Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Björn Valur Gíslason og ímyndarvandi VG

Pressan.is er skrýtinn fjölmiðill. Átta mig ekki alltaf á stefnu hans. Nú í dag birtist til dæmis örstutt „fréttaskýring“ á stöðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Ástæðan er víst sú að Bjarni hefur líst því yfir að hann vilji láta draga aðildarumsóknina að Evrópusambandinu til baka.

Og fyrir einhverja duttlunga ritstjórnarinnar er enginn annar en Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, kvaddur til að skýra stöðu Bjarna. Hann gerir það af lítilli þekkingu. 

Bjarni er eins og lauf í vindi í þessum flokki. Hann hefur líklegast opnað vefmiðlana og séð einhverja könnun og munað um leið eftir landsfundi. 

Í sjálfu sér er ekkert við þessum viðbrögðum Björns að segja. Þessi „einhver könnun“ sem hann nefnir er hvorki meira né minna en yfirgnæfandi andstaða þjðarinnar gegn ESB. Staðreyndin er líka sú, meðal annars vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins, að meirihluti þjóðarinnar vill ekki inn í ESB. Þetta veit Björn Valur og á í gríðarlegum vandræðum með stöðuna. Hann er  einn af þeim Vinstri grænu sem þvert á stefnu síns flokks vill halda til streitu aðildarumsókninni og á móti er meirihluti flokksmanna.

Staða Bjarna innan flokksins er mjög veik og hann hefur átt við ímyndarvanda að stríða. En mér finnst þetta kjánaleg pólitík, 

Eigi einhverjir við ímyndarvanda að stríða þá eru það Vinstri grænir og norræna velferðastjórnin þeirra. Væri ekki ráð að Björn Valur íhugaði ímyndarvanda síns eigin flokks í stað þess að ímynda sér vandamál annarra?


Tapa réttinum að finna að öðrum

Margir blaðamenn á Morgunblaðinu eru vel skrifandi og láta frá sér fara góðar og málefnalegar greinar. Pétur Blöndal er einn þeirra. Hann skrifaði góðan pistil í Morgunblaðið í morgun. Ræðir þar um gagnrýni og rökræður og rökvillur á íslenska mátann. Hann segir:

Það er áhyggjuefni hversu oft forystumenn ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, svara gagnrýni með upphrópunum og gífuryrðum, einkum þegar málstaðurinn er vondur. Á meðan vinstri flokkarnir vilja draga aðra til ábyrgðar, axla þeir enga ábyrgð sjálfir – og tíðka í ofanálag þann leik að liggja á upplýsingum og hamla með því upplýstri umræðu í þjóðfélaginu. Kannski er ekki að furða að orðræðan í þjóðfélaginu sé svona bjöguð þegar þetta er dæmið sem við höfum fyrir okkur.

Dýrmæt lexía í heimspeki á sínum tíma var að greina rökvillur. Ein algeng og alvarleg rökvilla eru persónurök, þá er grafið undan málstað andstæðingsins með því að ráðast á persónuna sjálfa. Það þekkja allir dæmi slíks úr samtímanum. Skylt því er að upphefja eigið ágæti, eins og málstaðurinn verði réttari fyrir vikið. Það er til dæmis ekki nægjanlegt að hafa doktorsgráðu til að höndla sannleikann, öfugt við það sem margir háskólamenn halda – sannleikurinn finnst ekkert síður á flæmska hattinum eða í búningsklefa Magna frá Grenivík.

„Post hoc“-rökvillan er einkar áhugaverð, en hún felst í því að álykta, að þar sem eitt hafi gerst á eftir öðru, þá hljóti hið fyrra að hafa orsakað það síðara. Eftir hrunið hefur ástundun þessarar rökleysu nánast orðið þjóðaríþrótt.

 En þrátt fyrir allt er gagnrýnin umræða mikilvæg. Með það í huga er athyglisverð deilan sem varð meðal Fjölnismanna um það hvernig taka ætti gagnrýni. Eftir að Tómas Sæmundsson var farinn heim til Íslands, hafði fengið brauð á Breiðabólstað, þá hafði hann ekki þau áhrif á ritstjórnarstefnu Fjölnis sem hann hefði kosið. En hann sendi vinum sínum í Höfn tóninn í bréfum og einna markverðust er gagnrýnin í bréfi frá 1. ágúst árið 1836:

»En eitt er eftir, sem við höfum ekki komið okkur saman um, og það er: Hversu á að taka þeim sem gerast til að skrifa á móti okkur? Ég er óvenju liberal í því efni, því mér sýnist við tapa réttinum að finna að öðrum (sem ég þarf þó svo mikið á að halda) nema við séum góðir til að taka annarra mótsögnum.«

Þetta síðasta sem Pétur hefur eftir Tómasi Sæmundssyni finnst mér aldeilis vel að orði komist og rökhugsunin tæmandi.

Auðvitað er það svo að sá sem ekki getur tekið gagnrýni sem sett eru fram með rökum er fyrirfram búinn að dæma sig úr leik ætli hann sér að gagnrýna aðra. Þetta er án efa ástæðan fyrir því að Pétur nefnir forsprakka ríkisstjórnarinnar í upphafi tilvitnunarinnar. 

Þó ekki væri annað mætti kannski hér nefna nafn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Hversu margir hafa ekki ráðist á þann mann með offorsi og hversu fáir andstæðinga hans hafa rætt málefnalega stjórnmálaskoðun mannsins?

Önnur hlið á þessum tengingi er sú að dæma alla stjórnmálaumræðu einstaklings vegna skoðunar hans á einstökum málum. Þetta er gryfja sem margir hafa fallið í, ekki síst sjálfstæðismenn.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins er stuðningsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Ég er ósammála honum. Hins vegar finnst mér Þorsteinn oft skrifa reglulega vel og rökfast um ýmis mál og því hef ég hann í hávegum og tek mark á því sem hann segir. Mættu fleiri taka á málum eins og Þorsteinn. Á móti kemur að oft er ráðist á Þorstein og málflutningur hans gagnrýndur í ljósi ESB mála þó svo að hann tali um allt annað.


Með frábærum KR-ingum á bikarúrslitaleik

DSC_0134

Mikið óskalega skemmti ég mér vel á Laugardalsvellinum í gær. Þar áttust við KR og Þór frá Akureyri í nokkuð góðum útslitaleik í bikarkeppni KSÍ. Og í fögnuði mínum gerist ég kannski helst til persónulegur í þessum pistli mínum.

Jú, veðrið var frábært og öll umgjörð leiksins var til fyrirmyndar, raunar miklu skemmtilegri en leikurinn sjálfur. Mikið stuð strax og inn á leikvanginn var komið. Stuðningsmenn beggja liða voru í banastuði og hreint ótrúlega gaman að fylgjast með þróttmiklum hvatningarsöngvum Þórsara og ekki síður KR-inga.

Þarna var alveg stórkostlegt að vera og ekki spillti félagsskapurinn fyrir. Ég og frændur mínir Tyrfingur Kárason og Kári Steinn Benediktsson sammæltum okkur á völlinn. En svo bættust við fleira frábært fólk. Fyrst ber að telja þrjú afabörnin mín, Íris (fjögurra ára), Rakel (tvegga ára( og Unnur (fimm mánaða) og þær eru allar Grétarsdætur. Fengu að fara á völlinn og fylgjast með pabba sínum spila með KR. Eftirtektin var nú svosem ekkert til fyrirmyndar. Vissu líklega fæst af því sem fram fór en engu að síður voru allar í KR-treyjum og mjög stoltar af því.

En þarna voru fleiri góðir KR-ingar. Fyrsta skal auðvitað telja tengdadóttir mína hana Sonju Arnarsdóttur og foreldrar hennar og ömmu. Bróðir Sonju er Viktor Bjarki, leikmaður KR. Álfrún Pálsdóttir, kona hans, var auðvitað á leiknum sem og Halla, þriggja ára, dóttir hennar. Halla sat í fangi mínu hluta leiksins enda kallar hún mig yfirleitt afa rétt eins og frænkur hennar gera.

Mér þótti líka ákaflega vænt um að sjá gamlan kunningja á vellinum og sá kastaði hvatningarkveðju til okkar. Þetta var KR-ingurinn Geir Hilmar Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Geir lítur bara betur út en ég bjóst við miðað við þá ofboðslegu árás sem skipulögð var að honum af meirihluta vinstri manna á Alþingi. Þessi málarekstur hlýtur að taka óskaplega mikið á hann og fjölskyldu hans. Þau eiga stuðning minn óskiptann enda Geir mikill sómamaður.

Og Þórsararnir töpuðu. Fullyrða má að það hafi verið naumt tap, þeir skoruðu eitt og KR-ingar annað, en því miður fyrir Þór voru þau bæði í mark norðanmanna.

Við stuðningsmenn KR fögnuðum bikarnum. Ég segi „við“ en verð endilega að taka það fram að ég ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík. Og hvað með það, jú, þar var Valur upphaf og endir tilverunnar fyrir fríska stráka og innst inni er maður rauður ... Og ekki endar ruglið þar hjá mér. Ég er orðinn svo mikill landsbyggðarmaður að ég hefði vel getað unnt Þór sigri. Hef áður sagt það og endurtek hér að góður árangur liða utan höfuðborgarsvæðisins í íþróttum hefur mikið að segja fyrir landsbyggðina. Lífið er ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Fólk ætti bara að prófa að flytjast út á land. Þvílík paradís að búa þar víða, t.d. fyrir barnafólk.

Meðfylgjandi mynd er af KR-fjölskyldunni ásamt Vilhelm Bjarka Viðarsyni, fóstursyni Grétars, og Kára Steini Benediktssyni, frænda okkar (fyrir miðri mynd). Sagan af honum er alveg stórkostleg. Hann er sonur systurdóttur minnar, Úllu Káradóttur, og Benedikts Bogasonar. Benni er mikill Frammari og börnin þeirra fjögur hafa eðlilega ekki farið varhluta af skipulagðri innrætingu lögmannsins í fótboltafélagsmálum. Nema hvað, Kári Steinn, stóð varla út úr hnefa, rétt farinn að tala, þegar hann lýsti því yfir að hann væri KR-ingur eins og Grétar frændi, og þannig hefur það verið síðan. Frammari er hann sko ekki.


Hvenær er nauðungaruppboð löglegt?

Ríkisstjórninni hefur mistekist flest sem máli skiptir. Ég hef skrifað gegn henni frá upphafi, hef ekki nokkra trú á að vinstri stjórn getið stjórnað á landinu, almenningi til hagsbóta. Það hefur komið á daginn. En ég er pólitískur en nú er svo komið að jafnvel hinir ópólitísku eru reiðir út í ríkisstjórnina og stuðningsmenn hennar fela sig.

Ein sú óvægnasta og harðasta gagnrýni sem ríkisstjórnin kom í gær frá Marínó G. Njálssyni, sem var í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna. Fyrir alla muni fylgist með því sem þessi ágæti maður skrifar.

Á afskaplega málefnalegan hátt hefur hann gagnrýnt ríkisstjórnina. Ég leyfi mér hér að taka upp síðasta blogg Marínós (http://marinogn.blog.is) og birta hérna. Ég er fyllilega sammála honum. Þarna fær hin illræmda ríkisstjórn Íslands verðskuldaðan rasskell:

Mér þykir leitt, en ég verð að segja það:

Við sögðum að þetta myndi gerast.

Flumbrugangur stjórnvalda hefur gert það að verkum, að þúsundir heimila munu missa eignir sínar á nauðungarsölu og einstaklingarnir sjálfir fara í gjaldþrot.  Vissulega eru tilfelli þar sem þetta hefði verið niðurstaða, hvað sem hefði verið gert, en að þúsundir á þúsundir ofan skuli vera að horfa á eftir eignum sínum á nauðungarsölur, þar sem stjórnvöld hafa neitað að leiðrétta stökkbreytingu lána heimilanna (og fyrirtækja) sem orsökuðust af svikum, lögbrotum, prettum og fjárglæfrum fjármálafyrirtækja í undanfara hrunsins. 

Í reynd er það stærsti glæpurinn sem hefur verið framinn, að líta á illa fengna hækkun lána sem réttmæta eign lánadrottna.  Meira að segja í Bandaríkjunum, þar sem fjármagnið stjórnar öllu, hafa menn áttað sig á, að það er óréttlátt að heimilin beri þungann af fjárglæfrum fjármálafyrirtækjanna.  En hér á landi, þá skjálfa Steingrímur J og Árni Páll eins og hríslur í vindi yfir mögulegum, já, mögulegum, málaferlum kröfuhafa.

Kröfuhafa sem eru margir hverjir ekki upprunalegir eigendur krafna á hrunbankana, heldur keyptu þær á skít á priki af tryggingafélaginu, sem greiddi upprunalegum eigendum út kröfu sína fyrir langa löngu.

Þetta er sami Steingrímur sem hefur í gegn um tíðina lamið á hverri ríkisstjórninni á fætur annarri fyrir linkind og rolugang.  Hafa minnst 6 formenn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks fengið að heyra reiðilestur Steingríms, en nú kemur í ljós að hver er sér næstur.  Mesta rolan af öllu reynist Steingrímur sjálfur.  Honum finnst hið besta mál að fórna almenningi í landinu svo ótilgreindir kröfuhafar banki nú ekki hugsanlega upp á hjá honum og stefni honum mögulega fyrir dóm. 

Svo er ekki úr vegi að geta eins manns sem leggur orð í belg á athugasemdasíðunum hjá Marínó. Þar spyr Guðmundur Ásgeirsson (Guðmundur bloggar á http://bofs.blog.is):

Hvenær er nauðungaruppboð löglegt? Ég þori að veðja að engin þessara 175 hafa verið það! 


Hversu feitur var Landspítalinn fyrir niðurskurð?

Ríkisrekstur fær yfirleitt á góðærisárum að þenjast út án afláts. Lengi var öllum kröfum um sparnað í heilbrigðis- og félagsmálum mætt með andstyggilegum yfirlýsingum um að gagrýnendur væru á móti sjúklingum og vildu koma á ómannúðlegu kerfi.

Og nú kemur í ljós að á undanförnum árum hafa rekstrarútgjöld Landspítalans verið skorin niður um tæpan fjórðung og forstjóri spítalans er bara nokkuð ánægður með árangurinn ef marka má fréttina í mbl.is:

Þetta er 23%, ég endurtek, 23% niðurskurður!!" segir Björn. Starfsmönnum spítalans hafi fækkað um 11,5%, úr 5.218 í janúarlok 2009 í 4.621 í maílok sl. "Þetta allt höfum við gert án þess að sjáanlegur munur sé á þjónustu við sjúklinga eða að biðlistar hafi lengst," segir Björn.

Það fyrst sem flestir hljóta að velta fyrir sér er hversu mikil „fita“ hefur verið á rekstri spítalans, hversu reksturinn hafi, áður en farið var í niðurskurðinn, verið óhagkvæmur. Nú er sem sagt hægt að reka Landspítalann fyrir miklu lægri fjárhæð en áður var gert og með færra fólki. Og það sem meira er, enginn heldur því fram að stjórnendur séu andfélagslega sinnaðir eða hafi ómannúðleg viðhorf.

Af þessu má draga þá einföldu ályktun að kostnaður við opinberan rekstur hafi tilhneigingu til að vaxa meira en þörf er á. Reksturinn vex og tútnar út, enginn ber ábyrgð, enginn hefur heildaryfirsýn.

Á undanförnum árum hefur Björn Zoëga og fleiri stjórnað Landspítalanum af mikilli ábyrgð, tekist á við smákóngaveldið og með hægðinni haft sigur. Þetta eru því ánægjulegar fréttir og þeim mun meiri ástæða til að taka mark á viðvörunarorðum Björns sem seigr að Landsspítalinn þoli ekki meiri niðurskurð.

Ríkisvaldið gerir enn kröfu til spítalans og nú á að draga saman seglin um 1,5%. Það virðist ekki mikið en hvernig væri nú að umbuna Landspítalanum fyrir að hafa minnkað rekstrarkostnaðinn um heil 23%?


mbl.is Nóg komið af niðurskurði á LSH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við breytum ekki tilfinningum þjóða, virðum þær

Það er rétt hjá Jóni Bjarnasyni að hvalveiðar eru tilfinningamál víða um hinn vestræna heim. Þar af leiðandi er engin ástæða fyrir Íslendinga að reyna að bjóða þjóðum heims birginn.

Við erum ekki í þeirri stöðu að geta breytt almenningsáliti þjóða í Evrópu og Ameríku. Ekki heldur eigum við að taka að okkur það verkefni að ala upp aðrar þjóðir og kenna þeim að hvalveiðar geti verið sjálfbærar. Verkefnið er einfaldlega okkur ofviða. Við getum aldrei breytt viðhorfum fólks.

Þar af leiðandi þurfum við að meta það hvort það sé þess virði að stunda yfirleitt hvalveiðar, jafnvel fyrir innanlandsmarkað. 

Ég hef mestar áhyggjur af því að tilfinningar beri aðrar þjóðir ofurliði og við fáum á okkur refsiaðgerðir. annað eins hefur nú gerst í samskiptum þjóða. Við höfum ekki efni á því að lenda í vandræðum með útflutning okkar og ferðaþjónustu fyrir ekki merkilegri atvinnuveg en hvalveiðar. Við megum ekki fórna miklum hagsmunum vegna þeirra sem eru sáralitlir.


mbl.is Hvalveiðar tilfinningamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur lögreglan valið sér lög til þess að framfylgja?

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, ritar góða grein í Morgunblaðið í morgun. Hann ber saman aðgerðir lögreglunnar á Ísafirði og í Reykjavík þegar um stórviðburði er að ræða.

Fjölsóttir viðburðir í Reykjavík valda því að fólk freistast til að leggja bílum sínum þar sem þægilegast er. Í flestum tilvikum eru á almenn bílastæði orðin full og fátt annað til ráða. Nefna má til dæmis fótboltaleiki á KR vellinum, handbolta- eða fótboltaleiki í Laugardal og viðburði í miðbæ Reykjavíkur. Þá hagar lögreglan í Reykjavík sér eins og sjómenn í mokfiskeríi. Allir fá stórsektir og fjöldinn allur er óánægður og lögreglan gengur í gegnum erfiða tíma í eilífðar PR málum sínum.

Þetta gerist ekki á Ísafirði eins og Kristinn segir um fótboltaleik Kí/Bolungarvík og KR:

Bílum var lagt hvar sem hægt var án þess að það veldi truflun á umferð eða spjöllum á umhverfi, í vegarkanti eða á grasflötum. Það hefði verið hægur vandi fyrir lögregluna á Ísafirði að sekta bílaeigendur tugum saman ef hún nálgaðist löggæsluna eins og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. En það var ekki gert enda engin ástæða til. Það var aldrei til vandi sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af. Borgararnir leystu vandann sem var vegna skorts á bílastæðum á þann hátt að engin ástæða var fyrir afskipti lögreglunnar. Skynsemin ræður á Ísafirði. 

Kristinn nefnir einnig til sögunnar fjölsóttar hátíðir á Dalvík og að Hrafnagili. Lögreglan á þessum stöðum lét framtak ökumanna algjörlega afskiptalaust.

Löggæsla snýst einmitt um þetta, að láta skynsemina ráða. Sömu lög gilda á Ísafirði, í Eyjafirði og í Reykjavík en framkvæmdin er ólík. Fyrir gesti í Reykjavík er það dýrt spaug. Framundan er menning- arnótt og Reykjavíkurlögreglan gerði betur í því að viðhafa starfsaðferðir lögreglunnar í Eyjafirði og vinna með gestunum.

Undir þessi orð Kristins er óhætt að taka. Ekki dugar fyrir lögregluna að halda því fram að fólk eigi að bara að taka strætó eða koma gangandi. Aðalatriðið er að lögreglan á ekki að efna til einhvers ófriðar við almenning. Vissulega er um að ræða lögbrot þegar bílum er lagt hist og her. En það er regla í allri óreiðunni. Hver og einn gerir sitt besta og umferðin gengur snuðrulaust fyrir sig bæði fyrir of eftir. En líklega er það ekki aðalatriðið heldur hvernig lögreglan kýs að velja sér lögbrot til að vinna í og Kristinn hnýtir í þetta:

Það þarf frekari skýringa við í ljósi framkvæmdarinnar á sömu lögum annars staðar á landinu. En lögreglan sjálf grefur undan þessum rökum sínum með aðgerðarleysi gagnvart öðru lagabanni. Þannig er að skýrt bann er í lögum við því að tala í síma undir stýri án þess að vera með handfrjálsan búnað. Það blasa við fjölmörg dæmi þess að umrædd lög eru brotin. Líklega skipta þau lögbrot hundruðum á hverjum degi. Þau eru sýnu alvarlegri en stöðubrot þar sem um öryggi, líf og heilsu fólks, er að ræða. En lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er aðgerðarlaus og setur kíkinn fyrir blinda augað. Hvað veldur? Getur lögreglan valið sér lög til þess að framfylgja? 

 


Þorvaldur Gylfason stillir Alþingi upp við vegg

Mikið óskaplega var þetta sjálfhverf og órökrétt umræða sem fer tíðum fram í útvarpsþættinum „Landið sem rís“ á Rás 1 undir stjórn Jóns Orms Halldórssonar og Ævars Kjartanssonar. Í dag ræddu þeir við Þorvald Gylfason, fyrrverandi stjórnlagráðslim. Í þættinum fékk Þorvaldur að vaða fram og aftur án nokkurra athugasemda frá stjórnendums sem átu umhugsunarlaust upp allt sem maðurinn sagði.

„Stjórnlagaráð er hluti af þjóðinni“, sagði Þorvaldur. Og með tilstuðlan stjórnenda fékk hann að halda því fram að stjórnmálaflokkarnir væru ekki hluti af þjóðinni. 

Þessi ummæli Þorvaldar og margra annarra stjórnlagaráðslima lýsa einstæðum hroka. Ráðið getur ekki litið á drög þeirra að stjórnarskrá sem endanlega. Ég sætti mig einfaldlega ekki við að fá ekki að leggja orð í belg, þurfa að samþykkja þessi drög í heildina eða ekki.

Ég er meðlimur í stjórnmálaflokki en hef sjálfstæða hugsun eins og svo sem allir. En ég sætti mig ekki við að einhver stjórnarskrár-besservisser segi mér að ég megi aðeins hafa skoðun á drögunum í heild sinni en ekki einstökum liðum. Ennfremur trúi ég því ekki að Alþingi ætli að láta stilla sér upp við vegg með þeim orðum Þorvaldar að annað hvort samþykki þingi tillögurnar í heild sinni eða búi til sitt eigið frumvarp og beri svo bæði undir þjóðina.

Undalógík Þorvaldar er með endemum. Maðurinn lítur svo stórt á sig að það mætti halda að drögin að stjórnarskránni hafi verið samþykkt af guði almáttugum og megi því alls ekki hrófla neitt við þeim. 

Það er svo annað mál hvernig þessi þáttur „Landið sem rís“ er. Í síðustu viku fékk Jón Baldvin Hannibalsson að fimbulfamba um allt og ekkert án þess að stjórnendur hefðu vott af gagnrýninni hugsun heldur létu þeir eins og Jón Baldvin væri með áskrift að stórasannleik. Nú fékk Þorvaldur að leika sama leik. Ég býst við því að næst fái ég að útvarpa mínum stórasannleik í þessum undarlega útvarpsþætti.


Hvað liggur að baki óeirðanna?

Hreint ótrúlegt er að fylgjast með uppþotunum í Englandi. Tvennt er það sem vekur athygli. Hið fyrra er hversu fjöldi óeirðaseggja er mikill og hins vegar hversu ráðþrota lögreglan og stjórnvöld eru vegna ástandsins.

Þetta er þó ekki það sem mestu máli skiptir heldur frekar það sem að baki liggur eða ætti ég öllu heldur að segja það sem vantar.

England og raunar Bretland allt telst til afar þróaðra ríkja og heimamenn hæla sér af góðu menntakerfi rétt eins og gert er víðs vegar um Vestur-Evrópu. Það virðist þó ekki breyta innræti hluta þjóðarinnar því fjöldinn allur efnir til uppþota og virðist tilgangurinn sá einn að ræna og rupla eins og hægt er. Þetta virðist einfalega vera spennandi vettvangur fyrir frísk og vel haldin ungmenni. Svona rétt eins og íþróttakeppni er fyrir aðra.

Á myndböndum má sjá litla hópa ráðast á verslanir og brjóta sér leið inn. Tökum samt eftir því að ekki er ráðist inn í hvaða verslun sem er. Nei, lýðurinn velur sér raftækjaverslanir. Þar hverfa vinsælustu raftækin úr gluggum og hillum; sjónvörp, símar, iPod-ar, iPad-ar og álíka tæki. Og út hleypur fólkið og stekkur hæð sína með fenginn og hverfur út í buskan í gráu hettupeysunum sínum.

Margir hafa haldið því fram að uppþotin séu mótmæli gegn fátækt og atvinnuleysi. Það er alrangt enda virðist öllu skipta að ræna og valda sem tjóni. Fram hefur komið að lýðurinn er oft vopnaður mólatov-kokteilum og grjótið nýtur sígildra vinsælda. Eldar eru kveiktir og engu virðist skipta þótt íbúðir séu á hæðunum fyrir ofan verslanirnar. Gríðarlegur fjöldi fólks er í þar í felum, dauðhrætt og sumir hafa tekið til þess ráðs að flýja að heiman. En lögreglan er ráðalaus. Og hvaða ráð duga gegn þeim sem ganga á þennan hátt gegn gildum samfélagsins sem allir hafa samþykkt.

Þessi staðreynd sem veldur mér heilabrotum: Hvernig er það þjóðfélag sem elur af sért þvílíkt ofbeldi og virðingarleysi fyrir lífi og limum samborgara sinna og eignum annarra? Hvaðan kemur innrætinging? 

Þetta minnir mann á svokallaða búsáhaldabyltingu hér á landi fyrir tveimur árum. Þúsundir Íslendinga komu þá saman til friðsamlegra mótmæla en ... fjöldinn allur lét friðinn ekki nægja. Lítill minnihluti réðst á Alþingishúsið, grýtti lögreglumenn og skemmdi eða eyðilagði eignir. Þetta voru engin barnabrek, þarna voru ekki á ferð unglingar heldur fullorðið fólk.

Ég aftur: Hvers konar þjóðfélag er það sem elur af sér ofbeldi og virðingarleysi fyrir lífi og limum samborgara sinna og eignum annarra? Ef til vill er hægt að orða þessa spurningu á annan veg: Hvernig er hægt að lifað með því að hafa vísvitandi valdið öðrum líkamstjóni eða valdið eignaspjöllum?

Munum samt að 99% fólks er yfirleitt gott og vill láta gott af sér leiða. Flestir eiga sér ekkert annað meginmarkmið en að sjá fyrir sér og sínum, elska ættingja og vini og njóta þess sem lífið býður upp á. Þetta má sjá út um allan heim. Nákvæmlega þetta vekur von í brjósti um framtíð mannkynsins. Vandamálið eru óeirðaseggirnir og þeir hylgja ekki allir andlit sín eða fela nafn.


Spilltur stjórnmálamaður

Þeir eru óteljandi sem hafa farið mikinn vegna meintrar spillingar stjórnmálamanna, stjórnkerfis og fyrirtækja hér á landi. Einn þeirra sem hæst hefur heyrst í er Þráinn Bertilsson, þingmaður VG og áður Hreyfingarinnar og þar áður Borgarahreyfingarinnar.

Margt gott hefur komið frá Þráni en einnig hefur hann verið bölvaður strigakjaftur og verið óvæginn við þá sem eru á móti honum í stjórnmálum. 

Sagt er að ríkisstjórnin hangi á eins manns meirihluta eftir flótta nokkurra sósíalista úr VG. Ennfremur er því haldið fram að Þráin Bertilsson sé veki hlekkurinn.

Hann hyggst ekki styðja fjárlög ríkisstjórnarinnar verði ekki tryggð framlög til Kvikmyndaskóla Íslands. Þetta kallar Páll Vilhjálmsson, bloggari, pólitíska fjárkúgun. Hann hefur rétt fyrir sér. Það er hreint ótækt að þurfa að styðjast við mann sem er svona eins málefnis þingmaður. 

Með ákvörðun sinni kemst Þráin Bertilsson kemst næst því að vera spilltur stjórnmálamaður. Stjórnmálaflokkar þurfa að taka á svona málum og útrýma pólitískri fjárkúgun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband