MMR spyr leiðandi spurningar um ESB

Hvort vilt þú að Ísland haldi opnum aðildarviðræðum við Evrópusambandið eða slíti þeim formlega?

Þetta er ógild spurning í skoðanakönnun vegna þess að hún byggir ekki á staðreyndum. Hún gengur í berhögg við stefnu Evrópusambandsins sem býður ekki upp á aðildarviðræður heldur aðlögunarviðræður. Þær viðræður eru ekki samningar heldur byggjast þær á því að umsóknarríkið, Ísland, sanni að það hefur tekið upp lög og reglur sambandsins í löggjöf sína. Nær væri að kalla þetta yfirheyrslu.

Niðurstaða viðræðnanna er ekki samningur nema því aðeins að umsóknarríkið óski eftir tímabundnum undanþágum til að aðlagast nýjum veruleika, aðild að ESB. 

Í ljósi ofangreinds getur MMR ekki spurt í skoðanakönnun spurningarinnar sem þessi pistill hófst á. Með henni er gefið í skyn að um eitthvað sé að semja. MMR hefði á sama hátt getað spurt um Lissabonsáttmálann, hvort hann sé stjórnarskrá ESB eða einungis til viðmiðunar.

Spurning MMR um aðildarviðræðurnar er því ógild, ófagleg og fyrirtækinu til vansa. 


mbl.is 68% vilja halda viðræðum opnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samningur er aldrei markmið í aðildarviðræðum við ESB

Mbl grein
Út á hvað gengur umsóknarferlið að ESB? Nei, það gengur ekki út á að gera samning um aðild heldur eingöngu að umsóknarríki sýni og sanni hvaða lög og reglur ESB það hefur tekið upp í eigin löggjöf og geti þar af leiðandi verið sambandsríki. Allt annað er aukaatriði.
 
Haldi Ísland áfram aðildarviðræðum endar það með því að við höfum tekið upp öll lög og reglur ESB. Margir vilja að þá verði aðildin lögð undir þjóðaratkvæði. Líkur benda til þess að þjóðin felli aðildina. Hver er þá staðan? Jú, við verðum aðildarríki án aðildar ... Hversu eftirsóknarverð er sú staða?
 
Auðvitað vita þeir þetta sem vilja að við höldum umsókninni til streitu. Þeir vita að viðræðurnar við ESB eru aðlögunarviðræður og til þess eins haldnar að Ísland taki upp lög og reglur stjórnarskrár ESB, Lissabonsáttmálann.

Markmiðið er ekki samningur

Sumir halda því fram að samningur við ESB sé meginatriðið. Það er rangt. Það er einnig rangt og villandi að benda á samning sem Norðmenn, Finnar, Svíar og Austurríkismenn gerðu við ESB. Frá því að þessar þjóðir gerðu aðildarsamning hefur ESB breytt inntökureglunum og nú er enginn samningur í boði. Þetta vita auðvitað allir sem hafa kynnt sér reglur sambandsins um aðildarumsókn.
 
Út á hvað ganga þá viðræðurnar við ESB? Sambandið beinlínis neitar því að þetta séu samningaviðræður, kallar þetta aðlögunarviðræður. Þeir sem halda öðru fram fara með rangt mál eða vita ekki betur.

27 löggjafarþing verða að samþykkja

Í stað samningaviðræðna hefur ESB sett saman 35 málaflokka eða kafla sem umsóknarríki þarf að ræða í smáatriðum og gangast undir. Viðræðunefnd sambandsins þarf að vera sátt við stöðu mála hjá umsóknarríkinu. Ekki nóg með það heldur þurfa öll tuttugu og sjö löggjafarþing aðildarþjóðanna að samþykkja. Nóg er að eitt sé á móti til að vandamál skapist.
 
Það segir sig sjálft að einstök aðildarríki munu ekki sætta sig við að Ísland fái undanþágur sem öðrum hafa ekki staðið til boða í málum sem eru sambærileg.

Þversögnin

Margir vilja að aðlögunarviðræður haldi áfram og efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu að þeim loknum.
 
Það er vel hægt en í þannig aðferðafræði felst hrikaleg þversögn sem raunar fær mann til að efast um heilindi þeirra sem halda þessu fram.
 
Sé efnt til þjóðaratkvæðis á þessu stigi er vel hugsanlegt að aðildinni verði hafnað. Staðan er þá sú að Ísland hefur tekið inn í löggjöf sína öll lög og reglur ESB og er þannig orðið ESB ríki án aðildar. Er það eftirsóknarverð staða?

Meginhugsunin

Meginhugsun Evrópusambandsins er sú að umsóknarríkið, í þessu tilviki Ísland, taki upp lög, reglur og stjórnsýslu sambandsins. Vissulega er gerður samningur um aðild en í honum eru almennt engar undanþágur frá stjórnarskránni, Lissabonsáttmálanum, nema þær séu tímabundnar.
 
Þær undanþágur sem flokkast sem varanlegar eru frá fyrri tíma, áður en reglum um aðildarumsókn var breytt. Þar af leiðandi eru þær gagnslausar sem rök um stöðu Íslands og ESB. Engar undanþágur eru veittar frá grundvallaratriðum. Til slíkra heyra til dæmis sjávarútvegsmál.
 
Óvissa

Þeir sem ekki skilja aðferðafræði ESB geta svo sem haldið því fram að ESB geti gert undanþágur frá núgildandi reglum. Það er hins vegar ekki einfalt mál því fyrst þarf báknið í Brussel að samþykkja, síðan þarf samþykki löggjafarþinga tuttugu og sjö aðildarríkja með undanþágunni. Nóg er að ein þjóð sé á móti, þá er málið fallið.
 
Síðar getur ESB eða aðildarríki lagt til að fallið verði frá undanþágu Íslands. Þá gildir einfaldur meirihluti atkvæða, t.d. í ráðherranefndinni. Viljum við Íslendingar sitja undir slíkri óvissu í stuttan eða langan tíma?
 
Sá samningur sem vísað er til eftir þessar aðlögunarviðræður á eingöngu við um tímabundnar undanþágur sem veittar eru til að auðvelda umsóknarríkinu að gerast aðildarríki. Ekki er hægt að benda á neinar varanlegar undanþágur frá Lissabonsáttmálanum, stjórnarskrá ESB, eftir að sambandið breytti umsóknarferlinu, að minnsta kosti ekki í grundvallarmálum.
 
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2014. 

Einar Kr. Guðfinnsson er og verður góður forseti

Þeir sem þekkja Einar K. Guðfinnsson, forseta Alþingis, vita að hann er drengur góður og ber virðingu Alþingis sér fyrir brjósti. Hann myndi aldrei ganga vísvitandi á lýðræðislegan rétt samþingmanna sinna eða annarra.

Það kemur því ekki á óvart að hann hafi reynst mannasættir á þingi og fengið stríðandi aðila til að samþykkja málamiðlun.

Þetta kostaði engu að síður óþarfa læti og hávaða, miklar ásakanir og afsökunarbeiðni og ekki síst að þeir sem verst létu skruppu að lokum inn í háheilagt hlutverk sem alls ekki hæfð. Engu líkar sumir þingmenn væru eins og hann séra Sigvaldi svo krossuðu þeir sig ótt og títt í bak og fyrir í fláræðinu.

Ég myndi hvetja Einar til að sækja um annað forsetaembætti innan þriggja ára. 


mbl.is Samkomulag um framhald málsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldi fólks er farinn að efast um Vigdísi Hauksdóttur

Þó ég sé stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar get ég ekki að því gert að æ oftar fer um mig dálítill kjánahrollur þegar sumir ráðherrar og þingmenn stjórnarmeirihlutans á Alþingi taka til máls.

Ég vona að ég teljist ekki til þeirra sem lagt hafa Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, í „einelti“ þegar ég held því fram að hún ætti að tala minna, hugsa meira og undirbúa sig betur. Þetta á nú auðvitað við fleiri en Vigdísi og þeir taki það til sín sem eiga.

Þó svo að Vigdís Hauksdóttir eigi í útistöðum við einhvern málsmetandi mann úti í bæ er ekki þar með sagt að hún geti látið alla hans ætt gjalda þess, maka, börn, barnabörn, foreldra og afa og ömmu. Hver og einn er ábyrgur gjörða sinna og athafna og útilokað er að bendla aðra við slíkt að þeim forspurðum.

Þetta er hins vegar ekki aðalatriðið fyrir mig heldur sá skaði sem hugsunarlaus talandi veldur á stjórnarsamstarfinu og almenningsálitinu. Enn einu sinni er allt komið í háaloft vegna Vigdísar og um leið er almannarómur á þeirri skoðun sem hér hefur þó verið varað við að Framsóknarflokkurinn sé allur ábyrgur fyrir blaðrinu í konunni og þingmennirnir og ráðherrarnir séu allir eins.

Mál er að linni. Kominn er tími til að þessi þingmaður taki sér tveggja vikna frí, fari til útlands, setjist á eitthvurt námskeiðið eða leggi stund á gagnrýna naflaskoðun. Það getur nefnilega ekki verið gott fyrir konuna eða samstarfsfólk hennar að hún haldi áfram hegðun sinni. Ég þekki ekki Vigdísi en fullyrði engu að síður að fjöldi fólks ber alvarlegar brigður á hegðun hennar og hugsun. Ekki er laust við að ég sé í þeim hópi.


mbl.is Hvetur fyrirtæki til að hætta að auglýsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga lýðræðisleg réttindi að vera bundin við aldur?

Það var líka áberandi á fundi sem var haldinn til stuðnings Bjarna Benediktssyni í Valhöll um daginn hversu gamlir fundarmenn voru, þar sat til dæmis Halldór Blöndal mjög áberandi á fremsta bekk.

Þetta segir sá kunni fjölmiðlamaður Egill Helgason í pistli um Sjálfstæðisflokkinn á bloggsíðu sinni. Þetta vekur mig til umhugsunar um þær hvatir sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins brúka. Þeim er ekkert heilagt, en finna þeim allt til foráttu sem nota sömu brögð gegn þeim. Egill fjallaði í þessum pistli um fund sem Bjarni Benediktsson hélt í hádeginu í Valhöll.

Hvaða máli skiptir aldur fólks í lýðræðislegri umfjöllun? Væru rök Bjarna Benediktssonar sterkari og meira traustvekjandi ef Halldór Blöndal hefði setið á öðrum bekk og í stað hans hefði formaður Heimdallar setið?

Setjum sem svo að akfeitur maður hefði setið í sæti Halldórs Blöndal. Hefði Egill Helgason bent á þá staðreynd Sjálfstæðisflokknum og formanni hans til ávirðingar.

Nei, svona ummæli eru einfaldlega heimskuleg og beinlínis í ætt við bullið sem kemur úr athugasemdadálkum margra fjölmiðla og bloggsíðna. Egill er mikið lesinn, hann er andstæðingur Sjálfstæðisflokksins og stuðningsmaður Samfylkingarinnar. Í ljósi þess ber að lesa skrif hans. Varla eru þau merki um að eldri borgarar skuli ekki njóta lýðræðislegra réttinda en aðeins yngra fólk.


Finn nú skyndilega fyrir greindarskorti og athyglisbresti ...

Svíar kalla nú ekki allt ömmu sína þegar kemur að rannsóknum. Nú hafa þeir uppgötvað að því eldri sem feður eru því meiri áhætta fyrir andlega heilsu barnanna.  Sko ... ég krosslagði fingur og bað til guðs um að greindarskortur fylgdi ekki í ofanálag við athyglisbrest, tvískautaröskun, geðklofa og önnur persónuleg óþægindi barna sem við fæðingu eiga föður eldri en fjörtíu og fimm ára. Ég var ekki bænheyrður.

Alltaf þegar ég les eitthvað um sjúkdóma og pestir finn ég til einkenna sem eiga tvímælalaust við þá. Faðir minn hafði eitt ár yfir hálfri öld er ég fæddist og nú, allskyndilega, finn ég greinilega fyrir greindarskorti og tvískautaröskun. Er þó ekki alveg viss um hvað hið síðarnefnda er en það skýrist af hinu fyrrnefnda.

Verst af öllu er að ég er yngstur af nærri tug systkina. Nær alla æfi hafa þau haft það fyrir reglu að benda mér á yfirsjónir mínar og sömuleiðis á þá borðliggjandi staðreynd að að þau hafi rétt fyrir sér en ég ekki. Að sjálfsögðu trúði ég þeim aldrei sem er ábyggilega afleiðing af alvarlegum greindarskorti. Enginn má þó við margnum en í sjálfsvörn minni datt ég út í þá ósvinnu að tala langt og flókið mál. Það hefði ábyggilega verið tekið sem glöggt dæmi um tvískautaröskun ef einhver hefði á æskuárum mínum dottið í hug að brúka það orð yfir þá þungbæru raun að þurfa að standa fyrir orði mínu og á eftir þá gleði að losna undan því.

Svíar eru manna skynsamastir og glöggastir. Þeir hafa fundið út margt gagnlegt eins og að meiri líkur eru á því að barn verði örvhent lesi konur í rúminu á kvöldin. Einnig munu meiri líkur vera á því að sá sem hreyfir sig lítið fái hjartaáfall. Sömuleiðis eiga þeir sem hreyfa sig mikið í meiri hættu að snúa á sér ökklann en þeir sem hreyfa sig lítið eða ekkert.

Ójá, og ekki er enn allt upptalið. Þeir fundu það líka út að hættulegasti staðurinn sé rúmið heima, þar deyi flestir. Það finnst mér eiginlega dálítið vafasamt og raunar rangt því þar hefur enginn hefur dáið, svo ég viti til, er ég þó daglega heima hjá mér.

Hins vegar kann það að vera merki um athyglisbrest af minni hálfu. En samt ...


mbl.is Eldri feður auka líkur á geðröskunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanþekking þingmanns Pírata um aðildarumsóknina

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, féll í kvöld í frekar fyrirsjáanlega gildru Brynjars Nielssonar, þingmanns Sjáflstæðisflokksins. Sá síðarnefndi spurði Helga hvort viðræðurnar við ESB væru til að aðlaga Ísland að regluverki sambandsins eða samningaviðræður.

Með miklu handapati og málskrúði hélt Helgi H. Gunnarsson því fram að viðræðurnar væru hvort tveggja. Með því kom hann rækilega upp um þekkingarleysi sitt á aðlögunarviðræðum eins og ESB skilgreinir þær.

Hann ætti að lesa sér til bæklingi ESB sem nefnist „Understanding Enlargement - The European Union’s enlargement policy“. Það hefur hann ekki gert en giskar bara á að um sé að ræða samninga þar sem íslenska viðræðunefndin geti heimtað eitthvað og ESB nefndin annað. Þetta er nú eitthvað annað.

Í honum segir eftirfarandi:

  1. First, it is important to underline that the term “negotiation” can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidates odoption, implimentation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. 
  2. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable. 
  3. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures.
  4. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s implementation of the rules.

Skýrara getur þetta varla verið. „Accession negotiations“ heitir viðræðurnar en ekki „negotiations“. Þetta er ekki hægt að þýða öðru vísi en sem aðlögunarviðræður. Eftirfarandi setur enn frekari stoðir undir þá skýringu og þetta eru hluti af skilyrðum stjórnenda ESB: 

Candidates consequently have an incentive to implement necessary reforms rapidly and effectively. Some of these reforms require considerable and sometimes difficult transformations of a country’s political and economic structures. It is therefore important that governments clearly and convincingly communicate the reasons for these reforms to the citizens of the country. 

Ofangreint þýðir einfaldlega það að umsóknarríkið á að aðlaga stjórnsýslu, lög og reglur sínar að því sem gildir hjá Evrópusambandinu.

Aðlögunarviðræðurnar, „accession negotiations“, fjalla um 35 kafla sem nefndir eru „Acqis“. Þessir kaflar fjalla um einstaka málaflokka, t.d. landbúnað, flutninga, orkumál, fiskveiðar og svo framvegis, allt upp talið í ofangreindum bæklingi.

Þegar viðræður hefjast um einstaka kafla, kaflinn er opnaður, eins og sagt er, þá þarf umsóknarríkið að sýna á skýran og skilmerkilegan hátt hvort að það hafi tekið upp kröfur ESB sem um ræðir í hverjum kafla eða hvernig það ætli að gera það. Þeim köflum er lokað þegar ESB er sátt við framgang málsins, aðlögunin hefur átt sér stað eða verið er að gangsetja hana. 

Líklega hefði Helgi Hrafn, þingmaður Pírata, eins og fleiri, gott af því að líta á eftirfarandi myndband en þar segir stækkunarstjóri ESB nákvæmlega þetta sama, engar undanþágur frá köflunum. Sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=0O4fkcYwpu8


Samtök iðnaðarins fara með rangt mál í ályktun sinni

Eitt er að hafa ákveðna skoðun á þjóðmálum og berjast fyrir henni. Annað og verra er ef sú skoðun byggist á misskilningi eða grundvöllur hennar er einfaldlega rangur. 

Samtök iðnaðarins ályktuðu eftirfarandi:

Samtök iðnaðarins mótmæla ákvörðun ríkisstjórnarinnar um algjör slit á aðildarviðræðum við ESB. Með henni fer ríkisstjórnin gegn stórum hópi iðnfyrirtækja sem vilja að skoðað verði til hlítar hvort samkeppnishæfni þeirra sé betur tryggð innan ESB eða utan, og hvort ekki megi ná samningum þar sem staðinn er vörður um hagsmuni Íslands.

Út af fyrir sig er mér nokk sama þó Samtök iðnaðarins séu ósammála mér eða öðrum andstæðingum ESB aðildar. Hitt er verra að samtökin fara með rangt mál, slæmt er ef það er óviljandi en hrikalegt ef þau vita af því. Og þau eiga að vita betur.

Staðreyndin er einfaldlega þessi: Markmiðið með viðræðum ESB við umsóknarríki er ekki að gera samning heldur að kanna hvort ríkið geti gengið inn í sambandið. Þetta eru ekki samningaviðræður. 

Um þetta geta allir efasemdamenn kynnt sér í bæklingi ESB sem nefnist „Understanding Enlargement - The European Union’s enlargement policy“. Samtök iðnaðarins er að skrökva að þjóðinni haldi þeir því fram að samningur fylgi aðlögunarviðræðum. ESB gefur engar varanlegar undanþágur frá umræðuefni 35 kafla sem nefndir eru í áðurnefndum bæklingi.

Líklega hefði stjórn Samtaka iðnaðarins gott af því að líta á eftirfarandi myndband en þar segir stækkunarstjóri ESB nákvæmlega þetta sama, engar undanþágur frá köflunum. Sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=0O4fkcYwpu8.

Ástæða er að krefjast þess að Samtökin sendi nú frá sér leiðréttingu því vart vilja verða þekkt af ósannsögli.


Hvort var Snorri Sturluson höfundur eða þýðandi ...?

Á seinni árum hafa æ fleiri efast um þá hefðarspeki að Snorri Sturluson sé höfundur Heimskringlu. Meldahl gengur hins vegar út frá því að rétt sé að Snorri hafi sett ritið saman eins og það hefur varðveist, en telur að veigamesti hlutinn sé konungaævi samin á latínu af íslenskum lærdómsmanni, líklega Sæmundi fróða sem nam í Frakklandi þar sem rit Svetoniusar voru í hávegum höfð og þáttur í skólalærdómi ungra manna. Umræða Meldahls er annars margslungin og engan veginn hægt að gera henni skil hér. Þetta er aðeins sett á blað til að vekja athygli á afar áhugaverðu efni.

Blaðamaðurinn og sagnfræðingurinn Guðmundur Magnússon ritar áhugaverðan Pistil í Morgunblaðið í morgun og ofangreint er úr honum. Í gærkvöldi sá ég ansi áhugaverða samantekt á Stöð 2 um Reykholt og Snorra Sturluson og í dag les ég að Snorri hafi eiginlega ekki verið afkastamikill þýðandi en ekki höfundur sagnanna í Heimskringlu.

Ýmsir mynd nú orða þetta þannig að allur fróðleikur og nám sé nú að gjörbreytast. Eftir nokkur ár munu fáir geta rökrætt sagnfræði við barnabörn sín, þvílíkar breytingar sem verða líklega á henni. Ef til vill er þetta nú dálítið orðum aukið. Hitt er athyglisvert og reglulega spennandi hvernig rannsóknir á konungasögum í Heimskringlu geta breytt viðteknum skoðunum. Pistill Guðmundar Magnússonar fjallar um áhrif latneskra bókmennta á menningararf okkar.


Utanríkisráðherra bætir vart stöðu ríkisstjórnarinnar

Umræðum um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um afturköllun á aðildarumsókninni að ESB héldu áfram í kvöld og ég hlustaði. Þá varð ég vitni að nokkrum atvikum sem mér fundust svona frekar undarleg. Og þó ...

Þingflokkur VG er komin með moðvolga skoðun á aðildarumsókn að ESB sem hvorki er í samræmi við fyrri stefnu flokksins í ríkisstjórn né utan hennar. Þetta kemur ekkert á óvart en flokkurinn virðist ekkert vita hvar hann stendur í ESB málunum. Líkur benda til þess að hann sé að verða hlynntur aðild.

Svo kom utanríkisráðherra og reyndi að verja þingsályktunartillögu sína um afturköllun á aðildarumsókninni. Hann tók ekkert tillit til kvartana sem forseta Alþingis bárust um rökstuðninginn með þingsályktunartillögunni en sagðist vilja breyta einhverju vegna þess sem ákveðinn þingmaður stjórnarandstöðunnar sagði í umræðunum. Þetta var nú svona frekar undarleg samsuða hjá utanríkisráðherra og vægast sagt neyðarleg.

Í andsvörum koma Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum allsherjarmálaráðherra, upp í ræðustól og gagnrýndi meintan hroka utanríkisráðherra. Þá heyrðist mér ekki betur en að utanríkisráðherra hafi kallað frammí fyrir Steingrími og annað hvort sagt hann hafa áður logið að þinginu eða spurt hann hvort hann hafi aldrei logið að þinginu.

Í frétt mbl.is kemur fram að hann hafi sagt þetta: „Ég hef þó ekki logið að þinginu eins og þú.

Þar með varð allt vitlaust í þingsal og stjórnarandstöðuþingmenn heimtuðu víti á utanríkisráðherra.

Í sannleika sagt finnst mér að virðuleiki Alþingis hafi sett mikið niður og á utanríkisráðherra nokkra sök á því. Hann hagar sér eins og stráklingur sem veður um á forugum gúmmískóm og atyrðir mann og annan. Þetta gengur auðvitað ekki.

Nokkrir framsóknarþingmenn eru hreinlega að skemma fyrir ríkisstjórninni með talsmáta sínum. Þeir gefa stjórnarandstöðunni tækifæri sem hún ætti aldrei að fá, afhenda henni vopnin sem hún þarf til að berja á ríkisstjórninni. Utanríkisráðherra að hugsa sitt mál sem og fleiri innan þingflokksins. Þeir þurfa að átta sig á því að þögn er oft gulls ígildi.

Svo mættu tæknimenn Alþingis að huga að því að færa hljóðnema frá bjöllu. Ljóshærði varaþingforsetinn kann sig engan veginn, lemur og ber á bjölluna og sprengir iðulega hljóðið. Raunar er frekar illa staðið að upptöku hljóðs með mynd. 


mbl.is „Ég hef þó ekki logið að þinginu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vígaferli Steingríms J. og stefna hans í ESB málinu

„Það samrýmist ekki okkar stefnu og við höfum ekkert umboð til þess.“ Hálfum mánuði síðar lagði stjórnarfleyið frá landi með Brussel fyrir stafni og aðildarumsókn sem leiðarljós. Nýjum og áður óþekktum hæðum Íslandssögunnar í kosningaloforðasvikum hafði verið náð.

Þetta segir Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn við Ísafjaðardjúp, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Indriði er alkunnur vinstrimaður og hagvanur innan Vinstri grænna. Hann lætur tíðum vaða á súðum og hlífir aungvum. Í greininni lemur hann meðal annars á Steingrími J. Sigfússyni, þingmann, fyrrum formanni VG og fyrrum alsherjarmálaráðherra í vinstri stjórn með Samfylkingunni. 

Steingrímur sveik stefnu Vinstri grænna en flokkseigendafélagið og Kastljósið í Sjónvarpinu hafa haldið hlífiskildi yfir honum alla tíð síðan. Þeim síðarnefndu finnst í lagi að berja á núverandi leiðtogum ríkisstjórnarinnar en leggjast ekki í einfalda rannsóknarblaðamennsku vegna leiðtoga vinstri stjórnarinnar.

Ekki er furða þó Steingrímur hafi gengið með veggjum frá því að vinstri stjórnin hrökklaðist frá. Indriði bóndi segir svo frá:

Hinn stjórnar„leiðtoginn“ S.J.S. lét ekki sitt eftir liggja í vígaferlunum. Hann hrakti Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslason úr flokknum og flæmdi Ásmund Einar til Framsóknar. Ruddi síðan Guðfríði Lilju frá þingflokksformennsku. Að skipan Jóhönnu dró hann Jón Bjarnason úr ráðherrastól og gerði hvað hann gat að leggja Ögmund að velli í Kragaforvali.

Og er þá ábyggilega fátt eitt talið af ávirðingum á Steingrím J. En það sem uppúr stendur eru svik hans og félaga hans við stefnu VG í ESB málinu. Það fyrirgefur Indriði líklega seint.


Guðmundur Steingrímsson þarf að svara einfaldri spurningu!

Það eru gamaldags vinnubrögð, það er birtingarmynd þessa ofríkis, þessarar forræðishyggju sem ríkisstjórnin er að tileinka sér. Mér líður eins og það sé verið að reyna að troða ofan í mig skítugum, illa lyktandi lopasokk einhvern veginn,“ segir Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.

Guðmundur Steingrímsson þingmaðurinn lætur sem hann sé gráti nær vegna þess að ríkisstjórnin ætlar að draga umsóknina að ESB til baka. Hann viðhefur stór orð án nokkurra raka.

 

  • Hvað er „ofríki“ í þinglegri meðferð ríkisstjórnarinnar um ESB málið?
  • Hvers vegna notar hann orðið „forræðishyggja“ um lýðræðislega meirihlutaákvörðun á þingi?
  • Hvernig passar þessi myndlíking Guðmundar um verið sé „að troða ofan í mig skítugum, illa lyktandi lopasokk“?

 

Nú verður Guðmundur að draga djúpt andann og svara einfaldri spurningu.

Fyrst það var hægt var að láta Alþingi samþykkja þingsályktunartillögu um aðild að ESB án þess að þjóðin hafi komið þar nærri á ekki að vera hægt að afturkalla sömu tillögu með samskonar þingsályktunartillögu án þess að stjórnarandstaðan fari á límingunum?

Var það samskonar ofríki af síðasta ríkisstjórnarmeirihluta að leggja inn umsókn í Evrópusambandið? Að þeirri ákvörðun stóð Guðmundur Steingrímsson og hann lagðist þá gegn þeirri tillögu Sjálfstæðismanna að leggja umsóknina undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Guðmundur þykist vera æfur, reitir hár sitt og viðhefur ótrúlegt orðbragð. Skýringin er væntanlega sú að hann er í minnihluta og fær engu um ráðið. Hann hafði það á síðasta kjörtímabili en gerði ekkert - frekar en fyrri daginn. 

 

 


Hvað í ósköpunum hrjáir Róbert Marshall?

Stjórnarandstaðan með Róbert Marshall, þingmann Samfylkingarinnar, í broddi fylkingar tekur alltof mikið upp í sig út af afturköllun umsóknar að ESB. Þetta er að mestu sama fólkið og hló að tillögu Sjálfstæðisflokksins um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslum um aðildarumsóknina þegar hún var lögð fram á alþingi 2009. Hvers vegna að halda tvær atkvæðagreiðslur, stundi þá verandi stjórnarmeirihluti upp á milli hláturskviðanna.

Þeir héldu því fram að það væri nóg að halda eina þjóðaratkvæðagreiðslu og það þegar viðræðurnar hefðu skilað samningi ...! En það sem þetta lið sleppti að minnast á var að viðræður við ESB ganga ekki út á gerð samnings heldur að umsóknarríkið, Ísland, sýni og sanni hvernig það hafi tekið upp lög og reglur Evrópusambandsins, allar 100.000 blaðsíðurnar í eigin lög. Þess vegna kallar ESB þetta aðlögunarviðræður.

Í sannleika sagt er tilgangslaust að halda viðræðum við ESB áfram. Þær eiga að leiða til aðildar. Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðsla kann svo að fara að þjóðin hafi hafnað aðildinni. Þá verður Ísland komið með öll þessi 100.000 blaðsíðna lög og reglur án þess að vera aðili. Til hvers er þá verið að leggja í þessa vegferð.

Jú, kann ESB liðið að segja, til að ná ásættanlegum samningi. Nei, samningur er ekki markmið ESB nema í undantekningatilvikum og alls ekki í grundvallarmálum. Fyrir því eru engin fordæmi. 

Fyrst það var hægt að láta Alþingi samþykkja þingsályktunartillögu um aðild að ESB án þess að þjóðin komi þar nærri hlýtur að vera hægt að afturkalla sömu tillögu með samskonar þingsályktunartillögu án þess að stjórnarandstaðan fari á límingunum. Og að kalla þetta svik er fjarri öllu lagi. Svikin byrjuðu með því að senda Ísland í aðlögunarsamningana.

Spyrja má því að gefnu tilefni hvað hrjáir stjórnarandstöðuna og ekki síðst Róbert Marshall þingmann Samfylkingarinnar.. 


mbl.is Gengu út af þingflokksformannafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður samanburður á náttúru landins hjá Mogganum

Ok hefur aldrei þótt „merkilegur“ jökull. Hann hefur löngum verið lítill og meira skafl en nokkurt annað. Viðmiðun vísindamanna er samt önnur og samkvæmt skilgreiningunni vantar ekkert annað en að gefa út dánarvottorðið fyrir Okjökul.

Enginn skyldi þó fella tár yfir örlögum hans. Ævi jökla er sem trölla, talin í hundruðum ára, jafnvel þúsundum. Og þeir koma og fara án þess að menn hafi getað greint hreyfingu þeirra - fyrr en núna. Í stað jökulsins birtist nú þessi gríðarlegi gígur, sem flestir vissu nú af.

Morgunblaðið gerir vel í að birta svona „náttúrufréttir“ og nýta til þess efni frá hinu ágæta fyrirtæki Loftmyndir og má óska báðum aðilum til hamingju með þessar „renningamyndir“.

Vonandi verður meira af fréttaflutningi Moggans af þróun landsins. Fyrir þá sem áhuga hafa skal bent á heimasíðu Loftmynda. Þar má finna margar skemmtilegar loftmyndir af landinu.


mbl.is Okjökull er að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Benedikt Jóhannesson er -fúll á móti-

Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri, stóð sig afar illa í umræðuþætti Sigurjóns Egilssonar, Á Sprengisandi, á Bylgjunni í dag. Ekki aðeins fór hann með rangt mál heldur hélt hann uppteknum hætti og barði miskunnarlaus á eigin flokki fyrir það eitt að sú stefna sem hann aðhyllist fékk hvorki hljómgrunn á síðasta landsfundi, við stjórnarmyndunarviðræðurnar né enn þann dag í dag.

Benedikt er ESB sinni og fulltrúi þeirra 10-15% Sjálfstæðismanna sem vilja inngöngu í ESB. Hann verður alltaf fúll eftir landsfundi enda erum við langflestir Sjálfstæðismenn á mót inngöngu. Og nú finnst honum allt ómögulegt við Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurin gerir ekkert rétt, kann ekkert og veit ekkert. Benni er einfaldlega „fúll á móti“ og lemur í allar áttir.

Sá óvinafagnaður sem Benedikt efnir til er fagnaðarefni andstæðinga Sjálfstæðisflokksins og vitnað er í hann sem djúphugsandi spekings sem hinir heimsku Sjálfstæðismenn höfnuðu. Þetta er þó alrangt, með þeirri undantekningu að Benedikt er fróður maður, vel menntaður og spakur að öllu leiti.

Flokkurinn hefur hins vegar ekki hafnað honum, ekki frekar hann hefur hafnað mér. Benni á ekki upp á pallborið í flokknum með ESB, ekki frekar en ég með áherslur mínar í umhverfis- og náttúruverndarmálum. 

Ástæða fyrir fylgistapi Sjálfstæðisflokksins frá hruni byggjast þó ekki á afstöðunni til ESB. Þar kemur allt annað til eins og ég hef rakið í fjölmörgum pistlum á þessari bloggsíðu. 


Hafði síðasta ríkisstjórn umboð?

Hvaða umboð hafði Árni Páll Árnason, þingmaður, fyrrverandi ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, og félagar hans í síðustu ríkisstjórn til að leggja fram þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að ESB? Jú, þeir höfðu fullt umboð til þess enda með þingmeirihluta.

Þar af leiðir að ný þingmeirihluti hefur sama umboð til að afturkalla aðildarumsóknina. Allt tal Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, er marklaust hjal. Eða hafði síðasta ríkisstjórn var klofin í málinu umboð.


mbl.is Hafa ekki umboð til að ákveða þetta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús og götu skapa ekkert, en það getur fólk gert

Hús skipta litlu máli. Þau skapa ekkert. Mestu máli skiptir fólkið, hugmyndir þess og fyrirætlanir.

Þetta sagði góður vinur og samstarfsfélagi, Baldur Valgeirsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Norðurlands vestra. Margir voru svo vinsamlegir að benda honum á að hér og þar í landshlutanum stæði autt atvinnuhúsnæði sem hægt væri að koma í brúk með litlum sem engum fyrirvara. Baldur brosti jafnan og útskýrði fyrir viðkomandi að húsnæði skapaði í raun og veru ekki neitt og spurði síðan hvað viðmælandi gæti hugsað sér í þetta húsnæði. Jafnan var fátt um svör.

Götur skapa ekkert frekar en hús. Hins vegar er það alveg rétt að snyrtilegt umhverfi getur dregið að góð fyrirtæki, rétt eins og sum hús kunna að falla að ákveðnum atvinnurekstri.

Svo er það annað mál og tengt að borgin lítur hræðilega illa út eftir fjögurra ára stjórn flokka Jóns Gnars og Dags B. Ég er ekki viss um að fyrirtækjaeigendur í miðborginni kunni þeim miklar þakkir fyrir þessi ár.


mbl.is „Með flottari götum í bænum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirgaf dvalarheimilið sem hann býr á í leyfisleysi ... eða hvað?

Allan Karlsson ákveður á 100 ára afmælinu sínu að yfirgefa dvalarheimilið sem hann býr á í leyfisleysi.

Svo segir í dálk í Morgunblaðinu í morgun og nefnist sá Bíófrumsýningar. Það skiptir þó litlu máli heldur uppbygging málgreinarinnar hér fyrir ofan. Spurningin er nefnilega sú hvort Allan Karlsson hafi búið á dvalarheimilinu í leyfisleysi eða yfirgefið það í leyfisleysi.

Þannig skiptir miklu máli hvar tilvísunarsetningin er sett niður. Eðlilegast hefði verið að skrifa málsgreinina svona, vegna þess að maðurinn mátti ekki fara þaðan sem hann hafði leyfi til að búa:

Allan Karlsson ákveður á 100 ára afmælinu sínu að yfirgefa í leyfisleysi dvalarheimili sitt.

Leyfði mér að laga þetta aðeins meira til. Þetta er þó sárasaklaust miðað við margt annað. Hins vegar er alltaf nauðsynlegt að lesa yfir það sem maður skrifar - og vera dálítið gagnrýninn á sjálfan sig.

Annars skilst mér að bókin sem bíómyndin er byggð á sé frábær og myndin ekki síðri. 


Þarf að láta minna fara fyrir fötluðum?

Á meðan ég beið eftir henni kemur þessi ákveðni starfsmaður og ég taldi í einfeldni minni að hann ætlaði ef til vill að bjóða mér að fara niður í hléinu en svo reyndist hreint ekki vera. Áður en ég vissi af hafði hann snúið hjólastólnum á hlið og sagði um leið að það færi minna fyrir mér svoleiðis á meðan fólkið væri á ferð í hléinu.

Þetta skrifað ung kona, Fanney Sigurðardóttir, í Morgunblaðið í morgun. Ekki þekki ég hana en tók eftir því að hún kann vel að skrifa, ritar gott mál og segir vel frá og skipulega.

Þó Fanney sé bundin í hjólastól á hún og þarf að komast það sem ófatlaðir gera. Hins vegar eru margvíslegar hindranir eru í veginum, bæði í byggingum og ekki síst virðist viðhorf ófatlaðra vera til mestra vandræða. Þetta kemur berlega fram í ofangreindri tilvitnun.

Konan fór á tónleika í Háskólabíói og þá er ýtt við henni svo ófatlaðir geti auðveldar komist leiðar sinnar. Þetta er alveg ótrúlegt viðhorf starfsmanna bíósins eða tónleikanna. Í þokkabót fékk hún ekki einu sinni sæti eins og annað fólk:

Þegar upp var komið tók við milligólf og stúka fyrir ofan og neðan. Ég hélt að ég yrði við enda annarrar stúkunnar og vinkona mín við hliðina á mér, en svo var ekki. Starfsmaðurinn sagði okkur að við ættum að vera á þessu milligólfi og vinkona mín var sett á eldhússtól við hliðina á mér. Hvorug okkar fékk því í raun það sem við borguðum fullt verð fyrir, þ.e. sæti.

Þetta er vond saga og öllum til hnjóðs. Ótrúlegt hvernig komið er fram við fólk og því sýnd að því er virðist takmarkalaus óvirðing.


Er engin landafræðiþekking á Fréttablaðinu?

Jöklar2

Tvennt eiga fjölmiðlar að hafa á hreinu. Annars vegar að geta ritað eða talað nokkurn veginn skammlaust mál og hins vegar að fara rétt með landafræðina. Hið síðarnefnda flækist fyrir flestum fjölmiðlum.

Í Fréttablaði dagsins er frétt um hnignun skriðjökla og þar getur blaðamaðurinn ekki einu sinni druslast til að staðsetja jöklanna rétt á korti sem fylgir fréttinni og í ofanálag kann hann ekki að rita nöfn sumra þeirra. Kortið fylgir hé með og ég hef gert leiðréttingar á því með rauðu.

Af tíu jöklum eru sex kolrangt staðsettir og tveir ranglega ritaðir.

Þeir sem eru illa að sér í landafræði og skilja lítt íslenskt mál átta sig ekki á því að Tungnaá er rituðu eins og hér er gert. Rangt er að sleppa „a-inu“. Sama er auðvitað með jökulinn sem dregur nafn sitt af fljótinu. Á sama hátt skiptir „a-ið“  öllu máli þegar nafn Skógaár er ritað.

Prófarkarlestur skiptir gríðarlega miklu í útgáfustarfi. Eitt er að skrifa rangt og búa til villandi kort en annað er birta slíkt og þess vegna er mikilvægt að einhver lesi yfir texta, lagi málfar, stafsetningu og kanni hvort kortin séu rétt.

Efnislega var þó fréttin í Fréttablaðinu nokkuð áhugaverð enda þar rætt við Odd Sigurðsson, jarðfræðing, sem er hafsjór af fróðleik um jökla landsins.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband