Fór myndavélin til Mars eða eitthvurt mun skemur?

FlæðurÍsland hef­ur verið vin­sæll áfangastaður fyr­ir þá sem rann­saka rauðu reiki­stjörn­una Mars enda þykja tölu­verð lík­indi með þeim jarðmynd­un­um sem hér er að finna og þeirra sem menn reyna að ráða í á ná­granna­reiki­stjörn­unni.

Svo segir í frétt á mbl.is um hóp vísindamanna sem starfar við HiRise-myndavél MRO geimfars NASA en er á braut umhverfis reikistjörnuna Mars.

Flæður 2Um daginn sendi ég myndavélina mína til Mars og fékk meðal annars þessar þrjár myndir til baka. Síðan hef ég verið að rannsaka þær bæði jarðfræðilega og landfræðilega og lenti auðvitað í bölvuðum vandræðum eins og lesandi minn áttar sig á ef hann klikkar á myndirnar og stækkar þær.

Sko, á efstu myndinni sé ég vegastikur, að vísu ógreinilega en það fer ekki á milli mála. Gæti verið að jeppinn á Mars komist ekki milli staða nema eftir stikum? Spyr sá sem ekki veit.

Flæður 3Á myndinni í miðið sjást greinilega dekkjaför. Eðlileg skýring er að þau séu þau eftir jeppa Bandaríkjamanna. Förin virðast þó vera stærri en á þeim jeppa nema hann hafi ekið þarna fram og til baka í einhverri villu.

Á neðstu myndinni sést enn ein vegastikan, snjór í fjöllum og í fjarska sýnist mér vera fjalla sem líkist íslenskum móbergsstapa.

Nú velti ég fyrir mér hvort að myndavélin hafi farið mun skemur en til Mars.

Kvur veit?


Eru hin kristnu gildi ekki algild?

ISISÁ Íslandi er trúfrelsi. Maður spyr ekki um trú þeirra sem hingað leita, ekkert frekar en maður spyr ekki um trú neins áður en honum eða henni er bjargað. (Fyrir kristna: Samverjinn spurði ekki um trú þess sem lá særður við veginn heldur gengur strax í það að hlúa að honum). Eina sem farið er fram á er að viðkomandi hlíti íslenskum lögum þar með þeim Mannréttindasáttmálum sem í gildi eru. Síðar er með ýmsum hætti farið fram á að sá aðkomni aðlagist íslensku samfélagi, og lifi í sátt við þá sem fyrir eru. Þeir sem fyrir eru gera samskonar kröfur til sjálfs sín.

Þannig ritar Baldur Kristjánsson, prestur, á bloggsíðu sína þann 5. september 2015. Mér þykir þetta vel ritað og er sammála.

Nú berast ótrúlegar frétt af vanda sem flóttamenn frá Sýrlandi og fleiri löndum hafa skapað í Evrópu. Auðvitað er það hræðilegt að fólk skuli þurfa að flýja frá heimilum sínum og til annarra landa af því að lífi þeirra er ógnað. Sögur af mannvonsku þeirra sem hafa verið kenndir við Isis eða ríki íslam eru átakanlegar, óhugnaðurinn er engu líkur. Þessi lýður eirir engu, hvorki fólki, byggingum né landi. Allt skal lagt í rúst, öllu umturnað. Mannvonskan er yfirgengileg og allt í trúarlegum tilgangi.

Hundruðir þúsunda hafa flúið til Evrópu, milljónir til næstu ríkja, Íraks, Líbanon, Jórdaníu, Tyrklands og víðar.

Séra Baldur bendir á nokkuð athyglisvert atriði í pistli sínum. Hann segir:

Við, hver sem við erum, eigum ekkert með það að tengja saman trú og réttindi. Enginn á að gjalda trúar sinnar eða græða á henni hvort sem um er að ræða landvistarleyfi eða önnur réttindi, að ekki sé talað um björgun.

Í sannleika sagt er það þetta sem kristin gildi ganga út á. Þau hafa orðið að menningu sem við höfum tekið á móti, skiptir engu við erum kristinnar trúar eða ekki. Okkur ber skylda til að aðstoða aðra í neyð þeirra rétt eins og sagan um miskunsama Samverjann kennir. Eða eru undantekningar frá hinum kristnu gildumsem gleymst hefur að segja frá?

Staðreyndin er þessi: Fólk er almennt gott og leitast eftir því að vernda sig og fjölskylduna og sinna frumþörfunum. Vont fólk er í miklum minnihluta en með ofbeldi ræður það alltof miklu.

 


Bloggfærslur 7. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband