Spana fasteignasalar upp fasteignaverð?

Þetta er alveg undarlegt ástand með fasteignamarkaðinn í Reykjavík. Allt frá hruni hafa fasteignasalar og formælendur félags þeirra haldið því fram að hann sé á uppleið. Skilja má þessar yfirlýsingar á þá leið að verð á fasteignum sé að hækka. Engu líkar er en að fasteignasalar hafi unnið að því með oddi og egg að spana upp fasteignaverðið og hafa þannig beinlínis áhrif á markaðinn. Hugsanlega hefur þeim tekist þetta enda bein tengsl milli afkomu fasteignasala og verðs á markaði.

Svo bárust þær fréttir fyrir stuttu að Íbúðalánasjóður hafi sagt að fækkun hafi orðið í útlánum að hans vegum miðað við undanfarin ár.

Hvernig á að lesa í mismunandi skilaboð? Annars vegar standa yfirlýsingaglaðir fasteignasalar og hins vegar Íbúðalánasjóður, frekar súr á svipinn. Gæti verið að það séu bankarnir sem séu lána meira til íbúðakaupa? Einhvern veginn finnst mér það ótrúlegt.

Í raun og veru þarf glögga greiningu á sölutölum undanfarinna mánaða og þá hvað liggi á bak við þær. Mér duga ekki kæti og yfirlýsingar fasteignasala. Það hefur sýnt sig að lítil innistæða hefur verið á bak við þær.

Svo stangast þetta allt á þá einföldu staðreynd að lítið framboð íbúða í vesturbæ Reykjavíkur, miðbæ og Hlíðunum bendir einfaldlega til þess að fólk sé ekkert að hugsa sér til hreyfings. Það heldur að sér höndunum og vill sjá hvað sé að gerast. Þær fáu eignir sem seljast tengjast ábyggilega eðlilegri endurnýjun eldra fólks sem vill breyta um eða þarf að breyta.

Hitt er svo annað mál að lítið er um nýbyggingar í Reykjavík. Eðlileg endurnýjun fær enga útrás og niðurstaðan er staðnaður markaður þar sem fasteignasalar reyna með öllum ráðum að halda verðinu uppi. 


mbl.is Slegist um góðar íbúðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heldur skjálftahrinan áfram til austurs?

reykjanes-kort_3Vísindamenn segja að á Reykjanesskaga séu sex eldstöðvakerfi eins og sjá má á myndinni hér til hægri.

Þegar jarðskjálftar verða þar eða á Reykjaneshrygg er eins og að framhaldið verði eftir einhverju kerfi.

Í fyrra urðu til dæmis miklir skjálftar í kringum Eldey og Geirfugladrang. Skömmu síðar kom mikil skjálftahrina í Sandvík sem er rétt vestan við Grindavík. Þessi skjálftar færðust svo austar og austar.

Í haust varð síðan skjálftahrina við Jósefsdal og Vífilsfell. Enn síðar skalf jörð við Jarlhettur sunnan undir Langjökli.

Ef til vill eru þetta einhvers konar „dómínóáhrif“ vegna snarpra skjálfta lengst suðvestan í sjó. Eftir einhverju ókunnu kerfi færast skjálftarnir lengra og lengra til norðausturs uns þeir koma á land og hliðrast þar eftir eldstöðva- eða sprungukerfi jafnvel lengst inn á hálendið.

Fyrir nokkrum dögum urðu litlir skjálftar við Eldey. Þá velti ég því fyrir mér hvort leikurinn myndi endurtaka sig. Stórir skjálftar yrðu á þessum slóðum og allt myndi gerast eins og í fyrra. Ef til vill þarf ekki glöggan mann til að sjá þetta fyrir, svona hefur þetta ábyggilega gerst í langan tíma.

Nú hefur sem sagt orðið stór skjálftahrina við Eldey og í framhaldinu fjöldi lítilla skjálfta við Eldvörp, vestan Grindavíkur. Engir hafa þó orðið við Sandvík eins og í fyrra, yfir það svæði hljóp núverandi hrina og stakk sér bara milliliðlaust niður í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Eldvörp-Svartsengi.

Nú er sem sagt spurningin þessi. Hvar hefur orðið til spenna þegar land hreyfðist við Eldvörp? Skelfur næst jörð við Fagradalsfjall, Krísuvíkurkerfið, Brennissteinsfjallakerfið eða Hengilskerfið? Og þessu næst: Hvar verða skjálftar á Suðurlandi eða við Langjökul. 

Ég bið lesendur að taka varann á ofanrituðu því ég hef ekkert vit á jarðfræði. Spái samt stórum skjálfta í sunnan Hafnarfjarðar, jafnvel við Kleifarvatn. Byggi þessa vísindalegu nálgun mína á draumspökum manni.


mbl.is Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glaðværð

Stundum kemur fyrir að maður les eitthvað sem er svo djúpt að spekin drýpur af því ... ef svo  má að orði komast. Í morgun las ég minningargreinar um Torfa Ólafsson, en hann var mörgum kunnur sem talsmaður Félags kaþólskra leikmanna og kom fram sem slíkur af hógværð og mildi Hann var líka gamall kommi en bar það vel, eins og sagt er. Ekki þekkti ég Torfa öðru vísi en að lesa fréttir af honum og frásagnir. 

Í afar fallegum minningargreinum um Torfa staldraði ég við niðurlagið í eftirmælum Árna Bergmanns. Hann segir þar:

En þó var enn meira virði vinarhugur hans og svo það, að sannarlega rættist á honum ágæt bæn sem sá kaþólski píslarvottur Thomas More beindi eitt sinn til guðs síns: Gef mér glaðværð nóga til þess að ég verði öðrum mönnum ekki til byrði. 

Þetta hafði ég ekki áður lesið og finnst fagurlega orðað og mættum við allflest taka okkur til eftirbreytni.


Bloggfærslur 4. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband