Samningur er aldrei markmið í aðildarviðræðum við ESB

Mbl grein
Út á hvað gengur umsóknarferlið að ESB? Nei, það gengur ekki út á að gera samning um aðild heldur eingöngu að umsóknarríki sýni og sanni hvaða lög og reglur ESB það hefur tekið upp í eigin löggjöf og geti þar af leiðandi verið sambandsríki. Allt annað er aukaatriði.
 
Haldi Ísland áfram aðildarviðræðum endar það með því að við höfum tekið upp öll lög og reglur ESB. Margir vilja að þá verði aðildin lögð undir þjóðaratkvæði. Líkur benda til þess að þjóðin felli aðildina. Hver er þá staðan? Jú, við verðum aðildarríki án aðildar ... Hversu eftirsóknarverð er sú staða?
 
Auðvitað vita þeir þetta sem vilja að við höldum umsókninni til streitu. Þeir vita að viðræðurnar við ESB eru aðlögunarviðræður og til þess eins haldnar að Ísland taki upp lög og reglur stjórnarskrár ESB, Lissabonsáttmálann.

Markmiðið er ekki samningur

Sumir halda því fram að samningur við ESB sé meginatriðið. Það er rangt. Það er einnig rangt og villandi að benda á samning sem Norðmenn, Finnar, Svíar og Austurríkismenn gerðu við ESB. Frá því að þessar þjóðir gerðu aðildarsamning hefur ESB breytt inntökureglunum og nú er enginn samningur í boði. Þetta vita auðvitað allir sem hafa kynnt sér reglur sambandsins um aðildarumsókn.
 
Út á hvað ganga þá viðræðurnar við ESB? Sambandið beinlínis neitar því að þetta séu samningaviðræður, kallar þetta aðlögunarviðræður. Þeir sem halda öðru fram fara með rangt mál eða vita ekki betur.

27 löggjafarþing verða að samþykkja

Í stað samningaviðræðna hefur ESB sett saman 35 málaflokka eða kafla sem umsóknarríki þarf að ræða í smáatriðum og gangast undir. Viðræðunefnd sambandsins þarf að vera sátt við stöðu mála hjá umsóknarríkinu. Ekki nóg með það heldur þurfa öll tuttugu og sjö löggjafarþing aðildarþjóðanna að samþykkja. Nóg er að eitt sé á móti til að vandamál skapist.
 
Það segir sig sjálft að einstök aðildarríki munu ekki sætta sig við að Ísland fái undanþágur sem öðrum hafa ekki staðið til boða í málum sem eru sambærileg.

Þversögnin

Margir vilja að aðlögunarviðræður haldi áfram og efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu að þeim loknum.
 
Það er vel hægt en í þannig aðferðafræði felst hrikaleg þversögn sem raunar fær mann til að efast um heilindi þeirra sem halda þessu fram.
 
Sé efnt til þjóðaratkvæðis á þessu stigi er vel hugsanlegt að aðildinni verði hafnað. Staðan er þá sú að Ísland hefur tekið inn í löggjöf sína öll lög og reglur ESB og er þannig orðið ESB ríki án aðildar. Er það eftirsóknarverð staða?

Meginhugsunin

Meginhugsun Evrópusambandsins er sú að umsóknarríkið, í þessu tilviki Ísland, taki upp lög, reglur og stjórnsýslu sambandsins. Vissulega er gerður samningur um aðild en í honum eru almennt engar undanþágur frá stjórnarskránni, Lissabonsáttmálanum, nema þær séu tímabundnar.
 
Þær undanþágur sem flokkast sem varanlegar eru frá fyrri tíma, áður en reglum um aðildarumsókn var breytt. Þar af leiðandi eru þær gagnslausar sem rök um stöðu Íslands og ESB. Engar undanþágur eru veittar frá grundvallaratriðum. Til slíkra heyra til dæmis sjávarútvegsmál.
 
Óvissa

Þeir sem ekki skilja aðferðafræði ESB geta svo sem haldið því fram að ESB geti gert undanþágur frá núgildandi reglum. Það er hins vegar ekki einfalt mál því fyrst þarf báknið í Brussel að samþykkja, síðan þarf samþykki löggjafarþinga tuttugu og sjö aðildarríkja með undanþágunni. Nóg er að ein þjóð sé á móti, þá er málið fallið.
 
Síðar getur ESB eða aðildarríki lagt til að fallið verði frá undanþágu Íslands. Þá gildir einfaldur meirihluti atkvæða, t.d. í ráðherranefndinni. Viljum við Íslendingar sitja undir slíkri óvissu í stuttan eða langan tíma?
 
Sá samningur sem vísað er til eftir þessar aðlögunarviðræður á eingöngu við um tímabundnar undanþágur sem veittar eru til að auðvelda umsóknarríkinu að gerast aðildarríki. Ekki er hægt að benda á neinar varanlegar undanþágur frá Lissabonsáttmálanum, stjórnarskrá ESB, eftir að sambandið breytti umsóknarferlinu, að minnsta kosti ekki í grundvallarmálum.
 
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2014. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Takk Sigurður, alveg ágætt.  Því miður er ekki mikil von til þess að hinir trúuðu í þessu máli, skilji eða vilji skilja mál þitt. En þó er von betri en vonleysi.  

Hrólfur Þ Hraundal, 28.2.2014 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband