Stórkostleg pólitísk mistök meirihlutans í borgarstjórn

Orð standa, því miður er það svo. Hversu mikið sem maður sér eftir orðum sínum þá eru þau þegar sögð og verða aldrei tekin aftur. Hins vegar er hægt að bera í bætiflákann, afsaka orð sín ...

Hvers vegna vill borgarstjóri nú draga til baka tillögu sem meirihluti borgarstjórnar samþykkti fyrir skömmu um sniðgöngu á vörum frá Ísrael?

Gæti það verið vegna einhverra eftirfarandi atriða:

  1. Tillagan var vanhugsuð?
  2. Tillagan var rangt orðuð?
  3. Tillagan var fljótfærnislega unnin?
  4. Tillagan hafði allt aðrar og verri afleiðingarnar en búist var við?
  5. Tillagan veldur öðrum sveitarfélögum skaða?
  6. Tillagan er brot á íslenskum lögum?
  7. Tillaga stefnir íslenskum viðskiptum í mikla hættu?
  8. Tillagan hefur valdið tjóni á íslenskum útflutningi og ferðaþjónustu?
  9. Tillagan sannaði dómgreindarleysi borgarstjóra og annarra borgarfulltrúa meirihlutans?
  10. Tillagan var heimskuleg?

Hvert eitt af ofangreindum atriðum ætti að vera nóg sem stór ávirðing á borgarstjórnarmeirihlutann. Nú er hins vegar ljóst að öll tíu atriðin skipta máli og þess vegna hefur borgarstjórinn játað á sig og félaga sína stórkostleg pólitísk mistök.

Væri borgarstjóri í öðrum flokki hefði verið kallað á afsögn hans og raunar meirihlutans alls. 

Borgarstjóra til afsökunar er sú einfalda staðreynd að öll nemendafélög geta gert mistök sem fullþroska fólk gerir ekki.


Níu umhugsunarefni Styrmis Gunnarssonar

Styrmir Gunnarsson leggur línurnar fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins í október næstkomandi. Í dálki sínum í blaði dagsins nefnir hann níu atriði sem flokkurinn þurfi að taka á. 

  1. Aðildarumsóknin að ESB verði afturkölluð með óyggjandi hætti fyrir lok þessa kjörtímabils.
  2. Þjóðaratkvæðagreiðslur verði ráðandi við meginákvarðanir í þróun samfélagsins sem og í sveitarfélögum.
  3. Í stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum; nytjastofna á Íslandsmiðum, vatnsafl, auðlindir á eða undir hafsbotni, fjarskipti og umhverfisgæði.
  4. Útfærsla á stefnu flokksins varðandi norðurslóðir í sambandi við ríki sem hagsmuni eiga þar að gæta.
  5. Umhverfis- og náttúruvernd; Friða á hálendi Íslands og aðrar perlur óbyggðanna.
  6. Aðgengi alla að menningararfinum og átak til málhreinsunar, sérstaklega vegna mengunar úr ensku.
  7. Sjálfstæðisflokkurinn var ekki stofnaður til að verja hagsmuni einkarekinna einokunarfyrirtækja, breyta þarf lögum gegn einokun. Eigendur lífeyrissjóða kjósi sjálfir stjórn sjóðanna í beinni kosningu.
  8. Í velferðarmálum verði ráðist að rót vandans, það er á æskuárum einstaklingsins.
  9. Réttlát skipting auðs.

Margt má segja um þessar hugmyndir Styrmis. Í heild má segja að þær séu skynsamlegar og rík ástæða til að ræða þær allar. 

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er stærsti fundur stjórnmálaflokks á Íslandi og þar er mikil lýðræðisleg gerjun þvert á það sem andstæðingar flokksins og illa upplýst fólk heldur.

Stundum virðist þó sem þessi stóri flokkur hafi ekki fylgst nægilega vel með þjóðfélagsbreytingum en þær hafa orðið miklar á undanförnum áratugum. Til dæmis hefur mikil aukning orðið í útiveru og ferðalögum hér innanlands. Yngra fólk lítur allt öðrum augum á auðlindir landsins, náttúru þess og umhverfi en fólk gerði fyrir á síðustu öld og mikil hugarfarsbreyting hefur einnig orðið hjá eldra fólki. Þess vegna er níunda atriði Styrmis algjörlega réttlætanlegt í umræðunni.

Auðvitað vilja Sjálfstæðismenn gæta að frelsi einstaklingins, en það er ekki einskorðað við fyrirtækjarekstur. Frelsið er enn meira og stærra. Við eigum að leggjast gegn einokunartilburðum fyrirtækja. Við þurfum að gæta að því að fjármálastofnanir vaði ekki yfir viðskiptavini sína og sem og aðra landsmenn. Margir halda því fram að aðgangur sjávarútvegsfyrirtækja sé miklu minni en réttlætanlegt sé. Þessi atriði eru felast í hugmyndum Styrmis.

Grundvöllur þjóðfélagsins er einfaldlega sá að allir hafi atvinnu, afli fjár til að eiga fyrir mat, húsnæði og öðrum þeim þörfum sem þeir telja sig hafa. Allt annað kemur í kjölfarið og verði brestur á þessu gengur þjóðfélagsgerðin ekki upp, allir tapa.


Nægilegs fés hefur verið safnað, segir Mogginn

Nægi­legs fés hef­ur verið safnað til að kaupa Concor­de-þotu með það að mark­miði að koma henni aft­ur í loftið fyr­ir árið 2019, seg­ir hóp­ur breskra áhuga­manna um vél­ina

Svona er hroðvirknin stundum í fréttaskrifum á mbl.is. Í ofanálag er ekki einu sinni settur punktur aftan við málsgreinina. 

Hér er annað gullkorn:

Hóp­ur­inn ráðger­ir einnig að hafa aðra Concor­de-þotu til sýn­ing­ar í miðborg Lund­úna.

Og svo eitt enn:

Hann seg­ir þau sína að fólki sé annt um Concor­de og vilji sjá þær í háloft­un­um á ný.

Líklega er óþarfi að láta þess getið að fréttin er að auki illa skrifuð, þýðingin hrá og augsýnilega gerð í fljótfærni.

Svona fréttamennska og skrif er auðvitað til skammar fyrir hið virðulega Morgunblað.


mbl.is Concorde í loftið 2019?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband