Ó-skapnaður hinna talandi stétta og annarra

Mælikvarði á mikilvægi atvinnugreina er arðsemi. Arðsemi í skapandi greinum er hinsvegar ámóta fágæti og skatttekjur hins opinbera af ferðaþjónustu. Hinar talandi stéttir þessa lands ættu að hafa hugfast að skapandi greinar leggja þannig afskaplega lítið til hagvaxtar en það er hagvöxtur sem greiðir reikningana fyrir hinar skapandi greinar. 
 
Þannig skrifar Arnar Sigurðsson í niðurlagi greinar sinnar í Morgunblaði dagsins. Arnar er starfandi á fjármálamarkaði, eins og segir með greininni. Ekki þekki ég manninn en hann er leiftrandi skemmtilegur penni og greinin hans í Mogganum er góð þótt ég sé ekki alveg sammála öllu sem þar kemur fram.
 
Arnar ræði af mikilli kaldhæðni um svokallaðar „skapandi greinar“. Hann segir:
 
Samkvæmt sönnunarfærslu hinna talandi og skapandi stétta margfaldast hver króna fimmfalt sem tekin er frá ó-skapandi greinum og sett í þær skapandi. 
 
Ekki nóg með að hann afgreiði þessar heldur hann áfram og ljóst má vera að hann hefur ekki mikið álit á þessum svokölluðum „talandi stéttum“ en það er líklega lesandans að finna út hverjir tilheyri þeim:
 
Löngu fyrir daga latte-kaffisins voru lögmál hinna talandi stétta prófuð þegar framsýnir sveitarstjórnarmenn Raufarhafnar seldu bæjarútgerðina Jökul sem var líklega ámóta óskapandi þá eins og sjávarútvegurinn er í dag. Um var að ræða samtals 6.000 þorskígildistonn og 528 milljónir kr., upphæð sem í dag myndi gera hvert mannsbarn í bænum um 6 milljónum kr. ríkara á núvirði. Raufarhafnarbúar bíða hinsvegar enn eftir hinu skapandi ríkidæmi. Hagnaðinum af sölunni var þó ráðstafað í „eina vitið“ eins og bæjarstjórinn orðaði fjárfestinguna í de-CODE, Netverki o.fl.
 
Ef til vill á Arnar við að „hinar talandi stéttir“ séu samræðustjórnmálasinnar Samfylkingar og hjáleigunnar Bjartrar framtíðar en Sjálfstæðisflokkurinn fær líka sinn skammt og án efaverðskuldaðan:
 
Einn ötulasti talsmaður ríkisafskipta af atvinnulífi landsmanna er Ragnheiður Elín Árnadóttir sem nýverið fékk frumvarp samþykkt í ríkisstjórn um svokallaðar ívilnanir til þeirra sem vilja stofna fyrirtæki og þá sér í lagi úti á landi. Ástæður þess að færri stofna fyrirtæki úti á landi en annars staðar eru margvíslegar en allar hagrænar. Ástæður eins og fjarlægð frá markaði, skortur á fjölbreyttu en hæfu, jafnvel menntuðu starfsfólki, fjarlægð frá alþjóðaflugvelli, höfn o.s.frv. vega þungt. Til að vinna upp slíkt óhagræði ætlar núverandi ríkisstjórn að feta í fótspor þeirrar síðustu og „ívilna“ sem er fínt orð yfir niðurgreiðslur á óhagræði. Og hverjir eiga svo að velja og hafna styrkþegum og klippa á borða við opnun nýrra fyrirtækja? Jú, það er áðurnefnd Ragnheiður Elín og embættismenn hennar. 
 
Þetta er skemmtileg grein en engu að síður skrifuð af mikilli sannfæringu um einkarekstur og ríkisafskipti af atvinnulífinu og ekki síst kjaftaglaða pólitíkusa.
 

Bloggfærslur 22. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband