Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Steingrímur joð og Jón Bjarnason talast ekki við

Þegar fjölmiðlar ákveða loks að spyrja Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og formann Vinstri grænna, og Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hvers vegna þeir talast ekki við, þá verða svörin eitthvað á þessa leið:

Steingrímur joð: Það er alrangt að við tölumst ekki við. Verkefni ríkisstjórnarinnar eru svo umfangsmikil að ráðherrar verða að hafa samráð á milli sín.

Jón Bjarnason: Við Steingrímur höfum haft mikil samráð í gegnum tíðina og það þurfa ráðherrar að gera.

Auðvitað munu þeir ekki svara beint, vilja ekki segja ósatt. Staðreyndin er engu að síður sú að þeir eru báðir mjög reiðir út í hvorn annan. Steingrímur telur að afstaða Jóns í ESB málunum tefji fyrir og Jón mun frekar láta af embætti en að samþykkja samstarf vegna ESB aðildar ríkisstjórnarinnar.

Það verður svo ekki fyrr en velferðarstjórnin hefur splundrast (þ.e. snemma í haust) að fjölmiðlar fá þá til að tala hreint út. Þá munu þeir segja eitthvað á þessa leið:

Jón Bjarnason: Steingrímur stóð sig ekki, hvorki sem formaður né fjármálaráðherra. Hann sveik vinstri græna, hann sveik kjósendur sína.

Steingrímur joð: Jón er mjög erfiður í samstarfi. Hann hefði átt að fara miklu fyrr í Framsóknarflokkinn. Farið hefur fé betra.


Löggur í lögguleik áreita fólk

Löggur í lögguleik áreita fólk, segir Hallur Hallson, blaðamaður, í grein í Morgunblaðinu í morgun, föstudag. Hann hefur rétt fyrir sér. Fólk er orðið afskaplega hneykslað á lögreglunni sem virðist hafa það eitt verkefni að sekta ökumenn fyrir að leggja ólöglega þegar um stóratburði er að ræða. Mætti halda að löggan hefði ekkert þarfara að gera.

Hallur er fyrrverandi formaður Víkings og honum gremst það þegar lögreglan lætur sverfa til stáls gegn þeim sem leggja ólöglega þegar fótboltaleikur stendur yfir í Víkinni í Fossvogi. Líklega er það glæpur að leggja ólöglega við þessar kringum stæður. Þar af leiðir að glæpamenn sækja oft fótboltaleiki hjá KR í vesturbænum. Enn stærri hópur glæpamanna leggur ólöglega við Laugardalshöll og stærsta glæpamannasamkunda landsins er á menningarnótt í Reykjavík.

Í alvöru talað er ekki kominn tími til að lögreglan einhendi sér í þau mál sem skipta einhverju. Hallur segir:

Þessi framganga lögreglu er algerlega óásættanleg og engu líkara en baunateljarar séu við völd við Hverfisgötu. Heiðursmennirnir Bjarki Elíasson og Óskar Ólason hefðu aldrei látið svona vitleysu viðgangast meðan þeir stýrðu liðinu. Sérstaklega munu hinir svartklæddu hafa verið iðnir við að áreita Víking, að mér skilst. Menn hafa furðað sig á þessu nýja áhugamáli lögreglunnar.

Hvert er vandamálið þó ökumenn leggi ólöglega þegar um er að ræða stórviðburði? Yfirleitt verða ekki af þessu athæfi neinar skemmdir á umhverfi eða öðrum bílum. Að vísu gengur umferðin hægt þegar viðburðinum er lokið en allir ökumenn sýna því skilning.

Skilningurinn er hins vegar ekki hjá lögreglunni sem endilega þarf að sýna vald sitt og afl en því miður við algjörlega rangar aðstæður. Ökumenn eru ekki glæpamenn. Hinir eiginlegu glæpamenn fá hins vegar að valsa um landið nokkurn vegin óáreittir að manni finnst.

Tek undir með Halli þar sem hann nefnir tvo eftirminnilega yfirlögreglumenn frá því í gamla daga, Bjarka Elíasson og Óskar Ólason. Ég þekkti báða þegar ég starfaði sem sumarmaður í löggunni á námsárunum. Þeir voru einstaklega góðir yfirmenn og eftirminnilegir.

Á þessum tíma var stefnan meðal annars sú að lögreglan þyrftu að vera sýnileg. Því fengu allir lögreglumenn það verkefni að ganga um bæinn, fólki til stuðnings og vondaliðinu til aðvörunar. Nú er löggan ekki sýnileg nema í löggubílum eða á mótorhjólum eða þá að hún er send út til að skrifa sektarmiða á bíla við KR völlinn, Víkingsvöllinn, við Laugardalshöllina eða í miðbæ Reykjavíkur.


Engin viðbraðgsáætlun hjá Iceland Express?

Enn og aftur virðist allt vera í klúðri hjá Iceland Express. Út frá sjónarhóli markaðsmannsins gerir fyrirtækið eiginlega allt vitlaust - rétt eins og áður. Klúðrið fer í fjölmiðla og talsmaðurinn bætir alls ekkert úr skák.

Ég hef engan áhuga á að gagnrýna þetta gæta flugfélag í hvert sinn sem það virðist ætla endanlega að eyðileggja orðspor sitt. Þess í stað væri ekki úr vega að skoða hvað hægt er að gera til að fyrirbyggja neikvæðar fréttir af atburðum sem það getur ekki ráðið við?

Svarið er einfaldlega viðbragðsáætlun vegna krísu:

  1. Iceland Express á að eiga ítarleg viðbragðsáætlun. Í henni er getið um verkefni allra þeirra aðila sem að málum eiga að koma. Þetta heitir krísustjórnun eða áfallastjórnun. Öll fyrirtæki eiga að hafa slíka áætlun sérstaklega þau sem byggja á þjónustu við almenning, t.d. flugfélög, ferðaskrifstofur o.s.frv. Staðreyndin er einfaldlega sú að engin viðbrögð eða röng geta haft óskaplega alvarlegar afleiðingar.
  2. Afar mikilvægt er að bregðast strax við áföllum, taka á þeim og laga eða leiðrétta eftir því sem við á. Í viðbragðsáætluninni kemur fram hver stjórnar og hvernig hann á að taka á málum. Hver starfsmaður hefur sitt verkefni og þeim er ítarlega lýst í viðbragðsáætluninni. Myndað er krísuteymi, það getur verið eitt eða fleiri eftir umfangi mála.
  3. Viðbragðsáætlunin tekur á málum inniandyra; samskipti við starfsmenn, verktaka og aðra sem að málum þurfa að koma. Áætlunin tekur líka á malum utandyra; samskipti við viðskiptavini, fjölmiðla sem og nánustu samstarfsaðila og eigendur.

Æ ofan í æ stendur Iceland Express sig illa. Engin viðbragðsáætlun virðist vera til staðar, talsmaðurinn virðist illa undirbúinn og stendur í þerri undarlegu stöðu að þurfa að réttlæta gerðir sínar og það sem gert er er of lítið og of seint.

Fyrir vikið verður atburður sem vissulega er ekki Iceland Express að kenna orðin að afar neikvæðri frétt. Af síðustu uppákomum fyrirtækisins hefði maður búist við því að nú væri fréttin loksins jákvæð. Allir farþegar hefðu fengið hótelherbergi í Alicante, boðið hefði verið til kvöldverðar þar sem mál hefðu verið skýrð út fyrir fólki og allir verið kátir og glaðir.

Er þetta nokkurt vandamál fyrir vel rekið fyrirtæki með góða stjórnendur?


mbl.is Við gerðum okkar besta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki heilsusamlegt að slá höfðinu við steininn

Skrifaði í gær pistil um Morgunblaðsgrein eftir Pétur J. Eiríksson en hann vill að við göngum í ESB. Hefði alveg getað sleppt því þar sem maðurinn hefur aldeilis fengið útpælda gagnrýni frá tveimur ágætum andstæðingum ESB aðildar, Birni Bjarnasyni og Tómasi Inga Olrich.

Í morgun birtist grein eftir Tómas Inga í Morgunblaðinu þar sem hann rökræðir vegna geinar Péturs. Greinin er góð og nokkuð kómísk. Niðurlag hennar er á þessa leið:

Allt frá því á 6. áratug liðinnar aldar hefur nákvæmlega þetta mál [þ.e. miðstýrð efnahagsstjórn ESB, innskot SS] verið heitt umræðuefni innan samstarfsaðila Evrópusamvinnunnar, á mismunandi þróunarstigum hennar. Þegar þeim mikilvæga áfanga var náð í samræmingarviðleitni Evrópusambandsins, að innleiddur var sameiginlegur gjaldmiðill, var strax bent á að það væri verulegur meinbugur á evrusvæðinu að ekki væri þar sameiginleg efnahagsstjórn. Eru til um þetta undirstöðuatriði miklar bókmenntir. Engum dylst að hér er um mikilvæga ákvörðun að ræða af hálfu kanslara Þýskalands og forseta Frakklands. Nema Pétri Eiríkssyni. „Þeir sem segja að vilji til að auka aga í ríkisfjármálum evruríkjanna feli í sér aukna miðstýringu sambandsins eru annað hvort illa lesnir eða vilja ekki vita betur,“ segir Pétur Eiríksson hagfræðingur.

Hægt er að slá höfðinu við steininn. Það er yfirleitt ekki heilsusamlegt. Og gildir þá einu hvort höfuðið er hagfræðimenntað eða ekki. 

Snyrtilegt afgreitt í netið hjá Tómasi Inga eins og sagt er í fótboltanum.

Skattahækkanir velferðarstjórnarinnar

Í gær skrifaði ég um aumingjaskap ríkisstjórnar norrænnar velferðar sem hreykir sér af því að hafa sýnt aðhald í fjármálum og skorið niður rekstur. Það hefur fjármálaráðherrann til vitnis um eigið ágæti rétt eins öðrum hefði ekki dottið í hug þessi aðferð til að draga úr útgjöldum.

Hins vegar hefur ríkisstjórnin ekki miðað nokkurn skapaðan hlut í tekjuöflun sinni. Hún hefur að vísu haldið sjó, en ekki aukið tekjur ríkissjóðs. Hvers vegna? Jú, einstaklingar og fyrirtæki í landinu eru sköttuð til hins ítrasta. Ekki er nokkurt svigrúm fyrir nein til að auka við veltuna í þjóðfélaginu eða verðmætasköpunar.

Og hverjir eru þá þessir skattar velferðarstjórnarinnar?. Listinn er langur. Hann birtist í Mogganum 11. ágúst og í dag birti fréttavefurinn AMX hann í einföldu formi. Ég lagaði hann aðeins til og svona lítur hann út.

Skattahækkanir:

  • Áfengisgjald á bjór 31,6%

  • Áfengisgjald á léttvín 31,6%

  • Áfengisgjald á sterkt áfengi 27,8%

  • Atvinnutryggingagjald 586%

  • Bensín, flutningsjöfnunargjald 11%

  • Bensíngjald (almennt) 229%

  • Bifreiðar, vörugjald 50%

  • Erfðafjárskattur 100%

  • Fjármagnstekjuskattur 100%

  • Gjald í ábyrgðasjóð launa 250%

  • Olíugjald 19%

  • Skattur af tilteknum fjármagnstekjum 33-100%
  • Tekjuskattur einstaklinga 13.8%

  • Tekjuskattur fyrirtækja 33%

  • Tekjuskattur sameignarfélaga 53%

  • Tóbaksgjald  35%

  • Tryggingagjald 62%

  • Útsvar 11%

  • Virðisaukaskattur 4%
 

Nýjir skattar:  

  • Arður til eigenda fyrirtækja, skattur 50%
  • Auðlegðarskattur 1.5%

  • Bankaskattur 0.08%

  • Bensín, skattur 3,8 kr/ltr

  • Brennsluolía, skattur 5,35 kr/ltr

  • Díselolía, skattur 4,35 kr/ltr

  • Flugvélaeldsneyti, skattur 4,1 kr/ltr

  • Gengisinnlánsreikningar, skattur 20%

  • Gistináttagjald 100 kr/nóttin

  • Hátekjuskattur 8%

  • Heitt vatn, orkuskattur 2%

  • Rafmagn, orkuskattur 0,12 kr

  • Vaxtagreiðslur, skattur 10%


Síðan er nú verið að reyna að upphugsa nýja skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Rætt hefur verið um hækkun á virðisaukaskatti, tillögur hafa komið fram um skatta á útflutningstekjur fyrirtækja, rætt hefur verið um hækkun veiðigjalds og fleira og fleira. 


Rökleysur Péturs J. Eiríkssonar um ESB

Meðan Evrópa brennur eru þeir til sem eiga sér enga ósk innilegri en að fá að komast inn í evrópsku hlýjuna. Einn þeirra er Pétur J. Eiríksson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Icelandair.

Svo taktlaus er hann að vitna í upphafi greinar sinnar í Morgunblaðinu í dag í grein eftir Tómas Inga Olrich, fyrrverandi sendiherrra og ráðherra sem sagði í grein síðasta laugardag að „margvísleg og veigamikil rök fyrir því að Ísland eigi að gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu“. 

Sá sami Tómas Ingi segir hins vegar í grein í Morgunblaðinu í dag:

Innan Evrópusambandsins ríkir stéttaskipting. Þar eru þjóðir settar á bás. Þegar Þjóðverjar hafa hátt, skjálfa hinir. Þegar Pólverjar hafa hátt, segir forseti Frakklands þeim að hafa lágt. Þegar Frakkar kjósa rangt, hrynja stjórnarskrárdrög ESB. Þegar Írar kjósa rangt, eru þeir látnir kjósa aftur. 

Rök Péturs eru hin undarlegustu og varla boðleg. Hann heldur til dæmis því fram að íslenskur landbúnaður sé í „kerfi stöðnunar sem lamar hann“ og vill losa hann úr því:

Þeir sjá betra skjól fyrir hann í styrkjakerfi ESB, sem miðar að því að viðhalda byggðum í sveitum, en í framleiðslustyrkjum í anda Sovétríkjanna sem engu hafa skilað nema niðurníðslu í sveitum, einokun og tómum hillum í verslunum. Hvað vilja einangrunarsinnar gera?

Um þetta álit Péturs er fátt að segja. Manni verður einfaldlega orðfall. Er eitthvað skjól í styrkjakerfi ESB. Hvaðan hefur þessi maður upplýsingar sínar? Hversu merkilegur má málstaður Péturs vera að hann telji sig mega fara með rangt mál honum til dýrðar.

Hvar er svo niðurníðsla í sveitum? Hvergi þar sem ég hef komið, og hef þó farið víða um landið í sumar.

Hvar eru tómar hillur i verslunum? Fyrir alla muni, dæmin vantar. Þær einu tómu sem ég hef séð eru þær sem verið er að þrífa.

Pétur heldur því fram að matarverð þurfi ekki að vera hærra á Íslandi en annars staðar og það kann að vera rétt en kostnaður við innflutning er þó umtalsverður og ætti Icelandair-maðurinn Pétur J. Eiríksson að vita það. Flugfélagið hefur aldrei boðið ókeypis flutning og mun aldrei gera það frekar en aðrir flutningsaðilar.

Eiginlega er ekki hægt að elta ólar við rökleysuna í málflutningi Péturs. Hver í ósköpunum leggur til dæmis trúnað á eftirfarandi orð hans:

Þeir sem segja að vilji til að auka aga í ríkisfjármálum evruríkjanna feli í sér aukna miðstýringu sambandsins eru annaðhvort illa lesnir eða vilja ekki vita betur. 

Atburðir í Suður Evrópur eru ekki beinlínis rök fyrir málflutningi Péturs. Né heldur það að kanslari Þýskalands og forseti Frakklands tóku í gær ákvörðun um einfalda miðstýringu ESB í efnahagsmálum sem einfaldlega þýðir að aðildarþjóðir afsala sér þessum grunnþætti í sjálfstæði sínu. Fyrir þá sem ekki vita þýðir samvinna einfaldlega miðstýring á tungumáli Evrópusambandsins. Og í Morgunblaðinu í morgun var einmitt þessi frétt:

Angela Merkel kanslari Þýskalands og Nicholas Sarkozy forseti Frakklands hvöttu til nánari samvinnu evruríkjanna í efnahags- og ríkisfjármálum á blaðamannfundi sem haldinn var að loknum fundi þeirra í dag. Merkel hvatti til að mynduð yrði e.k. efnahagsstjórn evrusvæðisins. 

 „Við stefnum að nánari efnahagslegum samruna evrusvæðisins,“ sagði Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands.  

Möndulveldin Þýskaland og Frakkland hafa komið sér saman um stefnu, aðrar þjóðir hafa um það að velja að samþykkja hana eða samþykkja hana ekki. Verði það síðara uppi á tengingnum stendur þeim til boða að endurskoða ákvörðun sína þangað til þær eru orðnar sammála Þjóðverjum og Frökkum.

 

Viðbót:

Mér hefur verið bent á að Pétur J. Eiríksson hafi farið rangt með tilvitnun í nefnda grein Tómasar Inga Olrich. Pétur segir í sinni grein:

Eins og vinur minn, Tómas Ingi Olrich, bendir á í ágætri grein hér í Morgunblaðinu sl. laugardag eru margvísleg og veigamikil rök fyrir því að Ísland eigi að gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu. Hann nefnir þar og hefur eftir aðildarsinnum mikilvægi þess að skipa okkur í sveit með öðrum Evrópuþjóðum, hafa tækifæri til að móta framtíð Evrópu og eiga í nánu sambandi við þær þjóðir sem búa við mest og best lýðræði, mannréttindi, velferð, öryggi og hagsæld.

Tómas Ingi segir hins vegar í grein sinni og getur hver sem er séð að síst af öllu er hann að mæra aðild að Evrópusambandinu:

“Aðild snýst fyrst og fremst um hvort við viljum skipa okkur í sveit með öðrum Evrópuþjóðum og leggja okkar af mörkum til að skapa okkur öllum hagsæld og farsæld ... með aðild að ESB fáum við stórkostlegt tækifæri til að taka þátt í að móta framtíð Evrópu og um leið heimsins alls,” segir lögfræðingur og stuðningsmaður “Já Ísland”. 

Það er stórt nafn Hákot. Undirritaður er ekki trúaður á að án aðildar að ESB missi þjóðin af stórkostlegu tækifæri til að móta framtíð Evrópu og heimsins alls. Ef Íslendingar eiga að hafa jákvæð áhrif á aðrar þjóðir, verður það einungis gert með því að þeir taki til heima hjá sér, áður en þeir fara að laga til hjá öðrum. Þeir eiga nokkuð langt í land með þá tiltekt. 

Það er ekki heiðarlegt af Pétri að láta sem svo að Tómas Ingi styði aðild að ESB, að er að minnsta kosti ekki vinargreiði ...


Greiðum niður skuldir ríkisins

Það er staðreynd að ríkissjóður var nær skuldlaus haustið 2008 er efnahagsáföll dundu yfir heiminn með þeim afleiðingum að bankakerfið hér á landi hrundi. Fólk getur rétt ímyndað sér hvernig hversu erfitt hefði verið að takast á við hrunið til viðbótar við umtalsverðar skuldir.

Ólöf Nordal ritar mjög skorinorða grein í Morgunblaðið í dag, miðvikudag og er fyrirsögnin „Greiðum niður skuldir ríkisins“. Hún hvetur til þess „að allar tekjur sem koma til vegna sölu ríkiseigna verði nýttar til að greiða upp skuldir ríkisins og lækka þannig þennan mikla vaxtakostnað“.

Hún segir ennfremur:

Áætlaðar vaxtagreiðslur ríkissjóðs á þessu ári eru um 75 milljarðar króna, samanborið við tæplega 95 milljarða króna árið 2010. Samkvæmt þessu verður vaxtakostnaður ríkisins í árslok um 200 milljarðar króna frá bankahruninu 2008. Til að setja hlutina í samhengi eru þetta rúmlega tuttuguföld framlög til Háskóla Íslands á ársgrundvelli og um áttatíufalt framlag til Landhelgisgæslunnar svo dæmi sé tekið.

Undir þessa skoðun Ólafar hljóta allir að taka. Það er auðvitað hrikaleg byrði að sitja uppi með 75 milljarða króna vaxagreiðslu, takmarkar verulega getur stjórnvalda til að haga rekstri ríkisins á þann hátt sem skynsamlegur er. Um þetta segir Ólöf í lok greinar sinnar:

Það er mjög mikilvægt að ná fram hallalausum rekstri ríkissjóðs og enn mikilvægara er að þær tekjur sem koma til vegna sölu ríkiseigna hverfi ekki í þá botnlausu hít sem núverandi rekstur ríkissjóðs er. Við getum ekki lagt þær byrðar á komandi kynslóðir að láta þær sitja uppi með skuldir okkar, því er mikilvægt að vinna markvisst að því að lækka þær hratt.

Nei, líklega taka ekki allir undir með Ólöfu. Ráðherrar velferðarstjórnarinnar munu án efa vinna henni allt til foráttu: Hún er til dæmis sjálfstæðismaður, hún er stjórnarandstæðingur og engin ástæða er til að selja eignir ríkissjóðs ...


Afspyrnuslæm fjármaálstjórn velferðarstjórnar

Tafla

Þrátt fyrir stórhækkaða skatta vinstri velferðarstjórnarinnar hafa tekjur ríkissjóðs ekki hækkað, þvert á móti hafa þær lækkað. Fjármálaráðherra reynir síðan að fela þessa staðreynd með því að gorta af útgjaldalækkun, rétt eins og hún hafi orðið til vegna pólitískrar stefnumörkunar norrænu velferðarstjórnarinnar.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG og fjármálaráðherra, ritar grein í Fréttablaðið í dag og skorar þar eiginlega Þorstein Pálsson á hólm. Heldur því fram að ótvíræður árangur hafi náðst í ríkisfjármálum, þvert á það sem Þorsteinn heldur fram.

Þegar skattar hækka, meira en helmingur heimila í landinu eiga í fjárhagserfiðleikum, atvinnuleysi hefur sjaldan verið meira, landflótti er staðreynd, fyrirtækin í landinu eiga í erfiðleikum og vermætasköpun situr á hakanum þá er ekki boðlegt fyrir ríkisstjórn sem kennir sig við velferð að gorta af útgjaldalækkun.

Hvers vegna hafa útgjöld ríkissjóðs lækkað?

Steingrímur heldur því fram að halli ársins 2008 hafi verið vegna taps Seðlabankans á hrunárinu 2008. Það varð til vegna björgunaraðgerða bankans í efnahagshruni. Sú staðreynd að það kom í hlut Steingríms að bókfæra tapið segir ekkert um dugnað og hæfileika hans eða ríkisstjórnarinnar.

Á árinu 2009 var hallinn 140 milljarðar krónar sem að sögn Steingrím hefði getað orðið meiri ef ekki hefði komið til aðalds- og niðurskurðaraðgerðir. Eru það hæfileikar eða forsjálni að skera niður ríkisútgjöld við svona aðstæður? Það hefðu allir fjármálaráðherrar þurft að gera, skiptir engu úr hvaða flokki þeir hefðu komið. Niðurskurður var eina ráðið. Samt var tapið 140 milljarðar. Hvers vegna? Stóð Steingrímur sig ekki í stykkinu? Gat hann ekki gert neitt á þessu ári en það sem sjálfsagt þykir?

Umfangsmiklar aðgerðir á árinu 2010 ...“ segir Steingrímur. Engu að síður var hallinn á rekstri ríkissjóðs þetta ár um 123 milljarðar króna. Hvað klikkaði eiginlega hjá Steingrími? Eða var stærsti hluti hallans útgjöld sem hann sjálfur stofnaði til með því að leggja fjármuni ríkisins í einhver fyrirtæki sem hann vildi rétta við? Hann einkavæddi jú bankana en fékk ekkert fyrir ... Hvað með Sjóvá, Sparisjóð Keflavíkur ...? Hefðu kannski útgjöldin getað verið lægri?

Í ár áætlar fjármálaráðherrann að tap ársins verði 37 milljarðar. Og ráðherran gumar af því að líkast til verði tekjur hærri en gjöld á árinu ... Hann getur auðvitað spekúlerað um það eins og við hin.

Hvers vegna aukast ekki tekjur? 

Aðalatriðið eru ekki útgjöldin þó svo að þau séu vissulega mikilvæg. Það sem mestu máli skiptir er að sjálfsögðu tekjuöflun ríkissjóðs. Þrátt fyrir stórhækkaða skatta og gjöld sem velferðarstjórnin hefur staðið fyrir hafa tekjur ríkissjóðs lítið breyst. Eiginlega hafa þær lækkað. Hvað klikkaði þá? Jú, Steingrímur er einn af þessum gamaldags pólitíkusum vinstra liðsins sem hefur ekki skilning á hvetjandi áhrifum ríkisvaldsins.

Velferðarstjórnin skilur ekki að koma þarf atvinnulífinu í gang svo verðmæti skapist. Hún skilur ekki að á annan tug þúsunda landsmanna sem hefur ekki vinnu skapar ekki verðmæti. Hún skilur ekki að þeir Íslendingar sem flýja atvinnuleysið til útlanda skapa ekki veltu hér á landi.

Á meðfylgjandi töflu má sjá hvernig tekjur og gjöld ríkissjóðs hafa þróast. Þarna sést svart á hvítu að eiginlega hefur ekkert breyst nema tíminn. Ekkert hefur verið gert til að koma atvinnulífinu í gang.

Hvernig hefði nú ríkisreikningurinn fyrir síðustu ár litið út hefði velferðarstjórnin fengið því ráðið að Icesave skuldbindingin hefði verið lögð á landsmenn? Hafi fjármálaráðherrann einhvern tímann talið að ríkisstjóður gæti ráðið við Icesave klafann, þann fyrri eða seinni, þá hlýtur hann að hafa í pokahorninu einhverja fjármuni. Kannski væri hægt að efla samgöngur útfrá höfuðborgarsvæðinu, undirbúa aðstöðu fyrir erlend fyrirtæki sem hugsanlega vilja fjárfesta hér á landi, ráðast í virkjanir ... Nei, ég held að Steingrímur sé jafnblankur og ríkissjóður. Hann var bara orðinn þreyttur á þessu „þrasi“ um Icesave og taldi sér og mörgum öðrum trú um að klafinn væri eitthvað annað.

... eða ef til vill væri hægt að losa þjóðina við þessa ómögulegu ríkisstjórn sem ekkert gerir en segist vera á fullu. Ugglaust er afskaplega gaman að vera í ráðherra en þegar ekkert gerist kárnar gamanið fyrir þjóðina.

Ég er fyrir löngu orðinn þreyttur á þesssari ríkisstjórn. Í raun og veru hefur hún ekkert gert, þykist hafa stuðlað að sparnaði og staðið fyrir niðurskurði en þess í stað hefur nú valdið tug milljarða útgjöldum sem hún heldur að við, almenningur, séum búin að gleyma. Og fjármálaráðherrann hefur eiginlega ekkert gert annað en það sem allir fjármálaráðherrar hefðu gert við þessar kringumstæður, skorið niður ríkisútgjöld. Hins vegar hefur hann eða velferðarstjórnin aldrrei nokkurn tímann hvatt þjóðina til dáða. Í þau fáu skipti sem ríkisstjórnin hefur ætlað að stappa stálinu í landsmenn hafa efndirnar verið svik á borð við skjaldborgina.


Skopmyndir sem listaverk og ádeila

Helgi, ESB

Skopmyndir í dagblöðum hafa víða mikla sérstöðu. Þær eru stæling á raunveruleikanum, listamaðurinn sýnir lífið og dægurmálin í öðru ljósi en venjulega tíðkast. Hann gerir grín að fólki og málefnum og oft fylgir kaldhæðni eða beitt gagnrýni.

Helgi Sigurðsson, auglýsingateiknari, teiknar annan hvern dag fyrir Morgunblaðið og hefur gert það í um eitt ár. Myndirnar hans eru oftast einstök listaverk enda lítur hann á umhverfi sitt af með augum alþýðumannsins sem er fylgist grannt með en undrast umræðuna og hversu einhæf og röklaus hún oft á tíðum er.

Ég hef verið þeirrar ánægju aðjótandi að hafa átt viðskipti við Helga í um fimmtán ár. Samskipti okkar byrjuðu með því að ég annaðist bókhald og skattskil fyrir hann. Síðar hef ég leitað til hans sem fagmanns. Hann hefur hannað bækur og bæklinga fyrir mig og þá aðila sem ég hef unnið fyrir, gert auglýsingar í dagblöð, tímarit og vefsíður, kynningarblöð af ýmsu tagi og fleira og fleira. Á því sviði er hann afskaplega vandaður og mikill fagmaður og sanngjarn í verðlagningu.

Eurosucker

Stundum spjöllum við um stjórnmál. Helgi er hvergi flokksbundinn en það væri rangt að segja að hann væri ópólitískur. Hann hefur skoðanir og lætur þær í ljós.

Eftir að Helgi byrjaði að teikna fyrir Morgunblaðið áttaði ég mig fyrst á hversu hvass hann getur orðið. Hann hefur þau grunngildi sem margir hafa misst sjónar á í hrærigraut dægurmála.

Ekki veit ég hvaða skoðun Helgi hefur á inngöngu í ESB. Honum líst greinilega ekkert á aðstæður í Evrópu. Í því ljósi hefur hann líklega teiknað myndina sem birtist í Morgunblaðinu í morgun, þriðjudag.

Fyrir nokkru var mikið rætt um kröfu stjórnvalda sem vildu skilyrðislaust fá allan afgangsgjaldeyri í bankanna. Þá teiknaði Helgi neðri myndina. 

Það er nokkuð síðan ég áttaði mig á því að myndirnar hans Helga endurspegla ekkert endilega skoðanir hans á mönnum eða málefnum. Hann litast einfaldlega um sviðið og leggur þar til atlögu þar sem hann sér lag til þess. 

Helgi sigurðsson er prýðilegur arftaki Sigmunds sem teiknaði skopmyndir í áratugi í Morgunblaðið og er enn sárt saknað.


Mörður Árnason í slæmum málum

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur áhyggjur út af fylgishruni flokks síns og ríkisstjórnarinnar. Hann hefur enda slæman málstað að verja í báðum tilfellum.

Sem upplýstur maður ætti að vita að síðasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins lýsti sig andsnúinn viðræðum við Evrópusamandsins og ályktaði að draga beri umsóknina til baka.

Þegar illa árar er alltaf hægt að breyta um vígstöðu, snúa umræðunni upp á andstæðinganna. Með þessu er reynt að villa um fyrir kjósendum svo þeir átti sig ekki á vonlausri stöðu ríkisstjórnar, Samfylkingar og VG.

Mörður veit að allir landsfundarfulltrúar eru í kjöri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Enginn er beinlínis í framboði. Pétur Blöndal bauð sig til dæmis fram til varaformans daginn fyrir kjördag á síðasta landsfundi.

Vandamál Sjálfstæðisflokksins eru ekki næsti landsfundur. Vandamál flokksins er hin sömu og þjóðarinnar; atvinnumál, efnahagsmál, skattamál, rekstur ríkisins og margt margt fleira sem Samfylkingin og VG hafa klúðrað á síðustu tveimur árum. Vonandi á hvorugur þessara flokka aðild að næstu ríkisstjórn og að öllum líkindum verður Mörður ekki þingmaður eftir næstu kosningar.


mbl.is Sakar Bjarna um að kaupa sér formannsstól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband