Ónógt hlutafé, áætlunum ekki fylgt og salan bregst eða hvað?

Þegar fyrirtæki er stofnað þykir tilhlýðilegt að gera áætlun um rekstur og að auki tryggja fjármögnun þess. Vanir menn gera sumsé rekstrar- og efnahagsáætlun. Því ítarlegri sem hún er því betur gengur fyrirtækið.

Vissulega kunna áætlanir að bregðast. Oftast er má um að kenna mannlegum mistökum í áætlun, stundum er ekki farið eftir fyrirframgerðri áætlun, freistingar koma upp, fleiri tæki eru keypt, meiru er eytt í fínerí en minna lagt upp úr því sem öll fyrirtæki lifa á ... sölustarfinu.

Bjartsýnir menn stofna fyrirtæki með flottu nafni. Konunglega kvikmyndafélagið er dálítið gassaleg nafngift en ekki er víst að reksturinn hafi verið slæmur.

Tvennt vekur þá athygli í frétt mbl.is um hið Konunglega. Hið fyrra er að reksturinn skuli vera kominn í óefni eftir aðeins tveggja mánaða starfsemi. Hið seinna er að fyrirhuguð hafi verið hlutafjáraukning síðar á árinu og það til viðbótar þeirri sem fór fram á rétt rúmu ári áður en fyrirtækið tók til starfa.

Þetta bendir til eftirfarandi:

 

  • Fyrri hlutafjársöfnun hafi verið ónóg og rekstur tveggja mánaða hafi hreinlega étið hana upp. 
  • Tekjur fyrirtækisins hafi reynst miklu minni en ráð var fyrir gert, það er auglýsingasalan hafi mistekist og þess vegna gekk á eigið fé, t.d. launagreiðslur.
  • Útgjöld fyrirtækisins hafi farið úr böndunum, t.d. að rekstrarfé hafi verið notað til tækjakaupa sem ekki var gert ráð fyrir í áætlunum eða of margt starfsfólk ráðið o.s.frv.
Með ofangreindu er ekki verið að gera lítið úr aðstandendum Konunglega kvikmyndafélagsins. Vandinn þess er þó í hnotskurn sá sem margir lenda í eftir að hafa farið af stað í rekstur með mikilli bjartsýni en litlum undirbúningi.

 

Oft reddast þetta allt saman en ekki er mikið á það treystandi, betra er að undirbúa rekstur vel, fjármagna hann eðlilega, sinna umfram öllu sölunni og ... fylgja vel gerðum rekstraráætlunum. 


mbl.is „Viljum ekki skuldsetja félagið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landeigendafélag Geysis fer ekki með rétt mál

Innheimta ríkisins á aðgangseyri fyrir Silfru og í Vatnshelli er allt annars eðlis en heftur aðgangur að Geysissvæðinu. Landeigendafélagið fer offari í réttlætingu sinni á aðgerðum sínum til að leggja gjöld á sjón fólks.

Engum er bannaður aðgangur að Þingvallavatni. Hins vegar er útbúin aðstaða á einum tilteknum stað þar sem áhugasömum er boðin aðstaða til léttrar köfunar. Staðurinn er svo eftirsóttur að mörg fyrirtæki bjóða upp á ferðir þangað. Þar af leiðandi virðist rökréttast að stýra umferðinni á þann hátt að láta fyrirtækin greiða fyrir og koma líka í veg fyrir að þau séu þar öll á sama tíma. Engin takmörkun er til köfunar á öðrum stöðum í vatninu.

Í Vatnshelli undir Jökli hefur verið byggð upp aðstaða til að auðvelda ferðamönnum að komast inn í hellinn en það var fæstum mögulegt áður en það var gert. Stór stigi hefur verið settur upp og lýsing að hluta. Þetta er til mikillar fyrirmyndar og var allt klárað áður en innheimta hófst.

Landeigendafélagið við Geysi á ekki allt landið. Það ryðst hins vegar áfram með látum og þykist ætla að rukka fyrst, framkvæma svo. Það ætlar sér að hafa góðar tekjur af landi sínu. Hingað til hefur ekkert verið gert nema fyrir skattfé við Geysi.

Rukkun aðgangseyris fyrir að horfa á Geysi, Strokk og aðra hveri er ekkert annað en gjaldheimta á sjón, glápgjald, sem á engan rétt á sér. Næst verður okkur landlausum bannað að horfa að Esjuna og önnur fjöll nema gegn greiðslu.


mbl.is Benda á „tvískinnungshátt ríkisins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó-skapnaður hinna talandi stétta og annarra

Mælikvarði á mikilvægi atvinnugreina er arðsemi. Arðsemi í skapandi greinum er hinsvegar ámóta fágæti og skatttekjur hins opinbera af ferðaþjónustu. Hinar talandi stéttir þessa lands ættu að hafa hugfast að skapandi greinar leggja þannig afskaplega lítið til hagvaxtar en það er hagvöxtur sem greiðir reikningana fyrir hinar skapandi greinar. 
 
Þannig skrifar Arnar Sigurðsson í niðurlagi greinar sinnar í Morgunblaði dagsins. Arnar er starfandi á fjármálamarkaði, eins og segir með greininni. Ekki þekki ég manninn en hann er leiftrandi skemmtilegur penni og greinin hans í Mogganum er góð þótt ég sé ekki alveg sammála öllu sem þar kemur fram.
 
Arnar ræði af mikilli kaldhæðni um svokallaðar „skapandi greinar“. Hann segir:
 
Samkvæmt sönnunarfærslu hinna talandi og skapandi stétta margfaldast hver króna fimmfalt sem tekin er frá ó-skapandi greinum og sett í þær skapandi. 
 
Ekki nóg með að hann afgreiði þessar heldur hann áfram og ljóst má vera að hann hefur ekki mikið álit á þessum svokölluðum „talandi stéttum“ en það er líklega lesandans að finna út hverjir tilheyri þeim:
 
Löngu fyrir daga latte-kaffisins voru lögmál hinna talandi stétta prófuð þegar framsýnir sveitarstjórnarmenn Raufarhafnar seldu bæjarútgerðina Jökul sem var líklega ámóta óskapandi þá eins og sjávarútvegurinn er í dag. Um var að ræða samtals 6.000 þorskígildistonn og 528 milljónir kr., upphæð sem í dag myndi gera hvert mannsbarn í bænum um 6 milljónum kr. ríkara á núvirði. Raufarhafnarbúar bíða hinsvegar enn eftir hinu skapandi ríkidæmi. Hagnaðinum af sölunni var þó ráðstafað í „eina vitið“ eins og bæjarstjórinn orðaði fjárfestinguna í de-CODE, Netverki o.fl.
 
Ef til vill á Arnar við að „hinar talandi stéttir“ séu samræðustjórnmálasinnar Samfylkingar og hjáleigunnar Bjartrar framtíðar en Sjálfstæðisflokkurinn fær líka sinn skammt og án efaverðskuldaðan:
 
Einn ötulasti talsmaður ríkisafskipta af atvinnulífi landsmanna er Ragnheiður Elín Árnadóttir sem nýverið fékk frumvarp samþykkt í ríkisstjórn um svokallaðar ívilnanir til þeirra sem vilja stofna fyrirtæki og þá sér í lagi úti á landi. Ástæður þess að færri stofna fyrirtæki úti á landi en annars staðar eru margvíslegar en allar hagrænar. Ástæður eins og fjarlægð frá markaði, skortur á fjölbreyttu en hæfu, jafnvel menntuðu starfsfólki, fjarlægð frá alþjóðaflugvelli, höfn o.s.frv. vega þungt. Til að vinna upp slíkt óhagræði ætlar núverandi ríkisstjórn að feta í fótspor þeirrar síðustu og „ívilna“ sem er fínt orð yfir niðurgreiðslur á óhagræði. Og hverjir eiga svo að velja og hafna styrkþegum og klippa á borða við opnun nýrra fyrirtækja? Jú, það er áðurnefnd Ragnheiður Elín og embættismenn hennar. 
 
Þetta er skemmtileg grein en engu að síður skrifuð af mikilli sannfæringu um einkarekstur og ríkisafskipti af atvinnulífinu og ekki síst kjaftaglaða pólitíkusa.
 

Óvanir útlendingar sem villast í hrikalegar aðstæður

Vatnajokull

Göngu- og skíðaferðir um hálendi og jökla landsins geta verið ákaflega skemmtilegar og ánægjulegar og skilja eftir sig góðar minningar. Stundum er gott veður en erfitt er að treysta á slíkt.

Leiðangur fatlaðs íþróttamanns frá Bretlandi varð tilefni til dálítilla vangaveltna sem ég færi hingað í þeirri von að fleiri leggi gott til mála. Tilgangurinn eru þó engan veginn bein gagnrýni eða lítilsvirðing við ferðamanninn sem um er rætt í fréttinni, til hans og félaga veit ég of lítið.

Af reynslu minni og góðra félaga minna í fjallamennsku hér á landi þurfa að minnsta kosti nokkur atriði að vera í góðu lagi. Þessi eru þau helstu:

  1. Göngufólk þarf að vera í góðu líkamlegu og andlegu formi
  2. Að baki þarf að vera mikil reynsla
  3. Útbúnaður verður að vera góður og leiðangursfólk kunni að nota hann
  4. Nesti þarf að vera rétt og gert sé ráð fyrir aukadögum í tafir
  5. Talstöðvar- eða símasamband þarf að vera við umheiminn
Oraefajokull
Eflaust má bæta við þennan lista og útfæra hann nánar. Ljóst má hins vegar vera að skemmtileg ferð á jökli getur snögglega breyst, aðstæður geta hreinlega orðið lífshættulegar. Þá skiptir andlegt og líkamlegt form leiðangursmanna miklu, fólk geti tekist á við þá erfiðleika sem að steðja án þess að láta hugfallast eða gefast upp af þreytu. 
 
Sagt er að þeim fjölgi sem leggja leið sína á Everest, hæsta fjall í heimi. Margir af þeim sem reyna sig við fjallið er ríkisbubbar sem hafa afar fátæklegan bakgrunn í fjallamennsku en ætlar að komast upp af því að það hefur efni á því. Auðvitað er gaman að geta gortað af afrekum sínum og ferðum, það er mannlegt og jafnvel skemmtilegt. Nálgun fjallamanna er hins vegar allt önnur og byggist á skipulagi og framkvæmd ferðar, mörgum einstökum sigrum á leið upp fjall. Hvert skref er í sjálfu sér sigur og síðan er það leiðin til baka sem flestir gleyma.
 
Langt er síðan að hingað til lands fóru að tínast útlendir leiðangrar af ýmsu tagi sem reynt hafa sig við Vatnajökul og talið sig vera að setja met af ýmsu tagi. Sumir hafa haldið því fram að þeir hafi fyrstir farið yfir hann frá vestri til austurs eða öfugt, sem er auðvitað tóm vitleysa. Aðrir hafa sett margvísleg önnur „met“, mörg hver hafa þó verið í heimsku og óheiðarleika.
 
Minnistæður er mér einn leiðangur sem mikið var frá sagt og þótti í heimalandi sínu stórmerkilegur hafandi sett einhvers konar „met“ á ferð yfir Vatnajökul og gert kvikmynd um afrekið. Skemmst er frá því að segja að á sama tíma vorum við nokkrir félagar á leið yfir jökulinn og komum degi síðar en hann í Grímsvötn þar sem áttu að bíða okkar matarbirgðir, vel merktar. Og hvað gerðist, jú leiðangursliðar stálu matnum okkar og átu með góðri lyst. Þökkuðu ekki einu sinni fyrir sig frekar en aðrir þjófar. Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem menn stela mat í fjallaskálum og þarf ekki einu sinni útlendinga til.
 
Vandinn við ferðamennsku hér er að landið er auglýst sem  sólar- og blíðuland þar sem allt er skínandi fagurt og frítt. Ég hef hitt fólk á hálendisvegum á fólksbílum og það ætlar sér yfir ár og fljót eins og ekkert sé. Á gönguferðum hef ég hitt fólk með plastpoka í hendi sem spurt hefur hvar hótelið í Landmannalaugum sé. Á Fimmvörðuhálsi hef ég ítrekað hitt vanbúið fólk sem er gjörsamlega búið að keyra sig út, heldur að uppi á Hálsinum sé veiting- og gistihús. Jafnvel á Esjunni hef ég hitt fólk á strigaskóm og margir með slíkan skófatnað hafa meitt sig í stórgrýti. Það verst er að Íslendingar eru í þessu rugli líka.
 
Í vetrarferð var ég einu sinni samferða finnskum fjallamanni sem hafði aldrei kynnst öðru eins veðurfari og hér á landi. Sama daginn hafði verið sól og blíða, síðan rigndi, eftir það snjóaði, þá kom hríðarbylur og aftur rigndi og svo kom slydda. Með allan sinn fína finnska búnað var hann að drepast úr kulda. Þetta var að vísu fyrir „flísbyltinguna“ og við samlandar vorum í stingandi föðurlandi sem hélt vel á okkur hita.
 
Staðreyndin er bara þessi: Ferðamaðurinn þarf að vera vanur, hann verður að kunna á ólíkar aðstæður og hann þarf að vera vel undirbúinn. Á þessu er mikill misbrestur jafnt meðal Íslandinga og útlendinga.
 
Nú er spáð mikilli fjölgun útlendra ferðamanna og margir hverjir eru á eigin vegum. Af reynslu minni gerist ég svartsýnn og óttast mikla fjölgun slysa í fjallaferðum á Íslandi. Spái því að innan nokkurra ára muni hjálparsveitir ekki anna útköllum miðað við óbreytt skipulag og mannafla.
 
Hvað er þá til ráða? Læt þær vangaveltur bíða að sinni. 

 

 


mbl.is „Hr. Vatnajökull, við klárum þetta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1700 umferðalagabrot á móti 19 áfengislagabrotum

fjoldi-brota-a-hverja-10000-ibu

Miðað við fréttaflutning mætti halda að til dæmi fíkniefnabrot, áfengislagabrot, kynferðisbrot og skjalafals væru stórkostlega algeng hér á landi. Það er hins vegar alrangt.

Sé miðað við brot á hverja tíu þúsund íbúa er fjöldi ofangreindra brota sem hér segir:

 

  • Fíkniefni ... 41,5 brot
  • Áfengislög ... 18.9 brot
  • Kynferðisglæpir ... 9.9 brot
  • Skjalafals ... 8,4 brot

 

Þessar upplýsinga má fá hjá Gagnatorgi Capacent. Þar er alveg einstakur gagnabanki sem er afar áhugaverður fyrir þá sem áhuga hafa á tölfræði.

Hvað varðar ofangreind brot þá er alveg ótrúlegt hversu sjaldgæf þau brot eru en það skilur auðvitað enginn nema við samanburð. Skoðum hann:

 

  • Umferðalög ... 1.730,6 brot
  • Hegningarlög ... 499,3 brot
  • Auðgunarglæpir ... 299 brot
  • Sérrefslög ... 108,3 brot

 

Hér verður að ítreka að þetta eru brot miðað við hverja 10.000 íbúa. Það breytir því hins vegar ekki að til að skilja eðli hverra brotategundar þarf að greina þessi brot enn frekar. Ég væri ekki hissa á því að þá kæmi í ljós hversu fáir misyndismenn standa raunverulega fyrir ofangreind. Raunar er það svo að lögreglan þekkir 90% þeirra sem hverju sinni fremja glæp. Það auðveldar ábyggilega rannsókn mála en betur má gera.

Mér sýnist nefnilega þetta allt einfaldur leikur, ef svo má taka til orða. Einstaklingur fremur glæp og næst fyrr eða síðar, meðgengur eða lagabrot sannast á hann og fangelsisdómur er felldur. A fullnustu lokinni fer þessi einstaklingur oftar en ekki út á götuna aftur og hringrásin hefst að nýju. Hversu mikið mætti nú ekki spara með því að draga út fangelsisdómum og setja þess í stað tæki á viðkomandi sem sendir merki til lögreglu um ferðir hans? 

Þetta eru nú hugleiðingar sem tengjast ekki beint því sem ætlunin var að leggja áherslu á hérna.

Grundvallaratriðið er að fækka glæpum og það hefur tekist samkvæmt upplýsingum sem finna má á Gagnatorgi.


Moggafólk tekur við ábyrgðarstöðum hjá RÚV

Mörgum þykir gaman að hnýta í Morgunblaðið og finna því allt til foráttu, jafnt fyrir fréttaskrif sem stefnu. Þannig hefur það verið frá því ég man eftir mér. Minna fer fyrir málefnalegri gagnrýni á blaðið sem hefur að mati þeirra sem gerst þekkja staðið sig best íslenskra fjölmiðla, jafnt í fréttamennsku og fréttaskýringum. Þangað hafa jafnan valist afar hæfir einstaklingar í blaðamennsku, ljósmyndun, útlisthönnun, vefhönnun og stjórnun.
 
Það er því engin tilviljun hversu þrír af átta nýjum framkvæmdastjórum Ríkisútvarpsins hafa alist upp eða átt langa viðkomu á Morgunblaðinu.
  • Fréttastjórinn, Rakel Þorbergsdóttir var eitt sinn blaðamaður á Morgunblaðinu
  • Þröstur Helgason, dagskrárstjóri rásar 1 var áður ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins
  • Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps, var eitt sinn blaðamaður á Morgunblaðinu
Og nú byrjar ábyggilega gamalkunnugur söngur um að þetta sé allt fyrirfram ákveðið og verið sé að troða spellvirkjum inn í eitt „helgasta vé þjóðarinnar“, Ríkisútvarpið. Staðreyndin er hins vegar að þetta fólk hefur sýnt og sannað getu sína og hæfileikarnir eru miklir. Það á því hin nýju störf fyllilega skilin.
 
Væntanlega heldur Moggin áfram að unga út góðum blaðamönnum sem sumir hverjir hverfa til starfa hjá öðrum fyrirtækjum. 

Nýfrjálshyggja og frjálshyggja

Hannes Hólmsteinn Gissurarson var sem oftar í útlandiu og hélt fyrirlestur um efnahagshrunið á Íslandi. Hann hélt því fram að það hefði ekkert að gera með nýfrjálshyggju eða álíka pólitískar skoðanir. Auðvitað er þetta rétt hjá honum.

Svo gerist það að Egill Helgason, dagkrárgerðarmaður og bloggari, tekur undir með Hannesi. Þetta eru slík stórkostleg undur og stórmerki að pólitískur andstæðingur taki undir sjónarmið Hannesar að ég get ekki annað en vitnað hér í pistil Egils:

Það er mikið til í því hjá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að íslenska hrunið hafi ekki stafað af „nýfrjálshyggju“.

Aðrar skýringar eru nærtækari.

Eins og að bankar voru einkavæddir í hendurnar á klíkubræðrum sem höfðu hvorki vit né siðvit til að reka banka með samfélagslega ábyrgum hætti, heldur notuðu þá sem miðstöðvar fyrir brask.

Eins og að ekki er hægt að byggja alþjóðlega fjármálamiðstöð á örgjaldmiðli eins og krónunni.

Og því að fölsk kjör, viðskipti og væntingar byggðust upp á alltof hátt skráðu krónugengi sem var óhugsandi að entist.

Þannig að skýringarnar eru frekar græðgi, fyrirhyggjuleysi, siðspilling, vinahygli og klíkuskapur og kannski bara hrein heimska. 

Ég ekki alltaf sammála Agli en í þetta sinn er það hins vegar staðreynd. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að ég hef ekki hugmynd um hvað „nýfrjálshyggja“ en halla mér sem fyrr að frjálshyggju, ef til vill er það gamaldags frjálshyggja.


Hótanir Creditinfo og hin týnda samfélagsábyrgð

Ekki er svo ýkja langt síðan íslenskir bankar höfðu í hótunum við stjórnvöld. Sögðust ætla úr landi vegna þess að aðstæður hér væru svo „fjandsamlegar“, skattar svo háir og leiðinlegt að starfa hér á landi. Áður en bankarnir hleyptu heimdraganum fóru þeir á hausinn með hrikalegum afleiðingum fyrir þjóðina.

Enn eru uppi samtök meðal hin sjálfhverfa hluta atvinnulífsins um að þvinga stjórnvöld til að ganga í ESB og því er hótað að fyrirtækin fari úr landi nema látið sé undan kröfum þeirra.

Auðvitað gengur þetta ekki. Þó stjórnvöld eigi að hlusta á atvinnulífið eru takmörk fyrir öllu. Stjórnvöld eiga hins vegar ekki að láta undan þvingunum. Geri þau það vaknar spurning um lýðræðið, hvort kjósendur hafi minni möguleika til að hafa áhrif með atkvæði sínu en fyrirtæki með hótunum. Þá vaknar eðlilega sú spurning hvort hótanir séu að verða algengasti tjáningarmáti almennngs og fyirtækja. Það er hins vegar önnur saga.

Svo er það hitt, að fyrirtæki sem hafa orðið til hér á landi, þróað sig, þroskast og orðið að stórum vinnuveitendum hljóta að bera samfélagsábyrgð. Ebítan skiptir ekki höfuðmáli heldur starfsfólkið og umhverfið, heildin sem gerir það að verkum að fyrirtækið þrífst hér á landi.

Ætli Creditinfo að yfirgefa landið bendir það eindregið til þess að ekkert af ofangreindu skiptir máli heldur ebítan eins og sér. Fyrirtækið er því orðið gerilsneytt allri samfélagsvitund og er þar með ekki á vetur setjandi. Og sé Creditinfo orðið svo útlenskt að það geti ekki starfað í því umhverfi sem allflest önnur fyrirtæki sætta sig við þá er best að það fari til Prag þar sem launin eru umtalsvert lægri en hér á landi, verkalýðsfélögin ekki eins herská og stjórnvöld í örláta vasa atvinnulífsins og engin þörf á þvingunum. Er það annars tilviljun að fyrirtækið ætli til Prag, ekki Óslóar, Stokkhólms, Helsinki, Kaupmannahafnar eða Þórshafnar?

Síðan væri það þjóðþrifaráð að vernda íslenska starfsemi með því að skattleggja duglega fyrirtæki flýja land en vilja engu að síður halda íslenska markaðnum. Creditinfo verður þannig að átta sig á því að það verður ekki bæði haldið og sleppt


mbl.is Ástandið á Íslandi ýtir Creditinfo út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umræðan snýst um undanþágur á undanþágur ofan

Núverandi grundvöllur Evrópusambandsins kemur fram í Lissabonsáttmálanum og honum tengjast fleiri tilskipanir en tölu verði á komið. Það ætti því að vera af nógu að taka fyrir þá sem kjósa að boða almenningi þetta fagnaðarerindi. En á það er varla minnst, heldur snýst umræðan mest um hugsanlegar undanþágur frá lögum og reglum ESB Íslandi til handa.

Svona er umræðan um ESB í hnotskurn, að kíkja í undanþágupakkann. Hjörleifur Guttormsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, ritar góða grein í Morgunblað helgarinnar undir fyrirsögninni „Hafa talsmenn aðildar ekki trú á grundvelli ESB?

Ekki er það mikil reisn í fylgismönnum aðildar að ESB að leggja alla áherslu á að Ísland gangi ekki inn í sambandið á eðlilegum forsendum eins og önnur ríki heldur á undanþágum og það er ekki einu sinni nóg heldur eru undanþágu á undanþágur ofan. 

Hjörleifur nefnir tíu atriði sem fólk ætti að hafa í huga varðandi hugsanlega inngöngu í ESB:

  1. Að Ísland gefur sig á vald miðstýrðu og ólýðræðislegu stjórnkerfi ESB.
  2. Að æðsta dómsvald flyst úr landi í hendur yfirþjóðlegum dómstóli ESB.
  3. úrslitavald yfir sjávarauðlindum færist frá Íslandi til Evrópusambandsins.
  4. Að Evrópusambandið fær yfirráð yfir hafsvæðum utan 12 mílna að 200 mílum.
  5. Að samningar við þriðju aðila um fiskveiðimálefni færast til ESB.
  6. Að landbúnaði er stefnt í hættu með tollfrjálsum innflutningi og dýrasjúkdómum.
  7. Að fríverslunarsamningar Íslands við aðrar þjóðir falla úr gildi.
  8. Að sjálfstæð rödd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hljóðnar að mestu.
  9. Að stjórn gengis og peningamála flyst í hendur Seðlabanka Evrópu.
  10. Að vinnuréttur verður hluti af ESB-rétti og staða launafólks verður óviss.
Fleiri atriði má bæta við upptalningu Hjörleifs. Í lokin hefnir hann þó þann prófstein sem aðildarumsóknin að ESB er fyrir stjórnmálaflokka og Alþingi. Undir þetta hér er heils hugar tekið: 

Umsóknin um aðild að ESB fyrir nær fimm árum var mikið feigðarflan. Fyrir henni var enginn pólitískur meirihluti og þeir sem að henni stóðu gerðu sér ekki grein fyrir um hvað aðildarferlið snerist. Fyrrverandi ríkisstjórn var strand með þetta ferli þegar á árinu 2012 og því kemur það úr hörðustu átt að sömu flokkar gera nú kröfu um að haldið sé í því lífinu með einhverjum ráðum. Krafan um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum eða draga umsókn Íslands til baka á sér hvorki fordæmi né fótfestu í okkar stjórnskipan. Stjórnmálaöfl hérlendis sem áfram eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið verða að afla þeirri skoðun meirihlutafylgis í alþingiskosningum og láta þannig reyna á styrk sinn fyrir endurnýjaðri umsókn. Best fer á því að það sé gert án þess að haldið sé á lofti grillum um sérlausnir Íslandi til handa. 

 


Auðugir bissnismenn stofna til skoðanakannanaflokks

Nýr flokkur sem er nákvæm eftirlíking annars að því undanskyldu að þeir sem að stofnun hans standa vilja ganga í Evrópusambandið. Er þetta ekki della?

Nýr flokkur sem er nákvæm eftirlíking annars fær ómælda athygli í fjölmiðlum af því að þeir tveir sem að stofnuninni standa kaupa hverja skoðanakönnunina á fætur annarri. Er þetta ekki della?

Margir halda að nú sé runnin sé upp tími hjáleigna? Benda á Samfylkinguna og Besta flokkinn. Er þetta ekki della?

Aldrei í stjórnmálasögu Íslands hefur eins málefnis klofningsframboð þrifist nema um tiltölulega skamman tíma. Flokkar sem eiga ekkert bakland fá ekki þrifist. Þannig var auðvitað um klíkuna sem myndaði Besta flokkinn. Alltof mikil vinna örfárra fer í að halda flokknum lifandi. Þess vegna sameinaðist hann Bjartri framtíð. Sá flokkur á einnig í stökustu vandræðum vegna fámennisins. Vandi hans er líka sá að forystumennirnir eru latir, þeir fylgjast ekki nægilega vel með og hafa ekki bakland til að styðja við sig. Hins vegar er talandinn í lagi og þannig má um tíma villa fólki sýn. Að öðru leyti er ekkert nýtt við Bjarta framtíð, hann er gamaldags krataflokkur sem vill sofa út á morgnana.

Svipað var um Frjálslynda flokkinn. Hann var aldrei nema örfáir áhugamenn um stjórnmál sem flestir fylgdu Sjálfstæðisflokknum að málum og nú eru þeir allir komnir heim með örfáum undantekningum. Frjálslyndi flokkurinn var einsmáls flokkur og náði aldrei flugi af því að baklandið var svo fátæklegt.

Sjálfstæðisflokkurinn er gríðarlega stór. Í honum er mikið og fjölskrúðugt bakland fólks sem vinnur að stefnu flokksins allan ársins hring. Þar er í gangi félagsstarf sem hefur mikil áhrif og á það geta forystumenn í sveitastjórnum og þingi treyst. 

Það kostar meira en nokkrar skoðanakannanir að búa til flokk, jafnvel þó að honum standi auðugir bissnismenn úr Reykjavík. Þeir halda kannski að þeir geti keypt atkvæði en eiga eftir að átta sig á því að svo er ekki. Það er hins vegar afar snjallt að kaupa skoðanakannanir til að hafa áhrif á almenning. Þetta er eins og einhvers konar hringavitleysa.

Gerð er skoðanakönnun og fjölmiðlar sperra eyrun og birta niðurstöðurnar, nokkrir kjósendur láta glepjast vegna ísmeygilegra spurninga. Gerð er önnur könnun og enn fallerast fjölmiðlar og svo koll af kolli. Þetta er eins og hundur sem eltist við skottið á sér og snýst í óteljandi hringi. Út af fyrir sig má segja að slíkt athæfi sé undirbúningur stofnunar stjórnmálaflokks.

Hvernig eru þeir fallnir til að stofna lýðræðislega stjórnmálaflokk sem una ekki lýðræðislegri niðurstöðu í þeim flokki sem þeir áður tilheyrðu? 


mbl.is Nýr flokkur nyti 20% stuðnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáfu skít í andstæðingana!

Ef ekki væri fyrir hugmyndaríkt ung fólk sem stundum fer út á ystu nöf væri lítið gaman af tilverunni. Nokkrir ungir menn í Menntaskólanum við Sund gáfu bókstaflega skít í nemendur í Flensborgarskóla.Þetta er kostulegt uppátæki og mikið má vera ef hann Maggi skólameistari skilji ekki grínið.

Þeir Flensborgarar eiga ekki annað svar við þessu frábæra leik Sundmanna en að gjörsigra þá í ræðukeppninni. Þeir hafa engan tíma til táknrænna mótvægisaðgerða.

Hrossaskítsgrínið hefði ábyggilega ekki náð tilgangi sínum nema því aðeins að strákarnir hefðu verið gripnir á vettvangi. Ella hefði mátt halda að einhverjir fallistar í Flensborg hefðu hefnt sín á skólanum eða eitthvað álíka.

Hrekkir á borð við þennan tilheyra þessu aldursskeiði og vont væri er skólarnir væru svo húmorslausir að þeir skildu þetta ekki. 


mbl.is Settu hrossaskít fyrir framan skólann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Val á öndveegisritum og plebeiisminn

Útaf fyrir sig getur verið skemmtilegt að setja upp lista yfir „öndvegisrit“. Slíkur listi verður þó aldrei neitt annað en mat þeirra sem völdu, síst af öllu skoðun okkar hinna. Við getum virt þennan lista spekinganna fyrir okkur og dáðst að valinu að sumu leyti en dregið í efa skynsemi þeirra þegar kemur að því að þau rit sem okkur þykja góð vantar.

Að sumu leiti er svona listi frekar „plebeiiskur“ eins og hann Ólafur M. Ólafsson, íslenskukennari í MR hefði orðað. Svipað eins og þegar einhverjir gáfumenn stóðu fyrir valinu á þjóðarfjallinu og Herðubreið var valin en ekki Vífilsfell, Búrfell (þau eru vissulega mörg, veldu bara eitt), Spákonufell, Esja, Skarðsheiði, Kirkjufell, Búlandstindur eða Sauðafell við Mosfellsheiði. Vandinn við þetta val er sá að sumir halda að valið sé hafið yfir allan vafa og gagnrýni og Herðubreið eigi þennan titil skilið.

Enn áður var Gleymmérei valið þjóðarblómið. Ekki var baldursbrá valin né heldur geldingahnappur, eyrarrós, lúpínan (veit ekki hvort megi nefna hana í sömu andrá og þjóðarblóm!) og fleiri og fleiri.

Næst er ábyggilega skoðanakönnun um þjóðartréð og síðan þjóðargrjótið og loks þjóðarlækinn (dugar líklega að „læka“ þann sem manni þykir bestur). 

„Plebeiisminn“ byggir á viðmótinu í gulu pressuni, sem segir yfirleitt í vefhlutanum að öll greinin sé í prenthlutanum og hann þurfi að kaupa.

„Plebeiisminn“ byggir einnig á því að ná sem flestum saman til að velja eitthvað eitt einstakt sem sé framar öðru þrátt fyrir að það sé í sannleika ekki hægt. Ekki frekar en að hægt sé að gera upp á milli barna sinna. Kynþokkafyllsti karlinn eða konan, sá eða sú best klædda, fyndnasti gæinn, vinsælasti stjórnmálamaðurinn, besti hljóðfæraleikarinn og svo framvegis. Horfið á Edduna eða hvað þessar uppákomur heita þar sem leikarar og fjölmiðlamenn eru valdir sem „bestir“. Óskaplega getur svona verið ómálefnalegt og leiðinlegt svo ekki sé talað um tilbreytingarleysið í þessu öllu saman.

Ég get ómögulega talað fyrir þjóðina og ætla ekki einu sinni að reyna það. Hitt veit ég að bókmenntasmekkur minn hefur breyst frá því fyrst ég fór að lesa og allt fram á þennan dag. Einu sinni þótti mér Gerpla mikið öndvegisrit en eftir því sem ég las hana oftar fann ég að hún er langt frá því að vera heilsteypt rit vegna þess að höfundurinn lendir að í afskaplega miklum ógöngum með sögu sína og kemst ekki sennilega frá þeim. Íslandsklukkuna skildi ég ekki fyrr en ég las hana í menntaskóla og með tilsögn. Þannig er það með mörg rit. Þau eru margslungin og erfið og oft þarf lesandinn leiðbeiningar við til að skilja til fullnustu. Þetta er kosturinn við mörg rit. Hægt er að lesa þau aftur og aftur og alltaf sjá nýjar og áður óþekktar víddir. Svo finnst mér með Njálu og Sturlungu.

Ef til vill má nefna bókina Palli var einn í heiminum sem ég las sem barn og nokkrum sinnum síðar fyrir börnin mín. Dýptin í þeirri sögu leynir á sér.

Út frá henni var samin stysta smásaga í heimi. Hún er svona, í endursögn gamalls vinar sem ég hef ekki hitt í mörg ár, hann er eignleg týndur:

Palli var einn í heiminum - og þá var bankað. 

Þessi smásaga komst ekki á Kiljulistann. 


mbl.is Brennu-Njálssaga besta verkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðindin með Gnarr og Dag

Skerjafjörður

Leiðindin með núverandi borgarstjórnarmeirihluta er að hann hlustar ekki. Hann byggist framar öllu á fámennri klíku sem veður fram með eigin hugmyndafræði þvert á vilja borgarbúa.

  1. Bílar eiga að víkja fyrir gangandi og hjólandi umferð, jafnvel þó hún sé sáralítil.
  2. Allt er gert til að takmarka bílaumferð
  3. Einn og aftur skal þétta byggð jafnvel þó það hafi í för með sér óhagræði, jafnt fyrir þá em fyrir eru sem og hina sem neyðast til að takar sér búfestu í „þéttri byggð“. Skiptir litlu hvernig aðstæður eru, lítum t.d. á skipulagið við enda suðvesturflugbrautarinnar við hlið byggðarinnar sem kenndi er við Skerjafjörð ...
  4. Stór fjölbýlishús eiga að taka við af einbýlishúsum, raðhúsum eða smærri blokkum. Með góðu eða illu skulu Reykvíkingar læra að búa í fjölbýli eða flytjast í önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eða jafnvel á Selfoss, Hvolsvöll, Höfn, Blönduós eða Skagaströnd. Á þessum stöðum fer afar vel um fólk þó það búi ekki í blokkum.
  5. Hofsvallagatan var dæmi um uppárengjandi vitleysu sem jafnvel við hjólamenn sáum í gegnum.
  6. Borgartúnið á að vera gata þar sem akandi umferð er refsað en strætisvögnum umbunað. Við hjólamenn munum líklega aldrei nota Borgartúnið til hjólreiða, við förum frekar niður að sjó og notum stíginn þar. Sama er með göngufólk.

Ég kalla þetta leiðindi vegna þess að meirihlutinn í borgarstjórn kann ekki einu sinni að skipuleggja fyrir almenning. Hann heldur að hann sé að gera okkur hjólreiðamönnum gott en engu að síður er víðast hvar afar erfitt að hjóla. Við erum ekki að leita eftir forréttindum heldur tryggum leiðum. Gangandi fólk leitar ekki eftir forréttindum heldur einföldum og fljótlegum leiðum.

Flestir sjá í gegnum pólitík Jóns Gnarrs og Dags. Sá fyrrnefndi hefur hringlandahátt að stefnu og sá síðarnefndi var í læri hjá fyrrum forsætisráðherra sem á allt í norrænum rauðum lit en gerði þó ekkert nema flækjast fyrir almenningi. Eftir að hafa verið áratug við kjötkatlana hefur hann engan skilning á þörfum fólks. 

Meðfylgjandi mynd er af skipulaginu í Skerjafirði. Takið eftir sláandi mun á milli gamla hlutans og þess nýtja. Þvílíkur óhugnaður sem sá nýji er. Myndir þú vilja búa í þessu blokkahverfi?

 


Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, Hólmarar

DSC_0551Körfuknattleikslið kvenna  í Snæfelli úr Stykkishólmi varð Íslandsmeistari um helgina. Vart er hægt að hugsa sér meiri frama fyrir íþróttalið en að verða fremst á meðal jafningja. Og þvílík upphefð sem liðið og titillinn er fyrir Hólmara.

Íþróttir eru alls staðar afar mikilvægar fyrir æsku landsins, ekki síður í smærri byggðum en hinum stærri. Hópíþróttir eru sérstaklega mikilvægar vegna þess að þær kenna fólki samvinnu.

Þó til sé hópur stúlkna úr Stykkishólmi sem áhuga hefur á körfubolta verði Íslandsmeistari er gleðilegt en þar með er ekki öll sagan sögð. Þessi hópur varð ekki til úr engu. Að baki þeim er fjöldi annarra keppenda í öllum árgöngum og raunar öllum kynjum. Ekki gleyma því að karlalið Snæfells hefur líka náð þeim glæsilega árangri að verða Íslandsmeistari. Æfintýrið í Stykkishólmi er engin tilviljun.

Uppeldið hjá Snæfelli skiptir gríðarlega miklu máli og umgjörðin er mikilvæg. Þar koma að málum fjöldi manns sem aldrei snerta boltann. Þetta eru sjálfboðaliðarnir, fjöldi fólks sem vinnur óeigingjarnt starf fyrir íþróttaliðin og úti á landi þar sem fámennið er meira er álagið á hvern og einn mikið. Safna þarf fé til rekstrar, greiða fyrir leigu á sal, kosta til þjálfara, greiða fyrir akstur eða flug í keppnisferðir og fleira og fleira.

Peningar vaxa ekki á trjánum í Stykkishólmi frekar en annars staðar á landinu. Ekki misskilja, þessi vinna fyrir íþróttafélög er ekkert auðveldari í fjölmenni höfuðborgarsvæðisins. Stundum er hún miklu erfiðari vegna þess að samstöðuna vantar og samkeppni milli íþrótafélaga og íþróttagreina er svo gríðarlega mikil.

Fyrir Stykkishólm og íbúa bæjarins er Íslandsmeistaratitill í körfubolta kvenna einfalt og skýrt tákn um að allt er mögulegt með samstöðu og samvinnu íbúa. Titillinn bendir einfaldlega til að það sé ákaflega gott að búa í Stykkishólmi og ég veit að það er satt. 

Mér þótti eftirfarandi orð úr íþróttasíðu Morgunblaðsins í morgun dálítið skemmtileg:

Hjá Haukum var Hardy sterk sem og Gunnhildur Gunnarsdóttir, dóttir formanns körfuknattleiksdeildar Snæfells, en hún lenti snemma í villuvandræðum. 

Sem sagt, körfuboltastelpur úr Stykishólmi leika með fleiri liðum en Snæfelli. Og ég veit að þeim sæmarhjónum, og góðum vinum mínum, Gunnari Svanlaugssyni, formanni Snæfells, og Láru Guðmundsdóttur, hefur ekki fundist leiðinlegt að eiga dætur í báðum liðunum sem léku til úrslita um titilinn. 

Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, Hólmarar og Snæfell. 


Mæli með Grími Sæmundsen sem formanni SAF

DSC_0318 Langafjöl, Gunnar

 

SAF verði í lykilhlutverki um markaðssetningu á Íslandi sem ferðamannalandi, þar sem áfram verði lögð áhersla á að dreifa gestum okkar betur yfir árið, betur um landið og ekki síst að stefnt að auknum meðaltekjum af hverjum erlendum ferðamanni, sem heimsækir Ísland, á grunni gæða og einstakrar upplifunar. 

Ofangreind tilvitnun er skoðun Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, en hann býður sig fram sem formann Samtaka ferðaþjónustunnar á aðalfundi sem haldinn verður fimmtudaginn 10. apríl næst komandi. 

Grímur-2

 

Alvöru atvinnugreinar

Ég hef lengi fylgst með framgangi ferðaþjónustunnar, eða allt frá því 1980 er ég hóf útgáfu á tímaritinu Áfangar sem fjallaði um Ísland og ferðir um landið. Þá þeim árum var ferðaþjónustan lítil og „hugguleg“ atvinnugrein sem afar fáir trúðu að yrði nokkurn tíman öflug. Þá voru bara tvær „alvöru“ atvinnugreinar, sjávarútvegur og landbúnaður.

Ferðaþjónustan hélt reglulega ferðamálaráðstefnur en var það Ferðamálaráð Íslands sem boðaði til þeirra. Þangað mættu flestir í atvinnugreininni, meðal þeirra menn sem jafnvel þó voru löngu orðnir þjóðsagnapersónur. Nefna má Úlfar Jacoben og Guðmund Jónasson. Fjölda annarra sem sannarlega voru brautryðjendur mættu til fundarhalda, veitingmenn, hótelhaldara, ferðaskrifstofufólk ... og jafnvel ég.

 

Gæfusporið 

DSC_0290, Dyrfjöll, Dyrnar, fólk, tvípan - Version 2

Samtök ferðaþjónustunnar voru svo stofnuð 1998 og það var gæfuspor. Síðan hefur ferðaþjónustan hefur átt ágætu gengi að fagna og vaxið frá ári til árs. Meginástæðan er auðvitað sú að gott og vandað fólk hefur valist í forsvar fyrir atvinnugreinina. Erna Hauksdóttir var framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar frá upphafi og þangað til á síðasta ári, en hún var áður framkvæmdastjóri Samtaka veitinga- og gistihúsa.

Þrír menn hafa verið formenn SAF, þeir eru núverandi formaður, Árni Gunnarsson og Jón Karl Ólafsson sem var formaður frá 2002 til 2009, og Steinn Logi Björnsson, sem var fyrsti formaðurinn. Allt framsýnir og duglegir menn.

 

DSC_0566 - Version 2

Mæli með Grími Sæmundsen 

Ég hef í langan tíma tengst ferðaþjónustunni beint eða óbeint og þekki þar fjölda manns. Ég vil beina orðum mínum til þeirra sem og annarra, þegar ég hvet til þess að Grímur Sæmundsen í Bláa lóninu verði kjörinn næsti formaður SAF.

Grímur hefur frá því ég kynntist honum í Menntaskólanum í Reykjavík, verið yfirvegaður raunsæismaður. Hann er reglusamur, orðheldinn og framar öllu jákvæður og lítur til framtíðar í störfum sínum. Mikill fengur er að fá slíkan mann sem formann SAF. 

DSC_0145 090228 - Version 2

 

Bláa lónið var bara hugmynd

Bláa lónið óx ekki sjálfkrafa frá því að vera lagleg hugmynd upp í það að vera eitt öflugasta fyrirtækið í íslenskri ferðaþjónustu. Til að leiða uppbygginguna þurfti framsýnan mann með þor og skynsemi en um leið var mikilvægt að sá hinn sami nyti trausts hjá öllum þeim aðilum sem komu nálægt starfinu, bönkum, ferðaþjónustufyrirtækjum og verktökum af ýmsu tagi. Grímur var þessi maður. 

 

DSC_0322 - Version 2

Alvöru atvinnugrein? 

Í gamla daga var sagt að ferðaþjónustan myndi aldrei geta orðið „alvöru“ atvinnugrein. Bent var á hótel víða um land sem sjaldnast virtust geta staðið undir rekstri sínum en fóru mörg hver á hausinn aftur og aftur. Haft var á orði að þegar ferðaþjónustufyrirtæki hafi þrisvar orðið gjaldþrota væri ef til vill kominn grundvöllur fyrir áfallalitlum rekstri. Auðvitað var þetta bara tóm vitleysa, það vissu allir - en samt ...

 DSC_0059 Frostastaðavatn, þrípan - Version 2

Fjárhagslega traust fyrirtæki 

Hitt er öllum ekki ljóst að Bláa lónið hefur alla tíð verið traust og gott fyrirtæki. Rekstri þess hefur ávalt verið hagað á þann veg að það gat staðið við allar fjárskuldbindingar sínar og þannig er það enn þann dag í dag.

Þetta er athyglisverð staðreynd í ljósi þess hversu margir hafa átt erfitt með að koma undir sig fótunum í ferðaþjónustunni vegna þess að þeir voru óskynsamir í fjármálum. Sumum þeirra fylgir ljót slóð.

Ég hvet fólk í ferðaþjónustu til að fylkja sér að baki Grími Sæmundsen og kjósa hann sem formann SAF.

 IMG_0196 Kistufell í austur - Version 2

Gjaldtaka á ferðamannastöðum 

Á þessum vettvangi hef ég gagnrýnt harðlega gjaldtöku meintra landeigenda af ferðamannastöðum og upptöku á svonefndum „náttúrupassa“. Skoðun Gríms á þessum málum er eftirfarandi og honum treysti ég til að leiða þessi mál til lykta:

SAF verði leiðandi í að skapa sátt varðandi varðveislu og uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða og gjalddtöku af ferðamönnum. Öflug náttúruverndarstefna er í þessu efni nauðsynleg.


Góð grein Páls Magnússonar um arðinn af auðlindinni

Þetta er þó ekki efni þessa greinastúfs heldur sú miðborgarmeinloka - að það séu bara „sægreifar“ sem njóti arðsins af auðlindum í sjónum en ekki „íslensk alþýða“. Þessum málflutningi fylgja gjarnan þau hughrif, ef það er þá ekki sagt beinum orðum, að útgerðarmenn séu upp til hópa blóðugir arðræningjar og samtök þeirra skipulagður bófaflokkur. Fyrir þann sem er alinn upp í námunda við allskonar útgerð og útgerðarmenn er þetta ótrúlega alhæfingasamur og yfirborðslegur málflutningur.

Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri og blaðamaður, ritar góða grein í Morgunblað dagsins.

Hann ræðst gegn þeirri þjóðsögu sem Gróa á Leiti hefur statt og stöðugt reynt að koma inn hjá almenningi að þeir sem stunda útgerði séu einfaldlega bófar og arðræningjar. Auðvitað er þetta rangt og ekki til annars gert en að skapa pólitíska upplausn í þjóðfélaginu og skaða efnahagslíf þjóðarinnar svo hægt sé að sýna fram á að hið kapítalíska markaðssamfélag sé vont og þess í stað þurfi „eitthvað annað“.

Páll rekur sögu útgerðar í Vestmannaeyjum. Raunar er hún keimlík sögum víða um land. Harðduglegt fólk sem hefur byrjað smátt en stækkað við sig og rekur fjárhagslega sjálfstæða útgerð. Á slíkri vegferð hefur sumum tekist að að koma undir sig fótunum en öðrum ekki, saga sem er hvorki ný né gömul, þetta hefur gerst í öllum atvinnugreinum. Þannig eiga hlutirnir að vera. Vill einhver skipta á þessu og miðstýrðum fyrirtækjum í opinberri eigu? Getur einhver haldið því fram að „alþýða“ landsins hagnist þá meira af afrakstri útgerðarinnar?

Útgerðarfyrirtækin greiða skatta og skyldur og standa við bakið á samfélaginu. Það dugar hins vegar ekki úrtöluliðinu sem í heilagri vandlætingu talar um „alþýðuna“ en gleymir því að fólkið sem á og rekur útgerðir, starfar hjá þeim eða hefur framfæri sitt af þjónustu við þær er einfaldlega alþýða þessa lands. Þetta eru ekki ljótu kapítalistarnir með digran vindil í kjafti og sem berja starfsfólk sitt áfram. Nei, í langflestum tilfellum eru þetta burðarásar í samfélaginu, leggur til þess mikið fé fyrir utan skatta. Án þessara fyrirtækja myndi þjóðfélagið ekki þrífast.

Þetta á líka við um aðrar atvinnugreinar sem vinstra liðið sér ofsjónum yfir vegna þess að það er ósköp venjulegt fólk sem á fyrirtækin sín og rekur þau. Þetta eru oftast lítil eða meðalstór fyrirtæki með undir fimmtíu manns á launaskrá.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Páll Magnússon eftir að hafa rakið sögu lítils útgerðarfyrirtækis í Vestmannaeyjum:

Þetta er sem sagt beinn samfélagslegur ávinningur af útgerð þessa eina báts og starfi 30 manna áhafnar hans í Vestmannaeyjum. Þá er ótalinn óbeinn ávinningur af ýmsu tagi og önnur afleidd störf sem þessi útgerð skapar í viðhaldi, veiðarfæragerð, uppskipun og svona mætti áfram telja. Hvernig er hægt að halda því fram af einhverju viti – að ekki sé nú talað um sanngirni – að engir nema „sægreifarnir“ njóti arðsins af auðlindinni? 

Undir hver orð í greininni má taka.

Mikið óskaplega er nú gott að Páll Magnússon sé laus undan oki Ríkisútvarpsins og geti loks tekið til máls um það sem raunverulega skiptir máli fyrir þjóðfélagið, atvinnulífið. 


Spana fasteignasalar upp fasteignaverð?

Þetta er alveg undarlegt ástand með fasteignamarkaðinn í Reykjavík. Allt frá hruni hafa fasteignasalar og formælendur félags þeirra haldið því fram að hann sé á uppleið. Skilja má þessar yfirlýsingar á þá leið að verð á fasteignum sé að hækka. Engu líkar er en að fasteignasalar hafi unnið að því með oddi og egg að spana upp fasteignaverðið og hafa þannig beinlínis áhrif á markaðinn. Hugsanlega hefur þeim tekist þetta enda bein tengsl milli afkomu fasteignasala og verðs á markaði.

Svo bárust þær fréttir fyrir stuttu að Íbúðalánasjóður hafi sagt að fækkun hafi orðið í útlánum að hans vegum miðað við undanfarin ár.

Hvernig á að lesa í mismunandi skilaboð? Annars vegar standa yfirlýsingaglaðir fasteignasalar og hins vegar Íbúðalánasjóður, frekar súr á svipinn. Gæti verið að það séu bankarnir sem séu lána meira til íbúðakaupa? Einhvern veginn finnst mér það ótrúlegt.

Í raun og veru þarf glögga greiningu á sölutölum undanfarinna mánaða og þá hvað liggi á bak við þær. Mér duga ekki kæti og yfirlýsingar fasteignasala. Það hefur sýnt sig að lítil innistæða hefur verið á bak við þær.

Svo stangast þetta allt á þá einföldu staðreynd að lítið framboð íbúða í vesturbæ Reykjavíkur, miðbæ og Hlíðunum bendir einfaldlega til þess að fólk sé ekkert að hugsa sér til hreyfings. Það heldur að sér höndunum og vill sjá hvað sé að gerast. Þær fáu eignir sem seljast tengjast ábyggilega eðlilegri endurnýjun eldra fólks sem vill breyta um eða þarf að breyta.

Hitt er svo annað mál að lítið er um nýbyggingar í Reykjavík. Eðlileg endurnýjun fær enga útrás og niðurstaðan er staðnaður markaður þar sem fasteignasalar reyna með öllum ráðum að halda verðinu uppi. 


mbl.is Slegist um góðar íbúðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heldur skjálftahrinan áfram til austurs?

reykjanes-kort_3Vísindamenn segja að á Reykjanesskaga séu sex eldstöðvakerfi eins og sjá má á myndinni hér til hægri.

Þegar jarðskjálftar verða þar eða á Reykjaneshrygg er eins og að framhaldið verði eftir einhverju kerfi.

Í fyrra urðu til dæmis miklir skjálftar í kringum Eldey og Geirfugladrang. Skömmu síðar kom mikil skjálftahrina í Sandvík sem er rétt vestan við Grindavík. Þessi skjálftar færðust svo austar og austar.

Í haust varð síðan skjálftahrina við Jósefsdal og Vífilsfell. Enn síðar skalf jörð við Jarlhettur sunnan undir Langjökli.

Ef til vill eru þetta einhvers konar „dómínóáhrif“ vegna snarpra skjálfta lengst suðvestan í sjó. Eftir einhverju ókunnu kerfi færast skjálftarnir lengra og lengra til norðausturs uns þeir koma á land og hliðrast þar eftir eldstöðva- eða sprungukerfi jafnvel lengst inn á hálendið.

Fyrir nokkrum dögum urðu litlir skjálftar við Eldey. Þá velti ég því fyrir mér hvort leikurinn myndi endurtaka sig. Stórir skjálftar yrðu á þessum slóðum og allt myndi gerast eins og í fyrra. Ef til vill þarf ekki glöggan mann til að sjá þetta fyrir, svona hefur þetta ábyggilega gerst í langan tíma.

Nú hefur sem sagt orðið stór skjálftahrina við Eldey og í framhaldinu fjöldi lítilla skjálfta við Eldvörp, vestan Grindavíkur. Engir hafa þó orðið við Sandvík eins og í fyrra, yfir það svæði hljóp núverandi hrina og stakk sér bara milliliðlaust niður í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Eldvörp-Svartsengi.

Nú er sem sagt spurningin þessi. Hvar hefur orðið til spenna þegar land hreyfðist við Eldvörp? Skelfur næst jörð við Fagradalsfjall, Krísuvíkurkerfið, Brennissteinsfjallakerfið eða Hengilskerfið? Og þessu næst: Hvar verða skjálftar á Suðurlandi eða við Langjökul. 

Ég bið lesendur að taka varann á ofanrituðu því ég hef ekkert vit á jarðfræði. Spái samt stórum skjálfta í sunnan Hafnarfjarðar, jafnvel við Kleifarvatn. Byggi þessa vísindalegu nálgun mína á draumspökum manni.


mbl.is Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glaðværð

Stundum kemur fyrir að maður les eitthvað sem er svo djúpt að spekin drýpur af því ... ef svo  má að orði komast. Í morgun las ég minningargreinar um Torfa Ólafsson, en hann var mörgum kunnur sem talsmaður Félags kaþólskra leikmanna og kom fram sem slíkur af hógværð og mildi Hann var líka gamall kommi en bar það vel, eins og sagt er. Ekki þekkti ég Torfa öðru vísi en að lesa fréttir af honum og frásagnir. 

Í afar fallegum minningargreinum um Torfa staldraði ég við niðurlagið í eftirmælum Árna Bergmanns. Hann segir þar:

En þó var enn meira virði vinarhugur hans og svo það, að sannarlega rættist á honum ágæt bæn sem sá kaþólski píslarvottur Thomas More beindi eitt sinn til guðs síns: Gef mér glaðværð nóga til þess að ég verði öðrum mönnum ekki til byrði. 

Þetta hafði ég ekki áður lesið og finnst fagurlega orðað og mættum við allflest taka okkur til eftirbreytni.


Góða liðið og svo við hin ...

Hægt og bítandi missa sum orð merkingu eða snúast jafnvel upp í andhverfu sína. Í þvælinni umræðu stjórnmálamanna verða klisjur oftar en ekki ráðandi. Almenningur á því erfiðara en ella með að átta sig á því fyrir hvað viðkomandi stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur stendur. Ef til vill er það tilgangurinn með innihaldslausu eða merkingarlitlu tali.

Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaði dagsins. Hann gerir að umtalsefni þá þvælu sem stjórnmálamenn og margir aðrir skreyta sig með, sérstaklega á vinstri vængnum. Ég man eftir því að hér áður fyrr tíðkaðist að herma vinstri flokk upp á alþýðuna á einhvern hátt og jafnvel allir töldust um tíma verkalýður. Það þótti flott og vænlegt til árangurs. Tímarnir hafa breyst pínulítið að þessu leyti.

Óli Björn segir:

Á síðustu árum hafa íslenskir stjórnmálamenn í æ ríkara mæli skreytt sig með fallegum og jákvæðum orðum. Þeir segjast vera frjálslyndir (ýmist til vinstri eða hægri og jafnvel á miðjunni). Þeir eru talsmenn umburðarlyndis enda einstaklega víðsýnir. Flestir eru stjórnmálamennirnir orðnir sérstakir baráttumenn umbóta, unnendur náttúrunnar og vinir græna hagkerfisins. Stjórnmálamennirnir vilja beint lýðræði og forðast átakastjórnmál. Umræðustjórnmál er lausnarorð.

Og hann rekur dæmin og hæðist að þeim um leið svo þeim hlýtur að svíða undan sem taka til sín.

Ég held að þetta orðagjálfur hafi náð nýjum hæðum þegar stjórnmálamaður sem hefur ekki náð athygli eða frama innan eigin flokks fór að halda því fram að flokkurinn hafi yfirgefið hann og gömlu stefnuna og nú ráði vonda fólki. Eða þegar fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði um daginn að við, sem erum á móti aðild Íslands að ESB, séum svartstakkar og það var meint í afar neikvæðri merkingu. Ég viðurkenni að í þetta sinn sveið verulega undan uppnefni frá fyrrum samherja og raunar skil ég ekki svona pólitík.

Yfirleitt eru ganga umræðustjórnmálin út á að niðurlægja andstæðinganna. Margir þeirra sem aðhyllast slíka blaðurpólitík telja sig víðsýnt umburðalynt, frjálslynt og fær að eigin dómi hæstu einkunn, en hinir, meirihlutinn er eiginlega bara skítapakk, vont, öfgaliðið. Eða eins og Óli Björn orðar það:

Víðsýnn, umbótasinnaður og frjálslyndur stjórnmálamaður hefur lítinn áhuga á valfrelsi. Þétting byggðar, minni og hægari umferð eru hans ær og kýr. Aðeins sá sem hefur gengið íhaldsöflunum á hönd vill greiðar samgöngur, tryggja að einstaklingar geti valið sjálfir þann ferðamáta sem þeim hentar, að ekki sé talað um hugguleg og vel skipulögð úthverfi. Forhert afturhald óskar síðan eftir mislægum gatnamótum og það gengur næst guðlasti.

Sá er þetta ritar verður vonandi aldrei kenndur við frjálslyndi eða víðsýni, en sættist ágætlega á að vera brennimerktur sem íhald eða jafnvel, ef svo ber undir, afturhald og jafnvel frjálshyggju. En kannski mun gamall samherji nota önnur orð um mig og okkur hin. 

Takið eftir síðustu setningunni. Kunna lesendur að ráða í merkingu hennar?

Hitt er svo annað mál að svona stimplapólitík hefur náð árangri gegn Sjálfstæðisflokknum. Hvað er betra en að ljúga upp á andstæðinginn og berja sér á brjóst, hæla sjálfum sér eins og fariseinn í musterinu. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband