Piparmynt og aðrar myntir

Í Staksteinum Morgunblaðsins fjallar höfundur um hugsanlega upptöku annarrar myntar í stað krónu. Hann segir meðal annars:

Enginn hafði sagt hagfræðingi né fréttamanni að vextir Seðlabanka evru eru nú -0,2%. Bankinn borgar sem sagt með lánum sem hann veitir! Og hvernig stendur á því. Það er vegna þess að kreppa er á evrusvæðinu, sem Landsbankinn myndi frétta af, sendi hann mann á svæðið á meðan tölvusamband bankans liggur niðri. Menn geta svo þráttað um það, hvort að kreppan sé vegna evru eða þrátt fyrir hana.

• • • •
Atvinnuleysi í evrulöndum er að meðaltali rúm 11% og nær 25% í allmörgum löndum. Atvinnuleysi fólks undir þrítugu er yfir 50% víða þar. Heldur einhver að atvinnuleysingjar séu að mæra lága vexti af því að þeir standi í húsbyggingum?

• • • •
Þessir snillingar ættu í snatri að taka upp piparmynt.

• • • •
Þeir blaðra þá minna rétt á meðan.

Margir eru spenntir fyrir því að taka upp krónu og tala fjálglega um lága vexti. Hugsanlegt er að slíkt geti fylgt til dæmis upptöku Evru eða annarrar myntar. Hins vegar eru efnahagslegar afleiðingar þær að þjóðfélag sem ekki býr við eigin mynt hefur ekki tök á að aðlaga sig í áföllum nema með atvinnuleysi.

Slíkar hliðarverkanir þykja sumum óásættanlegar því atvinnulaus maður borðar ekki fyrir mismuninn á háum og lágum vöxtum því tekjurnar vantar. Líklega fá margir óbragði í munninn við tilhugsunina en þá má auðvitað grípa til piparmyntar, hún kostar lítið.


Nú segjast Steingrímur og Árni Páll geta miklu betur en allir aðrir

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að stjórnvöld hafi í dag búið til „þykjustumynd sem sýni gríðarháar fjárhæðir í stöðugleikaframlag, með því að telja til framlaga hluti sem eru ekki framlög í nokkrum skilningi.“
Þetta kemur fram í stöðufærslu á Facebook-síðu Árna Páls sem telur að með þeirri leið sem verið sé að fara við skuldaskil föllnu bankanna – að veita þeim undanþágu frá höftum að uppfylltum ýmsum stöðugleikaskilyrðum – sé verið að „gefa erlendum kröfuhöfum hundruði milljarða í afslátt af stöðugleikaskatti.

Þetta er endursögn dv.is af skoðun Árna Páls Árnasonar, þingmanni og fyrrverandi ráðherra í vinstristjórn Jóhönnu og Steingríms. Honum ferst rétt eins og Birni hvíta Kaðalsyni sem frá segir í Njálu en hann þótti frekar grobbinn og lítt til stórræða.

"Svo mun þér reynast," sagði Björn, "að eg mun ekki vera hjátækur í vitsmunum eigi síður en í harðræðunum."

Þannig er nú með þá stjórnvitringa sem skipuðu lið vinstri stjórnarinnar að núna þykjast þeir eiga hugmyndir og frumkvæði og geta gert allt miklu betur en allir aðrir. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur unnið í tvö ár að vandamálum sem vinstri stjórnin skapaði og loksins er komin lausn þá standa þessir menn upp og hafa allt á hornum sér. Segjast geta gert miklu betur. 

Í dálknum Skjóðan í Fréttablaðinu í dag segir:

Þeir félagarnir [Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Magnússon] afhentu kröfuhöfum á þriðja hundrað milljarða með beinum gjafagjörningi á kostnað viðskiptavina bankanna tveggja. Síðan hefur skotleyfið skilað þessum bönkum um 50 milljarða hagnaði á ári hverju. Nú hefur slitastjórn Glitnis boðið gjöfina sem meginhluta af sínu stöðugleikaframlagi, bankann sem byggir verðmæti sitt á herför gegn viðskiptavinum sínum og eigum þeirra.

Hví fór ríkið ekki sömu leið með Arion banka og Íslandsbanka og farin var með Landsbankann? Hví voru fyrrnefndu bankarnir gefnir slitabúum ásamt skotleyfi á viðskiptavini í stað þess að gefið væri út skuldabréf milli nýja bankans og þess gamla (í krónum en ekki gjaldeyri!) líkt og gert var með Landsbankann?

Ekki verður séð að ráðherrarnir hafi haft umboð til að gefa eigur ríkisins og út frá nýlegu dómafordæmi Hæstaréttar getur vart leikið vafi á að um umboðssvik var að ræða. Raunar verður ekki betur séð en að þessi umboðssvik Steingríms J. og Gylfa gegn þjóðinni hafi verið mun alvarlegri en þau umboðssvik sem verið er að dæma menn í margra ára fangelsi fyrir í ýmsum hrunmálum.

Þetta er sá sami Steingrímur og ætlaði að keyra í gegn um Alþingi óséðan samning í Icesave-deilu Íslands við Bretland og Holland – samning sem hefði kostað þjóðina 200 milljarða hið minnsta. Já, ekki skorti ráðherrann örlæti gagnvart kröfuhöfum, jafnvel þegar um ólögvarðar kröfur var að ræða.

En nú lýsir hann áhyggjum sínum yfir fjárhæð stöðugleikaframlagsins, ráðherrann sem vildi gefa erlendum kröfuhöfum á fimmta hundrað milljarða þó að þjóðin hafi raunar náð að takmarka tjónið með því að hafna með öllu Icesave-samningum.

Er hægt að taka nokkurt mark á þeim sem klúðruðu bönkunum í hendur útlendinga. Eru þeir bestu mennirnir til að gagnrýna aðgerðir núverandi ríkisstjórnar? Ef til vill, en rökin þessara manna eru hvorki góð né traustvekjandi. Tími Árna Páls, Steingríms og Gylfa er liðinn ... sem betur fer.

 

 


mbl.is „Við settum kúluna í byssuna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Cameron biðjast afsökunar á hryðjuverkalistanum?

Það er að sjálfsögðu ánægjuefni að forsætisráðherra Stóra-Bretlands, David Cameron, skuli koma til Íslands. Ef tilgangur hans er að bæta nágrannasambandið og taka samvinnu í þessum heimshluta alvarlega er koma hans af hinu góða. Án efa ætti hann að byrja á því að biðja íslensku þjóðina afsökunar á því að forveri hans í embætti, Gordon Brown, skyldi beita hryðjuverkalöggjöf gegn staðföstu bandalagsríki í bankakreppunni. Einnig gæti hann dregið til baka hina sérkennilegu ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar um að neita að taka þátt í loftferðaeftirliti NATO á norðurslóðum og að senda ekki eitt einasta skip flota hennar hátignar til að taka þátt í eftirlitsferðum þar á undanförnum árum.

Þetta er úr grein í Morgunblaði dagsins eftir Angus Brendan MacNeil, þingmann skoska Þjóðarflokksins á breska þinginu. Honum mælist vel og tekur þarna á þeim málum sem skipta miklu í samskiptum Íslands og Bretlands.

Íslenska þjóðin bíður enn eftir að Bretar biðjist afsökunar á að hafa skilgreint Ísland sem hryðjuverkaríki haustið 2008. Samskipti landanna geta aldrei orðið sömu fyrr Bretar geri sér grein fyrir því hversu ódrengilega og óheiðarlega var að verki staðið.

Eftir að hafa fylgst með breskum stjórnmálum í langan tíma tel ég nær útilokað að David Cameron taki upp á því fyrir hönd breskra stjórnvalda og þjóðanna að biðjast afsökunar. Bretar gera ekki mistök hversu heimskulegar gerðir þeirra eru.

Ekki einu sinni hálfsósíalistinn Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra gat um daginn beðist afsökunar á því er hann og ríkisstjórn hans drógu Breta inn í Íraksstríðið á fölskum forsendum. Hann sló í og úr eins hans er venja.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Angus Brendan MacNeil, þingamaður, og er ekki efi í mínum huga að Skotar muni reynast góður nágranni:

Ég man vel eftir heimsóknum ráðherra úr ríkisstjórn Verkamannaflokksins til Íslands þar sem þeir töluðu vinsamlega. Þegar þeir komu aftur til Lundúna var komið annað hljóð í strokkinn, því þá hreyktu þeir sér af því í fjölmiðlum að þeir hefðu krafist þess að Íslendingar endurgreiddu innistæðurnar.

Englendingar skilja fæstir önnur tungumál en ensku en Íslendingar skilja ensku og tóku eftir misræminu. Þetta varð til þess að prentaðir voru frægir t-bolir með myndum af þeim Brown og Darling. Svo fór að lokum að Ísland vann málið fyrir EFTA-dómstólnum. Nú vona ég að framkoma Lundúnastjórnarinnar verði betri. Sá dagur kemur að Skotland mun reynast Íslendingum betri nágranni.


Draumspakur maður spáir fyrir um vetrarveðrið

Draumspakur maður og fjölfróður hefur haft samband við þann sem hér lemur á lyklaborð og veitt upplýsingar um veðurfar vetrarins. Hann hefur oft spáð fyrir um veður, jarðskjálfta, eldgos, kvennamál og annars konar óáran hér á landi. Alltaf hefur hann haft rétt fyrir sér eins og lesendur muna án efa.

Þessi maður spáði fyrir um síðustu Heklugos, gosið á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli, norðvestlægu lægðirnar sem kældu landið frá síðustu áramótum og langt fram á sumar, sagði til um útbreiðslu Spánarsnigilsins, spáði FH-ingum Íslandsmeistaratitlinum í fótbolta og fleira mætti upp telja. Að vísu var hann í nokkrum tilfellum heldur seinn að tilkynna mér um spár sínar en þá, merkilegt nokk, höfðu þær ræst - undantekningalaust.

Sá draumspaki veit lengra en garnir og fleiri innyfli annarra spákarla og -kerlinga ná. Því er vissara að leggja við eyrun ... í þessu tilviki, glenna upp glyrnurnar.

September: Frekar vætusamt og leiðinlegt.

Október: Frekar kalt, rigning af og til, snjóar í fjöll og á láglendi norðanlands og austan. Fyrsta snjókoman suðvestanlands verður laugardaginn 24. október.

Nóvember: Frekar kalt, rigning af og til, snjóar víða um land, annars staðar ekki, víða mun rigna þegar ekki snjóar. Snjó tekur upp þegar hlýnar. Slydda af og til suðvestanlands en auð jörð á suðurlandi nema þegar snjóar. Hitastigið mun rokkar upp og niður. Frekar kalt verður þegar frystir. Þegar vindur blæs getur orðið hvasst.

Desember: Meiri líkur á snjókomu eftir því sem líður á mánuðinn. Ef ekki mun rigna, þó aldrei í frosti. Þegar snjóar verður það sjaldnast þegar hitastig er hátt. Sólin verður lágt á lofti en það lagast eitthvað eftir 21. desember. Að næturlægi verður frekar dimmt.

Janúar: Miklar líkur eru á að kalt verði í janúar. Allan mánuðinn verður frost á Eyjafjallajökli. Kalt verður í norðlægum áttum en síður er vindur blæs af suðri. Í norðaustanáttum er hætta á snjókomu norðanlands. Snjóflóð verða þar sem hlíðar eru brattar nema þar sem ekkert hefur snjóað.

Febrúar: Kalt verður allan mánuðinn nema þegar hlýtt er. Sundum mun rigna þó ekki í þegar snjóar. Hætt er við hálku þegar kólnar eftir rigningu. Norðurljósin munu sjást vel einkum að næturlagi þegar skýjafar er í lágmarki.

Mars: Í lok mars veður bjartara en í byrjun nema að næturlægi. Frekar kalt verður allan mánuðinn en þó verða nokkrir dagar hlýrri en aðrir. Stundum mun sjást til fjalla, einkum í heiðskíru veðri.

Apríl: Kalt verður í apríl nema þegar hlýrra verður. Hlýjast verður alltaf sunnan megin fjalla og einnig undir húsveggum sem snúa í suður. Húsaflugur lifna við. Fjölmiðlar fara að ræða um páskahret og vorhret sérstaklega þegar lítið er í fréttum. Vorið getur verið kalt verði það ekki hlýtt og sólríkt.

Að lokum sagðist sá draumspaki vera með stórfrétt. Ólafur Ragnar Grímsson verður ekki forseti út árið 2016.

 


mbl.is Búist við mildum vetri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarna gónir svo náunginn í nepjunni ...

MagniHversu latir geta ferðamenn verið? Myndin sem fylgir frétt af málarekstri milli þyrlufyrirtækja vakti athygli mína. Hún er tekin af hinum frábæra ljósmyndara Morgunblaðsins, Árna Sæberg. Frekar dapurleg mynd.

Á myndinni hefur þyrla tyllt sér á eldfellið Magna á Fimmvörðuhálsi og út gekk útlendur ferðamaður með sólgleraugum í mittisjakka, gallabuxum og lakkskóm. Ekki beint tilbúinn til útiveru. Þarna gónir svo náunginn í nepjunni á umhverfið, með hendur í vösum og verður án efa guðslifandifeginn að komast aftur inn í þyrluna, engu nær. Gortar svo af því að hafa staðið á íslensku eldfjalli.

Hversu miklu tilkomumeiri hefðu upplifun mannsins ekki verið hefði hann komið gangandi að eldstöðvunum, að norðan eða sunnan, skiptir ekki máli, þetta er rosaleg sjón (breathtaking hefði lati kallinn sagt).

Sem betur fer er snjór yfir öllu, þó hann festist ekki á eldfellinu, og því án efa fátt um göngumenn. Líklegast hefðu þeir grýtt þyrluna fyrir að lenda þarna, að minnsta kosti látið flugmanni heyra það óþvegið.

Svona er ferðaþjónustan ... Við þessu er lítið að gera nema hvetja þyrlufyrirtækin til að taka tillit til ferðafólks á jörðu niðri. Hávaðinn í þessum tækjum er nefnilega gríðarlegur.


mbl.is Helicopter of almennt orð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var einkavæðing bankanna ástæðan fyrir hruninu?

Það leggur okkur ríkar skyldur á herðar ef að Íslandsbanki færist í hendur ríkisins, sérstaklega þegar við völd situr ríkisstjórn þeirra flokka sem eiga Íslandsmet, kannski Evrópumet eða heimsmet í spillingu við sölu ríkisbanka.

Þetta sagði Árni Páll Árnason, þingmaður, fyrrum ráðherra og sem stendur formaður Samfylkingarinnar, í umræðum á Alþingi 20. október 2015.

Þegar rök þrýtur gera margir eins og tíðkast í athugasemdardálkum fjölmiðla, láta leirinn vaða, kasta skítnum í allar áttir. Illa gert fólk heldur nefnilega að upphafning sjálfsins byggist á því að niðurlægja aðra. Með því er málefnaleg umræða horfin og ekkert eftir nema ómerkilegur sandkassaleikur.

Stuttu eftir hrunið var mikið um það rætt að breyta pólitískri umræðuhefð hér á landi, láta af illdeilum og nota málefnaleg rök í staðin. Vont að Árni Páll Árnason taki slíkar breytingar ekki í mál.

Úr því að formaður Samfylkingarinnar tekur ekki sönsum en spriklar í gamalli skítlægri umræðuhefð er ekki úr vegi að skoða enn einu sinni staðreyndir um einkavæðingu bankanna.

Spurningin er þessi: Var einkavæðing bankanna ástæðan fyrir því að þeir fóru á hausinn og voru þar með valdir að hruninu?

1.

Ein mikilvægasta stofnun Alþingis er Ríkisendurskoðun. Munum að hún lýtur ekki framkvæmdavaldinu heldur löggjafarvaldinu. Enginn getur haldið því fram með neinum rökum að stofnunin sé vasanum á stjórnvöldum á hverjum tíma og framleiði fyrirfram ákveðnar niðurstöður. Hún nýtur einfaldlega óskoraðs sjálfstæðis og fer vel með það. 

Í Desember 2003 gaf Ríkisendurskoðun út skýrsluna „Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003. Þetta er afar merkileg skýrsla og raunar sú eina sem gerð hefur verið á einkavæðingu bankanna. 

Enginn hefur gagnrýnt úttektina. Það sem merkilegra telst er að þeir sem hafa hnýtt í einkavæðingu bankanna gera það ekki með rökum úr skýrslunni. Jafnvel Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, getur ekki stuðst við eitt einasta orð í skýrslu Ríkisendurskoðunar í ásökunum sínum um spillingu og hann reynir það ekki einu sinni. Frekar notar hann frumsamdar ávirðingar sem auðvitað styðjast ekki við sannleikann.

2.

Jú, bankarnir féllu, en var það vegna þess að þeir höfðu verið einkavæddir? Margir halda því fram.

Það gleymist þó að Glitnir var ekki ríkisbanki og hafði aldrei verið, ekki heldur forverar hans. Hann var stofnaður sem Íslandsbanki árið 1990 en ári áður höfðu einkabankarnir Iðnaðarbankinn, Alþýðubankinn og Verslunarbankinn keypt hlut ríkisins í Útvegsbanka Íslands

Var þá hrunið vegna einkavæðingar tveggja ríkisbanka? Í áðurnefndri úttekt Ríkisendurskoðunar voru engar athugasemdir gerðar vegna þessa þó hún segi að um sölu á ráðandi hlut í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands:

 „... verði að teljast óheppilega. Í fyrsta lagi var ekki komin reynsla á þá söluaðferð sem valin var og í öðru lagi gaf hún minni möguleika á að viðhalda samkeppni milli áhugasamra kaupenda.

Þetta er eiginlega það bitastæðasta sem Ríkisendurskoðun hafði um einkavæðinguna að segja. Engin spilling fannst, ekkert tortryggilegt annað en þetta með dreifða eignaraðild. Engu að síður voru um 32% Landsbanka Íslands í eigu annarra en tíu stærstu hluthafanna.Þvert á þetta talar Árni Páll Árnason um heimsmet í spillingu vegna einkavæðingar. Varla verður fátt um svör þegar hann er spurður um rökin fyrir fullyrðingu sinni. Sumir eru vanir að tala sig út úr vandræðum.

3.

Einkavæðing bankanna var eðlilegur þáttur í framþróun þjóðfélagsins. Fyrirkomulagið sem gilti áður var gjörsamlega gagnslaust. Ekki nokkur maður með viti vill fara aftur til þeirra ára er þingmenn sátu í bankaráðum og bankastjórar voru skipaðir pólitískt.

Um leið ættu allir að vita að bankar eru í einkaeigu víðast um öll lönd, engin krafa hefur verið gerð um breytingar á því fyrirkomulagi. Vandinn í bankarekstri, eins og í öðrum rekstri, er að misjafn sauður er í mörgu fé. Einkavæðing bankanna mistókst ekki, en þeir sem eignuðust þá og ráðandi hluti í þeim fóru með þá á hausinn. Svo einfalt er málið.

Það tíðkasta að tala um spillingu jafnvel gjörspillingu, sérstaklega í stjórnkerfinu ef ekki líka á Alþingi. Þannig tala aðeins rökþrota fólk sem reynir með öllum ráðum að upphefja sjálft sig. „Nei, ég er sko ekki spilltur það eru allir hinir sem eru vondir og spilltir.“

Einkavæðing ríkisbankanna tveggja var ekki ástæðan fyrir hruninu. Ekki frekar en það sé bílaframleiðandanum Toyota að kenna að ökumaðurinn í Yaris bílnum var fullur og olli stórslysi. Sé svo er öllu snúið á hvolf, rangt verður rétt og rétt verður rangt. Haldi Árni Páll Árnason slíku fram þá er það aðeins tímabundin skoðun.

 


Þögn um einkavæðingaráform fjórflokksins í borgarstjórn

FrettablaðiðSetjum nú sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn væri í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Ímyndum okkur jafnframt að fulltrúar hans myndu segja si svo:

Á mörgum stöðum í borginni eru leikskólar, skólar og frístundaheimili á sama blettinum og kannski ekki hagkvæmt að vera með fullbúin eldhús að framleiða mat á öllum þessum stöðum.

Allir vita að um leið og þessi tillaga er lögð fram munu koma hávær mótmæli frá Samfylkingunni, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og Pírötum, en þetta er einmitt fjórflokkurinn hinn eini og sanni, sá sem í raunveruleikanum myndar meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Og forkólfar hans munu segja eitthvað á þessa leið:

Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu: Hér er enn og aftur verið að vildarvinavæða rekstur borgarinnar og nú hjá þeim sem minnst mega sín, börnunum í leik- og grunnskólum.

Sóley Tómasdóttir, Vinstri græn: Einkavæðing í mat fyrir leikskóla og grunnskóla borgarinnar mun hafa ófyrirséðar afleiðingar á heilsufari barna.

Björn Blöndal, Björt framtíð: Við mótmælum einkavæðingunni vegna þess að hún mun bitna á börnunum.

Halldór Auðar Svansson, Pírötum: Hér er ekki verið að hugsa um börnin, bara fjármál borgarinnar.

Í kjölfarið mun svo fylgja fjölmiðlafár af besta tagi; viðtöl við þessi fjögur, viðtöl við næringafræðinga, skólastjórnendur í nágrannalöndunum, presta, félagafræðinga, sálfræðinga, stjórnmálafræðinga, foreldra af réttu tagi og fleiri og fleiri gáfumenni sem öll munu með fjölbreyttum rökum leggjast gegn einkavæðingu á mat fyrir leikskóla og grunnskóla í Reykjavík. Gott ef Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður, muni ekki blanda sér í umræðuna með háværum hætti eins og honum er best lagið.

Látum nú sögunni lokið og tökum á raunveruleikanum.

Í Fréttablaðinu í dag er forsíðufrétt og er fyrirsögnin þessi: „Skoða útvistun og sameiningu mötuneyta“. Í henni kemur fram að spara megi allt að hálfan milljarð króna sé þjónustan boðin út.

Til að óbreytt almúgafólk skilji ofangreint er nauðsynlegt að taka það fram að orðið „útvistun“ er snyrtilegt og huggulegt orð fyrir einkavæðingu.

Formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur er samfylkingarmaðurinn Skúli Helgason. Í frétt blaðsins segir:

Á mörgum stöðum í borginni eru leikskólar, skólar og frístundaheimili á sama blettinum og kannski ekki hagkvæmt að vera með fullbúin eldhús að framleiða mat á öllum þessum stöðum.“ Skúli bætir við að einnig sé erfitt að sumum stöðum að manna stöður í mötuneytunum og sameining eða útvistun gæti verið lausn á þeim vanda.

Hér er komið að rúsínunni í pylsuendanum. Þrátt fyrir forsíðufrétt í Fréttablaðinu um hugmyndir um einkavæðingu á þjónustu borg er engin umræða um hana. Hávær þögn í þeim stjórnmálaflokkum og fylgjendum þeirra sem í dag fordæma hugsanlega ríkisvæðingu Íslandsbanka.

Þögn.

 


Svandís, ertu hætt að drekka áfengi á þingfundum?

Hvers vegna enda allar kjaraviðræður sem hæstvirtur ráðherra ber ábyrgð á í illdeilum?

Þessa spurningu bar Svandís Svavarsdóttir, alþingismaður Vinstri grænna og fyrrum umhverfisráðherra, fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hún var að ræða um kjaraviðræður og stöðuna í þeim og spurningunni var beint til Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Eftir hrunið komu fram háværar raddir um að breyta þyrfti umræðuhefð í íslenskum stjórnmálum, taka málefnalega á hlutum, hætta persónulegum árásum og illdeilum. Ég man ekki betur en að Svandís Svavarsdóttir hafi verið hlynnt þessu, það getur hins vegar verið misminni enda bendir ofangreind spurning úr fyrirspurnartíma á Alþingi ekki til þess.

Þeir sem fylgjast með umræðum á Alþingi átta sig á einni mikilvægri staðreynd. Harðir andstæðingar ríkisstjórnarinnar leita allra ráð til að berja á ríkisstjórninni, ekki málefnalega heldur persónulega á einstökum ráðherrum og þingmönnum.

Þessi pólitík er hreinlega ógeðsleg og segir meira um þá sem hana iðka en hina sem fyrir verða. Tilgangurinn er auðvitað að stuðla að pólitískri aftöku.

Fyrir Svandísi Svavarsdóttur, þingmann og fyrrum ráðherra, hefði verið málefnalegra að ræða kjaramálin á lausnamiðuðum forsendum. Ef til vill er það til of mikils mælst en það er engu að síður sjálfsögð krafa.

Svandís spurði svo í áðurnefndum fyrirspurnartíma eitthvað á þessa leið: „Hvað er það í kröfum þessara stéttarfélaga sem efnahags- og fjármálaráðherra telur ósanngjarnt?“

Á móti má spyrja álíka gáfulegrar spurningar: Svandís, ertu hætt að drekka áfengi á þingfundum?

Báðar þessar spurningar eru fram settar til að gera lítið úr viðmælandanum. Í báðum tilfellum má draga illgjarnar ályktanir af svörunum.

Svona trix eru ef til vill boðleg í ræðukeppnum í menntaskóla en ekki á Alþingi og svona framkoma er Svandísi Svavarsdóttur, alþingismanni, síst af öllu til sóma.

Auðvitað getur þaulreyndur þingmaður kjaftað sig út úr þessari gagnrýni minni og þóst koma af fjöllum þegar hún er sökuð um ómálefnalega framkomu.

Hitt mun hún þó aldrei geta skýrt, hversu mikið sem hún masar. Hún hefur ekki lagt fram neina lausn á þeim kjaradeilum sem nú standa yfir. Að minnsta kosti ekki þannig lausn sem hún hefði samþykkt þegar hún var sjálf ráðherra í ríkisstjórn Íslands.


Markmaður heldur ekki markinu hreinu, nema hann sé einn í liði

BoltiTékkneski markvörðurinn Petr Cech sem leikur með Arsenal náði merkum áfanga þegar hann hélt marki sínu hreinu í leik Arsenal gegn Watford í gær. Cech hélt þá marki sínu hreinu í 171. sinn og varð þar af leiðandi sá markvörður sem hefur haldið marki sínu oftast hreinu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Ofangreinda vitleysu má lesa í frétt mbl.is. Má vera að Pétur hinn tékklenski hafi leikið í 171 mínútu án þess að fá á sig mark. Hins vegar er útilokað að hann hafi haldið marki sínu hreinu „í 171. sinn ...“ eins og segir í fréttinni. Svo marga leiki hefur hann ekki leikið með Arsenal enda nýkominn til liðsins frá Chelsea þar sem hann sannarlega fékk á sig nokkur.

Svo er það hitt. Í einu fótboltaliði á leikvelli eru ellefu menn í einu. Þeir verjast og sækja eftir því sem kostur er. Vilji svo til að liðið skori mark er það framtak ekki að öllu leyti þeim að þakka sem síðastur samherja sparkar boltanum í áttina að markinu, nema hann sé einn í sínu liði, sem aldrei gerist.

Sé liðið svo heppið að fái ekki á sig mark er það ekki að öllu leyti markmanninum að þakka nema því aðeins að hann hafi engan samherja á vellinum, sem aldrei gerist.

Þar af leiðandi er rangt að hampa einum einstaklingi í fótboltaliði framar öðrum. Liðsheildin skiptir öllu máli. Boltinn færist fram á völlinn milli samherja, oft tilviljunarkennt en líka samkvæmt ákveðnu kerfi. Að lokum þarf einhver einn að pota í boltann svo hann fari yfir marklínuna. Fátítt er að tveir menn eða fleiri sparki boltanum samtímis í netið, raunar hefur það aldrei gerst nema kannski í gamla daga fyrir framan bílskúrshlera í Hlíðunum.

Markmaður er fjarri því einn. Fyrir framan hann eru tíu samherjar. Þeir eiga sinn þátt í því að hann fær ekki á sig mark og jafnvel má kenna þeim um skori andstæðingarnir mark.

Þess vegna er það einfaldlega rangt að Petr Cech, markvörður hins ágæta enska fótboltaliðs, sem ég hef haldið með frá barnæsku, hafi haldið mark sínu. Síst af öllu í 171 skipti eins og skilja má af frétt mbl.is.

Utan vallar gengur íþróttin út á að hossa og hampa einstaklingum í liði rétt eins og samherjarnir skipti engu máli. Vissulega eru samherjarnir misjafnir að getu og dagsformið er misjafnt. Fjölmiðlarnir lifa þó á svona fréttamennsku


mbl.is Cech hefur oftast haldið markinu hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veljum betri stað fyrir nýjan Landspítala

nyr_landsspitali_498x230Nýr Landspítali mun gjörbreyta ásýnd Skólavörðuholts, gera það ljótt og ómanneskjulegt. Þar er verið að búa til borgarvirki mitt í grónu hverfi. Hugsandi fólk veltir því óhjákvæmilega fyrir sér hvað þurfi að gera þegar borgaryfirvöld og ríkisvald velja stað fyrir spítalann.

Hér eru nokkur atriði:

  1. Fellur skipulagið inn í umhverfið sem fyrir er? Svar: Nei
  2. Eru verður skipulagið til bóta? Svar: Nei!
  3. Er skipulagið fallegt fyrir borgarbúa? Svar: Nei!
  4. Mun skipulagið hafa góð áhrif til framtíðar? Svar: Nei!
  5. Er almenn ánægja með skipulagið? Svar: Nei!

Ég styð áskorun samtakanna um Betri spítala á betri stað. Þau hafa birt heilsíðu auglýsingu í dagblöðum þar sem skorað er á Alþingi og ríkisstjórn að finna Landspítalanum betri stað. Samtökin eru með ágæta vefsíðu sem áhugavert er að skoða.

Undir auglýsinguna skrifar margt gott og vandað fólk, til dæmis læknar, hjúkrunarfræðingar, hagfræðingar,lyfjafræingar, iðnaðarmenn, viðskiptafræðingar, verkfræðingar, sölumenn, sjúkraþjálfarar, námsmenn, skrifstofufólk, arkitektar, húsmæður og fleiri og fleiri. Sem sagt, þverskurður af þjóðfélaginu.

Textinn í auglýsingunni er sannfærandi (þó hann sé frekar fljótfærnislega skrifaður). Hann er svona (ég leyfði mér að laga örlítið uppsetninguna, stöku villur og nota feitletrun):

Sterk rök benda til að ódýrara, fljótlegra og betra verði að byggja nýjan Landspítala fræa grunni á besta mögulega stað, í stað þess að byggja við og endurnýja gamla spítalann við Hringbraut.

Skorað er á stjórnvöld að láta gera nýtt staðarval með opnum og faglegum hætti.

Meðal þess sem þarf að skoða og meta er eftirfarandi:

    1. Stofnkostnaður og rekstrarkostnaður „bútasaumaðs“ spítala við Hringbraut vs. nýs spítala á betri stað
    2. Áhirf hækkandi lóðaverðs í miðbænum
    3. Umferðarþungi og kostnaður við nauðsynleg umferðarmannvirki
    4. Heildar byggingartími
    5. Ferðatími og ferðakostnaður notenda spítalans eftir staðsetningum
    6. Hversu aðgengilegir bráðaflutningar eru með sjúkrabílum og þyrlum
    7. Hversu góð staðsetningin er miðað við byggðaþróun til langs tíma litið
    8. Áhrif betra umhverfis og húsnæðis á sjúklinga og starfsfólk
    9. Minnkandi vægi nærveru spítalans við háskólasvæðið eftir tilkomu Internetsins
    10. Mikilvægi þess að geta auðveldlega stækkað spítalann í framtíðinni því notendum hans mun stórfjölga næstu áratugi.

Samtök áhugafólks um Betri spítala á betri stað vilja, eins og meirihluti landsmanna, að byggður verði nýr spítali á besta mögulega stað. Með því vinnst margt.

    1. Það er fjárhagslega hagkvæmt því selja má núverandi eignir sem losna, þörf fyrir umferðarmannvirki verður minni og árlegur kostnaður lægri. Núvirt hagræði er yfir 100 milljarðar króna.
    2. Það er fljótlegra að byggja á opnu aðgengilegu svæði.
    3. Umferðarálag minnkar í miðbænum. Það verða um 9.000 ferðir að og frá sameinuðum spítala á sóllarhring þar af 100 ferðir sjúkrabíla og 200 í toppum og því þarf hann að vera staðsettur nær miðju framtíðar byggðarinnar.
    4. Gæði heilbrigðisþjónustunnar vaxa og batahorfur batna. Gott húsnæði og fallegtumhverfi flýtir bata sjúklinga og eykur starfsánægju og mannauðurinn vex og dafnar.
    5. Aðgengi notenda batnar og ferðakostnaður lækkar. Því styttri og greiðari sem leiðin er á spítalann fyrir sjúkrabíla, þyrlur og almenna umferð, því betra.
    6. Góðir stækkunarmöguleikar eru gríðarlega verðmætir. Notendum spítalans mun stórfjölga á næstu áratugum og fyrirséð að hann þarf að stækka mikið.
    7. Allt að vinna og engu að tapa. Þó búið sé að eyða 3-4 milljörðum í undirbúning fyrir Hringbraut margborgar sig að byggja nýjan spítala frá grunni á besta mögulega stað og hluti undirbúnings nýtist á nýjum stað.

 

Myndin er af síðunni Arkitektur og skipulag.

 


20 milljón króna munur á íbúðaláni í Noregi og Íslandi

Var að fá bréf frá bankanum mínum í Noregi sem ákvað að lækka vextina á húsnæðisláninu mínu í þriðja skipti síðan í apríl, að þessu sinni niður í 2.15% óverðtryggða breytilega vexti. Sambærilegt húsnæðislán í Landsbankanum er á 7% vöxtum.

Þannig skrifar Sigurður Ragnar Eyjólfsson á Facebook síðu sína fyrir hálfum mánuði. Frétt á dv.is í  dag vekur athygli færslunni.

Þetta eru auðvitað stórmerkilegar staðreyndir og Sigurður fór í nokkra útreikninga og heldur áfram (feitletranir og greinaskil eru undirritaðs):

Segjum að lánsupphæðin sé 20 milljónir til 25 ára, þá verður mánaðarleg greiðsla 141.476 kr á Íslandi en 87.603 kr í Noregi, munar semsagt 53.873 kr á mánuði á afborguninni.

En í Noregi myndirðu reyndar fá 9.850 kr endurgreiddar frá skattinum (27% af vaxtargreiðslum ársins eru endurgreiddar til fólks í Noregi) svo í raun munar um 63.000 krónum á mánuði á mánaðarlegri afborgun eða um 756.000 krónum á ári eða 18.9 milljónum á þessum 25 árum.

Lántökugjaldið á Íslandi er svo miklu hærra en í Noregi. Það má því segja að miðað við vaxtastig landanna í dag þá er 20 milljón króna lán til 25 ára 19 milljón krónum dýrara á Íslandi en í Noregi.

Þessi munur er að sjálfsögðu ekki í lagi. Að fólki er þjarmað með ofurvöxtum og kostnaði sem hinn almenni launamaður á ekki nokkra möguleika á öðru en að láta yfir sig ganga. Þetta er eins og að glæpamaður gangi í skrokk á skuldaranum.

Svona er ekki hægt að reka þjóðfélag. Hér er þetta annað hvort í ökkla eða eyra. Ein kynslóðin naut þess að húsnæðisskuldir hennar brunnu upp í verðbólgubálinu, hrunið eyðilagði fjármál fyrir fjölda fólks og svo er það bannsett verðtryggingin.

Framundan er svo enn ein kollsteypan. Laun stórhækka á fjölmörgum þjóðfélagshópum sem klappa saman lófunum í fögnuði en sex mánuðum síðar verður allt komið út í verðlagið, skattar hækka, lánakjörin stórhækka. Tuttugu milljón króna munur á húsnæðislánum í Noregi og Íslandi verður þá líklega 30 milljónir. Ekki aðeins eru stjórnmálamenn snargalnir heldur líka bankarnir og samtök launþega.

Var einhver að tala um samfélagssáttmála? 


Þingheimur er ekki lengur neitt úrval þjóðfélagsins

Því miður hefur sú þróun orðið ansi hröð undanfarna tvo áratugi - kannski lengur - að það fólk sem velst til setu á þingi, er alls ekki neitt úrval þjóðfélagsins, síður en svo, hvorki að vitsmunum né yfirsýn.

Þessi ágætu orð skrifar Þorkell Guðbrandsson í athugasemdadálk í bloggi hjá Ómari Ragnarssyni. Sá síðarnefndi skrifar um ökuskírteini en fólk yfir sjötugu þarf að endurnýja það á tveggja ára fresti. Ómar er flugmaður og þarf að fara í læknisskoðun tvisvar á ári til að halda skírteininu. Þorkell er með réttindi til að stýra skipi og til þess þarf ítarlegra vottorð en til að aka bíl.

Þetta er nú bara aukaatriði. Mér fannst Þorkeli mælast afar vel þegar hann talar um þingmenn. Ég er honum fyllilega sammála og finnst hörmulegt að til þingmennsku veljist alltof sjaldan hinir mætustu menn af viti og/eða yfirsýn. Ef til vill hefur það aldrei verið þannig.

Vitsmunir eru líklega meðfæddir en sniðugir menn geta hugsanlega falið gáfnaskortinn með hávaða, kjaftagangi og yfirklóri, sem er hugsanlega bara gáfumerki. Yfirsýnin er þó afar nauðsynleg og það þarf ekki nema meðalmann í gáfum til að rísa upp af láglendinu, tileinka sér víðan sjóndeildarhring og halda um leið stillingu sinni og hafa hemil á masinu. Gáfan byggist þó á því að sá sem í hlut á vilji geri sér grein fyrir þessu og hafi vilja til að bera.

Oft finnst mér að þeir sem setjast á þing tileinki sér nýtt fas og talsmáta, telji sig hafa höndlað alheimsviskuna, viti allt, geti allt og standi okkur almenningi um allt framar. Ég dreg þessa ályktun af því að hafa lengi fylgst með stjórnmálum. Oft sest ég niður fyrir framan sjónvarpið og fylgst með umræðum á þinginu. Og drottinn minn dýri, þvílíkt kjaftæði og bull sem oft má sjá þar en til að vera sanngjarn og fara með rétt mál hefur maður oft orðið vitni af afar góðum umræðum.

Áhorfendur taka eftir að fjöldi þingmanna kemur í ræðustól og talar blaðalaust. Fæstir kunna hins vegar að segja frá, enn færri eru góðir sögumenn og þaðan af síður góðir ræðumenn. Þeir eru til sem bókstaflega gapa í stólnum, vita ekkert hvað þeir eru að gera, fletta í heimildum, tafsa, masa og mala án þess að koma nokkurn tímann að aðalatriði máls og jafnvel er það til að ræðumaður hætti ítrekað að tala í miðri setningu. Þeir sem koma með undirbúna ræðu eða góða punkta til að styðjast við eru margfalt betri.

Svo er það röksemdafærslan, málefnalega umræðan. Hún er varla til. Moldrykinu er þyrlað, hangið í bjánalegum og órökréttum slagorðum sem engu geta skilað enda til þess ekki stofnað.

Reglu þingsins leyfa alls kyns umræður undir ýmis konar formerkjum svo sem athugasemdum sem margir nýta til málþófs eða annarra leiðinda.

Svo er það keppni þingmanna um að koma sér að í fjölmiðlum, vitna í eigin orð; „... eins og ég benti á í ræðu minni á þingi fyrir síðustu jól ...“ eða „... ég bendi bara á það sem ég sagði í blaðagrein/ræðu/bók ...“.

Eina reglu tel ég mig hafa fundið eftir allan þennan tíma. Hún er svona:

Því meir sem þingmaður hækkar röddina því minni vitsmunir búa að baki og að auki tilfinnanlegur skortur á þekkingu og yfirsýn. 

Skynugir lesendur með meðalgreind en þokkalega yfirsýn átta sig án efa á því að reglan er eiginlega algild, á ekki aðeins við um þingmenn.


Með haustak á Tyrkjum eða hauspoka eftir leik

HauspokiÍslend­ing­ar hafa haft gott tak á Tyrkj­um en þjóðirn­ar eig­ast við í 9. sinn í Konya í kvöld. Íslend­ing­ar hafa unnið fimm af leikj­un­um átta, Tyrk­ir einn og tví­veg­is hef­ur jafn­tefli orðið niðurstaðan. Stærsti sig­ur Íslands leit dags­ins ljós árið 1991. 5:1 urðu loka­töl­urn­ar á Laug­ar­dals­vell­in­um þar sem Arn­ór Guðjohnsen skoraði fjög­ur mörk.

Þetta segir Mogginn í dag um leik Tyrklands og Íslands í kvöld undir fyrirsögninni: „Með gott tak á Tyrkjum“.

Er ég einn um þá skoðun að úrslit gamalla landsleikja, meðal annars frá þeim tíma er landsliðsmenn beggja liða voru smástrákar, hafi engin áhrif á leikinn í kvöld? Raunar finnst mér það tóm vitleysa að halda slíku fram nema að um haustak sé að ræða en þá má velta því fyrir sér hver haldi hverjum og hvar.

Þetta er eins og fréttaflutningurinn af Eurovision söngakeppninni. Árlega er gerður afar góður rómur af blaðamannafundi íslensku flytjendanna og fá þeir svo osssssalega mikið klapp frá blaðamönnum ... Fyrir vikið eru allir rosalega bjartsýnir og jafnvel er farið að pæla í stað í Reykjavík til að halda keppnina á næsta ári. Svo er niðurstaðan yfirleitt sextánda sætið eða eitthvað lakara. Hafi enginn áttað sig á staðreynd mála þá ráðast útslitin í söngvakeppninni ráðast nebbbbnilega ekki á blaðamannafundi fyrir keppni.

Sama er með fótboltaleiki. Þeir ráðast ekki af einhverri hefð ... úrslitin í leik Hollands og Íslands í síðasta mánuði er glöggt dæmi um slíkt. Fótboltaleikur byggir á einu einföldu atriði, að koma boltanum oftar í mark andstæðinganna en þeim tekst. 

Þrátt fyrir ágæti íslenska landsliðsins verður við ramman reip að draga úti í Tyrklandi, jafnvel skiptir litlu þó þjálfarar okkar og fyrirliði liðsins hafi staðið sig vel á blaðamannafundi. 

Vonandi gengur landsliðinu vel í leiknum, þurfi ekki að hverfa af velli með hauspoka af því að góða takið á Tyrkjum hélt ekki, eða þannig.

Teikningin er af vef Sander Bultman.


Samúðarkveðjur frá félögum lögbrjóta

LöggaBorist hefur svofelld ályktun frá Félagi glæpamanna og óknyttapilta (ekki stúlkna):

Löggurna á höfuborgasvæinu hafa fengið flenzu. Okkur finsta áhygguebni. Við horfum alltaf á frammtíðinna og þess vegna eru staðreindir einfaldar ef við myndum vinna eins og við gerum daglea og auga afköstinn væri það löggunni bara til haggsbóta löggan fengi bara hærri laun og kæmi fýlebld til baka og endurnærð. Það væri nú ekki gott.

Þess vegna höfum við ákveðið að taka okkur frý fram á mánudagsmorgun. Almeningi er því óhætt að hafa hús sín ólæst þessa helgi, skilja verðmæti eftir, helst á stofuborðinu. Plís, raða skipulega. Svo væri vel þegið að sjónvörp, hljómflutninngsgræur og tölfur séu ekki í sambandi þegar engin er heima. Svo óskum við lögguni góðs bata.

Gulli glæpur, fyrir hönd Félagi glæpamanna og óknyttapilta (ekki stúlkna).

Einnig hefur borist sameiginleg ályktun frá Samtökum hraðakstursmanna, Landsamtökum umferðalagabrjóta og Félagi Ökumanna undir áhrifum áfengis, eiturlyfja og sveppa (HÖUÁÁES). Hún hljóðar svo:

Við lýsum yfir hryggð okkar vegna veikinda lögreglumanna enda eru þeir sko flestir manneksjur eins og sumir menn, eiga fjölskyldu, bíl og hund. 

Veikindi löggunnar eru okkur mikið áhyggjuefni og við höfum pottþétt ekki hugsað okkur að nýta tækifærið. 

Í dag er friðardagur, við ætlum að halda árshátíð okkar í kvöld í Laugardalshöllinni og hvetjum alla félaga okkar til að mæta. Nóg er af bílastæðum á grasinu við aðkomuna að Laugardalshöll, á umferðaeyjum og annars staðar. Húsið verður opnað klukkan 16 og ballinu lýkur stundvíslega klukkan 02. Þá byrjar fjörið.

Donni lúxus, Pési nítró, Gunna snögga og Stína nös.

Fleiri ályktanir hafa borist vegna veikinda lögreglumann, meðal annars frá Réttindalausum ökumönnum, Félagi stórinnflytjenda á ótolluðum vörum, Samtökum mansala og Kynlífsiðnaðarsamtökum Íslands. Þessum ályktunum verður gerð skil síðar.

 

 


mbl.is Mikil veikindi meðal lögreglumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Kleppur hraðferð ...

Hlíðarskóli, fótboltavöllurHlíðarhverfið var í æsku minni á áhrifasvæði Vals og svo ku vera enn. Þeir sem þar alast upp og ganga í Hlíðaskóla verða óhjákvæmilega Valsarar. Undan þessu komst ég ekki, varð Valsari, rauður.

Ég bjó í Barmahlíð og þar voru margir stráka sem spiluðu fótbolta allt sumarið. Gulli Níelsar var frábær í fótbolta, líklega bestur okkar, einnig Gulli Jóns, Bonni, Jón Guðmunds, Friðgeir, Guðni, Gaui og fleiri og fleiri. Aðeins eldri voru Gústi Níelsar og Ævar Jóns sem skiptu sér lítið af okkur nema til að hrekkja. Svo voru yngri krakkar sem við skiptum okkur lítið af nema til að hrekkja.

HlíðarskóliÞarna var kjörlendi fyrir fótbolta. Hægt að skipta í lið upp á eitt mark á mölinni fyrir framan bílskúra. Oft fórum við upp í Stakkahlíð þar sem var stórt opið svæði, hallaði að vísu en í öðrum hvorum hálfleik fékk maður að sækja niður hallann ... meðaltal hálfleikjanna var því sléttlendi og allir sáttir.

Hlíðaskóli

Í Hlíðaskóla voru nokkrir fótboltavellir. Einn var bestur og galdurinn var sá að komast út nægilega tímanlega í löngufrímínúturnar til að ná mörkunum. Þá hljóp einn eða tveir mínútu áður en bjallan hringdi út á völlinn og greip þéttingsfast í annað markið. Það þýddi einfaldlega að völlurinn var frátekinn. Við erum með'ann kölluðu þeir ef einhverjir óviðkomandi hættu sér of nálægt.

Úr Öskjuhlíð 1960Bekkjarbræður mínir voru nokkrir einstaklega góðir fótboltamenn, svo sem Logi Úlfarsson, Helgi Ásmundsson Loftur Pétursson, sem raunar var og er enn Frammari enda kom hann úr Bólstaðarhlíð sem er norðan Miklubrautar, nær áhrifasvæði Fram en Vals. Sorglegt.

Á þessum árum var Hermann Gunnarsson aðalgæinn í íslenskum fótbolta og Árni Njálsson besti þjálfari í heimi. Og við hrópuðum Áfram Valur, Áfram Valur ... Sóttum leikfimistíma í íþróttahús Vals að Hlíðarenda.

Í KR

KRSvo breyttist allt. Í MR kynntist ég í fyrsta skipti kynstofni sem heitir KR-ingar og þvílíkir ofur KR-ingar sem það voru. Ég er enn hálfhræddur við þá. Til að sæta ekki einelti held ég að ég hafi ekki upplýst um að ég væri Valsari fyrr en löngu eftir stúdentspróf.

Meðal óvinarins

Börn eru bara til vandræða, það hef ég alltaf sagt. Þegar eldri strákurinn minn var sex ára bjuggum við á Kaplaskjólsvegi, í miðju áhrifasvæði KR. Aðeins tíu metrar voru yfir á völlinn. Það voru því þung skref sem Valsarinn tók er hann fór í fyrsta sinn með strákinn á æfingu hjá KR. Eftir það var ekki aftur snúið. Smám saman tókst manni að hrópa áfram KR, áfram KR ...

081004 BikarleikurEinu eða tveimur árum síðar hitti ég svo gamlan bekkjabróður úr MR á fótboltamóti fyrir sjö eða átta ára drengi. Þar léku KR og Stjarnan. Við tókum auðvitað tal saman og ég sagði honum að nú væri ég með strák í KR og hrópaði áfram KR. Hversu erfitt það nú er fyrir gamlan Valsara. Þá sagði þessi gamli vinur minn, uppalinn og þrautseigur KR-ingur: Heyrðu Siggi, sko hér er ég með strák sem leikur með Stjörnunni á móti KR og ég hrópa auðvitað áfram Stjarnan ... Hvað annað?

Auðvitað var þetta rétt hjá honum Gumma Jó og svo fór ég að litast um meðal áhorfenda á fótboltaleikjum yngri flokka og sá að áhrifasvæði fótboltafélaga stjórnuðu því með hvaða liði strákarnir léku, yfirleitt ekkert annað. Foreldrar hvöttu börnin sín óháð því hvort þeir voru Valsarar, KR-ingar, Frammarar eða eitthvað annað.

Hins vegar eru allir eins og einn frændi minn sem á gallharðan Frammara fyrir föður, býr í Valshverfi en æfir og spilar með KR.

Úr KR

KR2Jæja, þessar voru nú pælingarnar hjá mér á sunnudaginn þegar sonur minn hringdi sagðist vera hættur í KR. Nærveru hans væri ekki lengur óskað eftir átta ára þátttöku í meistaraflokki, nokkra Íslands- og bikarmeistaratitla auk annarra afreka meðal annars í yngri flokkum. Þetta kom svo sem ekkert á óvart. Allir vita að fótboltafélögin í heiminum hafa breyst.

Oft hef ég velt því fyrir mér hvers vegna fótboltafélög nota ekki meira þá leikmenn sem þau hafa alið upp frá blautu barnsbeini. Nei, einhvern veginn eru þeir ekki nógu góðir ... Hver ber ábyrgðina á því?

Félögin sanka hins vegar að sér leikmönnum úr öðrum félögum og það heitir „að styrkja liðið“. Oft eru aðeins þrír eða fjórir uppaldir í liðinu, alltaf minnihluti leikmanna. Félögin eru orðin lógó og leikmennirnir eru málaliðar, aðkeyptir til að falla inn í flókið púsluspil sem velviljaðir menn reyna að sýsla við með misjöfnum árangri.

Áfram Kleppur hraðferð ...

Fyrir vikið eru nú skilin á milli félaga orðin ansi óglögg. Leikmenn flandra úr einu félagi í annað, jafnvel árlega. Þjálfararnir eru reknir og ráðnir rétt eins og þeir séu grasið á leikvellinum sem þarf að slá reglulega ... svo hægt sé að spila þokkalegan leik. 

Fótboltafélög eru orðin eins og strætó á leið niður í miðbæ. Vagninn er alltaf hinn sami en fólkið kemur og fer. Áfram strætóbíll, áfram OK14B11, Kleppur hraðferð ... eða þannig.

Fótboltafélag í meistararflokki er skrýtin samsuða alveg eins og strætó.

 

Sýnishorn, málaliðar

Núorðið hvetjum við eiginlega lógóið til sigurs og þá meira af gömlum vana. Hjartans einlægni fylgir ekki lengur með eins og þegar Hermann Gunnarsson rótaði upp rykinu á Valsvellinum, Ásgeir Elíason stóð fastur fyrir andstæðingum sínum, Ellert Schram raðaði inn mörkunum svo nokkrir hjartans menn séu nefndir úr Val, Fram og KR, erkifjendunum. Þá var nú gaman að lifa enda línurnar skýrar. Stuðningsmenn þessara liða töluðust helst ekki við.

Þegar horft er á fótboltaleik, hér á landi og erlendis er það eins og að vera staddur á minjasafni, þjóðminjasafni, listasafni. Í liðunum er eitt eintak af spilurum úr öllum hinum liðunum, sýnishorn af því „besta“. Sumir segja að þetta sé miklu skemmtilegra fyrirkomulag.

 

Myndirnar:

Tvær efstu myndirnar eru af fótboltavöllunum við Hlíðaskóla í gamla daga. Þær fann ég á Facebook, veit ekki hver tók eða hver á birtingaréttinn en vona bara að mér fyrirgefist birting.

Þriðju myndina fann ég líka á Facebook, þekki ekki ljósmyndarann. Myndin er tekin í Öskjuhlíð og horft yfir Hlíðarnar.

Fjórða myndin er af KR liði á Tommamóti í Vestmannaeyjum 1992, tíu ára strákar. 

Fimmta myndin er af bikarmeisturum KR 2008.df

Á sjöttu myndinni ganga KR-ingar inn á völlinn sinn.

Stækka má myndirnar og með því að smella á þær.

 


Leiðsögumaðurinn tók bestu myndirnar af hlaupinu

mblFrammistaða fjölmiðla í frásögnum af hlaupinu í Skaftá og Eldvatni er yfirleitt góð. Hins vegar er gagnslítið að birta hreyfimyndir þar sem myndatökumaðurinn beinir linsunni ofan í strauminn og „súmmar inn“. Þetta verða afar ljótar og lítt upplýsandi myndir. Ekki síður þegar ljósmyndarar iðka sama leik, nota aðdráttinn til að magna upp hamfarirnar (sem oftar en ekki eru kallaðar því ofnotaða orði „sjónarspil). Þannig er hægt að búa til magnaða mynd af því sem oft er ekkert annað en gutl í ánni.

Um helgina var sagt frá því að hætta væri á því brúin yfir Eldvatn gæti fallið. Birtar voru myndir í fjölmiðlunum af brúnni.

visirMargir fjölmiðlar voru með fréttamenn og ljósmyndara á staðnum en misjafn var árangurinn. 

Efstu myndina tók Sigurður Bogi Sævarsson, reyndur og afar góður blaðamaður Morgunblaðsins. Því miður er hún alls ekki nógu góð. Á henni sést eiginlega ekkert athugunarvert nema rýnt sé í hana og vitað eftir hverju er verið að leita. Fyrirsögn fréttarinnar  með myndinni virkaði því út í hött. „Brúarendinn stendur út í loftið“, sem raunar var kolrangt, brúarendinn var landfastur en grafist hafði undan hluta af stöplinum. 

Næsta mynd birtist á visir.is og er greinilega klippa úr annarri. Myndin er hins vegar nokkuð góð og sjá má að það loftar undir stöpulinn og í því er hættan fólgin.

RuvÞessa mynd gat visir.is tók ekki blaðamaður eða ljósmyndari heldur bjargaði leiðsögumaðurinn, Ingibjörg Eiríksdóttir, fjölmiðlinum. 

Síðasta myndin er á ruv.is og er eiginlega besta myndin, mjög lýsandi og sér yfir umhverfið auk þess að sýna stöpulinn. Raunar er þetta sama myndin og birtist á visir.is og ljósmyndarinn landvörðurinn sem fyrr var nefndur.

Merkilegt er hversu oft almenningur útvegar fjölmiðlum myndir, þetta tilvik er fjarri því einsdæmi. 

Svo er það framsetningin á fréttum af svona viðburðum í náttúrunni. Mjög mikilvægt er að birta kort. Stórt yfirlitskort er nauðsynlegt heldur líka smærri. Þau þurfa að vera lýsandi, auðskilin, með örnefnum, vegum og bæjarnöfnum. Margir tóku eftir því hversu lengi kort voru að birtast í fjölmiðlum. Fólk sem ekki er með landafræðina á hreinu veit hreinlega ekki hvað þetta Eldvatn er, stöðuvatn eða fljót, eða í hvora áttina það rennur. Þessar upplýsingar vantaði víðast í fjölmiðlum.

 


Lífið í Elliðaárdal

HaustlaufFrekar fáir taka mark á mér en þeir eru þó til. Í dag var ég spurður um haustið. Ég svaraði því til að nú væri það að öllum líkindum komið, meira en tveimur mánuðum eftir að fjölmiðlafólk fór einhverra hluta vegna að tala um fyrstu haustlægðina.

Með réttur er hægt að tala um haust þegar grasið og lauf fara að sölna. Nákvæmlega það hefur verið að gerast undanfarna daga.

Stundum geng ég um Elliðaárdalinn. Hann hefur mikið breyst á undanförnum árum. Þar er nú mikill trjágróður og einstaklega gaman að njóta þar útiverunnar. Ég geng um sjö km hring á klukkutíma, hlusta á meðan á vandaða tónlist, yfirleitt klassíska eða þá að ég hlusta á vindin í trjánum og þungan nið umferðarinnar.

bjórhlaupFjöldi fólks leggur leið sína um Elliðaárdal, gangandi, hlaupandi, hjólandi og jafnvel á rafhjólum. Í dag var ég vitni að einstakri íþróttagrein. Mætti hressu og skemmtilegu ungu fólki sem hljóp í skringilegum fötum með bjórkassa og bjórglas í hendi. Ég spurði ekki nánar um tilganginn enda enginn tími til. Hrópaði bara skál og fékk glaðleg skálarköll á móti.

Svona er nú lífið skemmtilegt.

Um daginn dró ég uppi mann sem stikaði þó stórum og við tókum tal saman. Kom þá í ljós að maðurinn er eins og svo margir aðrir geysilega hrifinn af dalnum og kemur þar reglulega í gönguferðir.

Já, fólk nýtur lífsins með margvíslegum hætti.


Fréttablaðið skrökvar upp á Árna Sigfússon

Formaður styrkti bróður sinn

Þannig hljóðar fyrirsögn Fréttablaðsins í dag, 1. október 2015. Hún er röng eins og raunar kemur fram í fréttinni. Um er að ræða styrk sem Orkusjóður veitti Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það er svo algjört aukaatriði að stjórnarformaður Orkusjóðs, Árni Sigfússon, og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Þorsteinn Sigfússon, eru bræður.

Fréttin er um skoðun forstjóra Valorku sem ekki fékk styrk frá Orkusjóði. Sem sagt, fréttina má kalla „hefndarfrétt“. Sár forstjóri þyrlar upp ryki til að koma óorði á aðra. Honum tekst ætlunarverk sitt vegna þess að Fréttablaðið og blaðamaðurinn sem skrifar fréttina sér ekki í gegnum málið. Raunar ætti að skrifa aðra frétt og fyrirsögnin væri þessi:

Fréttablaðið er misnotað

Í stuttu máli fjallar fréttin um að eitt fyrirtæki fékk styrk Orkusjóði en annað ekki. Fréttin fjallar ekki um að Árni Sigfússon hafi styrkt Þorstein bróður sinn.

Árni Sigfússon segir eftirfarandi á Facebook:

Ég kann allar reglur um þetta. Ef vinur eða venslamaður sækir um styrk skal nefndarmaður að sjálfsögðu víkja. En það var ekki í þessu tilviki. Þetta er sambærilegt við að rektor Háskóla Íslands væri þannig beintengdur við allar umsóknir deilda háskólans og þeir sem venslaðir væru honum, mættu ekki fjalla um neinar slíkar umsóknir á vegum HÍ, þótt hann kæmi hvergi persónulega að þeim.

En þá er brugðið á það ráð að segja að „bróðir forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar“ hafi veitt honum styrk. Ég hafi átt að víkja af fundi þegar ráðgjafanefndin fór yfir umsóknirnar. Þetta er því algjörlega út í hött og leitt að koma slíkri fyrirsögn af stað - vitandi að 100% lesenda, lesa fyrirsögn en u.þ.b. 30% lesa textann. Vildi bara að þið vissuð þetta fésbókarvinir mínir, því Frettablaðið hafði ekki fyrir því að spyrja mig um málið. Þannig er nú Ísland í dag.

Líklega hefur blaðamaðurinn verið svo spenntur fyrir því að hafa nú aldeilis fundið einhverja ávirðingu á Árna Sigfússon að hann hafi ekki haft fyrir því að bera málið undir hann. Sem sagt, blaðamaður og Fréttablaðið brjóta mikilvægustu reglu í blaðamennsku, að leita upplýsinga og heimilda og fara með rétt mál. Eða er þetta sem sagt er glöggt dæmi um barn sem haldi á penna hjá Fréttablaðinu.

Forstjóri Valorku stendur svo uppi sem „bad looser“ og þessi frétt er honum síst af öllu til sóma.

Fréttablaðið hefur ekki heldur neinn sóma af þessari frétt. Það hefur verið staðið að ósannsögli. Verður nú fróðlegt að sjá hvernig það reynir að koma sér út úr klípunni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband