Frábær Kastljósþáttur um flóttamannavandann

Kastljós kvöldsins 14. september 2015 var verulega gott. Skynsamleg og skipulögð dagskrá um flóttamannavandann sem núna tröllríður Evrópu. Þátturinn var á mannlegu nótunum, byggðist framar öllu á reynslu flóttafólks sem er hrikaleg. Grafíkin um fjölda flóttafólks var til dæmis einstaklega góð, vel útfærð og öllum skiljanleg. Viðtölin voru flest góð, sumum var ofaukið eins og gengur.

Hann var eftirminnilegur sýrlenski læknirinn sem ásakaði forseta Sýrlands fyrir að hafa eyðilagt þjóðfélagið, ríki íslams fyrir það sama. Hann sakaði líka þjóðir heims sem ekki geta tekið á móti fólki sem flýr stríð og alla þá áþján sem fylgir. „What good is a „sorry“ for me and my people?“ sagði hann.

Flestir fyllast undrun yfir flóði flóttamanna til Evrópu, sem þó er aðeins örlítill hluti flóttamanna heimsins. Engu að síður fer Evrópa nærri því á hliðina og greinilegir brestir eru í Evrópusambandinu. Sum ríki bjóða flóttamenn velkomna, önnur þráast við og svo eru þau sem læsa landamærum sínum og byggja upp hatursáróður gegn fólki. Ef að líkum lætur mun Þýskaland standa með flóttamönunum, bjóða þá velkomna, og ... láta þau ríki sem ekki gera það finna fyrir því efnahagslega. Gott hjá Merkel. 

Þegar öllu er á botninn hvolft er Evrópusambandið afar laust í reipunum þrátt fyrir að kommissarar þar og fleiri haldi öðru fram. Þetta er sorgleg staðreynd.

Orð Þóris Guðmundssonar hjá Rauðakrossinum eru einnig eftirminnileg enda skynsamlega mælt. Aðspurður sagði hann að eflaust gætu Íslendingar tekið á móti þúsund flóttamönnum yfir einhvern tíma. Það krefðist þó mikillar skipulagningar. Vonandi láta stjórnmálaflokkar nú af yfirboðum í umræðum um fjölda þeirra flóttamanna sem Ísland getur tekið á móti. Skynsamlegast er að við tökum á móti þeim sem hægt er að sinna með sérþjálfuðu fólki, veita húsnæði, atvinnu og menntun. 

Viðtal var við fjölskyldu sem hefur verið hér í tvo mánuði. Þetta fólk vill ekki vera byrði á þjóðfélaginu. Fjölskyldufaðirinn sagðist framar öllu vilja fá starf við hæfi og ala þannig önn fyrir sínu fólki. Þetta er til mikillar eftirbreytni og ástæða fyrir alla Íslendinga að íhuga, ekki síst þá sem eru á móti því að taka á móti flóttamönnum.

Bestu þakkir fyrir frábæran Kastljósþátt.


mbl.is Á Íslandi er framtíðin björt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langlokustíll Guðmundar Andra og meginreglur

Hér á landi eru jafnaðarmenn ekki í rónni fyrr en þeir eru búnir að stofna nýjan flokk gegn „fjórflokknum“, með þeim árangri að hægri menn hafa stjórnað Íslandi meira og minna alla okkar fullveldistíð; þegar vinstri flokkarnir komust loks til valda þurftu þeir að vísu að endurreisa efnahagskerfið eftir mestu efnahagsófarir Íslandssögunnar, heimatilbúnar að mestu, en sökum þess að vinstri flokkunum tókst ekki, á fjórum árum að færa til betri vegar allt sem aflaga hafði farið á Íslandi öll fullveldisárin – með markvisst málþóf minnihlutans í gangi frá morgni til kvölds og um nætur – þá ákváðu kjósendur að leiða á ný til valda hægri flokkana og refsa vinstri flokkunum.

Þessi 108 orða málsgrein er annað hvort tær snilld eða tóm vitleysa. Hallast einkum að því fyrrnefnda. Man ekki til þess að hafa lesið jafnlanga málsgrein en hana skrifar Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur í Fréttablaðið í dag. Svo er það allt annað mál hvort maður sé sammála því sem þarna kemur fram.

Ég líti mjög upp til Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra, sem hefur skrifað mikið um stíl, rithátt og fleira gagnlegt. Hann segir í kenningum sínum um stíl í greinaskrifum:

1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann. ...

Þessa skoðun sína rökstyður Jónas á afar skilmerkilegan og skýran hátt:

Í kennslubókum blaðamanna er beðið um, að þeir skrifi ekki lengri málsgreinar en 23 orð. Í bókum fyrir sjónvarpsmenn og vefmiðlara er hámarkið sett við 17 orð. Nútímafólk vill ekki lesa eða heyra lengri málsgreinar. AP biður um 16 orða meðaltal.

Farsímar eru að verða tölvur almennings. Þar er skjárinn lítill. Það eykur kröfur til aukins hraða á textanum. Í forritinu Twitter, sem notað er í fjölpósti í farsíma, er hámarksfjöldi stafa 140. Það jafngildir einni 17-23 orða málsgrein. Einni skjámynd í farsíma.

Fólk skrifar oftast vegna þess, að það vill ná til annarra. Það er erfiðara en áður, því að fólk les minna og lætur meira truflast af öðrum tímaþjófum. Verkefni höfundar er að ná athygli fólks og halda henni til enda. Stuttar málsgreinar eru mikilvægt tæki.

Þeir, sem kunna stíl, geta brotið þessa reglu eins og aðrar reglur stílfræðinnar. En þú mátt ekki brjóta hana fyrr en þú veist, hvað þú ert að gera. Þess vegna, 23 orð í málsgrein, takk. Eða færri. Ekki fleiri. Kúnnarnir þínir lesa ekki, heldur skanna þeir.

Ég er þess fullviss að Jónas hefur rétt fyrir sér og Guðmundur Andri gerir mistök með þessum hluta greinar sinnar, jafnvel þó hann viti sitthvað um stíl. Lesandinn skannar yfir textann en nær ekki samhenginu á hraðferð sinni. Engu að síður er þetta vel skrifað hjá höfundinum þó ég sé alls ekki sammála innihaldinu (hafi ég skilið langlokuna rétt).

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur skrifar vikulega rammpólitískar vinstri sinnað greinar í Fréttablaðið. Þann 16. mars á þessu ári fjallaði hann um umdeilt bréf utanríkisráðherra til ESB. Í því ítrekar ráðherrann að landið sé ekki lengur umsóknarríki um aðild. Þá sagði Guðmundur Andri með pólitískum þjósti:

Nú sniðganga þeir sjálft þjóðþingið í meðferð mikilvægasta utanríkismáls lýðveldissögunnar; senda án samráðs við utanríkismálanefnd loðmullulegt bréf sem enginn skilur, órætt og klúðurslegt uppsagnarbréf. Meira að segja málsmetandi þingmenn stjórnarmeirihlutans túlka bréfið sem svo að hér sé ekkert nýtt, bara árétting á því að ekkert sé að gerast. Aðrir túlka það öðruvísi.

Flestir munu nú telja að stíll Guðmundara Andra sé almennt mun betri og skiljanlegri en utanríkisráðnsherrans sem þó er ekki þekktur af rithæfileikum. Utanríkisráðuneytið er líklega ekkert betra í stíl, nema ef vera kynni kanselístíl, það er stjórnskipulegum nafnorðastíl.

Þegar á allt er litið er hugsanlega ekki á forræði Guðmundar Andra að ráðleggja öðrum í stíl.

 

 


Bloggfærslur 14. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband