira. Það er svo gaman að sitja í skóla og teyga að sér þekkingu, sagði hún.

Ekki hafa allir slíka minningar um skólagöngu sína að þeir vilji endurtaka leikinn. 

Grundvallaratriði menntunar er lestur, ekki endilega prófgráður heldur sönn þrá eftir þekkingu, vitneskju, hvort sem hún gagnast fólki í daglegu lífi eða ekki.

Foreldrar og skóli eiga að hvetja börn til lestrar. Takist það ekki stefnir menntakerfið í mikinn voða. Allir munu hafa gagn af því að læra dönsku, sagnfræði, stærðfræði eða önnur fög. Krakkar og unglingar vita fátt um heiminn og lífið framundan. Þess vegna ungt fólk að læra það sem fyrir það er lagt. Punktur.

Ef ekki er víst að að fleiri og fleiri segist ekki vita hver Johann Sebastian Bach er og hvað hann lagði til heimsmenningarinnar.


Hvar fannst hrossið og ætlaði bóndinn að aka utan vega?

Einkar sérkennilegt er þegar blaðamenn skauta framhjá mikilvægum atriðum í fréttaflutningi. Það finnst mér hafa verið gert í annars vel skrifaðri og skemmtilegri frétt á mbl.is um týndan hest sem eigandi leitaði að í þyrlu.

Ekki finnst stafkrókur um hvar Staðarbakki er í Fljótshlíðinni, en þaðan fór hesturinn. Bærinn er hins vegar um þrjá til fjóra km austan við Hvolsvöll.

Og hver fór svo blessuð skepnan? Ekkert segir um það í fréttinni. Fór hann norður yfir Fljótshlíðina eða upp í áttina að Tindfjallajökli? Eða bara fór hann eitthvað og eru þær upplýsingar nógar?

Ekki kannast ég við fjöllin sem eru á myndinni en það hefði verið tilvalið að setja nöfn þeirra í myndatexta.

Í lok fréttarinnar segir frá því að bóndinn á Staðarbakka hafi ætlað að leita að hestum á fjórhjóli. Hmmmm ...

Fleiri en ég velta því ábyggilega fyrir sér hvort hann ætlaði að aka utanvega á fjórhjóli en það er auðvitað öllum bannað. Eða ætlaði hann bara að aka eftir vegum og vegarslóðum og skyggnast þar um vegleysur? Spyr sá sem ekki veit.


mbl.is Leituðu að hesti í heystakki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tignarlegt útsýni á degi íslenskrar náttúru

LambafellsgjaÍ tilefni af degi íslenskrar náttúru ók ég með öðrum að Höskuldarvöllum sem eru skammt suðvestan við Keili. Þar er mikilfenglegt landslag, stórkostleg hraun, Trölladyngja (sem er í raun ekki dyngja í jarðfræðilegum skilningi), Grænadyngja (sem ekki er heldur dyngja)

Þar er Lambafell og hin víðfræga Lambafellsgjá. Meðfylgjandi mynd er tekin úr gjánni og má sjá þar til Esju og höfuðborgarinnar ef grannt er skoðað.

Veðrið var eins og best verður á kostið. Glampandi sól, hiti og norðan andvari til að kæla göngufólk. Verð þó að viðurkenna að hlémegin við Lambafell var mun hlýrra en uppi eða áveðurs.

Neðri myndin er tekin af Lambafelli og horft í suður. Þar er Grænadyngja, Trölladyngja (með tindinum) Höskuldarvellir og lengst til hægri Keilir ásamt börnum sínum.

Tignarlegt útsýni á degi íslenskrar náttúru og afmælisdegi Ómars Ragnarssonar.

Lambafell


Ríkisútvarpið segir að haustið sé komið - sem er rangt

Haustið í RÚVRíkisútvarpið er beinlínis árstíðavillt stofnun. Fullum fetum heldur hún því fram að nú sé komið haust.

Þetta er kórvilla. Þegar þetta er ritað er tíu gráðu hiti í Reykjavík, fimm í Bolungarvík, sjö á Akureyri, sjö á Egilsstöðum og þrettán á Kirkjubæjarklaustri. Undir lok vikunnar er því spáð að hitinn á þessum stöðum verði rétt um níu gráður. Varla eru það hitatölur haustsins hér á landi?

Enn eru laufin ekki farin að sölna, ekkert frost á nóttunni og raunar vel útiverandi fyrir kalla og kellingar á öllum aldri.

Ríkisútvarpið skrökvar því að haustið sé komið af því að það hentar í auglýsinguna um dagskrá hausts og vetrar. Hundrað þúsund merki benda til þess að enn lifi sumar á Íslandi.

Raunar hefur sumt fréttafólk og dagskrárgerðarfólk tuðað frá því um mitt sumar að haustið sé komið, fyrsta haustlægðin skollið á og allt sé á hröðu undanhaldi. Veit þetta fólk þó ekkert um haustlægðir, eðli þeirra eða gang. Hvassviðri (sem tíðum er nefnt mikill vindur) og úrkoma, það er slagviðri, er ekkert einkenni á hausti, aðeins reykvískt veður ef svo má kalla.

Gleðjum nú okkur við sólarylinn, að minnsta kosti þar sem glæta er, njótum útiveru og gönguferða og gefum um leið lítið fyrir bölmóðsyfirlýsingar Ríkisútvarpsins. 

Ég hef það þó eftir mjög áreiðanlegum heimildum draumspaks manns sem ekki vill láta nafns síns getið að haustið sé í nánd. Hann telur að á næstu sjö mánuðum kunni að hitastigið muni ýmist vera yfir frostmarki eða undir því. Alvarlegustu tíðindin eru þó þau að á þessum tíma kann að snjóa og rigna, þó ekki á sama tíma. Á milli snjóbylja og skúra mun ábyggilega stytta upp (fyrir þá sem ekki þekkja orðalagið er átt við að snjókoman eða rigningin hætti). 


Frábær Kastljósþáttur um flóttamannavandann

Kastljós kvöldsins 14. september 2015 var verulega gott. Skynsamleg og skipulögð dagskrá um flóttamannavandann sem núna tröllríður Evrópu. Þátturinn var á mannlegu nótunum, byggðist framar öllu á reynslu flóttafólks sem er hrikaleg. Grafíkin um fjölda flóttafólks var til dæmis einstaklega góð, vel útfærð og öllum skiljanleg. Viðtölin voru flest góð, sumum var ofaukið eins og gengur.

Hann var eftirminnilegur sýrlenski læknirinn sem ásakaði forseta Sýrlands fyrir að hafa eyðilagt þjóðfélagið, ríki íslams fyrir það sama. Hann sakaði líka þjóðir heims sem ekki geta tekið á móti fólki sem flýr stríð og alla þá áþján sem fylgir. „What good is a „sorry“ for me and my people?“ sagði hann.

Flestir fyllast undrun yfir flóði flóttamanna til Evrópu, sem þó er aðeins örlítill hluti flóttamanna heimsins. Engu að síður fer Evrópa nærri því á hliðina og greinilegir brestir eru í Evrópusambandinu. Sum ríki bjóða flóttamenn velkomna, önnur þráast við og svo eru þau sem læsa landamærum sínum og byggja upp hatursáróður gegn fólki. Ef að líkum lætur mun Þýskaland standa með flóttamönunum, bjóða þá velkomna, og ... láta þau ríki sem ekki gera það finna fyrir því efnahagslega. Gott hjá Merkel. 

Þegar öllu er á botninn hvolft er Evrópusambandið afar laust í reipunum þrátt fyrir að kommissarar þar og fleiri haldi öðru fram. Þetta er sorgleg staðreynd.

Orð Þóris Guðmundssonar hjá Rauðakrossinum eru einnig eftirminnileg enda skynsamlega mælt. Aðspurður sagði hann að eflaust gætu Íslendingar tekið á móti þúsund flóttamönnum yfir einhvern tíma. Það krefðist þó mikillar skipulagningar. Vonandi láta stjórnmálaflokkar nú af yfirboðum í umræðum um fjölda þeirra flóttamanna sem Ísland getur tekið á móti. Skynsamlegast er að við tökum á móti þeim sem hægt er að sinna með sérþjálfuðu fólki, veita húsnæði, atvinnu og menntun. 

Viðtal var við fjölskyldu sem hefur verið hér í tvo mánuði. Þetta fólk vill ekki vera byrði á þjóðfélaginu. Fjölskyldufaðirinn sagðist framar öllu vilja fá starf við hæfi og ala þannig önn fyrir sínu fólki. Þetta er til mikillar eftirbreytni og ástæða fyrir alla Íslendinga að íhuga, ekki síst þá sem eru á móti því að taka á móti flóttamönnum.

Bestu þakkir fyrir frábæran Kastljósþátt.


mbl.is Á Íslandi er framtíðin björt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langlokustíll Guðmundar Andra og meginreglur

Hér á landi eru jafnaðarmenn ekki í rónni fyrr en þeir eru búnir að stofna nýjan flokk gegn „fjórflokknum“, með þeim árangri að hægri menn hafa stjórnað Íslandi meira og minna alla okkar fullveldistíð; þegar vinstri flokkarnir komust loks til valda þurftu þeir að vísu að endurreisa efnahagskerfið eftir mestu efnahagsófarir Íslandssögunnar, heimatilbúnar að mestu, en sökum þess að vinstri flokkunum tókst ekki, á fjórum árum að færa til betri vegar allt sem aflaga hafði farið á Íslandi öll fullveldisárin – með markvisst málþóf minnihlutans í gangi frá morgni til kvölds og um nætur – þá ákváðu kjósendur að leiða á ný til valda hægri flokkana og refsa vinstri flokkunum.

Þessi 108 orða málsgrein er annað hvort tær snilld eða tóm vitleysa. Hallast einkum að því fyrrnefnda. Man ekki til þess að hafa lesið jafnlanga málsgrein en hana skrifar Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur í Fréttablaðið í dag. Svo er það allt annað mál hvort maður sé sammála því sem þarna kemur fram.

Ég líti mjög upp til Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra, sem hefur skrifað mikið um stíl, rithátt og fleira gagnlegt. Hann segir í kenningum sínum um stíl í greinaskrifum:

1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann. ...

Þessa skoðun sína rökstyður Jónas á afar skilmerkilegan og skýran hátt:

Í kennslubókum blaðamanna er beðið um, að þeir skrifi ekki lengri málsgreinar en 23 orð. Í bókum fyrir sjónvarpsmenn og vefmiðlara er hámarkið sett við 17 orð. Nútímafólk vill ekki lesa eða heyra lengri málsgreinar. AP biður um 16 orða meðaltal.

Farsímar eru að verða tölvur almennings. Þar er skjárinn lítill. Það eykur kröfur til aukins hraða á textanum. Í forritinu Twitter, sem notað er í fjölpósti í farsíma, er hámarksfjöldi stafa 140. Það jafngildir einni 17-23 orða málsgrein. Einni skjámynd í farsíma.

Fólk skrifar oftast vegna þess, að það vill ná til annarra. Það er erfiðara en áður, því að fólk les minna og lætur meira truflast af öðrum tímaþjófum. Verkefni höfundar er að ná athygli fólks og halda henni til enda. Stuttar málsgreinar eru mikilvægt tæki.

Þeir, sem kunna stíl, geta brotið þessa reglu eins og aðrar reglur stílfræðinnar. En þú mátt ekki brjóta hana fyrr en þú veist, hvað þú ert að gera. Þess vegna, 23 orð í málsgrein, takk. Eða færri. Ekki fleiri. Kúnnarnir þínir lesa ekki, heldur skanna þeir.

Ég er þess fullviss að Jónas hefur rétt fyrir sér og Guðmundur Andri gerir mistök með þessum hluta greinar sinnar, jafnvel þó hann viti sitthvað um stíl. Lesandinn skannar yfir textann en nær ekki samhenginu á hraðferð sinni. Engu að síður er þetta vel skrifað hjá höfundinum þó ég sé alls ekki sammála innihaldinu (hafi ég skilið langlokuna rétt).

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur skrifar vikulega rammpólitískar vinstri sinnað greinar í Fréttablaðið. Þann 16. mars á þessu ári fjallaði hann um umdeilt bréf utanríkisráðherra til ESB. Í því ítrekar ráðherrann að landið sé ekki lengur umsóknarríki um aðild. Þá sagði Guðmundur Andri með pólitískum þjósti:

Nú sniðganga þeir sjálft þjóðþingið í meðferð mikilvægasta utanríkismáls lýðveldissögunnar; senda án samráðs við utanríkismálanefnd loðmullulegt bréf sem enginn skilur, órætt og klúðurslegt uppsagnarbréf. Meira að segja málsmetandi þingmenn stjórnarmeirihlutans túlka bréfið sem svo að hér sé ekkert nýtt, bara árétting á því að ekkert sé að gerast. Aðrir túlka það öðruvísi.

Flestir munu nú telja að stíll Guðmundara Andra sé almennt mun betri og skiljanlegri en utanríkisráðnsherrans sem þó er ekki þekktur af rithæfileikum. Utanríkisráðuneytið er líklega ekkert betra í stíl, nema ef vera kynni kanselístíl, það er stjórnskipulegum nafnorðastíl.

Þegar á allt er litið er hugsanlega ekki á forræði Guðmundar Andra að ráðleggja öðrum í stíl.

 

 


Svikapóstur um Símann sendur út frá íslensku netfangi

SíminnGlæpastarfsemin færist enn í aukanna. Fyrr í dag fékk ég póst á ensku þar sem einhver sem þóttist vera „Síminn“ sagðist vera að uppfæra gagnabanka sinn og ég beðinn um að svara póstinum og senda inn nafn, netfang, aðgangsorð og leyniorð og fleira. Ef ekki yrði lokað á mig.

Svona gerast nú glæpirnir á eyrinni nú til dags en þetta er ekki fyrsti pósturinn frá einhverjum glæpasamtökum sem eru að reyna að hafa eitthvað upp úr krafsinu. Og hugsið ykkur ef sendir eru tíu þúsund svona póstar og 1% viðtakenda svara. Það telst nú bara ágætur afrakstur.

Hitt er þó verra að sendandi póstsins er með netfangið info@siminn.is. Sumsé íslenskt netfang og það hjá Símanum.

Einhver hlýtur þá að hafa kostað einhverju til og skráð sig. Þær upplýsingar hljóta að vera til hjá Símanum.

Hins vegar kastar viðkomandi til höndunum því hann gat ekki einu sinni druslast til að láta þýða textann á íslensku. Hann hefði til dæmis getað notað Google-translate. Það hefði ábygglega hækkað svarhlutfallið að miklum mun.

Auðvitað framsendi ég póstinn á Símann og bíð nú spenntur eftir því að fá að vita hvort glæponinn fái að halda áfram uppteknum hætti eða lokað verði á hann.

 


Ikea selur ónýta diska og neitar að bæta

Diskur2Hér er hér örsaga af diskunum sem ég keypti í Ikea fyrir tæpum tveimur árum. Gerði raunar meir, endurnýjaði diskasett og hnífaparasett í einni verslunarferð. Valdi IKEA fyrir gæðin eða svo hélt ég.

Svo gerist það nokkru síðar að ég tek eftir rispum á diskunum en þar sem ég er almennt ekkert vandlátur eða smámunasamur velti ég þessu ekkert fyrir mér og hætti að taka eftir þeim.

Svo var það fyrir stuttu að gestir höfðu orð á því hvort diskarnir mínir voru mjög fornir, svo rispaðir sem þeir eru, svo var hlegið. Ég kvað nei við og horfði undrandi á rispurnar, skoðaði svo alla diskana og komst að því að þeir voru eiginlega ónýtir. Var alveg hættur að taka eftir rispunum.

Daginn eftir hafði ég samband við Ikea og fékk þau svör að ég þyrftir að vera með kvittun til að geta skilað þeim. Í langan tíma hef ég gert sjálfan mig að aðhlátursefni með því að taka reikning eða kassakvittanir fyrir öllum viðskiptum sem ég hef átt í. Ekki nóg með það að allt þetta á ég í möppum frá því ég var var unglingur.

diskur4Það dugði mér ekki í þetta skipti því ekki fann ég kvittunina frá IKEA og ekki heldur gat ég rakið greiðsluna í debet- eða kreditkortareikningum. Hef líklega greitt með seðlum, sem ég er næstum því hættur að nota.

Því miður, sagði konan í símanum. Kittun er ábyrgðaskírteinið og án þess engar bætur.

En góða kona, sagði ég. Enginn annar selur þessa diska og hnífapör nema Ikea. Diskarnir eru af gerðinni „Thomson pottery“ og að auki stendur eftirfarandi á botni þeirra: „China, microwave and Diswasher Sale“. Dugar það ekki.

Ég held að hún hafi svarað á ensku: „The computers says NO.“ Að minnsta kosti var svarið ískalt nei.

Þetta þykir mér furðulegt og eiginlega sérhannað svar til þess að komast hjá því að taka ábyrgð á lélegri eða ónýtri vöru.

Hér er annar diskur úr eigu minni. Hann áttu foreldrar mínir og er ábyggilega um sextíu ára gamall. Ekkert sést á honum, ekki ein rispa.

Hvað gera neytendur í svona tilviki?

Skyld'ann Ingvar Kamprad vita af'essum ónýtu diskum?


Er ekki grunsamlegt þegar húsbíll ekur út úr Norrænu í september?

Það er ekki hægt að segja það en grunnurinn að þessu er vönduð áhættugreining hjá tollinum á Íslandi í samvinnu við tollyfirvöld í Færeyjum og lögreglu hér á landi.

Ofangreint er úr frétt Ríkisútvarpsins af tilraun fólks til að smygla fíkniefnum í húsbíl. Fólkið kom með Norrænu síðasta þriðjudag, þann 8. september 2015.

Ekki veit ég hvað margir húsbílar koma nálægt miðjum september með Norrænu til Seyðisfjarðar. Varla þurfa lögregluyfirvöld einhverja flókna „áhættugreiningu“ til að fyllast tortryggni þegar húsbíll ekur út úr skipinu á móti þeim hundruðum sem eru að yfirgefa landið.

Annað hvort eru einhverjir kjánar á ferð eða fólk með eitthvað óhreint í pokahorninu - nema hvort tveggja sé.

Einn sæmilega vel gefinn tollvörður myndi ábyggilega reka upp stór augu, leggja frá sér kaffibollann, hnippa í kollega sinn og segja: Ég þori að veðja að það er eitthvað gruggugt með þennan húsbíl. Skoðum hann.

Í viðtali við fjölmiðla á eftir má hann svo sem segja drýgindalega, svona eins og Geir og Grani í Spaugstofnni: Tja, ég get ekki sagt mikið um málið en áhættugreiningin hjá okkur Grana skilaði einfaldlega þessum árangri.


mbl.is Földu efnin ekki vandlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Daninn á brúnni

Vont fólkMannkynið skiptist í gott fólk og vont fólk. 

Ef til vill má segja að þetta sé barnsleg og ónákvæm yfirlýsing. Hana má þó rökstyðja á ýmsan máta að minnsta kosti velta lengi vöngum yfir henni.

Maðurinn á myndinni sem hrækir flóttafólk í Danmörku og lætur svívirðingar dynja á því telur sig eflaust góðan. Hann fer ábyggilega í kirkju á hverjum sunnudegi og lofar guð sinn fyrir að vera ekki eins og þessir þarna sem ganga undir brúna. Eitthvað er þetta nú kunnugleg líking, finnst án efa í gamalli bók.

Hann er fullur ótta og hræðslu, veit ekki hvað muni gerast, hvort landið hans fyllist af útlendingum og í þokkabót fólki með „ranga“ trú. Ef til vill er hann bara heimskur, tekur athugasemdadálkanna í dönsku blöðunum trúanlega rétt eins og íslenskir fyrirsagnahausar.

Daninn á brúnni er hræddur eins og þeir sem undir hann ganga og hræðast ástandið í heimalandi sínu. Þeir velja lífið frekar en dauðann. Hvaða örlög myndi Daninn velja fyrir þá?

Allt þetta minnir á styrjaldarárin í gömlu Júgóslavíu, óöldina á Norður-Írlandi, Baskaland á Spáni, Bader-Meinhof samtökin, heimsstyrjöldina og fjölda margt annað. Menn hafa löngu verið drepnir fyrir margt annað en trú eða hörundslit. 

Ef til vill er það rangt að flestir séu góðir. Má vera að allir séu vondir að upplagi og það kosti vinnu og aga að haga sér skikkanlega. 

Daninn á brúnni hefur aldrei verið flóttamaður en líklegt er að honum eins og öðrum lærist það á augabragði og geti þá átt fótum sínum fjör að launa rétt eins og undirbrúarfólkið.


mbl.is Hrækti á flóttafólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fór myndavélin til Mars eða eitthvurt mun skemur?

FlæðurÍsland hef­ur verið vin­sæll áfangastaður fyr­ir þá sem rann­saka rauðu reiki­stjörn­una Mars enda þykja tölu­verð lík­indi með þeim jarðmynd­un­um sem hér er að finna og þeirra sem menn reyna að ráða í á ná­granna­reiki­stjörn­unni.

Svo segir í frétt á mbl.is um hóp vísindamanna sem starfar við HiRise-myndavél MRO geimfars NASA en er á braut umhverfis reikistjörnuna Mars.

Flæður 2Um daginn sendi ég myndavélina mína til Mars og fékk meðal annars þessar þrjár myndir til baka. Síðan hef ég verið að rannsaka þær bæði jarðfræðilega og landfræðilega og lenti auðvitað í bölvuðum vandræðum eins og lesandi minn áttar sig á ef hann klikkar á myndirnar og stækkar þær.

Sko, á efstu myndinni sé ég vegastikur, að vísu ógreinilega en það fer ekki á milli mála. Gæti verið að jeppinn á Mars komist ekki milli staða nema eftir stikum? Spyr sá sem ekki veit.

Flæður 3Á myndinni í miðið sjást greinilega dekkjaför. Eðlileg skýring er að þau séu þau eftir jeppa Bandaríkjamanna. Förin virðast þó vera stærri en á þeim jeppa nema hann hafi ekið þarna fram og til baka í einhverri villu.

Á neðstu myndinni sést enn ein vegastikan, snjór í fjöllum og í fjarska sýnist mér vera fjalla sem líkist íslenskum móbergsstapa.

Nú velti ég fyrir mér hvort að myndavélin hafi farið mun skemur en til Mars.

Kvur veit?


Eru hin kristnu gildi ekki algild?

ISISÁ Íslandi er trúfrelsi. Maður spyr ekki um trú þeirra sem hingað leita, ekkert frekar en maður spyr ekki um trú neins áður en honum eða henni er bjargað. (Fyrir kristna: Samverjinn spurði ekki um trú þess sem lá særður við veginn heldur gengur strax í það að hlúa að honum). Eina sem farið er fram á er að viðkomandi hlíti íslenskum lögum þar með þeim Mannréttindasáttmálum sem í gildi eru. Síðar er með ýmsum hætti farið fram á að sá aðkomni aðlagist íslensku samfélagi, og lifi í sátt við þá sem fyrir eru. Þeir sem fyrir eru gera samskonar kröfur til sjálfs sín.

Þannig ritar Baldur Kristjánsson, prestur, á bloggsíðu sína þann 5. september 2015. Mér þykir þetta vel ritað og er sammála.

Nú berast ótrúlegar frétt af vanda sem flóttamenn frá Sýrlandi og fleiri löndum hafa skapað í Evrópu. Auðvitað er það hræðilegt að fólk skuli þurfa að flýja frá heimilum sínum og til annarra landa af því að lífi þeirra er ógnað. Sögur af mannvonsku þeirra sem hafa verið kenndir við Isis eða ríki íslam eru átakanlegar, óhugnaðurinn er engu líkur. Þessi lýður eirir engu, hvorki fólki, byggingum né landi. Allt skal lagt í rúst, öllu umturnað. Mannvonskan er yfirgengileg og allt í trúarlegum tilgangi.

Hundruðir þúsunda hafa flúið til Evrópu, milljónir til næstu ríkja, Íraks, Líbanon, Jórdaníu, Tyrklands og víðar.

Séra Baldur bendir á nokkuð athyglisvert atriði í pistli sínum. Hann segir:

Við, hver sem við erum, eigum ekkert með það að tengja saman trú og réttindi. Enginn á að gjalda trúar sinnar eða græða á henni hvort sem um er að ræða landvistarleyfi eða önnur réttindi, að ekki sé talað um björgun.

Í sannleika sagt er það þetta sem kristin gildi ganga út á. Þau hafa orðið að menningu sem við höfum tekið á móti, skiptir engu við erum kristinnar trúar eða ekki. Okkur ber skylda til að aðstoða aðra í neyð þeirra rétt eins og sagan um miskunsama Samverjann kennir. Eða eru undantekningar frá hinum kristnu gildumsem gleymst hefur að segja frá?

Staðreyndin er þessi: Fólk er almennt gott og leitast eftir því að vernda sig og fjölskylduna og sinna frumþörfunum. Vont fólk er í miklum minnihluta en með ofbeldi ræður það alltof miklu.

 


Sterkt landslið, góðir þjálfarar

Geir Þosteinssyni, formanni og öðrum stjórnarmönnum KSÍ verður í framtíðinni minnst fyrir tvennt. Annars vegar að hafa ráðið Lars Lagerbäck sem þjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og hins vegar fyrir að gefa honum aðstöðu, frið og tíma til að sinna starfi sínu og að hafa valið Heimi Hallgrímsson sem aðstoðarmann. 

Nú, þegar sú staðreynd blasir við að landsliðið fer á Evrópumótið í fótbolta í Frakklandi á næsta ári ber okkur að þakka þessum mönnum ekki síður en landsliðsmönnunum.

Næst þegar ég sé Geir mun ég taka ofan svo framarlega sem ég verð með eitthvurt pottlok á höfðinu.


mbl.is „Draumurinn rættist“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grípur SUS til vopna eða eru samtökin í feluleik?

Í sannleika sagt ber Samband ungra Sjálfstæðismanna og aðildarfélög þeirra ekki síst ábyrgð á slakri stöðu Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum. SUS hefur á undanförnum árum verið ótrúlega sviplaust í pólitískri umræðu og raunar svo að samtökin sjást varla nema í undantekningatilvikum. Margir hafa velt því fyrir sér hvers vegna Heimdallur og önnur félög séu í felum í stjórnmálaumræðunni.

Hér áður fyrr gagnrýndu eldri Sjálfstæðismenn ungliða helst fyrir róttækni og heiftarlega baráttu um formennsku og stjórnin. Hvort tveggja skilaði hins vegar gríðarlegum fjölda nýrra félaga, ungs fólks sem í kjölfarið kynntist starfi flokksins í fyrsta sinn. 

Vonandi verður ný stjórn SUS til þess að ungir Sjálfstæðismenn vakni af dvala sínum og taki að kynna stefnumál flokksins fyrir ungu fólki. Þeirra er ábyrgðin enda enda hefur stuðningur yngstu aldurshópanna aldrei verið minni hjá Sjálfstæðisflokknum ef marka má skoðanakannanir. Nú er kominn tími á breytingar á starfsháttum hjá SUS. Hjá ungu fólki á sjálfstæðisstefnan að vera í stöðugri endurskoðun og SUS á að hafa forystu um breytingar.


mbl.is Laufey Rún kjörin formaður SUS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er það sem borgarstjórinn skilur ekki?

FlóttamennÉg er ekki alveg viss um að ég skilji þessi ummæli. Átakanlegar fréttaljósmyndir hafa a.m.k. orðið til þess t.d. í Bretlandi þá virðist ríkisstjórnin þar hafa breytt um stefnu og í staðinn fyrir að einblína á aðstoð við flóttamannabúðir í löndunum í kringum Sýrland að þá ætlar breska ríkisstjórnin núna að taka á móti þúsundum flóttamanna.

Þannig að ef myndir af raunveruleikanum leiða til þess að þá held ég að það sé bara vegna þess að hjörtu okkar taka auðvitað öll kipp við að sjá svona myndir og þetta er bara hluti af veruleikanum sem flóttamenn eru að glíma við og þann veruleika þurfum við að horfast í augu við.

Þetta segir borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, í viðtali við Ríkisútvarpið í dag. Í því leyfir hann sér að snúa út úr orðum forsætisráðherrans og segist ekki skilja þau. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra sagði fyrr í viðtali við Ríkisútvarpið:

Vegna þess að þar eru menn að tala um svo lítið brot af heildarumfangi vandans að það jafnvel færir athyglina frá því fólki sem er ekki á fréttamyndunum, er ekki á forsíðum blaðanna, en má ekki gleymast og býr við hræðilegar aðstæður sem við verðum að bregðast við.

Hvað er það sem borgarstjórinn skilur ekki? Veit hann ekki að flóttamenn frá Sýrlandi sem komnir eru eða stefna á Evrópu eru sárafáir miðað við alla þá sem eru á flótta í Líbanon, Jórdaníu, Tyrklandi og víðar. Þar er hinn raunverulegi vandi, hinum getur Evrópa auðveldlega tekið á móti, brauðfætt og veitt atvinnu. Hvaða ráð eru þá fyrir hina? Allar milljónirnar sem öfgahópar Isis og ríkisstjórn Assad í Sýrlandi hefur hrakið á flótta. Svo ekki sé talað um hina sem komast hvergi og eru á kafi í óþverranum sem þessir ofstækismenn hafa búið fólki. Þetta skilur borgarstjóri Reykjavíkur líklega ekki.

Fyrir upplausnina í Sýrlandi bjuggu 18 milljónir manna í landinu. Helmingur þeirra hefur hrakist á brott og valdið gríðarlegum vandamálum vegna þess að ekkert ríki sem hefur tekið við flóttamönnum var tilbúið að taka á móti þeim. Meðfylgjandi kort sýnir hvar flóttamenn frá Sýrlandi eru. Níu milljónir manna eru enn í Sýrlandi og stór hluti þeirra kemst hvorki lönd né strönd. Þetta skilur borgarstjóri Reykjavíkur líklega ekki.

Að sjálfsögðu ber Íslendingum skylda til að leggja sitt af mörkum til að leysa flóttamannavandann, ekki bara í Evrópu heldur annars staðar. Það verður ekki gert nema að fé sé veitt til hjálparstofnana og ekki síður til verkefna sem Evrópuþjóðir munu taka að sér til að leysa vandann.

Mikilvægast er að búa fólki góðar og öruggar aðstæður í heimalandi sínu, þar sem það þekkir best og hefur hingað til fóstrað það. Þetta verður ekki gert nema að útrýma ógninni, ofstækinu. Því miður virðist það vera borin von. Arabaþjóðir og ýmsar Evrópuþjóðir hafa verið með loftárásir í nærri því heilt ár á svæðin sem Isis hermdarverkamenn ráða yfir í Sýrlandi og Írak en án nokkurs sýnilegs árangur. Annars staðar eru heimamenn sundraðir og getulausir til að viðhalda þeim ríkjum sem arabíska vorið bylti harðstjórum sínum, einungis til að upp spruttu tugir annarra.

Borgarstjórinn þolir einfaldlega ekki Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn og gerir allt til að niðurlægja forystumenn þessara flokka og berjast gegn því sem þeir leggja til. Út af fyrir sig er það allt í lagi. Vandinn lýtur að þeirri persónu sem starfar í stjórnmálum og hvorki getur né vill starfa með öðrum, er stöðugt í fýlu út í ákveðna hópa. Sá maður á ekki að vera borgarstjóri.

 


Ofbeldi í rituðu máli er keimlíkt því líkamlega

HelgiSennilega vegur misjafn smekkur enn þyngra þegar „lesandinn“ skoðar hina daglegu teiknimynd. En „lesanda“ sem skoðar mynd þar sem leitast er við að sýna (hvort sem það tókst til fulls eða ekki) í senn samúð og illyfirstíganleg vandamál, sem tilraun til fyndni á kostnað þeirra sem við óblíðust örlög búa um þær mundir, verður aldrei gert til hæfis.

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins fjallar í helgarblaði dagsins um tvo menn, Winston Churchill og teiknara Morgunblaðsins. Þann fyrrnefnda þarf ekki að kynna en hinn er að minnsta kosti þrír menn. Einn þeirra teiknaði áleitna mynd sem birtist í blaðinu þann 1. september. Hann uppskar þvílíka dembu og ruddamennsku fjölmargra á fjölmiðlum og masbókinni.

Í Reykjavíkurbréfinu er ofangreind tilvitnun og við hana og annað það sem segir um teiknimynd þarf ekki neinu við að bæta.

Hvernig skyldi nú standa á því að viðbrögð fólks eru oftast skjótari en hugsun þess? Og sú staðreynd að margir eru tilbúnir til að fordæma án þekkingar. Ill orðræða er í raun og veru ekkert frábrugðin ofbeldi. Sumir láta hnefann stjórna ferð þegar þeir halda að þeim sé ofboðið. Er málið er skýrt fyrir ofbeldismönnum illu orðræðunnar og hnefans og þeir ná að skilja málið þá er viðbragði einfaldlega: Úbbs ... Og svo ekki söguna meir.

Aðrir þráast við og nota áfram orðbragð sem foreldrar þeirra hefðu án efa verið afar óhressir með. Ljóst má þó vera að þeir hinir sömu hefðu aldrei talað á þann veg hefðu foreldrarnir átt hlut að máli eða einhverjir aðrir vandamenn eða vinir.

Já, líklegast er best að berja þá sem maður þekkir engin deili á. Ofbeldi dagsins er í rituðu máli og í engu ólíkt líkamlegu ofbeldi. Kjaftháttur og ruddamennska í þjóðfélagsmiðlum er hrikalegt mein. Við því verður ekki hægt að bregðast því fólk skiptist einfaldlega í gott fólk og vont, hið fyrrnefnda er í miklum meirihluta. Hinum er vart viðbjargandi.


Íslendingar unnu Hollendinga með svindli - 5 staðreyndir

deflated footballÍ kvøld vunnu teir 1-0 á Amsterdam Arena – eitt enn størri bragd. Málið skoraði Gylfi Sigurðsson upp á brotsspark tíðliga í øðrum hálvleiki. Dysturin gjørdist eitt sindur lættari fyri Ísland, tá hollendski verjuleikarin Bruno Martins Indi varð rikin av vølli eftir hálvan tíma spæl.

Svo segir í útlenskum fjölmiðli um leik Hollands og Íslands í gærkvöldi. Nokkrir Íslendingar sáu leikinn ytra, flestir þeirra sem heima sátu góndu á sjónvarpskjá. Á meðan vað ritari þessara orða í bíl sínum á leið að norðan eftir að hafa verið í Öskju og Holuhrauni við vísindarannsóknir.

Á masbókina (Facebook) ritaði ég fyrir nokkrum dögum og spurði í einfeldni minni hvort nokkrar líkur væru á því að landinn ynni Hollendinga. Flestir sem svöruðu voru yfirmáta bjartsýnir og töldu sigur vísan. Þá hripaði ég pistil á bloggsíðuna og var hann fræðileg úttekt á því hvers vegna yfirgnæfandi líkur bentu til sigurs Hollendinga. Við slíkri úttekt átti enginn orð.

Í gærkvöldi þegar ljóst var að hinar fræðilegu staðreyndir höfðu lotið í lægra haldi fyrir raunveruleikanum þurftu margir að hringja í mig og snýta mér upp úr fyrri ummælum. Tvær yndislegar frænkur mína þurftu svo endilega að bætast í þann hóp og rituðu meira segja á masbókina til að minna mig á hvað hafði gerst. Þeim systrum Soffíu og Úllu Káradætrum verð ég endilega að benda á eftirfarandi sem ég skrifaði í pistilinn:

Við erum auðvitað litla Ísland og kraftaverk að landsliðið okkar skuli hafa náð svona langt að vera á þröskuldinum inn í EM. Höldum okkur þó á jörðinni. Ekki er ólíklegt að strákarnir okkar skori mark jafnvel þó þeir verði aðeins 14% með boltann.

Ég hafði sumsé ekki svo mikið meira rangt fyrir mér að ég taldi ekki ólíklegt að landsliðið skoraði í leiknum eitt mark. Það reyndist rétt. Hins vegar voru strákarnir með boltann í 38% leiksins. Hverjir voru þá með boltann meðan strákarnir okkar fundu hann ekki eða misstu hann frá sér? Ha? Ég bara spyr.

Sem hlutlaus fræðimaður verð ég endilega að fá að benda á nokkur atriði sem gerðu það að verkum að Hollendingar töpuðu leiknum sem ég að vísu sá ekki og fylgdist ekki heldur með: 

  1. Dómarinn var hlutdrægur enda vita allir að Serbar og Íslendingar hafa átt mikil og náin samskipti undanfarna áratugi Sum sé hagsmunagæsla dómarans og vildarvinadómgæsla.
  2. Martin Indi, varnarmaðurinn barði ekki Kolbein Sigþórsson. Martin var bara að teygja úr handleggnum og þá þurfti Kolbeinn endilega að skjóta andlitinu fyrir. Og Kolbeinn baðst ekki einu sinni afsökunar á mistökum sínum.
  3. Sagt er að Arjen Robben hafi meiðst og því þurft að fara af leikvelli. Það er rangt. Konan hans var að fara í saumaklúbb og einhver þurfti að passa. Og Arjen, vinur minn, er afar duglegur að passa börnin þeirra fyrir konuna sína. Hann þarf líka að passa á sunnudaginn og kemst ekki einu sinni á leikinn við Tyrki sem áhorfandi, hvað þá að hann getið leikið. Og svo fögnuðu Íslendingar í Amsterdam og á Íslandi. Ótrúlegt skilningsleysi.
  4. Hollendingum er sem kunnugt er afar illa við bleytu. Þeir eyða ótrúlegum fjárhæðum í að halda sjónum sem lengst frá mannabyggð og byggja til þess mikla og háa veggi. Nú, í gær rigndi eins og hellt væri úr fötu. Við það urðu hollenskir afar óöruggir með sig og dómarinn sá ekki einu sinni ástæðu til að fresta leiknum vegna óveðursins.
  5. Vítið var ekki einu sinni víti, greinileg dýfa, sést vel þegar hreyfimynd af atviknu er leikin afar, afar hægt. Birkir Bjarnason lét sig falla viljandi og hann er þekktur fyrir það, þokkapilturinn sá. Hann þóttist líka detta þegar Hollendingar léku á Laugardalsvellinum og auðvitað krækti hann þá í víti rétt eins og nú. Það hljóta að vera einhverjar reglur sem banna mönnum að detta í vítateig andstæðinganna aftur og aftur. Þetta er bara ekki sanngjarnt.

Sko, auðvitað var þessi leikur tómt svindl, það get ég staðfest þó ég hafi ekki enn séð hann, en ég byggi skoðun mína á traustum heimildum. Lárus Ægir vinur minn Guðmundsson á Skagaströnd, var með mér við rannsóknir í Holuhrauni. Hann missti líka af leiknum en segir mér að mikill heppnisstimpill sé á sigri strákanna okkar. Svo bendi ég á hollenska fjölmiðla sem eru með böggum hildar vegna taps sinna stráka. Kunna Íslendingar ekki að biðjast afsökunar? Hvar er nú Ólafur Ragnar eða utanríkisráðherrann?


Þvílíkt rugl í borgarfulltrúa Samfylkingarinnar

Kristín SoffíaEkkert skil ég í öllum þessum strákum sem hlaupa út um víðan völl og sparka í einn bolta. Væri nú ekki skynsamlegra ef allir fengju einn bolta til að leika sér með.

Þetta er nú haft eftir gamalli konu einhvern tímann í árdaga fótboltans á Íslandi. Og allir hlógu og hlógu, fannst líklega sú gamla óskaplega illa að sér í fótbolta.

Löngu síðar, ábyggilega fimmtíu árum eða meir, stendur upp önnur kona sýnu yngri, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, og leggur til að fótboltalið í Reykjavík sameinist í eitt.

Nú bregður svo við að enginn hlær, ekki nokkur maður, rétt eins og sú tilfinningalega gáfa sem hláturinn byggir á, hafi verið tekin af fólki ... Getur þó verið að almenningur sé hreinlega klumsa og velti fyrir sér hvort borgarfulltrúanum sé alvara eða hvenær merkið kemur um að brandarinn sé fullsagður og tími kominn til að hlæja. Vonandi heldur fólk ekki niðri í sér andanum, það gæti verið óhollt til lengdar.

Samkvæmt Viðskiptablaðinu bendir borgarfulltrúinn, Kristín Soffía Jónsdóttir, á að í Kaupmannahöfn sé aðeins eitt fótboltalið í dönsku úrvalsdeildinni. Ugglaust á hún eftir að benda á fleiri dæmi tillögu sinni til stuðnings og auðvitað eiga Íslendingar alfarið að gera eins og aðrar þjóðir.

Samt vekur það athygli að sú sem þetta segir er sama konan, sami Samfylkingarmaðurinn, sami borgarfulltrúinn og sagði einhvern tímann að íslenska þjóðin ætti að sýna múslimum stuðning í verki og hætta að borða svínakjöt ...

Nú bregður svo við að ekki heyrðist nokkur maður hlæja enda tekur fólk ekki eftir svona smámunum stjórnmálamanns. Miklu gáfulegra að hlusta eftir því sem einhverjir Framsóknarmenn spinna af fingrum fram um flóttafólk og hælisleitendur.

Kann þó að vera að almenningur hlusti samt sem áður og þetta sé meðal annars ástæðan fyrir því að Samfylkingin sem komin niður í 9% fylgi í skoðanakönnunum?

Ég þakka svo fyrir matinn í kvöld, íslenskt svínakjöt sem var bara ágætt. Og áfram KR, áfram Fjölnir, áfram Valur, áfram Fram, áfram Leiknir, áfram Fylkir, áfram Víkingur og áfram önnur fótboltafélög í úrvalsdeild karla og kvenna sem og í öðrum deildum. Lifi fótboltinn

Það alveg ótrúlegt að svona rugl rati upp úr einni og sömu konunni og hún hafi ekki vit á að geyma svona með sjálfri sér. Þó er einkennilegur samfylkingarfnykur af þessu rugli og því ástæða til að leyfa sér að skella upp úr. Og allir saman nú ...


Holland-Ísland, veggtennis með fótbolta

BoltiVeggtennis er merkilegt sport. Leikurinn gengur út á að slá tuðru með tennisspaða í vegg og andstæðingurinn á að ná boltanum og gera eins. 

Þegar maður var á aldrinum fimm til fimmtán ára gekk allt út á fótbolta í tilverunni. Þá var sparkað hvar sem auðan blett var að finna og þeir voru miklu fleiri í borginni í þann tíð en núna. Oftast var skipað þannig í lið að tveir voru valdir sem fyrirliðar og þeir völdu sitt á hvað. En það var ekki alltaf svoleiðis, stundum var skorað á einhverja stráka og þeir voru auðvitað taldir aumingjar ef þeir tóku ekki áskoruninni. Stundum voru þeir sem á var skorað aumingjar og stundum töpuðum við ... eins aumingjar.

Einn strákur gat auðvitað ekki keppt við neinn nema sjálfan sig og þá var um að gera að finna vegg og sparkað boltanum í hann svo að segja stanslaust eða þangað til að einhver birtist sem hægt væri að leika við. Þetta var svona sparktennis með fótbolta. Jafnvel tveir gátu spilað á móti hvorum öðrum. Því miður gat boltinn hrokkið aldeilis óvart í gluggarúðuna við hliðina á auða veggnum. Þá var leiknum sjálfhætt og á stundum löngu fyrr, þegar einhver íbúi kom hlaupandi út með hnefann á lofti og hótaði öllu illu. Sumir skilja bara ekki fótbolta.

Og nú kem ég loksins að máli málanna. Allir eru að tala um landsleikinn við Hollendinga í fótbolta á fimmtudaginn. Höfum eitt á hreinu, Hollendingar eru í 12 sæti heimslistans. Ísland er í ... já, sko, 24 sæti. Maður tekur eftir því að strákarnir okkar eru til dæmis ofar en Danir, Bandaríkjamenn, Skotar, Svíar, Japanir og Norðmenn, en landslið þessara þjóða þurfa ekkert sérstaklega góðan dag til að vinna litla Ísland.

Auðvitað vinnum við Hollendinga ... að minnsta kosti vona ég það ... held að við náum alla vega jafntefli ... held þó að leikurinn verði ansi jafn ... hvernig sem úrslitin verða eru þau sigur fyrir okkur ... áfram Ísland ...

Já, já ... við vinnum, annað hvort erða nú. Eða þannig ...

Samt er ég ansi hræddur um að leikurinn verði dálítið eins og veggtennis eða þegar maður sparkar bolta í vegg.

Sko, landsliðið okkar er veggurinn, það liggur í vörn. Fyrir framan eru stórskyttur eins og  Luuk de Jong (PSV), nýja stjarnan Memphis (Manchester United), Klaas-Jan Huntelaar (Schalke 04), Luciano Narsingh (PSV), Quincy Promes (Spartak Moscow), Arjen Robben (Bayern Munich) og Robin van Persie (Fenerbahce).

Og svo eru það miðja Hollendinga, hún er ekki árennileg með einhverja þessara: Ibrahim Afellay (Stoke City), Vurnon Anita (Newcastle United), Davy Klaassen (Ajax), Wesley Sneijder (Galatasaray) og Georginio Wijnaldum (Newcastle United).

Og vörnin er hrikalegur veggur: Daley Blind (Manchester United), Jeffrey Bruma (PSV Eindhoven), Stefan de Vrij (Lazio), Terence Kongolo (Feyenoord), Bruno Martins Indi (Porto), Jairo Riedewald, Kenny Tete (báðir í Ajax) og Gregory van der Wiel (Paris St Germain)

Ef lesandanum hefur ekki komið það til hugar er núna ábyggilega kominn tími til að biðja guð að hjálpa sér.

Jú, jú, landsliðið okkar vann Hollendinga á heimavelli með tveimur mörkum gegn engu. Okkar menn voru 26% tímans með boltann, hinir 74%, þetta var veggtennis með fótbolta.

Íslendingar áttu þó 7 skot á mark, hinir 10. Þó hittu okkar menn markið þrisvar en hinir voru ekki eins nákvæmir, hittu aðeins tvisvar.

Okkar menn fengu tvö horn, hinir fimm. Og dæmt var sextán sinnum á okkar menn en „aðeins“ tíu sinnum á hina.

Jæja, góðir lesendur. Við erum auðvitað litla Ísland og kraftaverk að landsliðið okkar skuli hafa náð svona langt að vera á þröskuldinum inn í EM. Höldum okkur þó á jörðinni. Ekki er ólíklegt að strákarnir okkar skori mark jafnvel þó þeir verði aðeins 14% með boltann.

Hollendingar stóðu sig frábærlega á HM í fyrra enda liðið þeirra stórkostlegt. Ég veit um fjölda manns sem eru á leiðinn á leikinn í Amsterdam. Einn vinur minn fer með alla fjölskylduna, konu og tvo syni. Þeir ætla ekki að verða neinir aumingjar þau landsliðið okkar tapi því Hollendingar eru í uppáhaldi hjá þeim og undir íslensku landsliðstreyjunni eru þeir í appelsínugulri peysu andstæðinganna. Auðvelt mál að skipta ef illa fer.

Og auðvitað verður þetta stórskemmtilegur leikur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband